08.08.1959
Sameinað þing: 8. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

9. mál, verðtrygging sparifjár

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Það er við að búast, að menn reyni að finna bót á því ófremdarástandi í efnahagsmálunum, sem hefur verið ríkjandi um skeið og sérstaklega þeirri miklu hættu, sem stafar af verðbólgunni, sem hefur farið sívaxandi frá því að hún hófst fyrir alvöru 1941.

Þó að nú hafi verið logn um stund í þessum efnum, verður að segja það, að þetta er ekki fróun nema um stundarsakir, sem fengizt hefur með þeim ráðstöfunum, er gerðar voru hér á Alþ. fyrir skömmu. Þær hafa leitt til góðs, þótt yfir atvinnu- og fjármálastarfi landsins hangi enn, mikil hætta. Allt fer eftir því, hvernig mál verða leyst nú á næstunni, hvort þeirri hættu verður bægt frá.

Hvað snertir það mál, sem hér liggur fyrir, er það eitt af þeim atriðum, sem bent hefur verið á, til þess að draga úr vexti verðbólgunnar og þeirri hættu, sem vofir yfir allri atvinnustarfsemi landsins. Eitt af þeim sjúkleikamerkjum, sem hv. ræðumaður tók réttilega fram, er hin óhóflega eftirspurn um lánsfé. Og niðurstaðan verður svo sú, að bankarnir segja nú: Við getum ekki staðið gegn þeim þrýstingi lánsfjár, sem nú liggur á bönkunum. — En einmitt þessi þrýstingur er ein aðalástæðan fyrir vexti verðbólgunnar.

Það er eitt atriði, sem ég vildi benda á í þessu sambandi, einmitt í sambandi við hina óhóflegu eftirspurn lánsfjár, hina óhóflegu eftirspurn rekstrarfjár, sem nú á sér stað. Það er ekki aðeins vegna þess, hvað mikið er um framkvæmdir í landinu. Það er vegna þess, að rekstrarféð í landinu rýrnar með hverju ári. Það rýrnar af tvennum orsökum. Það rýrnar við verðlækkun krónunnar og það rýrnar af óhóflegri skattaálagningu. Það er nú orðið viðurkennt af þeim mönnum, sem með fjármálin fara í landinu, að ein mesta hættan, sem nú vofir yfir, sé sú, að atvinnufyrirtæki landsins eru að verða rekstrarfjárvana. Þetta stafar af því, að krónan verður minni og minni, og vegna þess, að gengið er á rekstrarfé fyrirtækjanna með sköttunum.

Í nýjum Fjármálatíðindum, sem gefin eru út af Landsbankanum og túlka að sjálfsögðu í aðalatriðum skoðun Landsbankans í fjármálum og atvinnumálum, er mjög eftirtektarverð grein. Það er forustugrein í tímaritinu eftir ritstjórann, sem nú er bankastjóri í Landsbankanum. Þar er komið að þessu atriði, sem ég minntist á og mig langar til að lesa nokkrar setningar úr þessari grein, sem um þetta fjallar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárhagslega sterk og vel rekin fyrirtæki hljóta ætíð að verða grundvöllur heilbrigðs fjárhagskerfis. Í þessum efnum er mikið að vinna hér á landi, því að verðbólga undanfarinna tveggja áratuga hefur leikið fjárhag margra helztu fyrirtækja landsins grátt. Rekstrarfé þeirra hefur rýrnað stórlega vegna sífelldra verðhækkana, en óhófleg skattlagning og óréttlát verðlagningarákvæði, komið í veg fyrir eðlilega nýmyndun fjármagns. Það er óhjákvæmilegt, að nokkurn tíma taki að ráða bót á þessum vandamálum, en lausn þeirra er frumskilyrði þess, að takast megi að koma á varanlegu jafnvægi í peningamálum og efla styrk atvinnuveganna.“

Þetta er mjög sterkt til orða tekið af manni, sem er í ábyrgðarstöðu hjá aðalbanka landsins, að það sé frumskilyrði til þess að koma á varanlegu jafnvægi peningamálanna, að í atvinnurekstrinum í landinu geti orðið eðlileg nýmyndun fjár. Það gerist ekki nú og það er meira að segja svo komið hjá flestum stærri fyrirtækjum landsins, að það er ekki aðeins, að ekki sé um nýmyndun að ræða, heldur er gengið á varasjóði og hlutafé félaganna. Og þetta er orðið svo alvarlegt, að verði ekki stefnubreyting á þessu á næstu þremur, fjórum árum, myndast einhver sú alvarlegasta aðstaða í þjóðfélaginu, sem hugsazt getur. Menn hafa ekki yfirleitt veitt þessu sérstaka athygli, því að ekki hefur verið vinsælt að prédika það, að atvinnufyrirtækin ættu að geta safnað fé. En það er svo komið nú, að flest hlutafélög í landinu eru hætt að geta greitt arð, vegna þess að þau eru komin í það, sem kallað er „öfugan höfuðstól“.

Ég tel rétt að benda á þetta í sambandi við þá till., sem hér liggur fyrir, sem einn lið í því að stinga fótum við verðbólgunni. En þó að verðtrygging sparifjár kunni að vera æskileg og geta gert mikið gagn, þá er þó það atriði, sem ég hef nú minnzt á, miklu stærra og varðar meira fyrir atvinnuvegi landsins, svo að þeir geti haldið áfram að starfa.