04.08.1959
Neðri deild: 9. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan segja hér örfá orð, áður en þetta mál verður afgreitt hér frá d. En áður en ég kem að því, sem að baki því máli liggur, vil ég fara hér aðeins örfáum orðum um það, sem talsmaður þríflokkanna hér á Alþ., hv. 3. þm. Reykv. (EOl), sagði hér almennt um landsmálin. Er það þó satt að segja að bera í bakkafullan lækinn að minnast á það eftir þær ræður, sem haldnar hafa verið, en þó vil ég minnast á það aðeins örfáum orðum.

Hér um daginn steig hv. 3. þm. Reykv. fram til þess að útlista hugsjón sína um vinstra samstarf og það duldist engum, sem hlýddi á, að hugsjón hans um vinstra samstarf var fólgin í því að koma á samsteypustjórn með íhaldinu. Það var niðurstaðan af ræðunni. Allir, sem kunna að hlusta, gátu heyrt, að það var þetta, sem vakti fyrir hv. 3. þm. Reykv. Nú geri ég ráð fyrir því, að ýmsum hafi máske hnykkt nokkuð við þetta, t.d. þeim mönnum. sem hv. 3. þm. Reykv. hefur verið að reyna að fá til fylgis við sig með því að halda því fram, að Alþb. væri sérlega heilt í öllu vinstra samstarfi og líklegasta leiðin til að koma á aftur vinstra samstarfi í landinu væri sú að styðja og efla Alþb. Ég geri ráð fyrir, að mörgum hafi þótt þetta einkennilegt og hv. 3. þm. Reykv. hafi gert sér þetta ljóst og orðið smeykur og haldið e.t.v., að hann hafi farið of langt og hafi ætlað að gera eins konar bragarbót með þeirri löngu ræðu, sem hann flutti hér í dag. En sú ræða var ekkert annað, en nokkrar hnútur til Sjálfstfl. og bullandi skammir um Framsfl., þannig að það var ekkert um að villast, að þó að hv. þm. hafi kannske hugsað sér að halda þá ræðu til þess að reyna að breiða yfir eitthvað ofurlítið af því, sem hann sagði fyrir nokkrum dögum, þá duldist engum, að það var enn ætlunin með þessari ræðu að sýna fram á, að þó að íhaldið væri slæmt, þá væri Framsfl. enn þá verri. Og þess vegna væri auðvitað ályktunin sú, að það væri ekki um annað að ræða, en stefna að samvinnu við Sjálfstfl. Það var mjög auðveit að finna það af ræðunni, að þessi var enn hin sama hugsun hv. þm., þó að hann væri að reyna að breiða yfir þetta af og til með því að tala um, hvað Alþb. og Sósfl. væru sérstaklega skörulegir andstæðingar bæði framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Ef menn hafa verið í nokkrum vafa um það, hvernig skilja bæri þessa langloku hv. þm., þá hefðu menn ekki þurft annað en horfa á hv. þm. Sjálfstfl., t.d. suma liðsodda Sjálfstfl., á meðan hv. þm. var að tala.

Undanfarið hefur ekki orðið annað séð, ef þessir menn hafa tyllt sér hér í stólana, en stólar þeirra væru orðnir að sjóðandi heitri rist. Þeir hafa jafnharðan stokkið upp aftur og verið allir á bak og burt — þangað til hv. 3. þm. Reykv. fór að halda þennan langa fyrirlestur, sem átti að vera eins konar úttekt á Sjálfstfl. og Framsfl., þá sátu þessir hv. þm. í hvíldarstellingum allan tímann, sem hv. 3. þm Reykv. talaði. Það var ekkert um að villast, að þeir fundu, hvað hv. 3. þm. Reykv. meinti og voru mjög rólegir, á meðan hann talaði, eins og ég var að greina frá.

Ég verð að segja, að mér finnast viðbrögð hv. 3. þm. Reykv. út af kosningaósigri Alþb. harla furðuleg og hann virðist ekki hafa gert sér neina grein fyrir því, hvað raunverulega gerðist í alþingiskosningunum. Það, sem gerðist m. a. í alþingiskosningunum í sambandi við Alþb., var þetta, að fólkið fann, að Alþb. eða kommúnistarnir réttara sagt höfðu slitið vinstra samstarfinu ófyrirsynju, þeir höfðu komið vinstri stjórninni fyrir kattarnef. Og það var m. a. þess vegna, sem þeir töpuðu í kosningunum, að fólkið fann það mjög glöggt og greinilega, að það var alveg tómt mál um það að tala, að það væri hægt að fá upp öflugan forustuflokk gegn íhaldi, gegn Sjálfstfl. með því að ætla sér að vefja vinstra fylginu í landinu utan um kommúnistakjarnann. Menn sáu þetta glöggt. Menn sáu óheilindin og menn sáu, hvað hv. 3. þm. Reykv. og þeir, sem fylgdu honum innan Alþb. og Sósfl., höfðu gert, að þeir höfðu enn einu sinni orðið þess valdandi, að ekki var hægt að halda áfram vinstra samstarfi og framkvæmd vinstri stefnu og m.a. af þessum ástæðum beið Alþb. kosningaósigur. Kjördæmamálið kom nokkuð til, en ekkert síður þetta. Og svo geta menn séð, hvaða ályktanir hv. 3. þm. Reykv. dregur af þessu. Hann herðir bara bókstaflega róðurinn fyrir því, sem honum var áður í huga og fólkið þó fullkomlega hafði hugsað sér alveg vafalaust að vara hann við, með þeim kosningaúrslitum, sem urðu, því að sannleikurinn er sá, að allt það, sem hv. 3. þm. Reykv. lagði að sér til þess að koma vinstri stjórninni fyrir kattarnef, var byggt á þeirri hugsun, að ef hægt væri að hlaða upp í þann farveg, þá hlyti rás viðburðanna að leita í annan farveg og sá farvegur átti að vera það samstarf við Sjálfstfl. eða íhaldið og sennilega Alþfl., ef svo vildi verkast, um kjördæmabreyt., sem nú er verið að samþykkja og þá efnahagsmálastefnu, sem liggur að baki þeirri framkvæmd. Hv. 3. þm. Reykv. hafði þessa áætlun að, með því að koma vinstri stjórninni fyrir kattarnef, hlyti svo að fara, að samtök mynduðust hina leiðina um þann hugsunarhátt, sem liggur að baki kjördæmabreyt. og þeirri nýju efnahagsmálastefnu, sem hún á að verða grundvöllur að.

