12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

14. mál, skattur á stóreignir

Fyrirspyrjandi (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir greið svör og skýr, en hins vegar verð ég að láta í ljós, að mér finnst hæstv. ríkisstj. ekki hafa haft hraða á í þessu máli og ekki heldur koma fram í orðum hans, að hún hugsi sér að hafa hraðan á, því að hann lauk ræðu sinni með því, að ekki væri ólíklegt, að ríkisstj. mundi fara með málið aftur fyrir fjvn. eða sennilega Alþingi. Hins vegar hefur ríkisstj. fulla heimild frá síðasta þingi á fjárl. til þess að kaupa borinn og mér finnst það nokkur tregða að nota ekki þá heimild í svo góðu máli og gæti gjarnan unnt hæstv. ríkisstj. þess að auka hróður sinn með því að framkvæma þessa heimild, sem áreiðanlega er vinsæl um land allt svo að segja, eins og marka mátti af ræðu hv. þm. Hafnf., að þó að heimildin sé til þess að kaupa bor til rannsókna á Norðurlandi, þá eru verkefni hans hugsuð fyrir stærra svæði siðar meir eða viða um land. — Ég vildi óska þess og leyfi mér að skora á hæstv. ríkisstj. að taka í sig kjark og framkvæma heimildina.