31.07.1959
Neðri deild: 8. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í blaði forsrh. hefur verið komizt svo að orði um það mál, sem hér liggur fyrir, að þar væri gert ráð fyrir stærstu breyt. á stjórnskipan ríkisins, síðan Alþ. hefði verið endurreist. Ég hygg, að þessi dómur sé alveg réttur. En af þessu hefði mátt ætla, að þetta mál fengi alveg sérstakan undirbúning af hálfu Alþ. og þeirra flokka, sem hafa forgöngu um það. Þegar um slíkt stórmál er að ræða sem þetta, þá hefði mátt vænta þess, að þjóðin væri látin hafa nægilegan tíma og ráðrúm til þess að gera sér grein fyrir því, hvað hér væri verið að gera og að hún fengi að segja sitt álit um það, áður en það væri endanlega afgreitt. Til þess að fullnægja eðlilegum starfsvenjum í þessum efnum hefði þurft að fullnægja þremur reglum alveg sérstaklega. Í fyrsta lagi þurfti að gefa þjóðinni nægan tíma til umhugsunar um málið, í öðru lagi að leggja málið rétt og hlutlaust fyrir hana í þeim kosningum, sem um það áttu að fjalla samkv. stjórnskipunarlögunum og í þriðja lagi átti ekki að afgreiða málið, fyrr en vilji þjóðarinnar um það lægi greinilega fyrir.

Ég hygg, að ef þetta mál er hlutlaust athugað, þá verði því ekki neitað, að allar þessar reglur hafa verið þverbrotnar. Þjóðin hefur ekki fengið nægan tíma til þess að íhuga þetta mál. Þegar fyrst var byrjað að ræða um málið hér á s.l. vetri, lögðu framsóknarmenn áherzlu á, að málið yrði ekki endanlega afgr. fyrr en á þingi 1960, svo að þjóðin fengi þess vegna nægan tíma til þess að gera sér grein fyrir málinu. Undir þetta hygg ég að hafi verið tekið af einum flokki þingsins, Alþb. En Sjálfstfl. mátti ekki heyra það nefnt, að þessi málsmeðferð yrði viðhöfð. Hann lagði á það megináherzlu, að málinu yrði hraðað sem mest, flaustrað sem mest af í þeim tilgangi, að þjóðin fengi ekki ráðrúm til þess að gera sér nægilega grein fyrir því, hvað hér væri í raun réttri verið að framkvæma. Og að hans ráðum var horfið, vegna þess að Alþfl. fannst rétt, eins og yfirleitt nú í seinni tíð, að fylgja því, sem Sjálfstfl. vill. Þess vegna fer því fjarri, að þjóðin hafi fengið nægan tíma til þess að íhuga þetta mál. Því fer einnig fjarri, að í þeim kosningum, sem áttu að fjalla um málið, hafi það verið lagt rétt og hlutlaust fyrir hana. Því hefur verið mjög rækilega lýst í þeim umr., sem hafa farið fram hér undanfarna daga í d., að í kosningabaráttunni sameinuðust þrír flokkar um það að hvetja menn til þess að kjósa yfirleitt um öll önnur mál fremur en kjördæmamálið og þarf ég ekki að rifja það upp hér. Það er þess vegna ljóst, að í þeim kosningum, sem fram fóru 28. júní, hefur farið fjarri því, að þjóðarviljinn í þessu máli kæmi nægilega skýrt fram eða málið væri lagt þannig fyrir þjóðina, að hún gæti dæmt hlutlaust og rétt um það. Af þessum ástæðum bar skylda til þess að leita greinilega eftir þjóðarviljanum í sérstakri atkvgr., eins og framsóknarmenn hafa lagt áherzlu á. En stjórnarliðið má ekki heyra, að þessi aðferð sé viðhöfð í málinu. Það hefur fellt þá till., sem hefur verið lögð fram um þetta og ætlar sér að afgreiða málið, án þess að það liggi nægilega ljóst fyrir, hvað þjóðin vill að gert sé í þessum efnum.

Það stutta yfirlit, sem ég hef hér rifjað upp, sýnir að í sambandi við þetta stóra mál og meðferð þess hafa þær reglur verið gerbrotnar, sem fylgja á, til þess að mál sem þetta fái nægilega athugun og þjóðarviljinn fái að njóta sín. Og ástæðan til þess, að þannig hefur verið á málinu haldið af hálfu Sjálfstfl. og þeirra flokka, sem fylgja honum, er alveg ljós. Hún er sú, að þeir gera sér ljóst, að þetta er ekki gott mál. Þetta er þannig mál, að það er ekki gott fyrir þessa flokka, að þjóðin hafi nægilegt ráðrúm til að athuga það, að þjóðarviljinn fái að koma greinilega í ljós. Þess vegna verður að hraða því af, þess vegna verður að leggja það þannig fyrir, að í þeim kosningum, sem um það fjalla, sé yfirleitt dæmt um allt önnur atriði, en þetta mál. Það hefur líka sýnt sig hér í þessari d., að þríflokkarnir viðurkenna, að þeir hafa hér ekki gott mál að verja. Þeir hafa gefizt upp við að halda uppi vörnum fyrir málið, fulltrúar þeirra hafa yfirleitt haldið sig utan dyra, þegar um það hefur verið rætt og ekki svarað þeim röksemdum, sem fram hafa komið, jafnvel þó að hnekkt hafi verið þeim fullyrðingum, sem þeir hafa sjálfir haft í frammi.

