21.07.1959
Sameinað þing: 1. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 1. kjördeildar (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. 1. kjördeild hefur haft til athugunar kjörbréf þeirra hv. þm., sem eiga sæti í 3. kjördeild og eru það eftirtaldir þingmenn: Ágúst Þorvaldsson, 1. þm. Árn., Bjarni Benediktsson, 1. þm. Reykv., Björgvin Jónsson, þm. Seyðf., Björn Ólafsson, 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, 3. þm. Reykv., Emil Jónsson, 4. landsk. þm., Friðjón Skarphéðinsson, 11. landsk. þm., Gísli Jónsson, þm. Barð. Á hans kjörbréf minnist ég frekar síðar. Gunnar Thoroddsen, 6. þm. Reykv., Halldór Ásgrímsson, 2. þm. N-M., Halldór E. Sigurðsson, þm. Mýr., Hannibal Valdimarsson, 1. landsk. þm., Ingólfur Jónsson, 1. þm. Rang., Lúðvík Jósefsson, 10. landsk. þm., Óskar Jónsson, þm. V-Sk., Sigurður Ágústsson, þm. Snæf., Vilhjálmur Hjálmarsson, 2. þm. S-M.

Við þessi kjörbréf er ekkert að athuga, að því er kjördeildin álitur. En eftir að hún hafði lokið fundi, var mér afhent útskrift úr gerðarbók yfirkjörstjórnar Barðastrandarsýslu ásamt einum ágreiningsseðli í lokuðu umslagi. Virðist vafasamt um þrjú atkvæði greidd í Barðastrandarsýslu. Á einn utankjörstaðaseðil hefur vantað undirskrift kjósandans. Í öðru tilfelli er kona að nafni Lýdía, sem ekki virðist eftir útskriftinni fullvíst hvort hefur kosið einnig annars staðar, og svo er vafaseðillinn, sem hér fylgir með, það er utankjörstaðarseðill, og þar stendur nafnið Gísli Sveinsson, það vildi meiri hluti kjörstjórnar taka gilt sem Gísli Jónsson. Hér virðist ekki vera nema um þrjú atkvæði að ræða, en ef ég man rétt, þá var 11 atkvæða munur á þingmanninum og þeim frambjóðanda, sem hlaut næstflest atkvæði og virðist því ekki ástæða til annars, en að taka kjörbréfið gilt, hvernig sem menn annars líta á þessi þrjú vafaatkvæði. Er það því tillaga kjördeildarinnar, að öll þessi kjörbréf séu tekin gild.