Hv. 3. þm. Reykv. hefði átt að geta lesið rétt úr kosningaúrslitunum og hann hefði átt að hafa sveigju í sinni stefnu og í sinni hugsun til þess að taka tillit til úrslitanna og hætta við þessi áform. En í stað þess forherðist hann, heldur hér hverja langræðuna eftir aðra til þess að undirbúa framhald þessarar stefnu, sem raunverulega beið ósigur í kosningunum. Svo er hann að tína til alls konar einstök atriði í þessu sambandi, sem hefur nú verið mjög greinilega svarað mörgum hverjum og sum af þeim sannast að segja eru svo fáránleg, að þau eru ekki svaraverð. Ég skal ekki fara langt út í að þreyta þolinmæði hæstv. forseta eða annarra með því að eltast við einstök atriði. En ég vil þó minnast aðeins á tvö eða þrjú.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði t.d., að það sýndi glöggt, hvernig þessi mál stæðu og hve örðugt væri að vinna með Framsfl., að Framsfl. hefði ekki viljað taka þátt í nýsköpunarstjórninni 1944–46. Hvers vegna gat Framsfl. ekki átt aðild að þeirri stjórnarsamsteypu, sem þá var gerð? Hvers vegna? Hv. 3. þm. Reykv. segir, að það sé vegna þess, að Framsfl. hafi ekki viljað nota stríðsgróðann til uppbyggingar atvinnulífi landsins. En hv. 3. þm. Reykv. veit miklu betur, hvernig þessu var háttað. Hann veit, að Framsfl. lagði til, að það yrði mun hærri fjárhæð af gjaldeyriseign landsins lögð til hliðar til þess að standa undir uppbyggingunni, heldur en þeir flokkar vildu samþykkja, sem kölluðu sig nýsköpunarflokka. Þetta veit hv. 3. þm. Reykv. mjög vel og hv. 3. þm. Reykv. og allir, sem kunnugir eru þessum málum vita, að ástæðan til þess, að Framsfl, gat ómögulega tekið þátt í þessu, var sú, að hann sá fyrir fram, að stefna þessara flokka í efnahagsmálunum var ekki miðuð við nýsköpun eða uppbyggingu, þó að það væri látið í veðri vaka, heldur var stefnan raunverulega miðuð við það að hleypa eyðslunni lausri, láta stríðsgróðann leika lausum hala, — hleypa eyðslunni lausri og haga efnahagsmálunum þannig, að af því hlaut að leiða stórkostlega verðbólguþróun, enda hefur öll reynsla staðfest, að það, sem Framsfl.-menn sáu fyrir við þessa stjórnarmyndun og settu fyrir sig, kom allt fram. Það kom fram, að aðeins lítill hluti af þeim stórfelldu innstæðum, sem Íslendingar áttu þá, var notaður til að kaupa ný tæki fyrir, — hlægilega lítill hluti og ekki nándar nærri það fé, sem þessir flokkar, sem að stjórninni stóðu, þóttust í öndverðu ætla að láta af gjaldeyrinum til þessara framkvæmda. Meginhluti af þessum stórfellda stríðsgróða fór í eyðslu á þeim árum. Það eina, sem gerðist, var það, að keyptir voru nýir togarar í staðinn fyrir þá eldri. Og ég tek undir það, sem hv. formaður Sjálfstfl. sagði hér einu sinni á Alþ. í þessu sambandi. Þakka skyldi mönnum það, þó að það væri af 7 eða 8 hundruð millj., sem þjóðin ætti, hægt að koma því við, að endurnýjaður væri togaraflotinn, keyptir nýir togarar í staðinn fyrir þá gömlu, sem áður voru til. — Slíkt er ekki hægt að kalla neina nýsköpun, eins og hv. 7. þm. Reykv. sýndi fram á hér í sinni skörulegu ræðu áðan.

Það voru engar nýjar atvinnugreinar byggðar upp á þessum svokölluðu nýsköpunarárum. Féð var allt saman farið, áður en kom til greina með rafvæðinguna. Ekkert var afgangs af stríðsgróðanum til þess að leggja í Sogsvirkjun, ekkert til þess að leggja í dreifbýlisrafmagnið, ekkert til þess að byggja sementsverksmiðju, ekkert til þess að byggja áburðarverksmiðju, ekkert til þess að gera nokkurn skapaðan hlut, sem gat gæsalappalaust heitið nýsköpun. Ekkert. Þetta varð allt að gera, eftir að þetta stjórnarsamsæri var farið út um þúfur og eftir að framsóknarmenn höfðu aðstöðu til þess að gera stjórnarsamninga og taka þátt í stjórn landsins. Þá var farið að byggja hér upp nýjar iðngreinar og stiga risaskref í raforkumálunum, en þá voru bara þessir flokkar búnir að eyða meginhlutanum af stríðsgróðanum, þannig að það varð að fá sumpart gjafafé og sumpart lán víðs vegar um lönd til þess að koma í framkvæmd því, sem að réttu lagi hefði átt að vinna fyrir það fé, sem þessir svokölluðu nýsköpunarflokkar höfðu látið sóa á þessum nýsköpunarárum. (Gripið fram í: Eytt í togara.) Eytt í togara, segir hv. þm. einn hér, sem stendur hér í norður frá mér, en ég vil bara segja honum það, sem ég var að greina hér frá áðan, að í togara var ekki látið ganga neitt af þessu fé, nema til þess að kaupa togara í staðinn fyrir þá gömlu, sem fyrir voru.

Þá var hv. 3. þm. Reykv. að tala um dreifingu togaranna um landið og Framsfl. í því sambandi og mátti segja, að það væri nokkuð í samræmi við annað, sem hann sagði um þessi mál. Er hv. 3. þm. Reykv. búinn að gleyma því, að stórfelldur ágreiningur reis upp hjá þessum svokölluðu nýsköpunarflokkum um það, hvort það skyldi yfirleitt aðstoða byggðarlögin úti um land nokkuð til þess að eignast skip? En auðvitað gátu þau alls ekki eignazt skip nema með því móti að fá alveg sérstaka aðstoð umfram alla aðra í þessu skyni. Úr þessum ágreiningi var skorið þannig, að þeir menn úr þessu liði, sem vildu raunverulega dreifa togaraflotanum frá því, sem áður hafði verið, leituðu liðs hjá framsóknarmönnum til þess að fá dreifingarsjónarmiðið fram. Og að sjálfsögðu stóðu framsóknarmenn eins og veggur með því, að byggðarlögin fengju sérstaka hjálp og aðstoð til þess að komast yfir skip, þar sem slík skip höfðu ekki áður verið. Sá var m.a. þáttur framsóknarmanna í því að dreifa skipunum meira, en áður hafði verið og þetta er í örfáum orðum til viðbótar því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði, sannleikurinn um þetta nýsköpunarskrum hv. 3. þm. Reykv. Öll veruleg nýsköpun hér hefur orðið eftir að Framsfl. fór að taka þátt aftur í ríkisstjórnum með hinum flokkunum, ýmist með Sjálfstfl. eða hinum flokkunum eftir því, hvernig á hefur staðið um málefni, og eftir því, hvort mögulegt hefur verið að koma á vinstra samstarfi eða ekki.

Eins og hv. 7. þm. Reykv. sagði, virðist hv. 3. þm. Reykv. haldinn þeirri, — ja, ég veit ekki, hvað á að segja, — haldinn þeim misskilningi eða hafa það á oddinum, að það eina, sem máli skipti, sé, hvað kaupið er hátt. Og hann segir, að það sé undir öllum kringumstæðum hægt að átta sig á því, hvort menn vilji vinstri stefnu eða ekki, í sambandi við afstöðu manna til kaupgjaldsmála þá og þá, — ævinlega hægt.

Ég man nú ekki betur en sumarið 1956 væri því hreinlega haldið fram af Alþýðubandalagsforkólfunum, að það væri bara til tjóns fyrir launafólk í landinu að taka þá vísitöluhækkun inn í kaup sitt, sem þá var orðin. Og það mætti mæla hollustu manna við vinstra samstarf í landinu eftir því, hvort þeir vildu á þetta fallast eða ekki. Þeir, sem ekki vildu fallast á það að falla frá þessum vísitölustigum og þar með falla frá kauphækkun, sem fram undan var, þeir voru stimplaðir óvinir vinstra samstarfs, en hinir einir höfðu skilning á vinstra samstarfi, sem vildu fallast á það að falla frá kauphækkuninni. Hvernig er hægt að koma þessu heim og saman við þessar bollaleggingar hv. 3. þm. Reykv. um kaupgjald og vinstri stefnu? Maður getur nú sagt, að þetta sé að kunna að haga seglum eftir vindi. Ætli það sé ekki sannleikurinn í þessu máli, að höfuðatriðið sé að hafa kaupgjaldið á hverjum tíma eins hátt og framleiðslan frekast getur borið, — að það sé mest í hag launþegum í landinu? Ég hugsa, að það sé aðalatriðið, en hitt muni koma í ljós og það munu forráðamenn Alþb. hafa séð oft, alveg eins og aðrir og sagt það, þegar þeim fannst passa að segja það, að það væri ekki hagkvæmt fyrir neinn að spenna bogann hærra en það, þegar til lengdar léti, en framleiðslan gæti ýtrast borið. Ég er hv. þm. alveg sammála um, að það má gjarnan tefla í þessu efni nokkuð djarft, þannig að atvinnurekstur allur hafi hitann í haldinu að notfæra sér hagfelld úrræði til þess að geta greitt það kaup, sem krafizt er, því að það er alveg rétt, að hátt kaup, sem sett er eins hátt og ýtrast er mögulegt, verður hvöt til eflingar atvinnurekstrinum, alveg eins og hitt er víst, að ef rekin er alveg blind kauphækkunarstefna, gersamlega án tillits til þess, hvað atvinnureksturinn þolir, þá verður það til tjóns fyrir launafólk í landinu.

