04.08.1959
Neðri deild: 9. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það gerðist hér í hv. þd. á fimmtudaginn var, að hið sameinaða þinglið Sjálfstfl., Alþfl, og Alþb. felldi till. framsóknarmanna um að leggja mál það, sem hér er til umr., undir þjóðaratkvæði. Það sýnir, að þm. þessara þriggja flokka eru svo vantrúaðir á málstað sinn, að þeir óttast dóm þjóðarinnar, ef hún fær tækifæri til að segja álit sitt um málið eitt út af fyrir sig. Og það skal ég viðurkenna, að þeir hafa ríka ástæðu til að óttast um frv. sitt, ef það yrði á þann hátt lagt undir dóm kjósendanna í landinu.

Við 2. umr. frv. hér í d. var vakin athygli á því, að í alþingiskosningunum í s.l. júnímánuði kom fram, að sá flokkurinn, sem er stærstur þeirra þriggja, er beita sér fyrir máli þessu, Sjálfstfl., er í minni hluta í öllum kjördæmunum utan Reykjavíkur að einu undanskildu. Í Vestmannaeyjum hlaut flokkurinn milli 50 og 51 af hundraði gildra atkvæða, en minna en helming í öllum hinum kjördæmunum, 26 að tölu. Nokkrir af frambjóðendum flokksins, sem þó komust á þing, höfðu ekki nema 30–35% gildra atkvæða í kjördæmum sínum. Sumir þeirra hafa þó lengi barið þar pólitíska sjóinn.

Þingmenn Alþfl. og Alþb. hafa að sjálfsögðu gert sér þetta ljóst, að Sjálfstfl. er í minni hluta í 26 af 28 kjördæmum landsins. Og þeim rennur þetta til rifja. Þeir hafa komizt að þeirri niðurstöðu við íhugun málsins, að þeim beri að koma hér til hjálpar, reyna plástur eða mixtúru eða eitthvað, sem verða megi til bjargar. Þess vegna greiða þeir atkv. með frv., sem hér liggur fyrir.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) talaði um þetta mál við 1. umr. þess. Það má heita, að hann sé sá eini af stuðningsmönnum frv., enn sem komið er, sem hefur rætt um það á þingi og reynt að verja málstað hinna þriggja flokka. Hann sagði m.a., að þetta væri í þriðja skipti á 28 árum, sem verkalýðurinn hefði samstarf við Sjálfstfl. um breytingar á kjördæmaskipuninni. Réttara væri líklega að orða þetta svo, að forustumenn Alþfl., Kommúnistaflokks Íslands, Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins og Alþb. hefðu haft þetta samstarf við Sjálfstfl., heldur en að verkalýðurinn hefði verið þar samstarfsaðili. Það mun líka hæpið að halda því fram, að verkalýðurinn hafi grætt á breytingunum, en vera má, að einhverjir aðrir hafi hagnazt á þeim.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði um, að núgildandi kjördæmaskipun skapaði verkamönnum of lítinn rétt samanborið við kaupfélagsstjóra. Eitthvað mun vera bogið við þessa kenningu. Verkamaðurinn í Reykjavík hefur sama atkvæðisrétt og kaupfélagsstjórinn hjá Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis. Atkvæði þeirra vega nákvæmlega jafnmikið. Og þannig er þetta um verkamenn og kaupfélagsstjóra í öllum öðrum héruðum landsins. Verkamenn í öllum sýslum og kaupstöðum landsins hafa nákvæmlega sama atkvæðisrétt og aðrir menn á sömu stöðum, hvaða starfi sem þeir gegna. Þarna virtist af hálfu hv. 3. þm, Reykv. gerð tilraun til að sýna, að atkvæðisréttur manna væri misjafn eftir því, í hvaða starfsstétt þeir hefðu skipað sér. Þetta mistókst auðvitað og hlaut að gera það, því að allar stéttir njóta í þessu efni sama réttar.

Vel má vera, að einhverjum hafi þótt það dálitið skrýtið í fyrstu, að hv. 3. þm. Reykv. skyldi nefna kaupfélagsstjóra til samanburðar við verkamenn í ræðu sinni um þetta efni. Kaupfélagsstjórar eru í þeim stóra hóp, sem oft nefnist launþegar einu nafni. Hvers vegna nefndi hv. þm. þá sérstaklega, en ekki t.d. stórkaupmenn eða aðra atvinnurekendur eða þá milljónamæringana? Fyrir síðustu kosningar var skrifað í Þjóðviljann um hina 600 milljónamæringa og þar var sagt, að kosningarnar ættu að snúast um það, hvort þeir karlar ættu að fá að græða enn meira á kostnað launþeganna í landinu. Hv. 3. þm. Reykv. minntist ekkert á þessa menn í ræðu sinni. Þeir hafa líka sama atkvæðisrétt og aðrir. En hann nefndi kaupfélagsstjóra og gaf í skyn, að þeir væru forréttindamenn. Glöggt má sjá, hvaðan alda sú er runnin, í málgögnum sjálfstæðismanna, hefur því verið haldið fram að undanförnu, að nauðsyn sé að draga úr starfsemi samvinnufélaganna. Og Sjálfstfl. fór fram á það við kjósendur í síðustu þingkosningum, að þeir veittu honum aukin völd og möguleika til þess. Mátti skilja á þeim sjálfstæðismönnum mörgum, að þeir teldu það miklu stærra kosningamál, en kjördæmabreytinguna. Þegar á þetta er litið, er tal hv. 3. þm. Reykv. um kaupfélagsstjórana vel skiljanlegt. Hann veit, hvernig hann á að hringja bjöllu sinni, til þess að hljómur hennar verði sem unaðslegastur í eyrum hinna nýju viðsemjenda, aðalritstjóra Mbl. og manna hans. Og úr því að hv. 3. þm. Reykv. er farinn að dansa við hv. 1. þm. Reykv. (BBen), vill hann reyna að komast í takt við hann, eins og það nefnist á máli dansiðkenda.

