05.08.1959
Sameinað þing: 6. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

2. mál, byggingarsjóður ríkisins

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Á síðasta Alþingi fluttum við nokkrir þm. Framsfl. till. til þál. um ráðstöfun á tekjuafgangi ríkissjóðs og var þá m.a. gert ráð fyrir því, að hann gengi til Byggingarsjóðs ríkisins. Það, sem fundið var að þeirri till., var það, að hún væri allt of raunhæf. Ef hún næði fram að ganga, væri hægt að framkvæma hana strax. Við bentum þar á fé, sem var fyrir hendi, en þá var talið, að hér væri um allt of raunhæfa aðgerð að ræða, svo að það væri ómögulegt að samþykkja þá till. Nú er því hins vegar haldið fram af hv. þm. V-Ísf., að till., sem nú er flutt af hálfu framsóknarmanna, sé óraunhæf. Það henti ekki að fara að samþykkja svo óraunhæfa till., hún komi ekki að neinu gagni, þó að samþykkt sé. Ég verð nú að segja það, að mig skortir skilning til þess að skilja, hvar meðalvegurinn er þarna á milli, þegar annars vegar er um að ræða till., sem er of raunhæf, af því að það er hægt að framkvæma hana strax og gera hana að veruleika, en hins vegar er svo till., sem er ekki nógu raunhæf. Ég held, að þá sjálfstæðismenn skorti einhvern skilning þarna líka.

Ég minnist þess, að á haustþinginu 1956 fluttu nokkrir þm. Sjálfstfl., — og var hv. 4. þm. Reykv. (JóhH), sem var að fara hér úr ræðustólnum, 1. flm. að þeirri till., tillögu til þál, um aðstoð vegna íbúðalána. Það var till. um að taka 100 millj. kr. erlent lán í þessu skyni. Nú leyfi ég mér að spyrja: Af hverju er sú till., sem er hugsuð eftir meðalveginum, hæfilega raunhæf, ekki framkvæmd, þegar þeir ráða málum, eins og nú er? Á fylgiskjali, sem prentað var með þeirri till., var birt till., sem fulltrúar Sjálfstfl. í húsnæðismálastjórn höfðu þá flutt. Ég hygg, að þar hafi hv. núv. þm. V-Ísf. verið 2. flm. Þar gerðu þeir ráð fyrir, að 150 millj. kr. af sparifé landsmanna yrði ráðstafað til byggingarsjóðsins. Þeir gerðu ráð fyrir 100 millj. kr. erlendri lántöku í sama skyni. Og þeir lögðu áherzlu á það, að lánunum yrði úthlutað strax. Þessi till. hefur sennilega verið raunhæf að þeirra dómi. Ég hygg þó, að hún sé ekki raunhæfari en sú till., sem hér er á ferðinni nú.

Hv. 4. þm. Reykv. kom að því nú eins og hann gerði í vetur í ræðu, sem hann flutti í sambandi við till. okkar framsóknarmanna þá, að saga okkar framsóknarmanna í byggingarmálunum væri nú ekki svo góð, að það væri ástæða til þess að vera að rifja hana upp og hann var alveg hissa á því, að hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) skyldi nú gera það. En er nokkur ástæða til þess fyrir okkur framsóknarmenn að vera að leyna því, að við stóðum að því að setja lögin um byggingar- og landnámssjóð, þá löggjöf, sem hefur verið undirstaða undir öllum byggingum í sveitum landsins? Ég sé ekki ástæðu til þess, að við þurfum, framsóknarmenn, að biðja afsökunar á því eða vera að leyna því á nokkurn hátt. Ég sé ekki heldur ástæðu til þess, að við framsóknarmenn þurfum að vera að leyna því, þó að við höfum staðið að því með Alþfl. að setja lögin um verkamannabústaðina og ég sé ekki heldur ástæðu til þess, að við séum að leyna því, að það kom fjörkippur í þá lánastarfsemi, einmitt þegar vinstri stjórnin fór með völd. Það hafði verið alger ládeyða í starfsemi sjóðsins, þangað til sú stjórn kom að völdum 1956. En hvað gerðist svo, þegar Sjálfstfl. og Alþfl. fóru að stjórna nú eftir áramótin? Þá var dregið úr framlögunum til verkamannabústaða og heilsuspillandi íbúða, því að framlög ríkisins voru lækkuð þar um 5%. Ég sé ekki ástæðu til þess, að við framsóknarmenn séum að liggja á þessu. Hvi má ekki segja frá þessu? Er það óþægilegt fyrir okkur? Nei. Ég sé ekki heldur ástæðu til, að við séum að liggja á því, að við stóðum að því að setja lögin um byggingarsamvinnufélög. Þessi lög hafa haft einhverja mestu þýðingu í byggingarmálum kaupstaða og kauptúna. Hví má ekki skýra frá þessu eins og hverjum öðrum málum, sem eru staðreynd, að við stóðum að þessari löggjöf? En hvað gerðist svo? Það gerðist ekkert í húsnæðismálunum frá því um 1940 og þangað til lögin um smáíbúðir voru sett 1952. Það er ekki nein löggjöf um sérstaka lánastarfsemi eða neina aðstoð við byggingar í kauptúnum eða kaupstöðum á þessu tímabili. Mér er ekki kunnugt það og ef mér sést þar yfir, þá vona ég, að það verði leiðrétt og skal ég þá taka það til greina. En 1952 eru sett lögin um smáíbúðir og ég veit ekki annað en framsóknarmaðurinn Steingrímur Steinþórsson, þáverandi félmrh., hefði forustuna um það og þau lög, sem síðar hafa verið sett, bæði um húsnæðismálastofnun og húsnæðismálastjórn, hafa verið sett, þegar Framsfl. hefur verið í stjórn landsins og haft með þessi mál að gera að meira eða minna leyti.

Og hvaða ástæða er til þess, að það megi ekki frá þessu skýra? Það á auðvitað að skýra frá þessu og það er alveg þýðingarlaust að halda því fram, að Framsfl. hafi staðið í vegi fyrir eðlilegri uppbyggingu á íbúðarhúsum í kauptúnum og kaupstöðum. Nei. Það er síður en svo. Hann hefur jafnan komið þar við sögu, þegar um framkvæmdir hefur verið að ræða og það er ekki af því, að þeir hv. þm. V-Ísf. (ÞK) eða hv. 4 þm. Reykv. (JóhH) séu hræddir um það, að till., sem hv. 7. þm. Reykv. flytur, sé ekki nógu raunhæf, að þeir tala á móti henni. Það er heldur vegna þess, að þeir vita, að það hefur ekkert verið gert í húsnæðismálastjórninni í húsnæðismálunum, síðan vinstri stjórnin fór frá völdum. Og það er það, sem þeir eru hræddir við, að það verði vegna þessarar till. farið að gera eitthvað og það er það, sem þarf að koma í veg fyrir, að framsóknarmenn komi þar við sögu. En þeir verða að sætta sig við það, þó að framsóknarmenn komi þar við sögu og hafi þar forustu sem fyrr.