12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

7. mál, togarasmíð

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég heyri það nú, að hæstv. forsrh. segir, að lán til þessara skipakaupa hafi verið útveguð að verulegu leyti á vegum ríkisstj. og fer nú a.m.k. tvennum sögum um það. En það var ekki það, sem skipti verulegu máli í minni fsp., heldur hitt: Ef einstakir aðilar, sem vilja kaupa skip, geta útvegað sér lánin og þurfa ekki einu sinni á fyrirgreiðslu ríkisstj. að halda, hvers vegna má þá ekki veita þessi leyfi? Er þá komið að þessum punkti, að það séu til þeir spekingar í okkar landi, sem segja: Það er heppilegra að kaupa þá færri. Það er betra að biða. — Við þekkjum þetta, við höfum heyrt þessar upplýsingar áður, en ég er ekki á þeirri skoðun. Ég álít, að það eigi síður en svo að stöðva menn í því að kaupa togara til landsins, ef þeir fá við það ráðið, Og allt um það þó að vissir forustumenn í Seðlabankanum vilji setja þau skilyrði fyrir því að veita nauðsynlega fyrirgreiðslu þarna, að það verði ekki keypt nema fjögur skip, þá álít ég, að slíkar reglur séu vægast sagt vafasamar og það ætti að veita mönnum þessi leyfi til fleiri kaupa, en hér er um að ræða, ef þeir geta sjálfir leyst vandann með þessari ríkisábyrgð.