23.07.1959
Neðri deild: 3. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki við þessa umr. málsins ræða ákaflega mikið um efni frv. sjálfs, þó að ég muni sennilega víkja nokkuð að því innan um annað, sem ég vildi taka fram í sambandi við þetta mál allt saman og meðferð þess. En á hinn bóginn mun ég aðallega ræða um það viðhorf, sem nú hefur skapazt í þessu máli og almennt eftir þær kosningar, sem nú hafa farið fram.

Ég vil fyrst leyfa mér að minna hv. alþm. á það, að í stjórnarskránni stendur, að engin stjórnlagabreyting skuli öðlast gildi, nema fram fari almennar kosningar, eftir að hún hefur verið samþ. fyrra sinn, og að hún verði síðan samþ. óbreytt aftur eftir þær.

Nú er spurningin: Til hvers er þetta ákvæði sett í stjórnarskrá landsins? Til hvers er það sett? Hvers vegna er ákveðið í sjálfri stjórnarskránni, að almennar kosningar skuli fara fram, undireins og samþykkt hefur verið á hæstv. Alþ. að breyta henni? Auðvitað er þetta sett í stjórnarskrána eingöngu til þess að tryggja það, að engin önnur ákvæði verði í stjórnarskrána lögfest en þau, sem almenningur í landinu getur fellt sig við, sem almenningur í landinu er samþykkur og þá að lokinni þeirri prófun, sem í almennum alþingiskosningum felst og eftir þeim reglum, sem þá gilda um almennar kosningar til Alþingis, bæði varðandi kjördæmaskipun og annað.

Þetta þýðir, að ef allt fer fram með felldu, þá eiga kosningar, sem þannig er til stofnað, að verða í reyndinni eins konar þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreyt., sem þá og þá er á döfinni, þjóðaratkvæðagreiðsla, sem fer fram í formi almennra alþingiskosninga og samkvæmt þeim reglum um kjördæmaskipun og annað, sem í gildi eru. Þetta er sett í stjórnarskrána til varúðar og til tryggingar því, að engir þingmenn eða stjórnmálaflokkar geti komið við breyt. á stjórnskipun landsins, án þess að þær breyt. séu hreinlega undir þjóðina bornar, — að það sé ekki hægt að koma aftan að mönnum, að þm. eða þing, sem kosið er til þess að fást við allt önnur málefni og eftir allt öðrum sjónarmiðum en því, hversu stjórnarskrár skuli vera, geti ekki gengið til fullnustu frá stjórnarskrárbreytingu, — almenningur í landinu eigi að fá að segja sitt orð um stjórnarskrárbreytinguna í þessu formi.

Nú er ekki því að leyna, að það hefur undanfarið komið í ljós rík tilhneiging hjá stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum til þess að fara á bak við þetta ákvæði stjórnarskrárinnar og þá með því móti að taka upp og beita sér fyrir breytingum á stjórnskipun landsins, sem þeim er mjög vel kunnugt um að eiga hæpið fylgi með þjóðinni og hæpið fylgi jafnvel hjá þeirra eigin flokksmönnum, en segja síðan við menn: Þið verðið að samþykkja þetta, vegna þess að flokkurinn hefur tekið þetta upp. Það er flokksleg skylda ykkar að fylgja ykkar eigin flokki og þess vegna er ykkur skylt að sætta ykkur við þessa stjórnarskrárbreytingu, því að flokkurinn hefur ákveðið að beita sér fyrir henni. — Þessi tilhneiging hefur komið fram hvað eftir annað og í skjóli flokksbandanna hefur hver stjórnarskrárbreytingin verið samþykkt af annarri á Íslandi, sem mjög hæpið fylgi hefur verið fyrir meðal þjóðarinnar, að ég ekki fullyrði, að sumar af þeim hafa verið þannig vaxnar, að meiri hluti þjóðarinnar hafi raunverulega verið á móti þeim, en þeim hafi verið þvingað upp á menn í krafti flokksvaldsins.

