04.08.1959
Neðri deild: 9. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Björn Pálsson:

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) hélt hér langa ræðu áðan. Það er ef til vill ekki mikil ástæða til að svara mörgu af því, sem þar kom fram. Örfáum atriðum vildi ég þó svara.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur lagt á það mikla áherzlu, að með þeirri kjördæmaskipun, sem verið hefur, hefðu verkamenn minni atkvæðisrétt en aðrir, það þyrfti 3 verkamenn á móti einum kaupfélagsstjóra. Þetta er ekki að öllu leyti rétt skilið. Það lítur út fyrir, að hv. 3. þm. Reykv. álíti, að verkamenn séu eingöngu hér í Reykjavík. En ef þetta er athugað, kemur í ljós, að svo er ekki. Það eru ef til vill hvergi á landinu færri prósent af verkamönnum, miðað við fólkstölu, heldur en einmitt hér í Reykjavík. Hér er mikill hluti af fólkinu skrifstofufólk og embættismenn, en úti á landsbyggðinni er þetta ekki þannig. Ef við komum í sjávarþorp, má heita, að hver maður sé verkamaður. Annars má deila um, hvað á að kalla verkamenn og hvað ekki verkamenn. Ef það eru taldir verkamenn, sem vinna líkamlega vinnu, þá eru allir bændur verkamenn. Og það er nú svo komið, að flestir bændur eru einyrkjar, þeir eru í raun og veru ekkert annað en verkamenn. Hygg ég, að snúa mætti þessum staðhæfingum hv. 3. þm. Reykv. alveg við, þannig að verkamennirnir eru fyrst og fremst úti á landinu. Það er þar, sem aðalframleiðslan í þjóðarbúið fer fram. Þessi röksemdafærsla er því alveg öfug.

Ég lýsti því áðan, að í Noregi skilur jafnaðarmannastjórnin, að það er önnur aðstaða fyrir þá, sem eru í dreifbýli en borgum. Jafnaðarmenn hafa verið þar í hreinum meiri hluta og álíta rétt að hafa tvöfalt fleiri íbúa í Óslóborg bak við hvern þingmann, heldur en í sveitunum. Og kjördæmaskipunin er þannig, að þar, sem stórar borgir eru í kjördæmunum, er tekið tillit til þess, þannig að þar séu færri atkvæði á bak við hvern þingmann, t.d. í Þrændalögum og annars staðar þar, sem þéttbýlt er, heldur en þar sem strjálbýlt er, eins og í Norður-Noregi. Þetta skilur verkamannastjórnin norska.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði heilmikið um auðvald og arðrán. Hann talar alltaf um þetta, þegar hann heldur ræður. En ég vildi aðeins benda á það, að flokkur hans var í ríkisstj. frá 1944 til 1946 og aldrei hafa dafnað betur heildsalar og braskarar en þá.