Þeir halda það kannske, fulltrúar þríflokkanna, að með þessum hætti séu þeir að sýna andstæðingum málsins einhverja sérstaka óvirðingu. En því fer fjarri. Með þessu háttalagi sínu eru þeir að viðurkenna það, að þeir hafi vont mál að verja, og þeir eru að óvirða Alþingi og óvirða stjórnarskrána með því að treysta sér ekki til þess að taka þátt í umr. um þetta mál og halda sig utan dyra, þegar um það er rætt.

Ég skal svo ekki ræða öllu meira um meðferð málsins, enda hefur það verið rækilega gert áður. En mér finnst rétt, nú þegar að því kemur að afgreiða málið hér í þessari hv. d., að rifja það upp, hver sá megintilgangur er, sem vakir fyrir forgöngumönnum þessa máls, forkólfum Sjálfstfl., með því að hrinda því fram, hver er þeirra megintilgangur með kjördæmabyltingunni.

Ég held, að ef gert er yfirlit um það í stuttu máli, þá séu það þrjú atriði, sem þeir hafi einkum haft í huga. í fyrsta lagi er það tilgangur þeirra að veikja vald og áhrif strjálbýlisins. Í öðru lagi er það tilgangur þeirra að koma á því kosningafyrirkomulagi, sem viðheldur sem mest þeirri sundrungu, sem verið hefur á milli vinstri afla landsins og reyna frekar að auka hana, en hið gagnstæða. Og í þriðja lagi er svo tilgangur þeirra að knýja fram nýja stjórnarstefnu. Mér finnst rétt að víkja í nokkrum orðum að þessum höfuðatriðum, sem fyrir Sjálfstfl. hafa vakað með stjórnarskrárbreytingunni.

Hvers vegna er það, sem forkólfar Sjálfstfl. leggja slíkt ofurkapp á að veikja vald strjálbýlisins, eins og komið hefur fram í þeirra baráttu fyrir þessu máli? Ástæðan er ofur einföld. Sjálfstfl. hefur tekizt sæmilega að vinna sér fylgi í þéttbýlinu, vegna þess að þeir flokkar, sem þar hafa aðallega verið til andsvara, Alþfl. og Alþb., hafa verið veikir fyrir og hann hefur reynzt ofjarl þeirra í þeirri pólitísku viðureign, sem þar hefur farið fram. Úti um hinar dreifðu byggðir landsins hefur gengi Sjálfstfl. ekki verið á sama veg. Það er vegna þess, að Sjálfstfl. hefur þar hitt fyrir flokk, sem hefur reynzt honum ofjarl. Hann hefur beðið lægri hlut fyrir Framsfl. í þeirri viðureign, sem þar hefur farið fram á milli þeirra flokka og Sjálfstfl. treystir sér ekki lengur til að halda uppi þeirri málefnalegu viðureign við Framsfl. í dreifbýlinu á sama grundvelli og verið hefur til þessa. Í stað þess að heyja þá baráttu áfram á þeim grundvelli, fer hann þá leið að reyna að veikja vald og aðstöðu dreifbýlisins og reyna á þann hátt að koma því til vegar, að hann nái auknum völdum og jafnvel meirihlutavaldi í þjóðfélaginu. Það er af þeim ástæðum, hve Sjálfstfl. hefur illa gengið að afla sér fylgis með sínum málstað utan þéttbýlisstaðanna, sem hann ræðst nú í þá stjórnarskrárbreyt. að veikja vald hinna dreifðu byggða stórlega frá því, sem áður hefur verið. Þetta er sú ástæða, sem veldur því, að Sjálfstfl. vill stuðla að því með stjórnarskrárbreyt. að veikja vald hinna dreifðu byggða, en óneitanlega mun þessi stjórnarskrárbreyt. hafa þær afleiðingar, eins og lýst hefur verið hér mjög greinilega á Alþingi áður. Annar megintilgangur Sjálfstfl. með þessari stjórnarskrárbreyt. er svo sá að viðhalda og auka þá sundrungu, sem verið hefur milli vinstri afla landsins, vegna þess að honum er það ljóst, að ekkert er líklegra til þess að viðhalda henni, heldur en auka hlutfallskosningafyrirkomulagið. Og það er ákaflega skiljanlegt, að Sjálfstfl. vilji stuðla að því, að sundrung vinstri manna og frjálslyndra manna í landinu sé sem mest, því að á engu öðru hefur Sjálfstfl. grætt meira en því, hvað vinstri menn landsins hafa verið sundraðir. Ljósasta dæmið um það er að finna hér í Reykjavík. Ég held, að það sé naumast til sá Reykvíkingur, sem ekki viðurkennir það, að Reykjavíkurbæ sé á flestan hátt illa stjórnað. Þrátt fyrir það hefur niðurstaðan verið sú í kosningum, að Sjálfstfl. hefur fengið meiri hluta. Orsökin til þess er sú, að hin vinstri öfl í bænum hafa verið svo sundurleit og sundruð, að kjósendur hafa ekki trúað þeim til að vinna saman og þess vegna af tvennu illu talið skárra að láta Sjálfstfl. fara með stjórn bæjarins þrátt fyrir þá hörmulegu stjórn, sem á honum hefur verið.