Einmitt af því, að nokkur hætta virtist vera á því og hún raunar ekki lítil og má fullkomlega orða það þannig, að einmitt núna í sambandi við fyrirhugaða stjórnarskrárbreytingu yrði enn einu sinni farið svona að, reyndu framsóknarmenn á síðasta Alþ. að ná samkomulagi um það við þá, sem standa að þessari stjórnarskrárbreytingu, að sett yrði inn í stjórnarskrárfrv. í Ed. eitthvert ákvæði eftir samkomulagi, sem tryggði, að þessi stjórnarskrárbreyting eða sá þáttur hennar sérstaklega, sem lýtur að því að yfirgefa byggðastefnuna í kjördæmamálinu og taka upp flokkastefnuna, þ.e.a.s. sá þáttur hennar að leggja niður öll héraðakjördæmin utan Reykjavíkur, að sá þáttur hennar öðlaðist ekki gildi, nema hann væri samþykktur í sérstakri atkvæðagreiðslu, sem ekki blandaðist inn í almennar kosningar eða neitt annað og þannig væri tryggt, að hér yrði ekkert gert á móti vilja fólksins í þeim kjördæmum, sem eiga hlut að máli.

En því miður vildu þeir flokkar, sem að þessu standa, ekki við þessari málamiðlunartilraun líta og hlaut því svo að fara, að þeir gátu ráðið því, að engin sérstök atkvæðagreiðsla færi fram um þessi efni, heldur yrði hér að fara eftir þeim almennu ákvæðum um alþingiskosningar, eftir að stjórnarskrárbreyting hafði verið samþykkt fyrra sinni.

Mönnum var yfir höfuð ljóst þá strax, hvernig á því stóð, að flokkarnir treystu sér ekki til þess að fallast á þessa aðferð. Ástæðan var sem sé augljós, en kom þó miklu betur í ljóssíðar og með ófyrirleitnara móti en jafnvel við, sem ekki höfum allt of mikla trú á samvizkusemi sumra þeirra, sem hér standa fyrir málum, höfðum viljað gera ráð fyrir.

En ástæðan fyrir því, að þetta varð ekki, var augljóslega sú, að þeim, sem stóðu fyrir þessu máli, varð ljóst, að það var stórfelld andstaða gegn einu höfuðatriðinu í þeirri breyt., sem fyrirhuguð var og það var einmitt þetta: að yfirgefa byggðastefnuna í kjördæmamálinu og taka upp flokkastefnuna í staðinn, fórna rétti byggðanna fyrir það, sem kallað var réttur stjórnmálaflokkanna. Það var þetta: að leggja héraðakjördæmin niður og stíga þannig fyrsta skrefið í þá átt að afnema héraðaskipulagið, sem þjóðin hefur byggt á frá öndverðu.

Þeim, sem stóðu fyrir þessu máli, varð ljóst, að mikill meginþorri manna víðs vegar um landið var í raun og veru á móti þessu. Þess vegna var ekki hægt að þeirra dómi að láta fara fram um það sérstaka atkvgr. Hitt var þeim ljóst, sem hér að standa, að annar meginþátturinn í þessu máli, sem sé sá að leiðrétta misræmið, sem orðið var, vegna þess að fólkið hafði flutzt til í landinu inn á þéttbýlissvæðin, þeim var ljóst, að þessi þáttur í málinu olli ekki ágreiningi, enda greinilegt, að Framsfl. lagði fram miðlunartillögu um málið, sem var beinlínis byggð á því, að þessi leiðrétting skyldi verða á þann hátt, þ.e.a.s., það skyldi fjölga jafnmikið þm. í þéttbýlinu eins og forgöngumenn málsins lögðu til.

Um þennan þátt í málinu var þess vegna ekki raunverulegur ágreiningur, en ágreiningurinn og baráttan hefur staðið um hitt, hvort það ætti að leggja héraðakjördæmin niður eða ekki, hvort það ætti að láta rétt byggðarlaganna fyrir rétt flokkanna. Og vegna þess að þeim, sem fyrir þessu máli stóðu og standa; var ljóst, að það mundi vera óhugsandi að fá menn til þess að samþykkja þennan þátt, ef hann væri undir menn borinn sér í lagi, þá fengust því miður engar undirtektir undir þá uppástungu framsóknarmanna, að um þetta færi fram sérstök atkvgr.

Afstaða þeirra, sem fyrir málinu standa, var byggð á því að reyna að þvinga þennan þátt í málinu fram með því að notfæra sér hollustu manna við stjórnmálaflokkana í landinu, reyna að fá menn til þess að kjósa þá menn á þing, sem stóðu fyrir kjördæmabreytingunni, af því að þeir væru þeirra flokksmenn og hefðu skyldar skoðanir og þeir um þjóðmálin almennt, — reyna að fá menn til þess að gera þetta, þó að menn væru andvígir þeirri meginbreytingu, sem hér átti að gera á stjórnarskrá landsins.