Hv. þm. heldur því fram, að menn verði ríkir hér af því, að kaupið sé of lágt og hann var að tala um það, að ef kaupið væri hækkað um 3%, legðu atvinnurekendurnir sig betur fram og þetta væri fundið fé. En þessu er bara ekki þannig varið. Það hefur gengið þannig til hér á landi, að alltaf er verið að hækka kaup, en verðgildi krónunnar hefur bara minnkað jafnmikið. Menn hafa ekki orðið ríkir hér á landi á því, að þeir hafi grætt á heilbrigðum atvinnurekstri. Þeir hafa orðið ríkir af verðbólgunni og af alls konar braski, ekki af því að reka heiðarlega atvinnu. Þeir einu, sem græða á verðbólgu, eru braskarar. Það eru þeir, sem ráða yfir fjármagni til þess að kaupa eignir og láta þær svo hækka í verði. Ríkustu menn þjóðarinnar hafa fyrst og fremst grætt á þessu.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur ekki viljað gera raunhæfar ráðstafanir til þess að stöðva verðbólguna. Það var óhjákvæmilegt eftir verkfallið 1955 að gera jafnaðarmenn og Alþb. ábyrg. Þetta var það, sem Framsfl. vildi, þess vegna myndaði hann stjórn með þessum flokkum. Nokkur hluti af Alþb. vann að þessu af heilum hug og í fyrstu gerðu þeir raunhæfar ráðstafanir, þannig að verðbólgan varð stöðvuð. Allan þann tíma, sem þeir voru í stjórn, hækkaði vísitalan ekki nema um 7 stig, eða úr 178 í 185. Þetta mátti heita viðunanlegt. Það skal játað, að þessi stjórn gerði á margan hátt stórvirki. Við getum t.d. tekið efnahagsuppbygginguna í sjávarþorpunum. Það er staðreynd, að fólkinu í sjávarþorpunum hefur aldrei liðið betur. Fólkinu var hjálpað til að byggja frystihúsin og því voru útvegaðir bátar, þannig að atvinnulífið var í fullum gangi og velmegunin óx. Sama er að segja um rafmagnsmálin. Það var lögð mikil áherzla á að dreifa rafmagninu út um landið. Þetta er í raun og veru frumskilyrði til þess, að fólkið uni í sveitinni. Sama er að segja um landhelgismálið. Það er eitt mesta stórmál þjóðarinnar og því var hrundið í framkvæmd þá. Og þó að Bretar veiði enn þá í landhelgi, þá eru það algerir smámunir, miðað við það, sem áður var, þannig að landhelgin er þegar farin að gera mikið gagn. Þetta ber að þakka, og þetta ber að meta. Ég er sannfærður um, að það var auðvelt fyrir þessa flokka að stjórna áfram og halda verðbólgunni í skefjum, ef viljinn var einlægur. En hann var bara ekki til staðar. Á þingi verkalýðssamtakanna hélt t.d. 1. landsk. þm. (HV) ræðu, þar sem hann skýrði algerlega raunhæft frá því, hvað gera þyrfti til þess að halda verðbólgunni í skefjum. Við, sem hlustuðum á þessa ræðu, — því að henni var útvarpað, — Við álitum, að hann hefði einlægan vilja til þess, að þetta yrði framkvæmt. En í framkvæmdinni var það þannig, að flokkurinn sem slíkur vildi ekki standa að þessum till., sem hv. 1, landsk. þm. gerði. Verðbólgan var þess vegna í örum vexti. Og fyrir forsrh., Hermann Jónasson, var ekki nema um tvennt að velja, annaðhvort að ganga út í fenið eða segja af sér. Og hann tók þann kostinn, hann lét ekki leiða sig út í fenið. Og í raun og veru er það ekki nema þakkarvert. Nú er búið að leika þennan leik. Verkalýðsleiðtogarnir úti um land gera auknar kröfur og þeir fara fram á hærra kaup. En svo hafa jafnaðarmennirnir lýst því yfir, að það hafi verið of langt gengið og með lagafyrirmælum var kaupið lækkað. Þetta er ekki nema hlægilegur skrípaleikur. Einstök verkalýðsfélög gera kaupkröfur, fá hækkað kaup. Svo kemur ríkisvaldið og lækkar það með lögum. Þetta er afar frumleg leið og athyglisverð í framtíðinni, ef á að halda þessu áfram. Framsóknarmenn hafa aldrei viljað taka þátt í þessum skrípaleik. Þeir hafa viljað raunhæfar ráðstafanir, en ekki loddaraleik. Það er hægt að halda verðbólgunni í skefjum, ef þetta er endurtekið hvað eftir annað. Þetta gæti í raun og veru verið athyglisvert, að láta stéttarsamtökin hafa frjálsar hendur og hækka og hækka, svo komi ríkisvaldið og lækki allt saman með lögum. En þýðingu hefur þetta ekki, þetta er ekki raunhæft.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur alltaf haft á takteinum viss ráð til þess að stöðva verðbólgu og þau eru, að það eigi bara að kaupa togara. Mér hefur dottið í hug í þessu sambandi samlíking þannig, að ef ég byggi á jörð og nábúi minni ætti 20 kýr og hann tapaði t.d. 1.000 kr. á hverri kú, hann hefði ekki lag á að búa, kýrnar mjólkuðu illa og þetta bæri sig ekki hjá honum, — mig langaði til að eignast jörðina hans, svo færi ég og segði við hann: Kauptu bara fleiri kýr, góði. — Og hann keypti 10 kýr í viðbót, svo að þær yrðu 30 og hann héldi áfram að tapa einu þúsundi á hverri kú og svo lánaði ég honum fyrir kýrnar og eftir nokkur ár væri ég farinn að eiga það mikið hjá honum, að ég gæti náð í jörðina. Hv. 3. þm. Reykv. kemur alltaf með þessar ráðleggingar: Þið eigið bara að kaupa togara og Rússar lána ykkur. — En aðalatriðið er, að þeir togarar, sem við eigum, beri sig og að við höfum mannskap á fleiri togara. Það er ekki nóg að kaupa togara, við verðum að hafa menn til þess að vinna á þessum togurum. Það hefur verið þannig, að við höfum ekki haft nóga menn á fiskiskipaflotann. Atvinnulífið verður að vera þannig upp byggt, að það beri sig. Eftir því sem við rekum fleiri togara með tapi og aðkeyptu vinnuafli, eftir því verður útkoman lakari. Það hefur ekki verið athugað, en ég efast um það, áður en þessar síðustu ráðstafanir voru gerðar, þegar við vorum að taka Færeyingana, að nokkuð hafi verið eftir, þegar búið var að borga allan útgerðarkostnað og kaup Færeyinganna, að þjóðin hafi nokkuð grætt á þeim rekstri. Nei, undirstöðuatriðið er að láta búið bera sig. Það þýðir ekki að stækka það, nema það beri sig. Það er allt í lagi að hafa eins stórt bú og hægt er, en hlutirnir verða að bera sig. Og það er ekki nein raunveruleg kjarabót fyrir verkamanninn, þó að hann fái fleiri aura í kaup. Það er ekkert, sem skaðar verkamanninn meira en það, að krónurnar, sem hann fær, séu sviknar, og það er ekki hægt að halda fjárhagskerfi nokkurrar þjóðar í lagi með því að láta verðbólgu stöðugt aukast. Þeir ríku geta grætt á verðbólgu, þeir sem hafa fjármagnið til þess að kaupa eignirnar, en þeir fátæku hljóta alltaf að skaðast á henni. Það er ekki af umhyggju fyrir verkafólkinu, að hv. 3. þm. Reykv. hefur aldrei viljað gera raunhæfar ráðstafanir til að stöðva verðbólgu, það er af því, að stefna hans græðir á því, að verðbólgan aukist, að braskararnir verði sem flestir. Kommúnistum er ekki illa við ríka menn, þeim er ekki illa við braskara, þeim er illa við heilbrigða umbótastefnu og jafnan efnahag. Þá eru þeirra vaxtarskilyrði verri.

