14.08.1959
Sameinað þing: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

11. mál, niðurgreiðsla á landbúnaðarvörum

Forseti (BBen):

Hér er óskað eftir því, að þingviljinn komi fram og þá er rétt, að ég fái að segja það, sem ég ætlaði að segja fyrr, en hef ekki komizt að fyrir þessum hv. ræðumönnum, að ég hafði tjáð ýmsum þm. seinni partinn í dag, að ég gerði ekki ráð fyrir því, að atkvgr. færi fram á þann veg, að um fullnaðaratkvgr. væri að ræða. Það má vera, að það sé mín sök og þá tek ég hana á mig. En þetta tjáði ég allmörgum þm., sem nú eru farnir úr bænum. Ég hafði talið mig hafa við nokkuð að styðjast í þessu áliti mínu. Nú er komið í ljós, að það er misskilningur og má vel vera, að það sé misskilningur af minni hendi. Og ég held því ekki fram sem sökum á neinn annan. En ég hafði lýst því við allmarga þm., sem komu til mín og spurðu mig um það, hvort atkvgr. yrði hér efnisleg, að svo yrði ekki og gerði þá ráð fyrir, að það væri samkomulag um að vísa þessum málum báðum til nefnda. Hv. 1. þm. S-M. hafði mjög eindregið farið þess á leit við mig, að málin yrðu tekin á dagskrá og ég varð fúslega við þeirri ósk, til þess að þau yrðu hér reifuð. Nú hef ég orðið við þeirri ósk og þessi fundur hefur verið haldinn í því skyni. Það var framhaldið fundi í dag, lengur en menn höfðu gert ráð fyrir og nú er aftur kvöldfundur, til þess að málið verði rætt og ég frestaði fundi m.a. til þess að gera tilraun til þess að ná í þá þm., þ. á m. tvo ráðh., sem höfðu tjáð mér eða spurt um það, hvort hér yrði efnislega gengið frá þessum málum og þeir voru farnir úr bænum. Ég náði í hæstv. menntmrh., sem einnig hafði talað við mig. Ég tel að svo stöddu máli, ekki fært að láta atkvgr. fara fram um þetta mál né hitt málið, sem á dagskrá er. Það er einfaldlega af þessum ástæðum, að ég hafði sagt mönnum, að efnisatkvgr. mundi ekki fara fram. Ef það er misskilningur hjá mér, tek ég á mig þá sök, en ég get ekki, þar sem ég gerði tilraun til þess að ná í þessa menn og það tókst ekki, látið atkvgr. fara fram.