Sjálfstfl. hefur á þennan og margan annan hátt grætt á sundrungu vinstri aflanna í landinu og það, sem hann trúir nú frekar á en annað til þess að bæta sína valdaaðstöðu og jafnvel til að ná meirihlutaaðstöðu, er að viðhalda og jafnvel auka sundrungu vinstri aflanna og því takmarki telur hann sig geta náð með þeirri breyt., sem hér er verið að gera, þar sem eru hinar auknu hlutfallskosningar. Og frá þessu sjónarmiði er ekkert óeðlilegt, þó að Sjálfstfl. beiti sér fyrir þeirri breyt., sem hér er verið að gera.

Það, sem vakir svo fyrir Sjálfstfl. í þriðja lagi með þessari stjórnarskrárbreyt., er að koma fram nýrri stjórnarstefnu. Í hinni bláu bók, sem Sjálfstfl. gaf út fyrir seinustu kosningar, er talað um það, að með kjördæmabreytingunni skuli lokið því 30 ára tímabili, sem fyrst og fremst hafi einkennzt af stefnu Framsfl. Þessu tímabili, sem hefur verið langsamlega mesta framfara- og umbótatímabil í sögu þjóðarinnar, skal nú lokið að áliti Sjálfstfl. með stjórnarskrárbreyt. Það skal renna upp nýtt tímabil, tímabil, sem er einkennt af stjórnarstefnu Sjálfstfl. Og hvernig á sú stefna að vera? Ég held, að það sé einna auðveldast að gera sér grein fyrir henni með því að rifja upp þrjú slagorð, sem forkólfar Sjálfstfl. nota einkum, þegar þeir eru að gera grein fyrir því, sem þeir vilja láta gera í þjóðfélaginu. Og þessi þrjú slagorð eru: minni fjárfesting, frjáls verðlagsmyndun og afnám hafta.

Við skulum nú rifja það upp í stuttu máli, hvað það er, sem þessi slagorð flokksins raunverulega þýða. Hvað þýðir það, þegar Sjálfstfl. er að tala um, að nauðsynlegt sé að draga úr fjárfestingunni og minnka hana? Það þýðir það, að Sjálfstfl. telur, að framfarir og framkvæmdir séu of miklar í landinu. Og það þýðir m.ö.o., að Sjálfstæðisfl. telur, að atvinnan sé of mikil í landinu og kaupgeta almennings í landinu sé of mikil, með því að takmarka fjárfestinguna, með því að draga úr framkvæmdum og framförum sé hægt að minnka atvinnuna, þá sé hægt að draga saman fjárfestinguna og þá sé komið á það æskilega ástand í efnahagsmálum, sem hann stefnir að. En hvers vegna vill Sjálfstfl. ná þessu takmarki? Ástæðan er sú, að þegar atvinnan minnkar í landinu og jafnvel skapast nokkurt atvinnuleysi, þá telur hann, að stóratvinnurekendavaldið í landinu hafi sterkari aðstöðu til þess að halda kaupgjaldinu niðri og til þess að halda verkalýðssamtökunum í skefjum. Hann telur, að með þeim hætti verði verkamenn á margan veg háðari atvinnurekendum, en ella og þess vegna sé nauðsynlegt að stefna að þessari þróun til að stuðla að því, að atvinnurekendavaldið styrkist og eflist í landinu. Það, sem vakir þess vegna fyrst og fremst fyrir Sjálfstfl., þegar hann er að tala um að draga úr fjárfestingunni og framförunum, að minnka atvinnuna í landinu og minnka kaupgetuna, það er að koma málunum fyrir á þann veg, að atvinnurekendur í landinu, eða atvinnurekendavaldið hafi sterkari aðstöðu, en það hefur nú.

Það er þá það fyrsta, sem stefnt er að hjá Sjálfstfl., að styrkja stóratvinnurekendavaldið í landinu með því að draga úr atvinnunni og draga úr kaupgetunni og gera verkalýðinn og verkalýðssamtökin sér háðari á þann hátt.

En hvað er þá það, sem vakir fyrir Sjálfstfl., þegar hann er að tala um frjálsa verðlagsmyndun? Jú, það vakir í fyrsta lagi fyrir flokknum, að það eigi að afnema allt verðlagseftirlit eða a.m.k. að framkvæma það þannig, að það verði sama og gagnslaust. Í öðru lagi vakir það fyrir honum að draga stórkostlega úr áhrifum kaupfélagsskaparins í landinu. Og þegar þetta tvennt er komið fram, að það er búið að afnema verðlagseftirlitið eða gera það óstarfhæft og búið að skerða stórkostlega aðstöðu kaupfélaganna í landinu, þá er komið langt það ástand, sem Sjálfstfl, stefnir að, að kaupmennirnir haf einir áhrif á, hvernig verðlagið og álagningin er. Sjálfstæðismenn halda því fram, að þegar þannig sé komið, þá muni verða samkeppni milli kaupmanna um að bjóða niður verðið og þannig muni skapast hagstæð álagning fyrir neytendur í landinu. En því fer fjarri, að þetta mundi vera á þennan veg. Það mundi fara á þann veg, að samtök kaupmanna, kaupmannafélögin, kæmu sér saman um, hver álagningin og hvert verðlagið skyldi vera. Það eru m.ö.o. hringar kaupmannanna, sem mundu ráða verðlaginu í landinu. Hin frjálsa verðlagsmyndun, sem Sjálfstfl. er að tala um, er frjálsræði kaupmannastéttarinnar til að ráða því einhliða í gegnum sín samtök, hvaða álagning og hvaða verðlag skuli vera í landinu og þá hefur maður fyrir sér, hvert þetta annað kjörorð Sjálfstfl. muni leiða, frjáls verðlagsmyndun. Það mundi leiða til þess, að kaupmannastéttin fengi alræði í verðlagsmálum í landinu.