Svo sagði hv. 3. þm. Reykv., að þegar bæði Alþfl. og Alþb. ættu menn í ráðherrastólum, þá væri ríkisstj. vinstri stjórn, hver sem þriðji aðilinn væri í ráðuneytinu. Þetta var ábending um það, að þegar þessir tveir flokkar mynduðu stjórn í félagi við Sjálfstfl., ætti hún að nefnast vinstri stjórn. „Aldrei aftur vinstri stjórn“ mátti sjá á áberandi stöðum í málgögnum sjálfstæðismanna fyrir kosningarnar. Og til áréttingar þessu er mér sagt, að miðar með þessari áletrun hafi verið festir upp á staura og steinveggi hér í höfuðborginni fyrir síðustu kosningar. Aldrei aftur vinstri stjórn! Líklega er kominn tími til fyrir sjálfstæðismenn að taka niður það, sem enn kann að sjást af því borgarskrauti.

Flytjendur og stuðningsmenn þessa frv. hafa mikið skrifað og talað um forréttindi, sem Framsfl. njóti og hafi notið í skjóli gildandi kjördæmaskipunar. Þetta forréttindaskraf þeirra styðst ekki við nein rök og hefur verið marghrakið. Allir flokkar hér á landi hafa sama rétt til að túlka sín mál og afla sér kjörfylgis, hvar sem er á landinu. Hitt er annað mál og þessu óskylt, að þingmenn hinna strjálbýlli héraða hafa færri kjósendur en hinir, sem eru fulltrúar fyrir þéttbýlustu svæðin. Þetta stafar af því, að síðustu áratugina hefur margt fólk flutzt úr öðrum landshlutum til Reykjavíkur og nágrennis hennar. En þó að nokkur fækkun hafi orðið í ýmsum héruðum úti um land, þá hefur fólkið, sem þar er eftir og heldur þar áfram lífsbaráttunni, fengið að hafa sérstaka fulltrúa fyrir sig á þingi. En nú á að svipta héruðin og íbúa þeirra þessum rétti.

Þetta er í þriðja skiptið á 28 árum, sem verkalýðurinn hefur samstarf við Sjálfstfl. um breytingar á kjördæmaskipuninni, sagði hv. 3. þm. Reykv. Af þessu má sjá, að verk þeirra hafa reynzt ákaflega endingarlítil. Byggingar, sem standa svo illa, eru stundum nefndar hrákasmíði. Og ég held, að það sé réttnefni á kjördæmabreytingum hinna sameinuðu þriggja flokka, bæði nú og áður. Þessir flokkar hafa aldrei gengið að verki með því hugarfari að reyna að setja viturlega hugsuð og vönduð stjórnskipunarlög fyrir þjóðfélagið. Þeir hafa alltaf miðað breytingar sínar við það að reyna að draga úr áhrifum eins stjórnmálaflokks, Framsfl. En þeir hafa ekki séð óskir sínar rætast í því efni. Þessir þrír flokkar samþykktu breytingar á kjördæmaskipuninni árið 1942. Þeir töldu svo þýðingarmikið að koma þeim breytingum á, að þess vegna væri réttmætt að stofna til harðrar baráttu í tvennum kosningum á viðsjárverðum stríðstíma. En fyrirkomulagið, sem þeir lögfestu þá með miklu bramli og brauki, er nú svo til húðar gengið, að það er óviðunandi með öllu að dómi þeirra sjálfra. Þannig fór um það stóra réttlætismál, sem þeir nefndu svo fyrir aðeins 17 árum. Og trúað gæti ég, að það hrófatildur, sem þeir eru nú að koma upp, reynist ekki endingarbetra. Enn sem fyrr leggja þeir í grunninn andúð sína á einum flokki. Það er í raun og veru eina byggingarefnið, sem þeir nota. Hús, sem reist er á slíkri undirstöðu, verður aldrei traust eða varanlegt.

Enn er ólokið endurskoðun stjórnarskrárinnar. Því verki þarf að ljúka sem fyrst og setja ný stjórnskipunarlög. Til þeirrar löggjafar þarf vel að vanda. Hún á að miðast við þarfir þjóðarinnar í heild, en ekki við stundarhagsmuni einstakra stjórnmálaflokka.