12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

14. mál, skattur á stóreignir

Fyrirspyrjandi (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þegar fyrsta framlag var tekið inn á fjárlög til kaupa á jarðbor þeim, sem nú er að verki sem félagseign ríkisins og Reykjavíkurbæjar og vinnur stórvirki, átti ég nokkurn þátt í því. Hugmyndin var þá, að þessi bor yrði eingöngu ríkiseign og færi víðs vegar um landið og ekki sízt norður í land á jarðhitasvæðin þar. Seinna þróuðust málin þannig, að borinn var keyptur stærri, en upphaflega var áformað og Reykjavík gerðist helmingsaðili að kaupunum. Þetta leiðir það af sér, að verkefni borsins verða fyrst um sinn og fyrst og fremst hér syðra. Hann er vegna stærðar og þunga og mikilla fylgitækja afar dýr í flutningi um langa vegu og dýr í rekstri fyrir smærri hitavatnsleitir, þótt hann sé góður hér.

Ég er alls ekki að sakast um það, þótt gangur málanna yrði þessi. Hins vegar bíða norðanlands verkefni jarðhitarannsókna eftir sem áður óleyst verkefni, sem fólk þar hefur mikinn og réttmætan áhuga fyrir, að unnin verði sem allra fyrst.

Á síðasta Alþ. beittum við þm. að norðan okkur fyrir því í samráði við raforkumálastjóra og starfsmenn jarðhitadeildar ríkisins, að tekin var inn í 22. gr. fjárl. þessa árs heimild fyrir ríkisstj. til kaupa á hentugum jarðbor til jarðhitarannsókna á Norðurlandi. Enginn ágreiningur kom fram um þessa heimild í þinginu, svo að hiklaust má telja hana skýlausa viljayfirlýsingu þess, enda málið mikilsvert.

Mér er sagt af þeim, er gerst eiga að vita, að í lok s.l. árs muni um 45 þús. manna í landinu eða meira en 1/4 hluti þjóðarinnar hafa verið búinn að fá upphitun frá jarðhita í húsum sínum. Þetta eru mikilsverð þægindi fyrir fólkið, sem nýtur, og mikill og varanlegur, gjaldeyrissparnaður fyrir þjóðarbúið frá ári til árs.

Þeir staðir fyrir norðan, sem álitið er að fá megi heitt vatn handa með bornum, eru Húsavík, — ég nefni hana fyrst, af því að þar er af fræðimönnum talin öruggust vissa um árangur, — svo er Akureyri, Dalvík og Siglufjörður. Á þessum stöðum eru búsettar um 13 þús. manna. Gjaldeyrissparnaður af hitaveitum þar er varlega áætlaður 6–7 millj. kr. á ári, að mér skilst. Fleiri staðir eru það, sem koma einnig til greina fyrir norðan. Í Ólafsfirði þarf að bora til aukningar veitu, sem komin er á. Enn fremur þarf að bora fyrir Sauðárkrók innan skamms. Fólkið á fyrrnefndum stöðum hefur, svo sem auðvitað er, eins og ég sagði áðan, mikinn áhuga fyrir þessum málum.

Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. á þskj. 13 til þess að fá fréttir hjá hæstv. ríkisstj. af framkvæmd fjárlagaheimildarinnar um kaup á jarðbornum. Hjá jarðborunardeildinni er mér sagt, að frá Svíþjóð sé fáanlegur, auðvitað með nokkurra mánaða fyrirvara, hentugur jarðbor, er kosta muni með öllu og öllu, sem fylgja þarf, 3½ millj. kr. Meiri fréttir gat ég ekki fengið af málinu þar. Þess vegna sný ég mér nú til hæstv. ríkisstj. og vænti góðra frétta þaðan.