Og þá er komið að þriðja stefnuskráratriðinu, sem Sjálfstfl. hampar svo mjög og það er afnám haftanna. Þegar hann talar um afnám haftanna, þá virðist hann fyrst og fremst eiga við, að það eigi að leggja niður innflutningsskrifstofuna, fjárfestingareftirlitið, sem hún hefur með höndum, útflutningsnefndina o.s.frv. Og þegar búið er að leggja niður þessar stofnanir, þá á almenningur að líta svo á, að nú sé búið að afnema höftin í landinu. En því fer fjarri, að þetta sé meiningin, því að það á víst að leggja þessar stofnanir niður, en höftin eiga ekki að hverfa, þau eiga að færast yfir til bankanna, og bankarnir eiga að framkvæma þau verkefni, sem þessar stofnanir hafa áður haft með höndum. Og halda menn nú virkilega, að það mundi verða til þess, að höftin minnkuðu, þó að þau verði færð úr höndum þessara stofnana og yfir til bankanna? Halda menn, að bankahöftin mundu verða nokkuð betri, en þau höft, sem nú er búið við? Íslenzka þjóðin hefur nokkra reynslu af því, hvernig er að búa við alrátt bankavald. Við þurfum ekki að fara nema 30–40 ár aftur í tímann til þess að gera okkur grein fyrir því, hvernig einhliða bankavaldi var þá beitt. Það voru þá ekki nema útvaldir gæðingar þeirra, sem með völdin fóru og þeirra, sem stjórnuðu bönkunum, sem höfðu aðgang að lánsfé bankanna. Við munum eftir sumum þessara nafna, eins og Sæmundi í Stykkishólmi, Stefáni Th. á Seyðisfirði o.s.frv. Og það, sem fyrir Sjálfstfl. vakir, þegar hann talar um að auka bankahöftin og bankaeinokunina, er að skapa aðstöðu til þess, að það sé hægt að hlynna enn þá betur að ýmsum gæðingum hans og stórgróðastéttinni í landinu heldur en nú á sér stað. Þjóðin mundi ekki með afnámi þeirra stofnana, sem ég minntist á og með því að færa þetta vald í hendur bankanna, búa við minni höft eða minni einokun, en nú á sér stað, heldur miklu verri en þá, sem nú er búið við, því að reynsla annarra þjóða sýnir það og reynsla okkur hefur sýnt það einnig, að engin höft geta verið jafnhættuleg og bankahöftin og engin einokun getur verið jafnhættuleg og bankaeinokun. En Sjálfstfl. talar líka um, jafnframt því að vald áðurnefndra stofnana sé fært inn í bankana, að gera breytingu á bankaskipulaginu, breyt., sem vitanlega á að vera fólgin í því að styrkja aðstöðu hans sem mest til þess að geta beitt höftum bankanna í þjónustu sinna gæðinga.

Hér er þá búið að draga upp nokkra mynd af því, hvað það er, sem vakir fyrir Sjálfstfl., þegar hann er að tala um að taka upp nýja stjórnarstefnu, sem eigi að leysa af hólmi þá umbótastefnu, sem hefur verið fylgt í landinu undanfarin 30 ár undir forustu Framsfl. Það er þá í fyrsta lagi að vinna að því að auka atvinnurekendavaldið í landinu. Það á í öðru lagi að vinna að því að gera kaupmannastéttina alráða í verðlagsmálum. Og það á í þriðja lagi að vinna að því að auka stórkostlega bankahöft og bankaeinokun í landinu, til þess að Sjálfstfl. geti notað þá aðstöðu til þess að hlynna enn betur að sínum gæðingum, en gert hefur verið til þessa dags.

Ég hygg, að nú muni ýmsir spyrja kannske á þá leið: Hverjir eru það, sem raunverulega standa á bak við Sjálfstfl. og ráða því, að hann tekur upp þessa stefnu, stefnu auðstéttarinnar, flokkur sem þó telur sig vera flokk allra stétta í landinu? Ég hygg, að menn geri sér ekki fullkomlega grein fyrir því öllu, sem hefur verið að gerast í landinu á undanförnum árum. Það hefur verið mikil verðbólga hér seinustu áratugina, og verðbólgan hefur skapað mörg vandamál og margar hættur, sumar af þeim gerir þjóðin sér ljósar, en aðrar kannske ekki nægilega. Eitt einkenni verðbólgunnar er það, að hún gerir hinn fátæka fátækari og hinn ríka ríkari. Þess vegna er það staðreynd, að í skjóli verðbólgunnar á undanförnum árum hefur risið hér upp í landinu voldugri og ríkari stétt auðmanna, heldur en áður hafa verið til dæmi um. Og eins og venja er um allar nýríkar auðmannastéttir, þá er þessi auðmannastétt, sem verðbólgan hefur skapað á Íslandi, bæði drottnunarsöm, eigingjörn og ófyrirleitin. Hennar markmið eða hennar afstaða felst nokkurn veginn í því kjörorði, sem formaður Sjálfstfl., hv. þm. GK., hefur valið henni og er eitthvað á þessa leið: Fyrst einkahagsmunir, svo flokkshagsmunir og seinast þjóðarhagsmunir.