Það var beygur í mönnum um það fyrir þær kosningar, sem nú hafa átt sér stað, að ætlunin væri að hafa þetta svona og það staðfestist og vel það í þeirri kosningabaráttu, sem háð var á þessu vori.

Menn hefðu átt að mega ætla, að allir þeir, sem hér eiga hlut að máli, hefðu getað verið sammála um að virða ákvæði stjórnarskrárinnar og segja hreinskilnislega það, sem satt var:

að þessar kosningar snerust um það eitt, hvort menn vildu samþykkja þessa breyt. á stjórnarskránni eða ekki. Menn skyldu halda, að það væri lágmarkið, að menn gætu sameinazt um að segja mönnum satt um þetta, að þannig væri þessu varið, þegar það líka var augljóst, að þetta aukaþing mundi fyrst og fremst fjalla um þetta, hvort ætti að endursamþykkja stjórnarskrárfrv. óbreytt eða ekki.

En því var nú ekki að heilsa, að þeir, sem standa fyrir þessu máli, hefðu drengskap eða djörfung eða þá trú á málstaðnum, að þeir legðu málið fyrir á þessa lund. Því miður. Öðru nær. Þeir gengu bæ frá bæ, hús úr húsi um allt Ísland og sendu sína menn bæ frá bæ og hús úr húsi um allt Ísland til þess að telja mönnum trú um, að þessar kosningar ættu að snúast um allt annað en stjórnarskrárbreyt., en kjördæmamálið og þeir sendu sína menn á þessar stöðvar, ekki til þess að biðja menn að gera sér glögga grein fyrir stjórnarskrármálinu og taka afstöðu til þess, eins og þeim var skylt að gera samkvæmt stjórnarskránni, heldur báðu þeir menn um að íhuga ekki kjördæmabreytinguna, íhuga ekki stjórnarskrármálið, en kjósa eftir viðhorfi sínu til flokkanna almennt. Og þeir báðu menn um að kjósa þá menn á þing, sem ætluðu að fara þangað til þess eins að afnema kjördæmin, þó að menn væru í hjarta sínu á móti því að leggja kjördæmi sitt niður.

Þetta eru ekki fagrar aðfarir. En þetta er satt. Og hver einasti maður í þessum sal veit, að þetta er satt. Hér vantaði svo gersamlega trúna á málstaðinn, trúna á það, sem kallað er réttlæti, að ekki einn einasti af forgöngumönnum þessa máls mun hafa haft djörfung eða einurð til þess að koma drengilega fram og segja: Kjósið mig því aðeins, að þið viljið, að ég greiði atkvæði með stjórnarskrárbreytingunni; ef þið eruð annarrar skoðunar, en ég, um stjórnarskrárbreytinguna, þá eigið þið að sjálfsögðu samkvæmt stjórnskipunarlögum landsins að haga atkvæði ykkar í þetta sinn eftir því. — Enginn, ekki einn einasti af talsmönnum þeirra flokka, sem standa fyrir þessu máli, mun hafa haft djörfung eða einurð til þess að koma þannig fram.

Það voru hin furðulegustu vinnubrögð, sem höfð voru, til þess að reyna að koma í veg fyrir það, að þjóðarviljinn kæmi raunverulega fram um stjórnarskrárbreytinguna. Það var sagt við menn á framboðsfundunum: Þetta mál, það er í raun og veru afgert mál. Flokkarnir þrír hafa samið um það. — Það var talað um flokkana eins og eitthvert afl, sem væri utan og ofan við alla kjósendur í landinu. Flokkarnir hefðu ákveðið þetta og það væri þar með orðið eins konar lögmál, sem þegar væri komið í gildi. Menn skyldu ekki hafa áhyggjur af því meir. Ekki hugsa um það meir. Menn skyldu kjósa eftir því, hvað þeir álitu um frammistöðu vinstri stjórnarinnar, hvað þeir álitu um vinstra samstarf framvegis o.s.frv.

Kem ég ofur lítið að því síðar, hvernig það kemur svo heim við það, sem nú þegar hefur gerzt á Alþingi, að ég nú ekki tali um framhaldið, sem eftir á að koma í ljós.