Það er verið að ræða um þetta kjördæmamál. Við vitum, hvernig það fer. Sjálfstæðismenn eiga sína sök á þessu og bera náttúrlega hvað mesta ábyrgð. Þeir hafa leitað til kommúnista til þess að brjóta niður þá kjördæmaskipun, sem fyrir var, hin einstöku kjördæmi úti á landi. Þetta hafa verið eins og smá ríki. Þm. hefur verið fulltrúi byggðarlagsins. Menn hafa raunar skipzt í flokka. En hver sæmilegur maður, sem er kosinn á þing, hefur litið á sig sem fulltrúa allra flokka í kjördæminu, hann hefur litið á sig sem fulltrúa fyrir byggðarlagið í heild og yfirleitt hafa menn, þó að þeir hafi verið andstæðingar hans, getað snúið sér til hans með alls konar fyrirgreiðslu. Hvert byggðarlag á sína sögu og það befur háð sína baráttu. Það hefur unnið sína sigra og beðið sína ósigra. Mörg þeirra eiga ákaflega lítið sameiginlegt. Þessi kjördæmaskipun hefur verið í heila öld að mótast. Fólkið hefur verið ánægt með hana. Það hafa tiltölulega litlar kröfur komið fram um breytingar. Húnvetningar óskuðu þess t.d. á sínum tíma, að sýslunni væri skipt. Þetta var gert. Nú er slegið saman fjórum og fimm kjördæmum án þess að minnast nokkuð á það við fólkíð í byggðarlögunum. Það er ekki tekið tillit til vilja þess, því að það er vitanlegt, að þó að þessar kosningar væru látnar fara fram, gætu þær ekki haft úrslitaáhrif. Raunverulegar skoðanir fólksins á þessu máli komu alls ekki fram. Þessu hafa sjálfstæðismenn algerlega gengið fram hjá.

Ég lýsti því áðan, að í a.m.k. 11 kjördæmum úti á landi hefur komið í ljós, að það er hreinn meiri hluti á móti kjördæmabreytingunni. Það eru líkur til, að það séu 9 í viðbót, þar sem meiri hlutinn er á móti þessari kjördæmaþreyt. Sjálfstæðismenn hafa ekkert tillit tekið til þess. Þeir hafa leitað til kommúnistanna að brjóta vilja fólksins úti í byggðarlögunum á bak aftur. Þetta er dálítið vafasamur hlutur. Auk þess hefur þessi kjördæmaskipun það í för með sér, að grundvöllur skapast fyrir fleiri flokka og við vitum, að í framkvæmdinni verður verr hugsað um hinar dreifðu byggðir. Þingmennirnir kynnast kjósendunum ekki eins mikið og kjósendurnir fá ekki eins góða fyrirgreiðslu og þeir hafa fengið hjá sínum þm. undanfarið. Flokkavaldið eykst, en áhrif einstaklinga minnka. Þessu bera sjálfstæðismenn vitanlega höfuðábyrgð á. Bændafulltrúana notuðu sjálfstæðismenn til þess að túlka þetta mál fyrir fólkinu í dreifbýlinu. Þetta voru mætir menn. Þeir höfðu notið trausts og virðingar í heimahéruðum sínum. Það var gott að beita þeim fyrir vagninn. Það var í raun og veru eðlilegt, að fólkið í dreifbýlinu hlustaði á þá, en þegar formaður Sjálfstfl. var búinn að nota þá til þess, þá stakk hann þeim inn í kæliskáp, og 1. þm. Reykv, af meðfæddri reglusemi lét skápinn aftur, og þar eru þeir geymdir og nú á Sjálfstfl. engan bændafulltrúa á þingi.