Lítið dæmi um það, hvernig þessi nýja auðmannastétt á Íslandi hagar sér, eru hin einkennilegu afskipti, sem hún hefur haft af landhelgisdeilunni við Breta. Þjóðin á nú í harðri deilu við eitt hið yfirgangssamasta stórveldi, sem nú er til í heiminum og deilan snýst um það, hvort hún eigi að halda sínum rétti til að ákveða jafnstóra fiskveiðilandhelgi umhverfis landið og fjölmörg önnur ríki hafa ákveðið. Af hálfu Breta er farið með ofbeldi gegn Íslendingum vegna þessa og því haldið alveg sérstaklega fram, að Íslendingar fari að með ólögum, og gefið þess vegna til kynna, að Ísland sé ekki réttarríki. Og hvert er það framlag, sem íslenzka auðmannastéttin hefur lagt til þessarar deilu? Hennar framlag er það, að hún hefur kært fyrir mannréttindadómstóli Evrópu og kæran er á þann veg, að bæði Alþingi og hæstiréttur þjóðarinnar gæti ekki nægilega mannréttinda, Ísland sé í raun og veru ekki réttarríki og þess vegna verði hún að leita á erlendan vettvang til þess að rétta sinn hlut. Hvaða tillag er þetta fyrir Íslendinga í landhelgisdeilunni? Nei, það er ekki verið að styrkja okkar málstað með þessari framkomu. Það er fyrst og fremst verið að styrkja málstað andstæðinga okkar, sem halda því fram, að Ísland hafi ekki farið að með réttum lögum í landhelgisdeilunni, Ísland sé ekki réttarríki og þess vegna sé leyfilegt fyrir þá að halda uppi ofbeldi innan fiskveiðilandhelginnar. Og það er ekki lítið kærkomið vopn fyrir Breta að fá það upp í hendurnar frá allstórri stétt á Íslandi, að Ísland sé ekki réttarríki, að það sé ekki að treysta Alþingi til þess að gæta réttar þegnanna, það sé ekki að treysta hæstarétti til þess að gæta réttar þegnanna og þess vegna verði þessi stétt að leita á erlendan vettvang til þess að rétta sinn hlut. En þetta er það tillag, sem hin nýríka stórgróðastétt á Íslandi hefur lagt fram til landhelgisdeilunnar, það er að leggja þetta vopn upp í hendur Bretanna. Og hvers vegna hefur hún lagt þetta vopn upp í hendur þeirra? Það er vegna þess, að Alþingi hefur samþ. löggjöf, sem hæstiréttur telur fullkomlega samræmanlega stjórnarskránni, að þessi stétt borgi lítinn hluta af verðbólgugróða sínum til þess að styrkja þá, sem miður vegnar í þjóðfélaginu, til þess að eignast eigið húsnæði. Vegna þess að þessi stétt verður að skila þarna aftur litlum hluta af verðbólgugróðanum, þá hefur hún farið inn á það svið að kæra til erlendra dómstóla og halda því fram, að Ísland sé ekki réttarríki og veikja þannig stórkostlega aðstöðu okkar í deilunni við Breta.

En þetta er ekki nema lítið dæmi af því, hvernig þessi stétt hagar sér, ef hún hefur aðstöðu til þess og hvernig hún muni haga sér, ef flokkur hennar, Sjálfstfl., fær aukin ítök í þjóðfélaginu. En vitanlegt er það, að það eru þessir menn, sem fyrst og fremst ráða og stjórna Sjálfstfl., það eru þessir menn, sem eiga Morgunblaðið, þessir menn, sem eiga Vísi, þessir menn, sem stjórna skrifum hv. 1. þm. Reykv. og annarra þeirra, sem skrifa í málgögn Sjálfstfl. Og það er ekki úr vegi í sambandi við þetta að vekja athygli á því, hvernig þessi nýja stórgróðastétt reynir að fela sig. Eitt af því, sem hún hefur lagt fyrir ritstjóra Mbl., hv. 1. þm. Reykv. og aðra þá, sem í það blað skrifa, er að halda uppi alveg sérstökum árásum á samvinnuhreyfinguna í landinu og stimpla hana sem hinn ægilegasta auðhring og hið eiginlega eina auðvald, sem þjóðin þurfi nú að óttast. Ég er þess fullviss, að það er ekki að finna í neinum blöðum á Norðurlöndum öðrum, en Vísi og Mbl. svipuð skrif um samvinnuhreyfinguna og þau, sem nú birtast daglega í þessum blöðum. Það er hvergi á Norðurlöndum litið á samvinnufélagsskapinn eins og auðhring og þó eru samvinnufélögin yfirleitt miklu sterkari eða mun sterkari t.d. í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi heldur en hér og þau eiga sína andstæðinga þar alveg eins og hér. En engum dettur þar í hug að halda fram slíkri firru eins og þeirri að kalla samvinnufélagsskapinn auðhring. En hér þurfa hinir nýríku gróðamenn að reyna að fela sig sem mest, draga athyglina frá sér og þess vegna er það, sem hv. 1. þm. Reykv. fær fyrirskipun um að ráðast nú á samvinnufélagsskapinn, stimpla hann sem auðhring og reyna þannig að draga athyglina frá hinni nýju auðstétt í landinu, meðan hún er að reyna að sölsa undir sig völdin með aðstoð Sjálfstfl. og þeirra fylgiflokka, sem kunna að vilja ljá honum styrk til þess. Og það, sem verður áframhaldið í þessum leik, verður í samræmi við kæruna til mannréttindadómstóls Evrópu, ef auðstéttin fær að ráða. Það verður tekin upp sú nýja stjórnarstefna, sem ég var að lýsa hér áðan og er fólgin í því að efla stóratvinnurekendavaldið, að gera kaupmannastéttina einráða í verðlagsmálum og skapa bankahöft og bankavald og bankaeinokun, sem hægt sé að nota miskunnarlaust í þágu auðstéttarinnar og þeirra gæðinga, sem Sjálfstfl. eða flokkur hennar telur nauðsynlegt að hlúa sem mest að.