En hvernig stendur þá á þessum hugleiðingum hv. 3. þm. Reykv.? Það stendur einfaldlega þannig á því, að hv. 3. þm. Reykv. er fyrst og fremst leiðtogi þeirra manna í Alþb., sem aðhyllast kommúnismann, leiðtogi kommúnistanna. Þó að hann vilji máske fallast á það um stutta stund af einhverjum tækifærisástæðum, þá vill hann alls ekki til lengdar eiga þátt í, að fylgt sé fram vinstri stefnu eða efnahagsmálastefnu, sem kemur á stöðugu verðlagi eða varanlegu jafnvægi í framleiðslu og atvinnumálum landsins. Þetta er sannleikurinn í málinu. Og sannleikurinn er sá, að vinstra samstarf hefur ævinlega strandað á þessum hugsunarhætti hv. 3. þm. Reykv. og annarra, sem hafa aðhyllzt hann.

En á hinn bóginn eru til menn í öðrum flokkum, sem líta nokkuð svipað á þessi efni, en bara frá allt öðru sjónarmiði en hv. 3. þm. Reykv. Og það eru verðbólgubraskararnir í landinu, það eru þeir, sem hafa það sem aðaltilgang, — ja, ég vil segja aðaltilgang síns lífs, síns starfs, — að raka saman sem mestum auði. Þessir menn eru fyrir löngu búnir að finna, að líklegasta leiðin til þess, að hér á Íslandi geti safnazt verulegur stórauður á fáar hendur, er einmitt sú að eiga þátt í því, að verðbólguþróunin geti haldið áfram og sem allra örast. Og þeir menn, sem svona hugsa og eru búnir að finna, að þetta er leiðin til þess að raka saman stórgróða, eru ævinlega sammála hv. 3. þm. Reykv. Og ég þekki menn af þessari gerð, sem ævinlega eru með öllum kauphækkunum, sem upp á er stungið, þó að þeir hafi mikið undir höndum. Þeir gera þetta ekki vegna þess, að þeir hafi einhvern alveg sérstaklega brennandi áhuga fyrir hagsmunum verkafólksins. Þeir gera þetta vegna hins, að þeir vita það upp á hár, að eins og okkar þjóðfélag er byggt upp nú með uppbótakerfinu og öllu, sem því fylgir, þá leiða stórfelldar kauphækkanir til áframhaldandi verðhækkana, hækkandi uppbóta, vaxandi verðbólgu og þá hækkandi verðlags á eignum þeim, sem þeir hafa undir höndum og hafa komizt yfir og lækkandi skulda. Og þessir menn, sem margir hverjir eiga aðgang að bönkunum, skulda þar kannske milljónatugi. Og ein kauphækkun, ef hún er meiri en framleiðslan getur borið, getur fært þessum mönnum í gróða 1, 2 eða 3 milljónir. Og einmitt í þessu liggur ráðningin á þeirri gátu, að hv. 3. þm. Reykv. finnur oft í Sjálfstfl., — einmitt í Sjálfstfl., því að þar eru þessir menn, — hann finnur einmitt oft í Sjálfstfl, menn, sem eru honum sammála um, hvernig reka skuli þjóðarbúskapinn að þessu leyti. Þeim stendur ekki aðeins á sama um, að í landinu sé verðbólguþróun, heldur vilja þeir verðbólguþróun. Og þá eiga þeir alveg öruggan bandamann í hv. 3. þm. Reykv.

Ástæðan til þess, að hægt var að koma nýsköpunarstjórninni á laggirnar, var hreinlega þessi, að þá réðu þeir öllu í Sjálfstfl., sem sættu sig ákaflega vel við það, að verðbólguþróunin yrði á næstunni og gæti haldið áfram. Og nú er bara eftir að sjá: Verða þessi sömu öfl ofan á næst, núna á næstunni, því að nú er alveg auðfundið, að nú er hv. 3. þm. Reykv. tilbúinn? Þá er ein spurningin: Eru þessir menn einnig til í tuskið? Og fá þeir að ráða í Sjálfstfl.? Fær hv. 3. þm. Reykv. að ráða, þegar til kemur? Það eru margar spurningar.

Þetta liggur alls ekki ljóst fyrir enn þá, eins og ég sagði um daginn. Það er nefnilega allt annað að vilja eða koma sínu fram. Þetta er allt saman svo þungt hérna. Það er ekki hægt að gefa hér út eina tilskipun og þá verður allt eins og það á að vera. Nei, hér er á öllu langur hali og langur aðdragandi og margir, sem eiga eftir að segja sitt orð og m.a. eru kosningar í millitíðinni. Það er því alveg ómögulegt að segja, hvort það verður nokkuð úr því, að þessi „hugsjón“ hv. 3. þm. Reykv. og þessara aðila í Sjálfstfl., sem ég var að lýsa, rætist. Það eru margir óþekktir liðir í þessu enn. En þarna er bandið, sem hnýtir saman þessar undarlegu andstæður og það er af þessum ástæðum, sem hv. 3. þm. Reykv. er alltaf að láta skína í, hvað hann vill, — það séu tvö íhöld, eins og hann segir stundum og fésýsluflokkar, annar sé þó skárri en hinn,og það er flokkurinn, sem þessir menn eru í, með hugsunarháttinn, sem ég var að lýsa. Það er sá flokkur. Þar eru þeir, sem hugsa að skapi hv. 3. þm. Reykv. En að verkamenn græði á slíkri pólitík, því neita ég algerlega.

Sannleikurinn er sá, að þeir, sem af og til ráða mestu um þessi mál í Sjálfstfl., þar sem er mest af fésýslumönnum landsins og atvinnurekendavaldið, þeir eru í raun og veru fyrir lifandi löngu búnir að finna alls konar úrræði til þess að velta af sér kauphækkunum, — velta þeim bara aftur yfir á fólkið. Ein af leiðunum er sú að eiga nokkra samvinnu við menn eins og hv. 3. þm. Reykv. og þá, sem þannig hugsa um þessi efni. En það eru líka til fleiri leiðir. Ef þeir t.d. fá að leika lausum hala í viðskiptunum, þá er þar líka leið, þá er þar leið til þess að ná miklu til baka. Og ef þeir fá að ráða uppbótakerfinu, þá er þar líka leið til þess að ná miklu aftur. Og eftir er svo ávinningurinn, sem liggur í því, að ef menn hafa miklar eignir undir höndum, þá hækka þær í verði um nokkra milljónatugi og ef menn skulda mikið, að skuldirnar lækki. Og sá grátlegi sannleikur er, að á undanförnum áratugum hefur varla nokkur maður á Íslandi orðið ríkur á öðru, en því að skulda. Þetta er ekki heilbrigt, en svona hefur þetta verið, við verðum að játa það. Þó að hér hafi verið miklar framkvæmdir, þá hvílir á þessi skuggi.

Og sú auðsöfnun einstakra, sem af þessu leiðir, er háskaleg orðin. En þetta er ekki sízt að kenna þeim hugsunarhætti, sem ævinlega kemur fram hjá hv. 3. þm. Reykv., þegar hann er að leita sér að sálufélögum.

En nú geta menn kannske sagt um mig: Meinar maðurinn þá, að það sé kannske ekki til neins að hækka kaupið, menn hafi aldrei neitt upp úr því ?

Það er allt annað mál. Því fer fjarri. Ef auðna skipar þannig, að aukin afköst verða í framleiðslunni og sífellt er verið að finna betri og betri aðferðir til að framleiða, þá er lífsnauðsyn að hækka kaupið til þess að dreifa þeim ávinningi, sem af því verður, hækka það hæfilega, til þess að þeir, sem vinna, fái raunverulega réttan hlut af þjóðartekjunum. Og ef ýmsu öðru er skipað á skynsamlegan máta, þá getur orðið af því fullur árangur. En það verður líka margt fleira að taka til greina. Það verður líka t.d. að taka til greina, að ávinningurinn renni ekki frá mönnum aftur í gegnum viðskiptin í landinu.

