05.08.1959
Neðri deild: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) flutti langa ræðu hér í gær. Hann byrjaði á annarri ræðu í gærkvöld, einnig um þetta mál og lauk henni núna fyrir skömmu. Þessar ræður hans voru að efni til í beinu framhaldi af því, sem hann sagði við 1. umr. um frv. Það er svo skammt liðið, síðan 1. umr. fór fram, að hv. þm. hefur ekki skipt um línu á þeim tíma. Hann hringdi enn bjöllunni á sama hátt og um daginn, til þess að hljómurinn léti sem bezt í eyrum sjálfstæðismanna. Það var því ekkert undrunarefni, þó að hann beindi máli sínu og ádeilum gegn Framsfl. í þessum ræðum, það var mjög vel skiljanlegt. Af sama toga eru spunnar ádeilur hans nú í seinni ræðunni á samvinnufélögin. Það er alkunnugt, að þáttur samvinnufélaganna í uppbyggingu á atvinnusviðinu um land allt er mjög stór og ákaflega þýðingarmikill. Á viðskiptasviðinu hafa þau einnig á undanförnum áratugum unnið stór mikið gagn. T.d. hafa endurgreiðslur þeirra af vöruverði til félagsmannanna á undanförnum árum numið geysimiklum upphæðum. Þessa ávinnings hefði almenningur ekki notið, ef samvinnufélögin hefðu ekki komið til sögunnar.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur aldrei kunnað að meta starfsemi samvinnufélaganna. Hann hefur aldrei kunnað að meta þá geysimiklu þýðingu, sem starfsemi þeirra hefur haft í framfarabaráttu þjóðarinnar. En hér kemur það til fyrst og fremst, að hv. 3. þm. Reykv. þarf að tala illa um samvinnufélögin til þess að þóknast sjálfstæðismönnum, hinum nýju samstarfsaðilum. Það er mjög margt, sem samvinnufélögin hafa gert. Meðal margs annars hafa þau átt nokkurn þátt í því, að í sveitum hafa verið settir upp benzín- og olíugeymar, sem hv. 3. þm. Reykv. var að minnast á áðan í ræðu sinni. Vegna þessa geta íbúar sveitanna fengið þessar nauðsynjar, benzín og olíu, með mjög auðveldu móti. En þetta fer svo í taugarnar á hv. þm., að sjá þessa geyma, að hann getur tæplega ferðazt út fyrir höfuðborgina þess vegna.

Hv. þm. hafði mörg orð um það í ræðu sinni í gær, að framsóknarmenn hefðu ekki samið við Alþfl. og Alþb. um kjördæmamálið, meðan þeir þrír flokkar voru saman í fyrrv. ríkisstj. Það hefði þó verið eitt af stefnuskráratriðum þeirrar stjórnar að leita samkomulags um það mál. Það, sem nú er fram komið um viðhorf flokkanna í kjördæmamálinu, sýnir, að þess var ekki að væntu, að samkomulag gæti orðið um það mál í fyrrv. ríkisstj. Framsóknarmenn vildu ekki ganga til samninga um að leggja niður kjördæmin utan Reykjavíkur. En þetta var það, sem hinir flokkarnir vildu gera. Og Sjálfstfl. vildi vinna með þeim að því óheillaverki. Þess vegna sameinuðust þeir þrír flokkar um þá breytingu, sem hér liggur fyrir.

Í báðum hinum löngu ræðum, sem hv. 3. þm. Reykv. flutti, þeirri fyrri í gærdag, fyrri hluta dags og einnig í þeirri, sem hann byrjaði á í gærkvöld, kom hann að frásögninni af því, þegar hann var á freigátunni, þ.e.a.s. þegar hann var í nýbyggingaráði, ráðinu, sem átti að stjórna nýsköpuninni, sem svo var nefnd, á árunum 1944–46. Þá var hv. þm. G-K. (ÓTh) stjórnarformaður í samsteypustjórn Sjálfstfl., Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins og Alþýðuflokksins. Við, sem höfum setið á þingi með hv. 3. þm. Reykv. undanfarin ár, erum farnir að kannast við þessa sögu. Það er aðalreglan, að þegar hann flytur langar ræður, sem oft kemur fyrir, þá segir hann í þeim ræðum þessa sögu af því, þegar hann var á freigátunni. En nú eru komnir nýir menn á þing og þeir þurfa auðvitað að kynnast þessu líka. Þeir eru nú búnir að heyra söguna tvisvar í báðum þessum löngu ræðum og ef þeir verða á fleiri þingum með hv. þm., þá er ég nærri viss um það, að þeir eiga eftir að heyra hana oftar.

Hv. þm. hélt því fram, að við framsóknarmenn hefðum verið á móti nýsköpuninni á sínum tíma. En þarna fór hv. þm. rangt með, um það vitna Alþingistíðindi.

Á haustþinginu 1944 bárum við, ég og hv. 1. þm. S-M., fram frv. til l. um gjaldeyri til kaupa á framleiðslutækjum. Þetta frv. er á þskj. 446 í Alþingistíðindum frá 1944. Aðalefni frv. var það, að af þeim erlenda gjaldeyri, sem Landsbanki Íslands og Útvegsbanki Íslands áttu 1. okt. 1944, skyldi færa 85% á sérstakan reikning í bókum þeirra. Og af þeim innstæðum átti aðeins að selja gjaldeyri gegn sérstökum leyfum viðskiptaráðs til kaupa á framleiðslutækjum og efni til þeirra, svo sem skipum og efni til skipasmíða, vélum til skipa, landbúnaðarvélum, efni til rafveitna og vélum og efni til verksmiðja o.s.frv.