Og ef svo færi, eins og er tilgangur Sjálfstfl. með þessari stjórnarskrárbreyt., þá er ekki fjarri lagi, að það heppnaðist, sem fyrir honum hefur vakað, að veikja vald dreifbýlisins, að auka sundrungu vinstri flokkanna og koma fram þessari nýju stjórnarstefnu. En í sambandi við það er þó hins vegar ekki úr vegi að gera sér nokkra grein fyrir því, hvort ekki séu einhverjir möguleikar fyrir hendi til þess að koma í veg fyrir þá þróun, sem Sjálfstfl. væntir að muni leiða af þessari stjórnarskrárbreyt. Eru ekki þrátt fyrir þá breyt., sem nú hefur verið gerð, möguleikar fyrir dreifbýlið til að treysta sinn rétt? Er ekki þrátt fyrir þá stjórnarskrárbreytingu, sem nú hefur verið gerð, aðstaða fyrir vinstri menn í landinu til þess að auka ekki sundrunguna í sínum röðum? Og er ekki aðstaða til þess þrátt fyrir þessa breyt. að koma í veg fyrir þá stjórnarstefnu, sem Sjálfstfl. vonast til að spretti upp úr henni? Jú, vissulega eru þessir möguleikar fyrir hendi, þrátt fyrir það að réttur dreifbýlisins sé minnkaður og skertur með afnámi kjördæmanna og þeirri breyt., sem hér er verið að gera, að þá verði þó enn, þrátt fyrir það, sem gert er, miklir möguleikar fyrir dreifbýlið til þess að standa á sínum rétti, og það gerir fólkið í dreifbýlinu bezt með því að skipa sér um einn flokk, en skiptast ekki í marga flokka.

Ég held, að það mundi enginn telja það hyggilegt af verkalýðshreyfingunni, sem nú stendur í einu sambandi, Alþýðusambandi Íslands, að skipta sér upp í fjögur verkalýðssamtök, sem hvert tilheyrði einhverjum þeirra stjórnmálaflokka, sem nú eru uppi í landinu. Ég held, að verkamenn mundu komast hiklaust að þeirri niðurstöðu, að þeir mundu veikja sína aðstöðu með því að skipta sér þannig í fjögur samtök í stað þess að standa saman í einu sambandi, eins og þau gera. Og það gildir nákvæmlega sama um fólkið í dreifbýlínu í sambandi við þessi mál. Það tryggir sína aðstöðu bezt og það tryggir sinn rétt bezt, með því að standa saman sem mest í einum flokki, en vera ekki að skiptast upp milli margra flokka. Og ég hef líka þá trú, að það verði afleiðingin af þessari breyt., að fólkið úti um landið skipi sér meira saman í einn flokk, en það hefur áður gert. Það var mikil nauðsyn til þess í seinustu kosningum, að það skipaði sér saman í einn flokk og reyndi þannig að standa gegn þeirri breyt., sem gerð var. En það er enn þá meiri nauðsyn eftir það, sem nú hefur gerzt og eftir að þessi breyt. er komin fram að reyna að tryggja sína aðstöðu og tryggja sinn rétt með því að standa saman í einum flokki og það gildir nákvæmlega hið sama um það fólk í þéttbýlinu, sem hefur tryggð til sinna heimahaga og vill treysta jafnvægi í byggð landsins, að það sé ekki að sundra sínum kröftum, heldur skipi sér ásamt skoðanabræðrum sínum í dreifbýlinu í einn og sama flokk. Ég er líka sannfærður um, að það verður í vaxandi mæli þróunin, sem kemur eftir þessa kjördæmabreyt., að dreifbýlisfólkið þjappar sér meira saman í einn flokk og tryggir áhrif sín á þann hátt og sá flokkur, sem það hlýtur að skipa sér um í þessu sambandi, er Framsfl., vegna þess að hann er eini flokkurinn, sem fram að þessu og mun í framtíðinni vera sá flokkur, er heldur fram rétti þess og vill tryggja því jafnrétti á við aðra íbúa landsins.

Það gildir hið nákvæmlega sama um hinn annan tilgang Sjálfstfl., að láta þessa kjördæmabreyt. leiða til aukinnar sundrungar milli vinstri afla landsins, að þá er eðlilegt að álykta þannig, að auknar hlutfallskosningar verði til þess, að þessi sundrung haldi áfram og aukist jafnvel frá því, sem verið hefur. En það þarf hins vegar ekki að verða þannig. Það, sem þarf að koma, er, að frjálslynt og vinstri sinnað fólk í landinu geri sér fulla grein fyrir því, að það veikir aðeins sína aðstöðu og eflir andstæðingana með því að vera að skipa sér í marga smáflokka í stað þess að standa saman í einum sterkum og öflugum flokki íhaldsandstæðinga og frjálslyndra manna í landinu. Svarið við þeim fyrirætlunum íhaldsins að láta þessa kjördæmabreyt. leiða til þess að auka sundrungu í röðum frjálslyndra og vinstri manna í landinu á að vera það, að vinstri menn skipi sér traustar saman í einn flokk og þau skilyrði eru nú fyrir hendi og seinustu kosningar urðu til þess að gera þessi skilyrði meiri, en þau áður voru.

