12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

7. mál, togarasmíð

Björgvin Jónsson:

Herra forseti. Við hv. 2. þm. N-M. og 2. þm. S-M. höfum leyft okkur að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. ríkisstj.:

1. Hvað hefur ríkisstj. gert samninga um smíði á mörgum togurum?

2. Hvaða lánasamningar hafa verið gerðir vegna togarakaupanna og hver eru lánskjörin?

3. Hefur verið leitað tillagna frá atvinnutækjanefnd um dreifingu togaranna samkvæmt 1. gr. laga nr. 94 frá 1956?

4. Hverjar eru till. nefndarinnar? Fyrirspurnir þessar skýra sig að mestu sjálfar. Hæstv. forsrh. tilkynnti það á sjómannadaginn, að ríkisstj, hefði haft milligöngu um smíði 8 togskipa. Eftir blaðaskrifum virðist þó tala þessi vera nokkuð á reiki. Okkur fyrirspyrjendum þykir rétt, að hæstv. Alþingi fái áreiðanlegar upplýsingar um það mál.

Um 2. liðinn er það að segja, að ekki virðist óeðlilegt, að hæstv. Alþingi fái greinargóða skýrslu um lánskjör og lánstíma í sambandi við þessi fyrirhuguðu skipakaup, þar sem lögin um skipakaup o.fl. heimila allt að 85–90% ábyrgð ríkissjóðs til kaupa á þessum mikilvirku atvinnutækjum.

Um 3. liðinn í fsp. er það að segja, að lög þau, er stuðzt er við í sambandi við skipakaupin, þ.e. lög nr. 94 frá 1956, taka það ótvírætt fram, að skipum, sem smíðuð séu innan þess ábyrgðarramma, er lögin heimila, skuli úthlutað að fengnum till. atvinnutækjanefndar.

4. liður fsp. er í beinu framhaldi af 3. liðnum og er aðeins ósk um upplýsingar um, hvaða till. atvinnutækjanefnd hafi gert í þessu máli.