Og þá segir hv. þm.: Þar er Framsókn alveg ómöguleg. Hún er svo lin við verðlagseftirlit. Heldur nú hv. þm. það raunverulega, sé stórfellt ósamræmi í þjóðarbúskapnum, miklu meiri eftirspurn eftir vörum, en hægt er að fullnægja o.s.frv., o.s.frv. og öll sú óreiða og glundroði, sem stafar af hans hugsunarhætti í þessum málum, að það mundi nægja til þess að forða alþýðunni frá afleiðingunum af þessu öllu að hafa verðlagseftirlit? Dettur hv. þm. það í hug? Það má kannske reyna það. Ég hef verið með í að reyna það. Ég veit líka alveg eins vel og hv. 3. þm. Reykv., hvaða þýðingu það hefur haft eða hitt þó heldur í ýmsum dæmum. Nei, sannleikurinn er sá, að það eina verðlagseftirlit og það eina, sem kemur til greina sem öruggt úrræði, til þess að almenningur í landinu gefi notið þeirra kjara, sem hann á að hafa, í gegnum eins hátt kaup og mögulegt er, að hið eina, sem dugir, er það, að fólkið í landinu taki viðskiptin í sínar hendur, taki þau í sínar hendur í svo ríkum mæli og veiti svo sterka samkeppni, að samtök fólksins setji sinn aðalsvip á viðskiptin í landinu. Og þetta er ekki hægt að gera nema með uppbyggingu öruggra og sterkra samvinnufélaga.

Við getum skoðað sögu síðustu áratuga og við komumst alveg óhjákvæmilega að þeirri niðurstöðu, að öll veruleg uppbygging, t.d. úti um land, var algerlega óhugsandi, fyrr en samvinnufélög fólksins komu til sögunnar. Fjármagnið loðir við viðskiptin, fólkið varð að taka viðskiptin í sínar hendur, ef það átti að vera hægt að fá nokkurt fjármagn til uppbyggingarinnar. Við getum tekið hvert byggðarlagið eftir annað á Íslandi, og þá munum við komast að þeirri niðurstöðu, að þetta er rétt og enginn treystir sér til eða getur mótmælt þessu.

Hvaða sögu segir þetta okkur? Það segir okkur þá sögu, að fólkið verður, jafnhliða því sem það passar upp á sitt kaup og lætur ekki snúa á sig í því, að taka viðskiptin í sínar hendur í það ríkum mæli, — ég vil ekki segja öll viðskipti, en í það ríkum mæli, að samkeppnin frá þess stofnunum setji sinn meginsvip á viðskiptin í landinu. Þetta hefur verið gert að talsverðu leyti hér á landi og ég veit, að hv. 3. þm. Reykv. hefur ekki verið á móti því, að það væri gert. En það eru aðrir, sem ætla hreint vitlausir að verða út af þessari uppbyggingu fólksins. Það er Sjálfstfl. Það eru þeir, sem gera út Sjálfstfl. Það eru milljónararnir, sem gera út Sjálfstfl. Þeir vita, hvar feitt er á stykkinu. Þeir vita, hvað er að gerast í þessum efnum og hvað það þýðir, ef fólkið sjálft tekur í sínar hendur viðskiptin í landinu og nýtir í sína þágu þá auðsuppsprettu, sem viðskiptin eru. Þeim er þetta ljóst. Þess vegna ofsækja þeir kaupfélögin, þess vegna ofsækja þeir samvinnuhreyfinguna í landinu með öllu mögulegu móti. Þeir eru búnir að finna ýmsar aðferðir til þess að bæta sér upp kauphækkanir hv. 3. þm. Reykv., en þeir hafa engar aðferðir fundið enn þá til að bæta sér upp gróðann af þeim viðskiptum, sem fólkið hefur tekið í sinar hendur. Og það er þarna, ekki sízt í sambandi við þetta mál, sem hv. 3. þm. Reykv, bara þykist ekki sjá, það er ekki til í hans huga, hann hleypur algerlega yfir þennan þátt, — það er þarna, sem ein meginvíglínan í íslenzkri pólitík liggur. Það er í sambandi við þessi efni, sem ég hef verið að minnast á. Þetta eru sannarlega þýðingarmikil mál, sem deila vötnum í íslenzkri pólitík, miklu frekar en sumt af því, sem hv. 3. þm. Reykv. var að ræða hér um í þessum löngu ræðum sínum. En ég veit, af hverju hann hleypur yfir þetta. Það er af því, hvert hann stefnir. Hann verður að gera það. Það er vegna þess, hvert hann stefnir. En að þetta sé nokkur mynd, sem hv. þm. dregur upp, það er annað mál. Það er afskræmd mynd af því, hvernig ástatt er um málefni þjóðarinnar. Það er skrípamynd, sem hv. þm. dregur upp, af því að hann heldur, að hún geti orðið sér að gagni og þeim áætlunum, sem hann hefur í huga.

Ég skal nú ekki fjölyrða meira um ræðu hv. 3. þm. Reykv. eða þennan þátt í efninu, en það var óhugsandi annað, en bæta fáeinum orðum við það, sem áður hafði verið sagt, út af þeim undarlegu kenningum og furðulega hugsunarhætti, sem kom fram í málflutningi hv. 3. þm. Reykv. En ég vil þá næst fara aðeins fáeinum orðum um málið sjálft, sem hér liggur fyrir, eða öllu heldur meðferð þess.

Það var býsna undarleg ræða, fannst mér, sem hv. frsm. meiri hl. í stjórnarskrármálinu flutti hér á dögunum fyrir málinu. Ég vil aðeins minna á örfátt í þessari ræðu, áður en þessum umræðum lýkur, af því að það gefur svo góða hugmynd, að því er virðist, um það, hvernig á þessu öllu saman hefur verið haldið. T.d. sagði hv. þm., að kosningarnar hefðu nú snúizt fyrst og fremst um kjördæmamálið. en svo sagði hv. þm. — ég held ég hafi náð því orðrétt: „Þó gat aldrei farið hjá því, að önnur mál blönduðust inn í kosningarnar.“ Nei, það gat ekki farið hjá því, náttúrlega, hvernig sem þeir reyndu að koma í veg fyrir það, að annað kæmi þar til greina, ber að skilja af orðalaginu. Hvað segja menn um þennan málflutning, þegar þess er gætt, að þeir lögðu allir sameiginlega, þrír flokkar, meginkraftinn í aðtelja mönnum trú um, að það ætti í raun og veru ekki fyrst og fremst að kjósa um stjórnarskrárbreytinguna, heldur um allt mögulegt annað, sem þeir héldu fram? Svo kemur þessi hv. þm. hér og segir, að það hafi ekki getað farið hjá því, að inn í kosningarnar blönduðust önnur mál.

Síðan sagði hv. þm., að menn hefðu líka orðið að athuga, að ef Framsfl.-menn hefðu fengið meiri hl., þá hefði alls ekki orðið kosið í haust, sem sé að stjórnarskrármálið hefði þá orðið lagt á hilluna. Þetta var náttúrlega eitt af því, sem þessir hv. forráðamenn málsins héldu fram til þess að fá menn til að kjósa ekki um stjórnarskrármálið, enda þótt þeim væri það algerlega ljóst og búið væri að marglýsa því yfir af hendi framsóknarmanna, að ef meiri hl. fengist móti málinu, þá mundi hann fyrst og fremst verða notaður til þess að leita eins skjótt og unnt væri að lausn á stjórnarskrármálinu, en ekki talið heimilt að nota þann meiri hl. til langrar setu til að fjalla fyrst og fremst um önnur mál. Þessu var marglýst yfir, en samt sem áður segir hv. frsm. þetta.

Í þeim umr., sem hér hafa orðið á hv. Alþ. um þessi mál á aukaþinginu, hefur skýrzt að ýmsu leyti, hvernig framkoma flokkanna hefur orðið í samræmi við það, sem þeir sögðu þjóðinni í kosningabaráttunni. Alþb. hélt því fram, að það ætti fyrst og fremst að kjósa um viðhorfið til vinstri stjórnarinnar í landinu. Alþfl. hélt því fram, að það ætti fyrst og fremst að kjósa um viðhorfið til núv. ríkisstj. og hvað hún hefði gert í efnahagsmálunum. Sjálfstfl. hélt því fram, að það ætti fyrst og fremst að kjósa eftir því, hvað menn álitu um störf vinstri stjórnarinnar, sem hafði látið af völdum, — þeir þorðu náttúrlega ekki að minnast á það svo mjög, að það ætti að kjósa um framtíðarstefnu sjálfstæðismanna í efnahagsmálunum, því að enginn vissi, hver hún var, — en að það ætti að kjósa um afstöðuna til vinstri stjórnarinnar, sem farin var frá og svo vildu þeir eins og fyrr, gera kosningarnar að eins konar krossferð gegn kommúnismanum. En Framsfl.-menn sögðu, að það ætti að kjósa um stjórnarskrárbreytinguna, vegna þess að það ætti að koma saman aukaþing til að fjalla um hana nú í sumar og þá yrði úrskurðað um, hvort hún gengi fram eða ekki.