Í þeim kosningum, sem fram fóru í seinasta mánuði, fékk Framsfl. eins mikið fylgi og hinir tveir vinstri flokkarnir samanlagt. Framsfl. er þannig orðinn langsamlega sterkasti flokkur íhaldsandstæðinga í landinu og það er eðlileg ályktun af þessu, eðlileg afleiðing af þessu, eðlileg þróun af þessu, að vinstri menn haldi áfram að skipa sér saman undir merkjum Framsfl. og tryggi þannig, að upp rísi sterkur og öflugur flokkur íhaldsandstæðinga í landinu. Það er líka eðlilegt af fleiri ástæðum en þessum, að Framsfl. verði sá flokkur, sem frjálslyndir vinstri menn skipi sér saman um til andstöðu gegn íhaldinu og hinni nýju auðstétt í landinu. Framsfl. er og hefur sýnt það, að hann er langsamlega traustasti andstæðingur íhaldsaflanna í landinu. Á sama tíma og Alþfl. og Alþb. hafa beðið hvern ósigurinn öðrum meiri fyrir Sjálfstfl. hérna í Reykjavík og þéttbýlli stöðunum, þá hefur niðurstaðan orðið sú, að hann hefur beðið lægri hlut fyrir Framsfl. úti í dreifbýlinu. Þetta er mönnum í þéttbýlinu sönnun þess, að Framsfl. er líklegastur til þess af íhaldsandstæðingum að taka upp einbeitta forustu gegn því fyrir hönd allra íhaldsandstæðinga í landinu.

Framsfl. sýndi það líka með þátttöku sinni og starfi í vinstri stjórninni, að honum er betur treystandi, en hinum flokkunum til að halda skelegglega uppi merkjum vinstri stefnu. Framsfl. var eini flokkurinn, sem stóð óklofinn og einbeittur um vinstri stjórnina frá fyrstu tíð til seinustu stundar, í stað þess að hinir flokkarnir, sem að henni stóðu, voru meira og minna klofnir og áttu þess vegna þátt sinn í því, að vinstri stjórnin varð að fara frá völdum. Og það ýtir svo undir þá þróun, sem hefur verið að gerast í landinu undanfarin missiri og er að gerast nú á þessu þingi og lýsir sér í því, að hinir vinstri flokkarnir, Alþfl. og Alþb., eru meira og minna að ganga til algerrar sambræðslu og samvinnu við Sjálfstfl. Það er nú þannig komið með Alþfl., að það verður ekki séð, að það sé neinn málefnaágreiningur á milli hans og sjálfstæðismanna og það verður ekki heldur annað séð, en Alþb, sé á sömu leiðinni. Það sést m.a. á framkomu forustumanna þess á þessu þingi. Þetta hlýtur þess vegna að ýta undir þá þróun, að frjálslyndir menn í landinu og vinstri menn í landinu skipi sér í vaxandi mæli undir merki Framsfl. Þessi þróun kom líka mjög skýrt í ljós í seinustu kosningum í þéttbýlinu, þar sem Framsfl. jók fylgi sitt langsamlega mest allra flokka og það byggðist fyrst og fremst á því, að frjálslynt fólk og vinstri sinnað fólk á þessum stöðum treysti Framsfl. betur til forustu á móti íhaldinu og á móti auðstéttinni, heldur en hinum flokkunum. Og ég er alveg viss um það, að þessi þróun mun halda áfram í næstu kosningum.

Það þarf þess vegna ekki að rætast sá tilgangur Sjálfstfl., þarf ekki að verða að veruleika, að sú kjördæmabreyt., sem nú er verið að knýja í gegn, verði til þess að viðhalda sundrungu vinstri aflanna og jafnvel til þess að auka hana. Hún á miklu frekar að geta orðið til þess að gera vinstri mönnum það ljóst, að nú ríður á, að þeir standi saman, að þeir standi fast saman, að þeir skipi sér saman í einn flokk í staðinn fyrir að kljúfa sig í marga flokka og eðlileg afleiðing af þessu er sú, að menn fylki sér um Framsfl. og geri hann að sterkum og öflugum andstæðingi íhaldsins og auðstéttarinnar í landinu. Og sú verður líka þróunin. Það þarf þess vegna ekki að verða niðurstaðan, að sú stjórnarstefna, sem Sjálfstfl. hefur dreymt um að mundi spretta upp úr þessari kjördæmabreyt. og hann annaðhvort geti framkvæmt einsamall eða með aðstoð einhverra fylgiflokka, eins og Alþfl., það þarf ekki að vera, að sú stjórnarstefna nái fram að ganga. Ef vinstri menn sameinast undir merkjum Framsfl. og aðrir aðilar ganga svo til samstarfs við hann, þá eru fullir möguleikar á því, að það verði hægt að halda áfram þeirri umbótastefnu, sem hefur einkennt þjóðmál Íslendinga undanfarin 30 ár og þó kom ekki sízt í ljós í tíð vinstri stjórnarinnar á undanförnum árum. Framsfl. sýndi þá, að hann var öruggasti flokkurinn um að framfylgja þeirri umbótastefnu, sem vinstri stjórnin beitti sér fyrir og árangurinn af störfum vinstri stjórnarinnar var vissulega með þeim hætti, að hún hvetur til þess, að menn fylki sér um þá umbótastefnu, sem hún beitti sér fyrir.