Nokkru eftir að þetta frv. okkar kom fram á þingi, bar ríkisstj. fram í upphafi hérvistar sinnar annað frv., sem var frv. til l. um nýbyggingaráð. Og hin svonefnda nýsköpun var byggð á þessum I. um nýbyggingaráð, sem samstjórn hinna þriggja flokka beitti sér fyrir að setja haustið 1944. Skv. þessum l. var sett á laggirnar nefnd, sem kölluð var nýbyggingaráð. Hlutverk hennar var m.a. að búa til heildaráætlun, fyrst um sinn miðaða við næstu 5 ár, um nýsköpun íslenzks þjóðarbúskapar. Hv. 3. þm. Reykv. talar nú og oft áður um nauðsyn þess að semja slíkar áætlanir um þjóðarbúskapinn. Ekki skal ég mæla gegn því, að slíkt geti verið gagnlegt. En hann átti á sínum tíma sæti í nýbyggingaráði, sem átti að gera slíka áætlun. En hvernig fór? Áætlunin kom aldrei. Hún hefur aldrei sézt. Þannig stóð hv. 3. þm. Reykv. í stöðu sinni, því miður ekki betur en þetta. Hins vegar eyddist féð á skömmum tíma, sem var til umráða, sumt til nauðsynlegra hluta, en því miður allt of mikið í ýmislegt annað. Ég get nefnt sem dæmi um ráðstöfun fjármunanna, að í athugasemdum, sem fylgdu frv. stj. um nýbyggingaráð, var m. a. gert ráð fyrir því, að 50 millj. kr. yrði varið til að kaupa vélar og þess háttar til áburðarverksmiðju, vinnslu og hagnýtingar landbúnaðarafurða og jarðyrkjuvéla og efni til rafvirkjana o. fl. En á þessu urðu hinar mestu vanefndir, á þessum fyrirheitum stjórnarinnar.

Hv. þm. var að tala um það í gær, að það hefðu legið fyrir áætlanir um of litla áburðarverksmiðju. En þá skilst manni, ef nýbyggingaráð hefði viljað koma upp slíkri verksmiðju, að þeir hefðu átt að kaupa stærri vélar. En það var ekki gert, ekkert var keypt, engar vélar til áburðarverksmiðju, hvorki stórar né litlar. Og þeir prettuðu landbúnaðinn einnig á annan hátt. Þeir létu ekki til hans nema part af þeirri hungurlús, sem þeir sögðust þó í upphafi ætla að láta til þess atvinnuvegar og uppbyggingar þar. Framfarirnar í landbúnaðinum, hin mikla ræktun og byggingar, það hófst ekki fyrr, en eftir að þessi stjórn fór frá völdum og Framsfl. tók aftur þátt í ríkisstj. og hafði þar yfirstjórn landbúnaðarmálanna.

Eins og ég gat um áðan, hélt hv. 3. þm. Reykv. því fram, að við framsóknarmenn hefðum verið á móti nýsköpun. En þetta er ekki rétt. Enginn greiddi atkv. gegn frv. um nýbyggingaráð í hvorugri þingdeildinni. Um þetta vitna þingtíðindin. Þau segja satt, en hv. 3. þm. Reykv. fór ekki með rétt mál. En við framsóknarmenn reyndum að fá lagfæringar á frv. Ég átti þá sæti í fjhn. þessarar d. fyrir Framsfl. Eg bar fram brtt. í nál. mínu á þskj. 524, sem út var gefið 19. nóv. 1944. Fyrsta brtt. var um það, að af inneignum Landsbankans og Útvegsbankans erlendis skyldi færa jafngildi 450 millj. kr. á sérstaka reikninga í bókum þeirra,og þennan gjaldeyri átti síðan að láta gegn leyfum til kaupa á framleiðslutækjum ýmiss konar og efni til þeirra, sem nánar var tilgreint í till. Sem sagt, þessi brtt. var um að hækka framlagið til uppbyggingarinnar úr 300 millj. upp í 450 millj. kr. En stjórnarliðið felldi brtt., þar á meðal hv. 3. þm. Reykv. og flokkur hans. Svo gerir þessi hv. þm. sér það enn til gamans að halda því fram í löngu máli, að þeir, sem vildu leggja fram 450 millj. kr. til uppbyggingar atvinnulífsins árið 1944, hafi verið á móti framförum í þjóðfélaginu, en hinir, sem ekki vildu leggja fram nema 300 millj., hafi verið hinir einu sönnu framfaramenn.

Ég hef bent hér á þessar rangfærslur í hinni löngu ræðu hv. 3. þm. Reykv., er hann flutti í gær. Og ég hef sannað mitt mál, en afsannað hans fullyrðingu með tilvitnun í Alþingistíðindi. Ýmislegt fleira var missagt í þessu langa máli, þó að ég geri það ekki hér að umtalsefni, enda margt ekki beinlínis viðkomandi því frv., sem hér er á dagskrá. Ég ætla ekki að sinni að eyða meira af fundartímanum. Vel getur verið, að hv. 3. þm. Reykv. þurfi að fá einhvern tíma hér á eftir til þess að segja okkur söguna af því, þegar hann var á freigátunni forðum. Þá var nú siglt, maður.