12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

14. mál, skattur á stóreignir

Utanr.- og fjmrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Skagf. hafa fundizt þær upplýsingar, sem ég hafði að gefa í sambandi við kæruna til mannréttindanefndarinnar, nokkuð ófullnægjandi og hann vildi heyra mitt álit á þeirri kæruför, er farin hefur verið. Eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu, var ástæðan fyrir því, að ég fór ekki fleiri orðum um þetta, sú, að til mín hefur engin vitneskja borizt frá mannréttindanefndinni um, að málið hafi nokkurn tíma fyrir þá nefnd komið. Þegar formaður stóreignaskattsgreiðendafélagsins skýrði mér frá þessum áformum sínum, þá fundust mér þessar tiltektir fráleitar, vegna þess að þetta mál getur ekki með neinu móti heyrt undir þennan dómstól. Þetta er okkar innanríkismál og reglur mannréttindanefndarinnar og mannréttindadómstólsins eru að mínu áliti þannig, að málið getur ekki átt þar heima. Ef forustumenn skattgreiðendafélagsins hafa farið með þetta mál á fund mannréttindanefndarinnar, þá tel ég víst, að málinu hafi reitt þannig af, að n. hafi ekki við því tekið. Ef n. hefði við málinu tekið, mundi ríkisstj. að sjálfsögðu vera búin að heyra af því. Ég er sannfærður um, að n. hafi ekki viljað taka málið til athugunar, a.m.k. ekki enn þá, þar sem ekkert hefur um það frá henni heyrzt.

Það kom fram hjá hv. 1. þm. Skagf., sem var alveg rétt, að skatturinn hefði verið í upphafi 135 millj. kr., en væri nú kominn eftir endurskoðun niður í 113 millj. kr. Þannig stendur skatturinn í dag. Við þetta vil ég þó gera þá aths., eins og kom fram í minni fyrri ræðu, að enn er eftir að reikna skattinn út að verulegu leyti vegna breytinga bæði hjá hæstarétti og í ríkisskattanefnd á þeim úrskurðum, sem liggja til grundvallar þessum 113 millj. kr. Og þegar búið er að reikna þær breytingar út, þá eru allar líkur til þess, að skatturinn muni enn lækka nokkuð. Hann verður sjálfsagt alltaf eitthvað yfir þær 85 millj. sem í upphafi voru áætlaðar, en það verða aldrei mjög verulegar upphæðir, sem hann fer fram úr því. — Þetta þykir mér rétt að láta koma fram.