Á þeim tíma, sem vinstri stjórnin fór með völd í landinu, voru lífskjör betri hér á landi, en í nokkru öðru landi í Evrópu samkv. því, sem erlendar, alþjóðlegar hagskýrslur upplýstu. Á þeim tíma, sem vinstri stjórnin fór með völd í landinu, voru meiri framfarir til sjávar og sveita, en nokkru sinni hafa áður verið og á þeim tíma, sem vinstri stjórnin fór með völd í landinu, var haldið með meiri einbeitni á sjálfstæðismálum þjóðarinnar, en áður hefur verið gert, eins og sýndi sig á útfærslu fiskveiðilandhelginnar, þrátt fyrir það þó að mörg voldug ríki reyndu að beita sér gegn því, að í þá framkvæmd væri ráðizt. Það er slík stefna, sem Framsfl. beitir sér fyrir og það er slík stefna, sem hann vill vinna að, að fylgt verði í landinu á komandi árum. Og það er um þessa stefnu, sem frjálslyndir menn og vinstri sinnaðir menn í landinu munu fylkja sér og koma þannig í veg fyrir, að sú afturhaldssama auðkóngastefna nái fram að ganga, sem er draumsjón Sjálfstfl. og hann væntir að rísi upp úr þessari stjórnarskrárbreyt. Ef fólkið í dreifbýlinu og þeir, sem vilja gæta jafnvægis í byggð landsins og ef vinstri menn og frjálslyndir menn í landinu draga réttar ályktanir af þessari stjórnarskrárbreyt. og snúast til varnar á réttan hátt, þá getur farið svo, að afleiðingar hennar verði allt aðrar, en upphafsmenn hennar hefur dreymt um. Það getur farið svo, og það er líklegast, að það fari svo, að fólkið úti um land og það fólk í þéttbýlinu, sem vill treysta jafnvægi í byggð landsins, þoki sér betur saman og frjálslynt fólk og vinstra fólk í landinu þoki sér meira saman og skapi þannig traustan flokk íhaldsandstæðinga til þess að halda uppi umbótastjórn og umbótastefnu í landinu á komandi árum.

Í þeim kosningum, sem munu fara fram í kjölfar þeirrar stjórnarskrárbreyt., sem nú verður samþykkt, mun fyrst og fremst verða kosið um tvær stefnur í landinu og valið á milli tveggja flokka. Annars vegar er afturhaldsstefna auðkónganna, sem Sjálfstfl. beitir sér fyrir, hins vegar er umbótastefna frá tíð vinstri stjórnarinnar, sem Framsfl. beitir sér fyrir. Það verður valið á milli þessara tveggja stefna og það verður valið fyrst og fremst á milli þeirra tveggja flokka, sem standa að þessum stefnum, Framsfl. og Sjálfstfl. Hinir flokkarnir tveir, sem fyrst og fremst virðast nú vilja eiga það hlutskipti að ganga til samstarfs við auðkóngaflokkinn í landinu og fylgja hans stefnu, þeir hljóta að hverfa sem mest í þessari kosningabaráttu, sem fyrir höndum er og það frjálslynt og vinstri sinnað fólk, sem áður hefur fylgt þeim, hlýtur að skipa sér undir merki Framsfl. Þess vegna getur svo farið og það er trú mín, að þegar upp verður gert eftir næstu kosningar, þá muni þeir, sem hafa staðið mest að þessari stjórnarskrárbreyt., forkólfar Sjálfstfl., ekki fagna slíkum sigri og ekki sjá þær óskir rætast, sem þeir gerðu sér vonir um, þegar þeir tókust á hendur að beita sér fyrir því, að hún gengi fram. Og það getur ekki aðeins farið svo, það eru allar líkur til þess, að það fari svo, að það, sem þessir menn uppskera að lokum, verði ekki sigur, heldur vonbrigði. Það var illa til þessa máls stofnað. En það eru mörg mál þannig, að þó að ekki sé vel til þeirra stofnað í upphafi, þá getur gæfa viðkomandi þjóðar orðið það mikil, að það snúist til góðs. Og það getur farið svo, og það eru allar líkur til þess, að þær aðfarir, sem hér hafa verið viðhafðar, og sú breyt., sem hér á að gera á stjórnarskrá ríkisins til að tryggja aðstöðu auðstéttanna í landinu, verði til þess, að fólkið vakni meira, en það annars hefði gert og það vakni á þann hátt, að upp úr þessu komi sterkari samtök fólksins í dreifbýlinu, sterkari samtök vinstra fólksins í landinu og niðurstaðan verði áframhaldandi umbótastjórn, eins og verið hefur í landinu á undanförnum árum, en ekki hefjist hér til valda sú afturhaldsstefna, sem Sjálfstfl. vonaðist eftir að mundi verða uppskeran, þegar hann gekkst fyrir því, að þetta mál næði fram að ganga.