Hvað finnst mönnum nú um þetta þinghald, sem nú stendur yfir og orðið hefur, samanboríð við það, sem flokkarnir héldu fram við kosningarnar? Hvorir sögðu þjóðinni sannara til um það, sem ætti að gerast á þinginu, framsóknarmenn eða hinir? Ég held, að það vefjist ekki fyrir neinum að svara því. Og ég held satt að segja, að hv. talsmenn þríflokkanna eigi eftir að verða varir við það í þeim kosningum, sem nú standa fyrir dyrum að þeirra tilhlutun, að það hefur verið tekið eftir því um allt land, hvað þeir sögðu að ætti að kjósa þá til að gera og hvað þeir gerðu, þegar þeir voru komnir á þing. Ég held, að þeir eigi eftir að verða þessa varir.

Nú hefur verið lögð hér fram í hv. d. af framsóknarmönnum till. um að láta fara fram sérstaka atkvæðagreiðslu um kjördæmabreytinguna eða stjórnarskrármálið. Og ef hv. talsmenn kjördæmabreytingarinnar hefðu haft trú á sínum málstað, þá hefðu þeir átt að hafa drenglund til þess að fallast á þetta, einnig til að leysa menn úr þeirri sjálfheldu, sem þeir hafa sett þá í, í sambandi við þetta mál, því að auðvitað er það ekkert annað en sjálfhelda, sem þessir menn hafa viljandi sett sína eigin flokksmenn í, að láta þá velja milli þess tvenns að kjósa flokk, sem þeir voru mótfallnir, Framsfl., eða kjósa menn til þess að samþykkja stjórnarskrárbreytingu, sem þeir voru á móti. En þetta voru þeir tveir kostir, sem þessir hv. þm. buðu sínum fylgismönnum upp á við þær kosningar, sem nú eru nýlega afstaðnar. Það hefði mátt vænta þess, að þeir hefðu séð missmíði á þessu og hefðu getað fallizt á, að það færi fram frjáls atkvæðagreiðsla um kjördæmamálið. Þá var ekki hægt að sakast um það, að farið væri aftan að mönnum í neinu. Og þá hefði hinn rétti vilji manna um stjórnarskrármálið komið í ljós, en alls ekki með öðru móti. Og þó að þessir talsmenn þríflokkanna stæðu á móti þessari uppástungu í vor, þá hefði átt að mega ætlast til þess eftir þá reynslu, sem þeir höfðu af kosningunum, þegar þeir sáu, hversu þetta blandaðist saman, að þeir hefðu þá haft drenglund til þess að fallast á að greiða þetta mál úr öðrum málum og láta fara fram um það sérstaka atkvgr.

En nú er það augljóst orðið, að þessir hv. þm. hafa ætlað sér að berja þetta mál fram í skjóli þess þingmeirihluta, sem þeir hafa fengið með a.m.k. vafasömum aðferðum, að ekki sé kveðið fastara að orði, — með illa fengnum þingmeirihluta, svo að það sé alveg kveðið að því eins og lágmark er, — með illa fengnum þingmeirihluta. Og hefði sannast að segja mátt ætlast til þess, að fallizt hefði verið á að gefa mönnum tækifæri til þess að mynda sér alveg frjálst og án nokkurrar þvingunar skoðun um stjórnarskrármálið og greiða atkvæði um það í samræmi við það. En nú á ekki að sleppa því, sem búið er að ná. Þeir hafa víst þótzt fá sig fullreynda í þeim kosningum, sem fram fóru og nú á ekki að sleppa því, sem búið er að ná. En ég segi enn og aftur við þessa hv. þm.: Þeir eiga eftir að bíta úr nálinni, því að þeir ættu ekki að ímynda sér, að það veki nokkurn fögnuð hjá almenningi í landinu, sú framkoma, sem þeir hafa látið sér sæma í sambandi við þetta mál núna eftir kosningarnar. Fyrir kosningarnar sögðu þeir við menn: Kjósið þið ekki eftir stjórnarskrármálinu. Kjósið eftir afstöðu ykkar til flokkanna og til annarra mála. — En jafnskjótt og þeir voru búnir að fá menn til þess að setja atkvæðin ofan í kjörkassana, meira og minna með þetta í huga frá þeim, þá sögðu þeir blákalt upp í opið geðið á mönnum: Nú hefur meiri hluti þjóðarinnar tjáð sig fylgjandi stjskrbreyt. — Hvernig halda þeir, að þeir menn hugsi núna í dag, sem ef til vill hafa verið í stórfelldum vafa um það, hvað gera skyldi, eins og fjöldi manna hefur verið? En það hefur riðið baggamuninn í hugum þessara manna, að því var haldið fram, að það væri svo margt annað, sem raunverulega væri greitt atkv. um og þeir hafa jafnvel máske gert það fyrir beiðni, jafnvel grátbeiðni þessara leiðtoga, að greiða atkvæði öðruvísi, en sannfæring þeirra í sjálfu stjórnarskrármálinu vísaði þeim til. En svo er búið þannig að þessum mönnum, að þeir eru ekki fyrr búnir að greiða sitt atkvæði, en leiðtogarnir, sem þannig komu fram, stíga fram og segja:

Nú hafa þeir sagt sitt álit. Þarna sjáið þið, hvað þeir meina í stjórnarskrármálinu. Þeir eru búnir að segja sitt álit og nú höldum við ótrauðir áfram. Það þarf enga frekari atkvgr. Þessir menn hafa sagt sitt orð.

Jú, að vísu hafa þeir sagt sitt orð í þeim kosningum, sem fram fóru s.l. vor, en þeir hafa ekki sagt sitt síðasta orð. Þessir menn hafa ekki sagt sitt siðasta orð. Þeir eiga eftir að segja það og það er ómögulegt að segja, hvernig það verður. Það getur jafnvel farið svo, að það komi að ýmsu leyti í bága við það, sem forráðamenn þessa máls gera sér vonir um. Þeir þykjast nú báðum fótum í jötu standa og nú þurfi ekki að vanda neitt kveðjurnar í sambandi við þetta, nú hafi þeir þetta allt í sínum höndum og nú sé bara að leggja út á næsta áfangann — og hver er hann?

Hver er næsti áfangi? Til hvers er þetta allt saman gert? Til hvers er verið að berja fram þessa breytingu á stjórnarskipuninni? Til þess að fullnægja réttlætinu, segja þeir stundum, til að jafna kosningarréttinn. Það var hægt að jafna kosningarréttinn með því að fjölga þingmönnunum í höfuðborginni og á þéttbýlissvæðunum og láta héraðakjördæmin standa. Það var ekki litið við því. Hvers vegna? Vegna þess að það fór í bága við það, sem átti að gera, eftir að búið var að koma stjórnarskrárbreytingunni fram. Það fór sem sé í bága við þann áfanga, sem nú á að hefjast eftir kosningarnar í haust. Og hver er hann? Það er framkvæmd hinnar nýju stefnu. Það er framkvæmd hinnar nýju stefnu í efnahagsmálum og fjárfestingarmálum landsins. Og við erum ekki í neinum vafa um það, hver þessi stefna á að vera. Og þar eru enn ein vatnaskil í íslenzkri pólitík, sem hv. 3. þm. Reykv. þykist ekki vita um, þegar hann er að mála sína mynd af ástandi þjóðfélagsmálanna, en eigi að síður eru þarna og ekki er hægt að komast fram hjá, því að það verður aldrei komizt fram hjá raunveruleikanum, jafnvel þótt menn langi til. Og þessi nýja stefna, sem búið er að undirbúa með svo margvíslegu móti, en ekki verður reynt að framkvæma neitt verulega ,fyrr en eftir seinni kosningarnar, ef þá áætlanir manna standast, — þessi nýja stefna er fyrst og fremst fólgin í því að draga úr því, sem hv. 3. þm. Reykv. manna mest hefur útlistað sem hina óarðbæru fjárfestingu á Íslandi, sem væri undirrót allra erfiðleika í efnahagsmálum landsins. Og hver er þessi fjárfesting, sem hér er um að ræða? Það er fjármagnið, sem á undanförnum árum og áratugum, sérstaklega þegar Framsfl. hefur haft sterka aðstöðu til þess að ráða, hefur verið varið til þess að byggja upp samgöngukerfi og atvinnukerfi víðs vegar um landið. Hv. 3. þm. Reykv. hefur verið óþreytandi í því að halda hér stórar ræður til þess að sýna fram á, hversu þessi fjárfestingarpólitík hafi verið röng, það hafi verið lagðir tugir milljóna t.d. í uppbyggingu landbúnaðarins o.fl. og hv. þm. útlistað með mikilli mælsku, að það hafi verið kastað í þetta, sem hafi svo ekki gefið fullan arð eða nokkurn arð stundum, segir hann, í þjóðarbúið. Þessu verði að hætta og þá verði möguleikar til þess að koma efnahagsmálum landsins á réttan kjöl.

