14.08.1959
Sameinað þing: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

11. mál, niðurgreiðsla á landbúnaðarvörum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég endurtek það, að ég tel alveg nauðsynlegt, áður en gengið er til atkv. um till, eins og þessa, að fram komi upplýsingar af hálfu stjórnarvalda um málið og óforsvaranlegt af Alþingi að afgreiða mál eins og þetta, án þess að slíkar upplýsingar liggi fyrir. Ef hv. flm. var fyrir löngu búinn að gera upp hug sinn um það að óska eftir því, að málið færi ekki til n., þá hefði honum verið innan handar að skýra ríkisstj. frá því, að hann óskaði eftir því, að málið yrði afgreitt án nefndarathugunar og þá hefði að sjálfsögðu gefizt tóm til þess að leita þeirra upplýsinga, sem ég tel nauðsynlegt að fram komi. Á þeim tíma, sem gefizt hefur, síðan óskin kom fram, hefur það tóm ekki gefizt, þótt nauðsynlegt sé. Þess vegna verð ég að halda fast við ósk mína um það, að umr. verði ekki lokið, heldur verði henni frestað.