07.08.1959
Neðri deild: 12. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

Löggæsla á Keflavíkurflugvelli

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég sé það, að eitt af dagblöðunum í Reykjavík segir frá því í morgun, að íslenzka lögreglan á Keflavíkurflugvelli hafi ætlað að taka ölvaðan mann við akstur, en verið hindruð í því af vopnuðum mönnum, gefið í skyn jafnvel, að þetta hafi verið hermenn, ekki amerísk lögregla. Ef þarna er rangt frá skýrt eða villandi, þá tel ég, að það sé nauðsynlegt, að hið sanna upplýsist um þetta. Sé þarna hins vegar um sanna frétt að ræða, þá tel ég þetta vera svo alvarlegan atburð, að það sé fyllsta ástæða til þess að fá að vita um það, hvaða ráðstafanir hæstv. utanrrh. mundi hugsa sér að gera til þess, að svona atburðir endurtaki sig ekki.

Það virðist enginn ráðh. vera viðstaddur. Ég hefði viljað beina þessum orðum mínum til hæstv. utanrrh. Ætli hann mundi ekki vera í húsinu? (Forseti: Það er verið að gá að, hvort einhver ráðh. er viðstaddur.) Er það ekki fljótséð, hvort ráðh. er í húsinu? (Forseti: Jú, það er verið að bíða eftir hæstv. ríkisstj.) Sést það ekki undireins á ljósunum? Þetta ætlar að taka langan tíma. (Forseti: Það virðist ekki vera mögulegt fyrir hæstv. ríkisstj. að koma hingað í augnablikinu, og við verðum að koma þeim skilaboðum áfram, sem hv. 1. landsk. hyggst flytja.) Já, herra forseti, ég vil sem sé beina þeirri fsp. til hæstv. utanrrh., hvort það muni vera rétt, að amerískir hermenn eða amerísk lögregla hafi hindrað íslenzka lögreglu í því að taka ölvaðan mann við akstur bifreiðar. Og ef þetta er rétt, þá vil ég enn fremur spyrjast fyrir um það, hvaða ráðstafanir hæstv. utanrrh. muni vilja hugsa sér að gera, til þess að slíkir alvarlegir atburðir endurtaki sig ekki. Hins vegar teldi ég æskilegt, sé fréttin röng eða villandi á einhvern hátt, að hæstv. ráðh. gæfi Alþ. skýrslu um þetta mál. Ég tel það mjög alvarlegt, ef fregnin er sönn.