Við menn, sem voru mótfallnir þessari breytingu, var viðhafður hinn furðulegasti málflutningur. Það var krafizt hollustu við flokkinn. Var farið til manna og sagt: Jú, þú ert kannske á móti stjórnarskrárbreytingunni, en þú ferð þó ekki að kjósa Framsókn. Ekki ertu framsóknarmaður? Þú ferð ekki að kjósa Framsókn. — Og þannig var reynt með öllu hugsanlegu móti að fá menn til þess að kjósa ekki eftir stjórnarskrárbreytingunni og kjósa þá menn á þing, sem þeir voru algerlega andvígir í stjórnarskrármálinu.

Og þannig var vitanlega haldið á málinu algerlega af ásettu ráði, eins og ég greindi frá í upphafi, því að ef það hefði átt að koma frjálst og drengilega að mönnum í þessu máli og skilja það út úr öðrum málum, eins og heiðarlegt hefði verið og raunar skylt, eins og vinnubrögðum er hér háttað í pólitíkinni, þá hefði verið alveg óhugsandi, að þessi þáttur málsins gæti orðið lögfestur.

Það vita allir þingmenn inni á sér, að þetta er rétt. Svona er þessu varið. En hafa menn svo ekkert samvizkubit? Það getur hver svarað fyrir sig. Hafa menn ekkert samvizkubit af því að vera kosnir með þessu móti á þing, vita alveg upp á hár, hvað inni fyrir býr raunverulega hjá fjölda þess fólks, sem hefur kosið þá og ætla svo að ganga hiklaust að því að samþykkja þá breytingu, sem hér liggur fyrir, á kjördæmaskipun landsins?

Auðvitað eru ekki allir þannig gerðir eða það miklir flokkamenn í þessu landi, að það tækist að fá þá til þess að líta fram hjá stjórnarskrármálinu, sem raunverulega átti að kjósa um. Einn og einn maður, sem ekki hafði fylgt Framsfl. að málum áður, lýsti því yfir opinberlega, að hann teldi sjálfsagt að kjósa eingöngu til aukaþingsins miðað við afstöðuna í stjórnarskrármálinu. Það voru þó nokkrir menn, sem gáfu slíkar yfirlýsingar. Hvernig urðu viðbrögð þeirra, sem fyrir þessu máli standa, gagnvart þessum mönnum? Sumir af þessum mönnum voru hreinlega ofsóttir og reynt með öllu mögulegu móti að fá þá til þess að falla frá því að miða afstöðu sína í kosningunum við málið, sem átti að kjósa um — voru hreinlega ofsóttir.

Þannig var að þessu staðið á allan hátt. Allt gert, sem hugsanlegt var til þess að reyna að koma í veg fyrir, að hinn rétti vilji manna í stjórnarskrármálinu kæmi fram í kosningunum. Með þessu, með því að ljá ekki máls á því, að farið gæti fram sérstök atkvæðagreiðsla um þennan umdeilda þátt í kjördæmamálinu, þá settu forustumenn stjórnarskrármálsins sína flokksmenn yfirleitt af ásettu ráði í sjálfheldu. Þeir settu þá, í þá sjálfheldu að þurfa annaðhvort að kjósa þá, sem annars voru stjórnmálaandstæðingar þeirra áður, framsóknarmenn, á þing eða greiða atkvæði á móti sannfæringu sinni í stjórnarskrármálinu.

Og þeir gerðu þetta alveg að yfirlögðu ráði, því miður, forustumenn þessara flokka, að setja menn í þessa sjálfheldu, í því trausti, að nægilega margir mundu kinoka sér við að kjósa andstæðinga sína á þingið út af stjórnarskrármálinu. Og það má segja, að samkvæmt því, sem nú liggur fyrir, hafi þeim tekizt þetta. Þeim hefur tekizt að koma í veg fyrir, að nægilega margir af stuðningsmönnum stjórnarskrármálsins yrðu hreinlega felldir í kosningunum, til þess að hægt væri að stöðva það á Alþingi.

