12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

7. mál, togarasmíð

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessum fsp., sem hér hefur verið lýst og prentaðar eru á þskj. 9, skal ég leyfa mér að svara þannig:

Fyrsta fsp. hljóðar svo: Hvað hefur ríkisstj. gert samninga um smíði á mörgum togurum? Þessu vil ég svara á þá leið, að ríkisstj. hefur ekki gert samninga um kaup á togurum, eins og l. nr. 94/1956 þó heimila henni. Hins vegar hefur hún veitt innflutningsleyfi fyrir fjórum togurum og aðstoðað væntanlega kaupendur þeirra við samningsgerðir og veitt þeim hina sömu fyrirgreiðslu og nefnd lög heimila, þ.e. ríkisábyrgð fyrir láni, sem nemur 90% af kaupverði hvers togara, sem gerður er út frá verstöð utan Reykjavíkur, en 85% af kaupverði þess togara, sem ætlað er, að gerður verði út frá Reykjavík.

Togarakaupanefnd hefur verið tæknilegur ráðgjafi ríkisstj. við þessa samninga og þá einkum formaður nefndarinnar, Hjálmar R. Bárðarson skipaskoðunarstjóri.

Um þessa tölu er það að segja, að þegar ég sagði frá því á sjómannadaginn, að veitt mundu verða leyfi fyrir 8 togurum, þá var, eins og ég lýsti þá, gert ráð fyrir 4 togurum hvort árið 1959 og 1960, sem kæmu hingað til landsins á árunum 1960 og 1961. Þetta var byggt á loforði, sem ég hafði fengið frá Seðlabankanum um það, að hann mundi aðstoða við lántökur, sem nægja mundu til þessara kaupa.

Önnur spurningin er svo hljóðandi: Hvaða lánasamningar hafa verið gerðir vegna togarakaupanna og hver eru lánskjörin? Um þetta er það að segja, að samkvæmt upplýsingum, sem fyrir liggja, er enn ekki að fullu gengið frá lánssamningum vegna skipasmíðanna, eins og ekki hefur heldur verið gengið að fullu frá skipasmíðasamningunum sjálfum. Þeir eru að komast á lokastig og má segja, að þeim sé verið að ljúka,en fullgengið er ekki frá þeim og ekki heldur lánssamningunum. En telja má nokkurn veginn vist, að lánin verði til 12 ára með 6½% vöxtum. Lánsfjárhæðirnar verða hinar sömu og fyrrnefndar ríkisábyrgðir taka til, 85% og 90%, eftir því, hvaðan skipin verða gerð út.

Þriðja spurningin og fjórða spurningin eru svo um það, hvort till. atvinnutækjanefndar um dreifingu togaranna samkvæmt 1. gr. laga nr. 94 frá 1956 hafi verið leitað og hverjar þá hafi verið tillögur nefndarinnar. Þessu er því til að svara, að tillagna n. hefur ekki verið leitað, þar sem þessi aðstoð hefur verið veitt sem svar við tilmælum ákveðinna manna, sem ríkisstj. gekk út frá og vissi og hafði sannfært sig um að hefðu fulla þörf fyrir þessi skip, enda gera lögin það ekki að neinni skyldu í sambandi við þessa fyrirgreiðslu að fara eftir tillögum atvinnutækjanefndar um það mál.