Í sambandi við stjórnarslitin núna á s.l. vetri var það eitt af því, sem hv. 3. þm. Reykv. var óþreytandi að lýsa, hinn stóri ágreiningur, sem hefði verið um það, hvort menn hefðu viljað lækka fjárlögin eða ekki. Hann og hans menn hefðu viljað lækka fjárlögin um 40 millj. og stundum hefur hann sagt 80 millj. og það væri það, sem Framsfl. hefði ekki með nokkru móti mátt heyra nefnt og þess vegna sprakk vinstri stjórnin, eins og hv. 3. þm. Reykv. stundum hefur komizt að orði.

Enn fremur hefur hv. 3. þm. Reykv. lýst því fjálglega, hversu kapphlaupið um héraðakjördæmin, sem verið hafa, hafi verið óheilbrigt og haft slæm áhrif á þjóðarbúskapinn, en jafnhliða lýst yfir von sinni og orðað það þannig: Má vera, að lagist, ef kjördæmunum verður breytt. — Það er sem sé kallað kapphlaup um kjördæmin og hreppapólitík, að þingmennirnir hafa eftir eðli málsins keppzt um það sem allra mest að sinna framfaramálum sinna umbjóðenda, knýja fram framfarir í héruðunum. Svo kemur þessi hv. þm. og heldur hjartnæmar ræður um þann óskaplega áhuga, sem hann hafi á framkvæmdum, sér í lagi í dreifbýlinu og þar hafi eiginlega aldrei gerzt neitt í þeim málum fyrr en hann og hans menn, komu þar að, áður hafi það allt verið vanrækt, menn hafi veríð sendir suður á völl og orðið að yfirgefa hús sín og jarðnæði víðs vegar um landið. En hv. þm. var á hinn bóginn ekki að taka það fram í sambandi við þetta, að á þeim árum, sem Framsfl. fór með utanríkismálin, var fólkinu, sem starfaði í varnarliðsvinnunni, fækkað úr 3 þús. niður í rúmlega þúsund. Það var á þann hátt, sem Framsfl. fór að því að sópa mönnum utan af landi, af jarðnæði og úr húsum í þorpum landsins til þess að vinna á vegum varnarliðsins. En hvað varðar þennan hv. þm. um staðreyndir? Ekki neitt. Það þurfti á þessu að halda inn í myndina, sem hann var að reyna að búa til og þá bara setur hann það þar, þó að staðreyndirnar séu þessar, að Framsfl. barðist harðri baráttu til þess að draga úr varnarliðsvinnunni og minnka straum fólksins utan af landsbyggðinni, úr sveitum og kauptúnum og það sem meira var, að það tókst það giftusamlega til, að þó að svona stórfelld fækkun yrði í varnarliðsvinnunni, þá var ekkert atvinnuleysi samt. Og það er sannarlega ástæða til þess að fagna yfir því.

Og þetta gerðist áður en vinstra samstarfið komst á laggirnar og áður en hv. 3. þm. Reykv. og hans menn höfðu hér nokkuð um að segja og er ég ekki með því að gera á nokkurn hátt lítið úr því, sem gert var í samvinnu við þá. En þetta er bara staðreynd. Svona var þetta.

En það eru fleiri, en hv. 3. þm. Reykv., sem hafa gefið yfirlýsingar um það, hver þessi nýja stefna í efnahagsmálum á að verða. Hv. þm. A.-Húnv. fyrrverandi (JPálm) lýsti því yfir hér í útvarpsumræðunum í vetur sem leið, — ég hygg það hafi verið í eldhúsumræðunum, — að menn yrðu að skilja, að það yrði að skera niður, framkvæmdirnar yrðu að minnka. Menn urðu að skilja það: Framkvæmdirnar urðu að minnka. Og það kemur fleira til.

Þegar stjórnariðið, sem þá var nú ekki á yfirborðinu kallað nema Alþýðufl. og Sjálfstæðisfl., var að vinna að efnahagsmálum í vetur og afgreiðslu fjármála, þá var svo sem ekki vandasamt að sjá, hvert stefndi. Þeir voru að vísu búnir að tala sig hér hása undanfarin ár, sjálfstæðismenn, um þá stórfelldu, gífurlegu, óverjandi eyðslu, sem Eysteinn stæði fyrir og aðrir slíkir og menn skyldu halda, að þeir hefðu ekki verið í neinum vandræðum með að ryðja út af fjárlögunum einhverju af þessu sukki. Það var ekki vandi að sjá það þá, hvert á að stefna. Þeir ruku sem sé bara beina leið í þá liði fjárlaganna, sem ætlaðir eru til uppbyggingarinnar úti um land. Þeir lækkuðu raforkumálaframkvæmdir á einu ári um nærri 40 millj. kr. Þeir lækkuðu framlög til atvinnuaukningar og fóru þannig í hvern liðinn af öðrum, sem lúta að uppbyggingunni víðs vegar um landið. Og til viðbótar kom svo þessi yfirlýsing hv. þm. A-Húnv., sem talinn var mikill fyrirliði í því liði um, að menn yrðu að skilja það, að framkvæmdirnar yrðu að lækka. Það væri ekki hægt að finna úrræði til að halda þeim áfram. Hvernig lízt mönnum á þetta? Hvernig lízt mönnum á þessa stefnu?

Og það er fleira, sem sýnir glöggt, hvað niðri fyrir býr. Hefur ekki hv. 1. þm. Reykv. (BBen) gert það hér að árásarefni á framsóknarmenn alveg sérstaklega í löngum þingræðum og öðru máli, bæði rituðu og töluðu, að þeir hafi á undanförnum árum reytt af þjóðinni stórfé umfram það, sem nauðsyn var til og ráðstafað þessu fjármagni síðan eftir sinum geðþótta? En það kveður nú við annan tón stundum, þegar rætt er um einstakar framkvæmdir, því að þá eru það sjálfstæðismenn, sem hafa staðið fyrir þeim. Og til hvers hefur þetta fé farið, sem hv. 1. þm. Reykv. hefur æst sig svo mjög út af að fallið hafi ríkinu í skaut og verið ráðstafað aftur? Til hvers hefur það farið, þetta fjármagn? Það hefur farið í allar þýðingarmestu greinar uppbyggingarinnar víðs vegar um landið, bæði sjávarútveg, landbúnað, íbúðabyggingar og raforkumál. Og núna siðast í vetur, þegar rætt var um þessi efni enn á ný, þá gerði þessi sami hv. þm. fyrir hönd Sjálfstfl. harða árás á framsóknarmenn fyrir að hafa staðið fyrir því í fyrrverandi ríkisstj. að verja yfirfærslugjaldi af því láni, sem þá hafði verið tekið frá Bandaríkjunum, nokkrum milljónatugum, til fiskveiðasjóðs, ræktunarsjóðs og raforkuframkvæmdanna, —harða árás á framsóknarmenn fyrir að hafa staðið fyrir því. Allt þetta sýnir alveg glöggt, svo að ekkert verður um villzt og margt fleira, hver þessi hugsunarháttur er, hver sá hugsunarháttur er, sem stendur að baki hinni nýju stefnu eða að baki hinnar nýju valdasamsteypu, — við getum orðað það þannig, — sem stendur að baki þeirrar nýju valdasamsteypu, sem er verið að reyna að byggja upp í landinu. Og kjördæmabreytingin á að vera grundvöllurinn.