En ég segi, að ef þetta er sigur í stjórnarskrármálinu, þá er hann vægast sagt illa fenginn. Þá er hann vægast sagt illa fenginn og viðhorfið í málinu þannig, eins og ég mun koma að síðar, að full ástæða er til þess að gefa því gaum, hvað nú kynni að vera hægt að gera til þess að ráða nokkra bót á þeim mistökum, sem óneitanlega hafa orðið varðandi meðferð málsins og allan aðdraganda. En áreiðanlega er enn þá hægt að finna leiðir til þess að bæta úr þessu, ef menn vilja leggja sig fram um að leita eftir vilja manna í sjálfu stjórnarskrármálinu.

Ég vil þá aðeins víkja í sambandi við kosningabaráttuna örfáum orðum að því, hvernig hún var háð, hvaða aðferðir notaðar voru til þess að fá menn til að beina athygli sinni frá því,. sem átti að gerast.

Ég vil fyrst víkja að Sjálfstfl. í þessu sambandi og kosningabaráttu hans með örfáum orðum.

Sjálfstæðismenn sögðu: Það á ekki fyrst og fremst að kjósa um stjórnarskrármálið. Kjörorðið er: Aldrei framar vinstri stjórn. — Það er svo út af fyrir sig, að þetta kjörorð vó áreiðanlega ekki mikið í kosningabaráttunni, því að sannleikurinn er sá, að mjög mikill þorri manna víðs vegar um landið vildi raunverulega, að vinstri stjórnin hefði getað haldið áfram. Þetta var því áreiðanlega ekki sérlega vel heppnað kosningaávarp af hendi Sjálfstfl. En þetta átti nú að vera kröftugt eftir þeirra skilningi og átti að vera til þess að leiða athyglina, eins og annað, frá því, sem raunverulega átti að kjósa um.

Enn fremur reyndu sjálfstæðismenn, eins og þeir hafa reynt á undanförnum árum, að láta líta á sig sem eins konar krossferðarriddara gegn kommúnistum. Annar höfuðtalsmaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Reykv., hefur nú um mörg ár viljað láta líta á sig sem aðalforustumann í baráttunni gegn kommúnismanum á Íslandi og hefur þetta verið eitt megininnihald öðrum þræði í öllum hans málflutningi, bæði í ræðu og riti árum saman.

En íhugum nú ofurlítið, hvað það, sem nú þegar hefur gerzt hér á hv. Alþingi, er í góðu samræmi við þennan málflutning af hendi Sjálfstfl. í kosningunum og nú undanfarið. Ég sá ekki betur en hv. 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, gengi hér í forsetastól sameinaðs þings í gær, kosinn af kommúnistum. Og ég sá ekki betur en þessi hv. þm. og allt hans lið gengi hér í gær að því að kjósa höfuðbaráttumann kommúnismans á Íslandi í aðaltrúnaðarstarf neðri deildar Alþingis, sem forseta neðri deildarinnar.

Þetta er víst fyrsta skrefið í þá átt að uppfylla kosningakjörorð Sjálfstfl. í síðustu kosningum, sem sá flokkur sagði höfuðatriðið, en stjórnarskrármálið eða kjördæmamálið skipti minna máli.

Við vitum öll svona hér um bil, hvað hv. 1. þm. Reykv. hefur á undanförnum árum sagt um hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson og starfsemi hans hér á Íslandi. Ég ætla ekki að fara að hafa það eftir, því að sumt af því, sem hann hefur sagt um þennan hv. þm., er ekki einu sinni þinghæft. Við vitum öll svona hér um bil, hverju hann hefur haldið fram um þetta. En hann er ekki fyrr kominn nú inn á þingið úr þessari kosningabaráttu, en hann gengur með allan flokk sinn í það að kjósa þennan hv. þm., aðalbaráttumann kommúnismans á Íslandi, í aðaltrúnaðarstöðu í neðri deild Alþingis, og leitar jafnframt stuðnings kommúnistanna til þess að verða sjálfur kjörinn sem forseti sameinaðs þings.

Þetta er ekki mjög óskemmtilegur kafli í stjórnmálasögu hv. 1. þm. Reykv. eftir allt, sem hann hefur sagt og það m.a. um Framsfl. fyrir starf hans að vinstri stjórninni og vinstra samstarfinu, að ganga hér í forsetastól sameinaðs þings, kominn þangað fyrir tilstilli kommúnista og á þann hátt að kjósa í staðinn aðaloddvita kommúnistanna á Íslandi í forsetastól neðri deildar.

