14.08.1959
Sameinað þing: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

8. mál, stjórnarskrárendurskoðun

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég held, að ég verði að byrja eins og hv. 1. þm. Reykv. (BBen) með því að þakka fyrir það traust og það óbeina lof, sem borið hefur verið hér á mig, vegna þess að ræðu hans mátti skilja á þá lund, að stjórnarskrárn., sem skipuð var 1947, hefði eiginlega orðið óstarfhæf, vegna þess að ég hvarf úr n. í árslok 1953. Vegna þess að ég vil ekki með neinu móti liggja undir því ámæli að hafa gert þessa virðulegu nefnd óstarfhæfa, þá þykir mér rétt að taka nánar fram, hvernig nefndarskipun þessari var háttað, með því að það kom ekki heldur algerlega greinilega fram hjá hv. fln. tillögunnar.

Nefndarskipun þessari frá 1947 var á þann veg háttað, að n. var skipuð 7 mönnum. Það var skýrt tekið fram í þáltill., að 3 af þessum nm. skyldu vera sérstakir kunnáttumenn í stjórnlagafræði og skyldu skipaðir af ríkisstj. án nokkurrar tilnefningar. Hins vegar var tekið fram, að 4 af nefndarmönnum skyldu skipaðir í n. samkv. tilnefningu þingflokkanna og í n. voru síðan skipaðir án allrar tilnefningar þingflokka form. n., hv. 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, og hv. 6. þm. Reykv. núverandi, Gunnar Thoroddsen og svo ég, sem tala þessi orð.

Þessi n. tók til starfa 1947. En starfshættir hennar voru á þá lund, að í árslok 1952 eða eftir 6 ára starf sást enginn árangur enn af hennar starfi. Þegar svo var komið, þóttist ég engar skyldur hafa til þess að vera í þessari n. lengur. Ég var ekki skipaður í þessa n. sem fulltrúi neins stjórnmálaflokks og áleit mig þess vegna hafa algerlega frjálsar og óbundnar hendur að segja af mér og hætta starfi í þessari nefnd, hvenær sem væri og ég tilkynnti afsögn mína algerlega formlega — bréflega — bæði til forsrh. og form. n. Ef 7 manna nefnd hefur orðið óstarfhæf við það, að einn maður hvarf úr henni, þá er það ekki mín sök, því að mér bar ekki skylda til þess að sjá um, að í n. væri skipað, heldur mundi það þá fyrst og fremst hafa verið verkefni form. n. eða hlutaðeigandi ríkisstjórna að sjá um, að það skarð væri fyllt. En þetta vildi ég sem sagt taka fram, af því að eins og ég sagði, þá vil ég ekki á nokkurn hátt liggja undir því ámæli, að ég hafi orðið til þess að torvelda störf þessarar gagnmerku nefndar.