Þetta er sem sagt varðandi þann áfanga, sem fram undan er. Þar inn í kemur einnig krossferðin gegn samvinnufélögunum. Það er einn liðurinn í þessari áætlun og alveg í stíl við hugsunarháttinn yfirleitt, eins og hann kemur fram, a.m.k. hjá forráðamönnum Sjálfstfl., eins og þeir hafa flutt sín mál undanfarið.

Það er hægt í þessu sambandi líka að minna á afgreiðslu landbúnaðarmálanna, hvernig fitjað er upp á þar alveg nákvæmlega á sama hátt og gert var um árið, þegar þessi sömu öfl voru að reyna að ná saman. Hvernig var byrjað þarna um árið, þegar gerð var þessi nýsköpunarstjórn, sem hv. 3. þm. Reykv. kallar? Hvernig var byrjað þá? Það var byrjað með því þá, að lækka einhliða verðlag á landbúnaðarvörum. Það sama var gert í vetur. Það er hugsunin, að sagan endurtaki sig að einhverju verulegu leyti. Og hugsunarhátturinn er alveg nákvæmlega sá sami. Það á að leysa vandann með því að þrengja að í þessum efnum á öllum sviðum, með því að draga úr þessari óarðbæru uppbyggingu í þjóðfélaginu, sem hv. 3. þm. Reykv. hefur rætt svo mikið um á undanförnum árum og sjálfstæðismenn hafa haft af skiljanlegum ástæðum lægra um, en kemur þó alltaf fram, þegar þeir á hátíðlegum stundum segja sína meiningu eða þá missa sina meiningu óvart, eða þegar þeir eiga að ráða. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, þegar þeir eiga að ráða. Jafnskjótt og Framsfl. hefur ekki aðstöðu til þess að ráða, þá er byrjað á þessum leik, þá er byrjað að ganga á hlut landbúnaðarins, þá er jafnskjótt byrjað að skera niður framlög til uppbyggingar úti um landið, bæði til sjávar og sveita. Það hefði aldrei getað komið til greina, að raforkuplaninu hefði verið misþyrmt, ef Framsfl. hefði haft aðstöðu til þess að ráða s.l. vetur. Það dettur engum í hug, að því hefði þá verið misþyrmt eða annar sá niðurskurður gerður, sem varð, eða hallað á landbúnaðinn, eins og gert var, o.s.frv., — eða t.d. að það hefði verið farið þannig að, þegar ameríska láninu er skipt hér á Alþingi í vetur, að kippt væri út framlaginu til fiskveiðasjóðsins, 25 millj., sem fyrrv. stjórn hafði hugsað sér að rynni til fiskveiðasjóðsins. Þessu er bara hreinlega kippt út úr í tillögum stjórnarsamsteypunnar. Það er ekki verið að hugsa um þar að efla fiskveiðasjóðinn, þó að það sé algerlega ljóst, að fiskveiðasjóðurinn er gersamlega fjárvana til þess að sinna þeim verkefnum, sem hann á að standa undir. Og hugsun fyrrv. stjórnar var, að hann fengi 25 millj. af þeim 150, sem á að taka að láni. Því er hreinlega kippt út. Og þannig mætti nefna dæmin alls staðar, alls staðar kemur þetta sama fram. Þegar Framsfl. hefur ekki aðstöðu til þess að ráða annaðhvort í samvinnu við Sjálfstfl. eða í samvinnu við vinstri flokkana, þá kemur þessi stefna í framkvæmd undireins, gerði það hér um árið, er byrjað enn og lýst yfir, að það verði meira af svo góðu.

Í þessu sambandi er einn ákaflega merkilegur liður og það er þessi skilgreining á pólitískri og efnahagslegri fjárfestingu, sem við heyrðum hér í vetur. Það er einn liður í því að skapa jarðveg fyrir það, sem á að gera. Og frá sjónarmiði þessara manna er þessi hugsunarháttur þannig, að pólitísk fjárfesting sé yfir höfuð það, sem þarf að styðja eitthvað verulega af almannafé. Það er pólitísk fjárfesting. En efnahagsleg fjárfesting er það, sem þeir ríku vilja leggja í óstuddir. Það er nánast hugsunin. En hvernig halda menn að fari með uppbyggingu þjóðfélagsins, eins og búið er að koma málum hér með verðbólgu þeirri, sem náð hefur að festa rætur á undanförnum árum? Hvernig halda menn, að þróunin yrði hér í þessu landi, ef það ætti að verða aðalgrundvöllurinn í hinni nýju stefnu að fordæma það, sem kallað er pólitísk fjárfesting, en hefja til skýjanna og láta fyrst og fremst eiga sér stað, það sem kallað er efnahagsleg fjárfesting? Hvað halda menn að yrði um uppbygginguna til að mynda úti um land, jafnþýðingarmikil og hún er þó fyrir þjóðarbúið, ef þessi hugsunarháttur ætti að ráða, að það ætti allt að sitja fyrir, sem milljónamæringarnir, sem hafa rakað saman fé á verðbólgunni, vilja gera, en hitt allt á hakanum,hversu nauðsynlegt sem það er frá sjónarmiði almennings í landinu, sem almannastuðning þyrfti til þess að koma í framkvæmd? Ég ætla, að þarna liggi líka nokkur vatnaskil í íslenzkri pólitík, sem hafi vantað í þá mynd, sem hv. 3. þm. Reykv. var að draga upp, eins og raunar æði margt fleira, sem höfuðmáli skiptir.

Ein af uppáhalds kennisetningum þessarar nýju samsteypu er sú, að það sé um tvær leiðir að ræða í efnahagsmálum, það sé annaðhvort að draga úr fjárfestingunni eða neyslunni, eins og þeir kalla það, — það mætti líka kalla það eyðslunni. Og höfuðtalsmenn þessarar nýju valdasamsteypu, sem verið er að reyna, — ég segi reyni, ég veit ekki, hvort það tekst, — verið að reyna að koma á, þeir eru ekki í neinum vafa um, hvað eigi að víkja. Það, sem á að víkja, er vitanlega fjárfestingin, framkvæmdirnar. En eyðslan verður að hafa sinn gang. Það er eins og Laxness segir á einhverjum stað: Böllin verða að kontinúerast. Og drottningin verður að fá nýtt tvinn spánskra hesta. En úr framkvæmdunum verður að draga.

En ætli það sé yfir höfuð hægt að halda því fram, að þessi hugsunarháttur sé réttmætur, að það sé réttmætur hugsunarháttur að ætla sér að leysa þann vanda, sem við stöndum frammi fyrir, með því að draga fyrst og fremst úr framkvæmdunum? Ég held ekki. Að vísu eru alveg eðlileg takmörk fyrir því, hvað hægt er að standa í miklum framkvæmdum í senn og þau takmörk eiga fyrst og fremst að miðast við vinnuaflið, hversu mikið vinnuafl er til ráðstöfunar, hversu mikið vinnuafl er hægt að fá. En ég mótmæli því algerlega, að það sé lausn á vanda íslenzkra efnahagsmála að draga úr framkvæmdum fyrst og fremst, láta alla eyðslu eiga sér stað, eins og hún getur mest orðið með frjálsum hætti, en draga úr framkvæmdunum og jafna þann mismun, sem verður í þjóðarbúskapnum, með því að draga úr framkvæmdunum og skapa atvinnuleysi, því að það er óhugasandi annað, en það hlyti að verða atvinnuleysi, ef þessi hugsunarháttur ætti að verða ríkjandi.

Nú er ég ekki með þessu að segja, að þetta sé nákvæmlega hugsunarháttur hv. 3. þm. Reykv., en þetta er hugsunarháttur þeirra manna, sem hann hefur fyrst og fremst áhuga fyrir að gera samband við og virðist hafa mestan trúnað á. Þetta er hugsunarháttur þeirra, sem standa fyrst og fremst að baki þeirrar valdasamsteypu, sem verið er að byggja upp og standa að kjördæmamálinu. Það er þetta: að draga úr fjárfestingunni, draga úr uppbyggingunni, en eyðslan verður að hafa sinn gang.