Mig rekur ekki minni til þess, að það hafi verið nokkuð vikið að því í kosningabaráttunni núna í vor, að það væri þetta, sem stæði til. Mig rekur ekki minni til þess. Mig rekur ekki minni til þess, að það hafi verið nokkuð að því víkið í kosningamálflutningi sjálfstæðismanna, að það ætti að verða fyrsta verk þeirra, nú þegar þeir kæmu á þingið, að gera náið bandalag við kommúnistana um þingstörfin og raunverulega um stjórnarstefnuna þar með. Þeir létu þvert á móti kjósa sig á þing sem eins konar krossferðarriddara gegn kommúnismanum og til þess að koma í veg fyrir það, eins og þeir sögðu, að nokkurn tíma yrði framar vinstri stjórn á Íslandi.

Á þessu sjáum við svona hér um bil, hversu kosningabaráttan var heiðarlega háð af hendi þessa flokks — eða hitt þó heldur.

Alþýðubandalagið háði þessa kosningabaráttu einnig þannig, að það átti alls ekki að kjósa um kjördæmamálið, það var afgreitt mál og menn skyldu ekkert vera að brjóta heilann um það, það væri búið að ráða fram úr því fyrir menn. En það var annað, sem menn áttu að kjósa um. Menn áttu að kjósa m.a. um það, hverjum þeir tryðu bezt til þess að hafa skelegga forgöngu um vinstra samstarf á Íslandi. Og menn áttu einnig í kosningunum að verðlauna Alþb. fyrir það, hversu heilt það hefði verið í vinstra samstarfinu á undanförnum árum. Alþb. hefði viljað halda vinstra samstarfinu áfram, en aftur á móti hefði Framsfl. verið óheill í því samstarfi og slitið því að ófyrirsynju. Um þetta skyldu menn kjósa, því að nú ætti að fara til þings til þess að efla vinstra samstarfið í landinu. Kjördæmamálið var aukaatriði. Það var eins og það ætti bara alls ekki að koma neitt meira við sögu. Nú ætti að kjósa til þings menn, sem væru skeleggir í því að efla vinstra samstarf í landinu.

En hvað hefur gerzt. Þessir hv. þm., sem báðu menn að kjósa sig á þing til þess að gera þetta, sem ég var að lýsa, þeir hafa nú, undireins og þingið kom saman, gert fullkomið bandalag við Alþfl. og Sjálfstfl. og kosið þá menn í æðstu trúnaðarstöður á Alþingi, sem hafa lýst því yfir sem höfuðstefnumáli sínu og aðaláhugamáli, að aldrei framar geti orðið vinstra samstarf á Íslandi, — kosið þann mann til forseta sameinaðs þings, sem þetta hefur gert að sínu höfuðmáli, var mestur andstæðingur vinstra samstarfs og allra manna mest gerði til þess að grafa undan því grunninn.

Ég man ekki til þess, að það hafi nokkur orð fallið í kosningabaráttunni, sem gátu gefið það í skyn, að það væri þetta, sem ætti að ske. Ég man ekki til þess. Þvert á móti man ég eftir því, að það var farið hinum háðulegustu orðum um allt framferði einmitt Alþfl. og Sjálfstfl. í sambandi við aðfarir þeirra flokka á undanförnum mánuðum. Þessum aðförum voru falin hin hæðilegustu orð tungunnar. En nú er bara gengið í þetta bandalag tafarlaust, þegar búið er að kjósa. Og þetta gera þeir, sem sögðu, að það ætti að kjósa núna eftir því, hversu vel mönnum væri treystandi til forustu um vinstra samstarf í landinu.

Það var enn fremur í þessum kosningum af sumum minnzt talsvert mikið á landhelgismálið og þá alveg óspart útdeilt vitnisburðum í landhelgismálinu. Sumir fengu mjög lélega vitnisburði í landhelgismálinu af hendi forustumanna Alþb. t.d., aðrir aftur nokkru skárri. Og það var sagt, að það ætti líka að kjósa um þetta. En ég sé ekki betur, en það sé eitt fyrsta verk þessara manna, sem þannig héldu á málinu í kosningabaráttunni, að kjósa þá menn í utanrmn. þingsins, sem lélegasta vitnisburði fengu hjá þeim sjálfum í landbelgismálinu.

