14.08.1959
Sameinað þing: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

8. mál, stjórnarskrárendurskoðun

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. flm. mörg fögur orð, sem hann viðhafði um okkur, sem vorum í stjórnarskrárnefndinni frá 1947 og það mikla traust, sem okkur er sýnt með því að flytja þessa till., vegna þess að ekki verður öðruvísi litið á tillöguflutninginn, heldur en mjög mikla viðurkenningu á okkar sérstöku hæfileikum til þess að inna þetta starf af hendi, sem hv. flm. raunar líka berum orðum tók fram. En sú viðurkenning er þeim mun mikilsverðari, þar sem játa verður, að n. hefur ekki starfað síðan 1952 eða 1953 og ef flm. væru þeirrar skoðunar, að við, sem n. skipum, værum ámælisverðir fyrir það athafnaleysi, þá hefði að sjálfsögðu verið flutt till. um það, að ný nefnd yrði skipuð eða aðrar ráðstafanir yrðu gerðar, en hinum ótrúu þjónum ekki launað með því að veita þeim sérstaka traustsyfirlýsingu hér á Alþingi. (Gripið fram í: Þeir hefðu getað bætt ráð sitt.) Ég hef nú litla trú á þeim hv. þm., sem því varpaði fram, að það sé yfirvofandi með hann sjálfan, vegna þess að mér hefur því miður alltaf virzt, að hann sækti heldur niður á við, en upp á við. En engum er alls varnað, það skal játað. (Gripið fram í: Þetta á við aðra.) Þetta á við aðra, já, já.

Eins og ég segi, ég met mikils það traust, sem í þessari till. er fólgið. Að öðru leyti skal ég ekki ræða um þetta mál. Sjálft stjórnarskrármálið eða breyt., sem gerð var á þessu þingi endanlega, er útrætt mál og útkljáð. Hitt er eðlilegt og mér finnst skynsamlegt, að nú sé tekið til athugunar, með hverjum hætti eigi að framkvæma þá stjórnarskrárendurskoðun, sem fyrirhuguð var og ákveðin, en því miður hefur farizt fyrir. Það er staðreynd, sem við verðum allir að játa og hv. flm. gerði líka af fullum drengskap, að starf stjórnarskrárn. frá 1947 fór út um þúfur eða tafðist, hvernig sem við viljum orða það, vegna ósamkomulags um kjördæmamálið. Þess vegna er mjög eðlilegt, að þegar það mál er afgreitt af yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar með þeim hætti, sem gert er og þannig sá farartálmi úr leið, þá verði reynt að athuga, hvort ekki sé hægt að hrinda málinu áleiðis. Það er auðvitað leikur um orð hvort menn segja, að n. sé enn starfandi eða hafi sofið svefni í sjö ár. Þyrnirós svaf í hundrað ár og vaknaði að nýju og það gæti verið, að nefndin gæti vaknað aftur, ef einhver ýtti við henni duglega. Rétt er það, en ég hygg þó, að eðlilegt væri að athuga á ný, með hverjum hætti þessu starfi verði bezt fyrir komið. Það er staðreynd, sem verður ekki um deilt, að n. frá 1947 hefur ekki verið fullskipuð frá áramótum 1953 og hvað sem menn að öðru leyti segja um frammistöðu n., þá var það ekki hennar sök, heldur þeirra ríkisstj., sem síðan hafa starfað og engin hefur nokkru sinni farið þess á leit við nefndarformann, að nefndin tæki til starfa, né hefur skipað fulltrúa í n. í stað þess manns, sem sagði af sér um áramótin 1952–53, Ólafs prófessors Jóhannessonar. Skömmu síðar varð samkomulag um það milli nm., að ekki skyldu framar haldnir fundir í n., nema einhver nm. bæri fram ósk um það. (Gripið fram í: Aldrei framar?) Ekki nema einhver nm. bæri fram ósk um það. Þetta var samkomulag á milli nm., vegna þess að þeir töldu — (Gripið fram í: Ætli bókin beri það með sér?) Bókin beri það með sér? Ja, ef hv. þm. vill véfengja, þá eru hér inni fleiri nm. heldur en hann, þ. á m. 2 samþingismenn mínir úr Reykjavík, sem ég sé hér og þeir votta það, hvort ég fer með rangt mál eða ekki og ég skýt máli mínu til þeirra. En víst er um það, að sá hv. þm., sem vildi véfengja mál mitt hér, hefur aldrei farið þess á leit, að n. kæmi saman til funda. Við höfum setið hér á þingi nú í mörg ár og mjög hefur verið um nefndina rætt. Við erum góðir vinir, þótt við séum ekki sammála, spjöllum um margt, þegar við hittumst, en hann hefur aldrei einu sinni hvíslað því í eyra mitt, að nú óskaði hann eftir fundi í n. — Þetta eru einungis staðreyndir, sem rétt er að hér liggi alveg ljóst fyrir.

Eins og ég segi, starf n. stöðvaðist vegna ósamkomulags um kjördæmamálið. Nú er það ósamkomulag afgreitt í bili af þjóðinni og er þess vegna eðlilegt, að málið sé tekið upp til nýrrar athugunar. Ég er ekki viss um, þrátt fyrir öll viðurkenningarorð hv. flm. og traustsyfirlýsingu þá, sem felst í till., að það sé endilega rétt að haga nefndar– eða endurskoðunarstarfinu með þeim hætti, að þessi n. verði vakin upp úr sínum svefni. Ég tel, að það þurfi að athuga. Ég tel eðlilegt, að allir flokkar beri saman um það ráð sín. Ég er fyllilega viðmælandi um þessa lausn eða aðrar lausnir, en ég tel, að málið þurfi íhugunar við. Og ég hélt sannast sagt, hafði skilið það svo, að það væri samkomulag um, að þessi till. færi til n. til íhugunar, en það má vel vera, að það sé misskilningur. Ég held engum að þeim orðum. En ég tel, að málið sé svo vaxið, að það sé eðlilegt, að því sé vísað til n. Mér er ljóst, að það mun leiða til þess, að málið verði ekki afgreitt á þessu þingi, en ég tel eðlilegt, að flokkarnir hafi með sér samráð á venjulegan hátt um það, hvernig þessari endurskoðun verði háttað og hverjir hana taki að sér, og ég legg þess vegna til, að till. verði vísað til allshn. og umr. frestað.