Og það er alveg táknrænt fyrir þetta sjónarmið, að núna er íslenzkur þjóðarbúskapur látinn ganga á því, framleiðslan er látin ganga á því að láta lúxusvörur sitja fyrir gjaldeyrinum, en nauðsynjarnar vantar. Ef eitthvað á að vanta, þá verður að vanta nauðsynjar, fyrst og fremst fjárfestingarvörur, en það verður fyrst og fremst að láta gjaldeyrinn í lúxusvörur til þess þannig að ná inn peningum til að halda ríkissjóðnum gangandi og uppbótakerfinu gangandi. Þetta er vitanlega alröng stefna og þjóðarbúinu hættuleg. Og þarna nær saman hugsunarháttur Alþb. og sjálfstæðismanna einkar vel, vegna þess að það var eitt höfuðáhugamál talsmanna Alþb. í sambandi við fyrrv. ríkisstj. að krefjast þess einmitt, að þessi stefna væri framkvæmd í innflutningsmálunum, það var kallað, að með því móti væru sparaðar álögur á þjóðina að halda framleiðslunni gangandi með svona lagaðri svikamyllu, að láta lúxusvörurnar sitja fyrir gjaldeyrinum, en vanta fjárfestingarvörur og nauðsynjar. En vitanlega hlýtur slíkt, þegar til lengdar lætur, að draga hreinlega úr þjóðartekjunum í heild sinni og þar af leiðandi verða til tjóns fyrir alla, þó að með því sé kannske hægt að hjálpa sér til að dragnast áfram með þetta allt á hælunum í nokkra mánuði. En þetta atriði er á vissam hátt að mínu viti mjög einkennandi fyrir þann hugsunarhátt, sem liggur hér að baki.

Þessar tilraunir til þess að koma þessum samtökum á hafa lengi átt sér stað. Fyrst þurfti auðvitað að koma vinstri stjórninni frá, því að ekkert var hægt að gera fyrr. Þar næst varð að finna einhverja leið til þess að brúa millibilsástand, sem hlaut að eiga sér stað, á meðan var verið að byggja grunninn, þennan líka þokkalega grunn, sem er afnám héraðakjördæmanna. Og þá var Alþfl. notaður til þess. Síðan var meiningin að hlaða utan á þennan kjarna, þó að smár væri. Þaðan stafa allar þessar ástar játningar hv. 3. þm. Reykv. í garð Alþfl., sem komu manni kynduglega fyrir sjónir, en eru ekkert einkennilegar, samanborið við það, hvernig þetta hefur allt verið í pottinn búið. Næsti liður er svo að fylkja utan um þetta, eins og kemur í ljós í forsetakosningunum, sem farið hafa fram á þessu Alþingi og síðan, ef hv. 3. þm. Reykv. fær að ráða og þeir menn í Sjálfstfl., sem hafa svipaðan hugsunarhátt og ég var að lýsa hér í dag, — ef þeir ráða þeim megin, þá gæti náttúrlega komið til mála, að úr þessu yrði einhvers konar samsteypa stutta stund. En það mundi verða aðeins stutta stund, vegna þess að á svona löguðu er ekki hægt að byggja neitt varanlegt samstarf, ekki nú frekar, en það reyndist mögulegt um árið, því að þetta stóð örstutt þá. Það stóð bara rétt á meðan verið var að eyða innstæðunum. Það mundi standa stutt núna líka af mörgum skiljanlegum ástæðum.

Þetta bandalag, sem ég hef verið að minnast á og staðið hefur gegn byggðastefnunni í kjördæmamálinu, þ.e.a.s. þeirri stefnu að byggja stjórnskipunina áfram eins og verið hefur á sérstökum rétti byggðarlaganna, — þetta bandalag hefur í huga þessa nýju fjárfestingarstefnu, sem ég hef verið með örfáum orðum að minna á og höfuðkennisetningarnar í því efni eru að ausa ekki fénu í óarðbæra fjárfestingu, að fjárfestingin verði að minnka, en neyzlan verði að hafa sinn gang, hin efnahagslega fjárfesting verði að sitja í fyrirrúmi fyrir þeirri pólitísku, þjóðin verði að skilja, að það verði að skera niður framkvæmdir, það sé ekki hægt að halda þeim uppi o.s.frv. Þannig mætti halda áfram að lýsa einkunnarorðum þessa fyrirtækis. Og aðaloddaliðið í þessu er ráðandi kjarni Sjálfstfl., — fram að þessu a.m.k. hafa þeir haldið sér við þetta, — kommúnistarnir í Alþb. undir forustu hv. 3. þm. Reykv. og svo hægra lið Alþfl.

En í öllum þessum flokkum eru þúsundir manna, sem eru algerlega andvígir þessari stefnu, sem hugsunin er að koma í framkvæmd, — algerlega andvígir þessari stefnu og eiga ekkert sameiginlegt með þeim hugsunarhætti, sem liggur að baki þessara fyrirætlana. Og þetta fólk, sem er andvígt svona lagaðri stefnu, hlýtur að ná saman fyrr eða síðar. Ég fyrir mitt leyti vona, að sem allra flest af því fólki nái saman strax í þeim kosningum, sem eiga að fara fram í haust og það er ekki nokkur vafi á því, að margt af því nær saman þá strax og sameinast einmitt undir merki Framsfl., sem hann ber fram í kosningunum í haust, gegn þessu samsæri, sem hér er efnt til, hreinlega gegn því og menn berjast fyrir alhliða uppbyggingu í sömu stefnu og hann hefur gert undanfarna áratugi. Ég fyrir mitt leyti trúi því, að það, sem gerðist í kosningunum í vor, þar sem fólk fylkti sér í vaxandi mæli undir merki Framsfl. á móti þessu, það sé bara byrjunin, því að kjördæmamálið er bara byrjunin á því, sem á að ske. Þessir flokkar þurfa ekki að halda, að þessu stríði sé lokið, þó að þeir samþykki þessa breyt. á stjórnarskrá landsins. Þeir eiga eftir að koma í framkvæmd þeirri stefnu, sem þeir hafa í huga og byggja á þessu, og það verður staðið móti því og haldið uppi merki fyrir alhliða uppbyggingu og gegn þeim hugsunarhætti, sem hér er á byggt. Og ég hef trú á því, eins og ég sagði áðan, að fjöldi manna muni nú þegar í þeim kosningum, sem fara fram í haust, snúast gegn þessu. Og það er ekki hægt nema með einu móti, svo hyggilega hafa þeir, sem hér standa, búið um hnútana, — það er ekki hægt nema með einu móti: að sameinast um Framsfl. Það er ekki hægt á annan hátt. Og það mun margur finna, að þannig er þessu fyrir komið. Þess vegna mun, þó að þeir, sem að kjördæmabreyt. standa, telji sig máske eiga einhverjum sigri að fagna, — en ég bara efast um, að þeir telji það inn á sér, eins og nú er komið, en jafnvel þó að þeir telji sig það, þá er það bara ein orrusta, sem þeir hafa unnið með klækjum, sem lokið er, — bara ein orrusta, sem lokið er, sem þeir hafa unnið með klækjum, en margar aðrar orrustur eftir um þessa meginstefnu, sem hér liggur á bak við. Og þeir hafa komið því þannig fyrir, að sú næsta á að verða í haust og hlýtur að verða það, þar sem þeir vilja ekki fallast á neina málamiðlun í þessu máli. Og þá fer hún fram og í þeirri orrahríð verður haldið fram byggðastefnunni. Byggðastefnunni verður haldið fram í þeirri orrahríð, byggðastefnunni í stjórnskipunarmálinu, því að enginn skal halda, að þetta sé lokaáfangi þessara þríflokka í sjálfu stjórnarskrármálinu, þeir hafa marglýst því yfir, að hér sé bara áfangi. Það verður haldið áfram baráttu fyrir byggðastefnunni í stjórnarskrármálinu og menn munu sjá það sífellt fleiri og fleiri, að í því máli er engum að treysta með byggðastefnunni öðrum en Framsfl., en þúsundir manna í öðrum flokkum eru raunverulega fylgjandi byggðastefnunni í kjördæmamálinu og mun eiga eftir að sýna sig á næstunni. Baráttunni fyrir byggðastefnunni í stjórnarskrármálinu verður haldið áfram og baráttunni fyrir byggðastefnunni í efnahagsmálum og framleiðslumálum landsins verður einnig haldið áfram.