Þar með er ég ekkert að dæma um þá vitnisburðagjöf, sem fram fór, en ég er bara að sýna heilindin. Ég er bara að sýna fram á heilindin í sambandi við kosningabaráttuna annars vegar, hvernig hún var rekin og hvað fólkinu var sagt, að um væri verið að kjósa, af hendi sjálfstæðismanna og af hendi Alþýðubandalagsmanna, og svo hitt, hvað byrjað er að gera, og er það þó aðeins byrjunin.

Satt að segja man ég ekki vel, hvað Alþfl, sagði að ætti að kjósa um. Ég held, að það hafi verið eitthvað á þá lund, að það ætti að kjósa um afrek hæstv. ríkisstj. Hafi það verið, þá hefur uppskeran verið nokkuð eftir því og þarf í raun og veru ekki að hafa um það miklu fleiri orð. Það var náttúrlega ekki von, að það vekti hrifningu meðal þjóðarinnar, hvernig á málum hefur verið haldið í sambandi við stjórnarmyndunina og framkoma Alþfl. eða þeirra afla, sem þar hafa ráðið undanfarið, enda varð ekki svo. En hvað sem var aðalatriðið í því, sem Alþýðuflokksmenn héldu fram, þá er það eitt víst, að þeir reyndu jafnmikið og hinir að halda því á lofti, að það væri ekki raunverulega kosið um það að leggja kjördæmin niður.

Það áttu allir forráðamenn stjórnarskrármálsins sammerkt að gera allt, sem þeir gátu, til þess að koma í veg fyrir, að það yrði raunverulega kosið um stjórnarskrármálið.

Þannig fór kosningabaráttan fram. Þannig var kosið til aukaþingsins, sem átti að hafa það eitt verulegt verkefni að samþykkja stjórnarskrárbreyt. eða hafna henni. Þannig var framkoma þeirra, sem fyrir þessu máli standa, í kosningabaráttunni og þannig lögðu þeir málin fyrir þjóðina. En núna, hvað segja forráðamenn þessara stjórnmálaflokka núna? Eftir að þeir eru mánuðum saman búnir að flytja málin á þá lund, sem ég var að lýsa, segja þeir nú: Það er búið að greiða atkvæði um stjórnarskrármálið. Kosningarnar voru eins konar þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrármálið, eins og átti að vera, skilst manni nú á þeim. Og það kemur í ljós, segja þeir, og eru bara hreyknir, að þrír af hverjum fjórum Íslendingum eru sammála okkur í stjórnarskrármálinu. Þó vita þeir, að stórkostlega mikill hluti þess fólks, sem ýmist sat heima eða gerði það fyrir þrábeiðni þeirra og ýmislegt annað að kjósa ekki eftir stjórnarskrármálinu, er raunverulega algerlega mótfallinn því að leggja héraðakjördæmin niður.

Samt sem áður segja þeir nú: Það hefur farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla um kjördæmamálið, og skoðanir landsmanna á því máli hafa komið fram. — Og svo er því bætt við, að nú eigi engin mál að taka fyrir á aukaþinginu nema kjördæmamálið. Ekki var þetta tekið fram í kosningabaráttunni, alls ekki. Það var ekki verið að halda þessu á lofti þá, að það ætti ekki að fjalla um neitt nema kjördæmamálið. Öðru nær, menn áttu bara yfir höfuð ekki að kjósa um kjördæmamálið. Það átti að fjalla um vinstra samstarf eða ekki, það átti að fjalla um baráttuna gegn kommúnismanum, menn áttu að kjósa eftir því, o.s.frv., o.s.frv. Menn áttu að kjósa eftir því, hvað þeir álitu um meginstefnu flokkanna. Það var þetta, sem menn áttu að fara á þing til þess að fjalla um, eftir því sem kosningabaráttan var háð.

