14.08.1959
Efri deild: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

Starfslok deilda

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hér hafa í umr. fallið þau orð frá hv. 1. þm. N-M. og hv. 1. þm. Eyf., að þeir mundu ekki eiga sæti hér lengur á Alþingi. Ef marka má þessi ummæli, vildi ég mega nota tækifæri hér til þess að þakka þeim báðum fyrir langa og góða samvinnu. 1. þm. Eyf. hefur setið á 43 þingum og 1. þm. N-M. á 31 þingi. Hef ég setið með þeim hér á 16 þingum og haft mikið við þá saman að sælda og mér er ljúft að viðurkenna, að þeir hafa verið góðir samstarfsmenn og drengilegir andstæðingar í hverju máli. Ég vildi mega óska þeim allrar blessunar á þeim tíma, sem þeir kunna að eiga eftir, og vonast til þess, að mörg þeirra störf, sem þeir hafa innt af hendi hér í Alþingi, verði þeim góður minnisvarði og þjóðinni til blessunar. Og ég veit, að allir hv. þm. muni taka undir þetta með mér.