21.07.1959
Sameinað þing: 1. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 2. kjördeildar (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. 2. kjördeild hefur haft til rannsóknar kjörbréf þeirra hv. þm., sem sæti eiga í 1. kjördeild, en það eru þessir þingmenn: Ásgeir Bjarnason, þm. Dal., Bernharð Stefánsson, 1. þm. Eyf., Björn Fr. Björnsson, 2. þm. Rang., Björn Jónsson, 8. landsk. þm., Gunnar Gíslason, 2. þm. Skagf., Gunnar Jóhannsson, 3. landsk. þm., Hermann Jónasson, þm. Str., Jón Árnason, þm. Borgf., Jónas G. Rafnar, þm. Ak., Karl Guðjónsson, 7. landsk. þm., Karl Kristjánsson, þm. S-Þ., Kjartan J. Jóhannsson, þm. Ísaf., Matthías Á. Mathiesen, þm. Hafnf., Ólafur Thors, þm. G-K., Ragnhildur Helgadóttir, 8. þm. Reykv., Sigurður Ó. Ólafsson, 2. þm. Árn., Steindór Steindórsson, 9. landsk. þm., og Þorvaldur Garðar Kristjánsson, þm. V-Ísf.

Fyrir kjördeildinni hafa legið kjörbréf frá öllum þessum þm. að einum undanskildum, Bernharð Stefánssyni, 1. þm. Eyf., sem ég vík að á eftir. Þau kjörbréf, sem lögð hafa verið fyrir deildina, eru í réttu formi og lögum samkvæmt, og deildin taldi ekkert við þau að athuga. Frá Bernharð Stefánssyni, 1. þm. Eyf., hefur ekki komið kjörbréf, en hins vegar liggur fyrir staðfest símskeyti frá formanni yfirkjörstjórnar um það, að hann hafi verið rétt kjörinn og það hafi verið gefið út kjörbréf til handa Bernharð Stefánssyni og fyrir því munu vera fordæmi, að slíkt hafi verið talið fyllilega gilt.

2. kjördeild leggur því til, að öll þessi kjörbréf, sem hún hefur fengið til athugunar og eru kjörbréf, eins og ég sagði áðan, þeirra hv. þm., sem eiga sæti í 1. kjördeild, verði tekin gild.