En jafnskjótt og búið er að setja atkvæðaseðlana ofan í kjörkassana, þá segir öll þessi hersing í kór: Það á ekki að taka neitt fyrir nema kjördæmamálið, alls ekki neitt. Það var bara kosið um kjördæmamálið og á ekki að fjalla um neitt nema kjördæmamálið. Hitt kemur þessu ekkert við. Og þeir bæta við: Þjóðin hefur greitt atkvæði um kjördæmamálið. — En halda þeir nú ekki, að það geti skeð, að einhverjum fleirum en mér, finnist þetta skrýtið og dálítið óviðeigandi og er ekki hugsanlegt, að það kviknaði í einhverjum út af svona löguðu, út af þeirri fyrirlitningu á fólki, sem raunverulega kemur fram í svona framkomu og málflutningi? Það kalla ég fyrirlitningu að ganga fyrst að því nokkrar vikur með þeim málflutningi, sem gert var og segja síðan, þegar búið er að kjósa: Það var kosið um kjördæmamálið. Þetta var eins konar þjóðaratkvæðagreiðsla um kjördæmamálið og það á ekkert annað að taka fyrir en kjördæmamálið. — Hæstv. forsrh. sagði hér um þetta atriði áðan og það var ekkert verið að skafa utan af því, ég skrifaði orðrétt eftir honum þessi orð: Það má því með sanni segja, að þjóðin hafi látið ótvírætt í ljós vilja sinn um stjórnarskrárbreytinguna. — Já, það má nú segja. Það má því með sanni segja, að þjóðin hafi látið í ljós ótvírætt vilja sinn um stjórnarskrárbreytinguna.

Nei, því miður fór þannig, að áróður flokkanna og starf þeirra með ótalmörgu móti til þess að reyna að koma í veg fyrir, að frjáls skoðanamyndun ætti sér stað um kjördæmamálið, að þessar ráðstafanir flokkanna urðu til þess, að kosningarnar snerust ekki fyrst og fremst um stjórnarskrármálið, eins og þær áttu að gera. Á hinn bóginn er ljóst af þeirri breytingu, sem varð í kosningunum og sérstaklega af fylgisaukningu Framsfl., að alda reis á móti kjördæmabreytingunni og að flokkunum tókst alls ekki að koma í veg fyrir, að það sæist á kosningaúrslitunum. Og sannleikurinn í þessu máli er sá, að ef vinna ætti að málinu af fullkominni sanngirni, þá sýna kosningaúrslitin það, þegar þau eru á þessa lund, þrátt fyrir allt það, sem lagt var í að koma í veg fyrir, að það kæmi fram, — þá sýna þessi kosningaúrslit, að það er í raun og veru skylt að leita að samkomulagsleið í kjördæmamálinu. Það er skylt. Þessi tilhneiging, sem hefur komið fram í kosningunum, er það rík og hún er það rík sérstaklega þegar tekið er til þess, hversu mikið var reynt að koma í veg fyrir það, að hún kæmi í ljós, að það er skylt að taka málið upp til endurskoðunar og reyna að finna samkomulagsgrundvöll. Og samkomulagsgrundvöllur í þessu máli er til ákaflega einfaldur í þeim málamiðlunargrundvelli, sem Framsfl. hefur flutt. Og það er að fjölga þingmönnunum í þéttbýlinu, en láta héraðakjördæmin standa, falla frá því að leggja héraðakjördæmin niður, gera það til samkomulags. Og það er það, sem nú ætti að ske og nú er í raun réttri skylt að eigi sér stað, að leitað sé að samkomulagi varðandi lausn kjördæmamálsins, þegar það nú hefur komið fram þrátt fyrir allt í kosningunum, að það er mjög mikil andúð á þessari breytingu, sem á að gera og komið hefur fram í kosningaúrslitunum greinileg andstaða gegn málinu, — mjög greinileg.

En ef ekki er hægt að fá samkomulag um að leita að málamiðlunarlausn nú í kjördæmamálinu, þá álít ég, að það eigi að vera eitt aðalverkefni þessa aukaþings að finna leið til þess, að afnám héraðakjördæmanna verði alls ekki samþykkt, verði alls ekki leitt í lög, nema fólkið fái áður að segja álít sitt um það sérstaklega, án þess að blandist inn í flokkadeilur eða nokkur önnur mál. Og mér finnst, að þeim, sem fyrir þessu máli standa, ætti að vera ljúft að vinna að því, að þetta gæti átt sér stað, að menn gætu greitt atkvæði um þetta óþvingaðir af flokkasjónarmiðum eða nokkrum öðrum sjónarmiðum. Þá væri drengilega að þessu máli staðið á alla lund og hefði enginn yfir neinu að kvarta, hvorki meðhaldsmenn málsins né þeir, sem á móti standa. Og þá ættu allir góðviljaðir menn að geta sætt sig við þá niðurstöðu, sem yrði. Þetta vildi ég að yrði alveg sérstaklega tekið til athugunar nú strax í upphafi þessa þings í sambandi við meðferð málsins í hv. nefnd.