05.08.1959
Neðri deild: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Óskar Jónsson:

Herra forseti. Það virðist svo, að nú fari senn að líða að lokum umr. um frv. um breytingu á stjórnskipunarlögum Íslands hér í þessari hv. d., — breytingu, sem getur orðið örlagaþrungin og það fær enginn fyrir það séð í dag, hver áhrif hún kann að hafa á íslenzkt stjórnarfar og framvindu mála hér í þessu landi á komandi tímum.

Við, sem mætum hérna í fyrsta sinn á hv. Alþingi, erum dálitið hissa, a.m.k. sumir hverjir, á því, hvernig staðið er að málum í jafnþýðingarmiklu og stórbrotnu máli sem þetta er, — máli, sem sumir af þeim, sem flytja það fram, segja að sé eitt stærsta mál, sem lagt hafi verið fyrir Alþingi Íslendinga. Við framsóknarmenn höfum haldið uppi þungum ásökunum á flokkana, sem að þessu máli standa, einkanlega þó Sjálfstfl. En hvað skeður? Þessu er engu svarað, ekki einu orði, af þeim hv. flokki. Hvað veldur þessu? Viðurkennir þessi stóri flokkur og öflugi ávirðingar sínar með þögninni? Játa þeir sig seka í þessu máli? Maður gæti haldið, að svo væri. Samt sem áður ætla þessir flokkar að berja höfðinu í stein og knýja það fram hér á hv. Alþ. með valdi síns sterka flokks. Þetta er heldur leiðinleg glímuaðferð, — glímuaðferð, sem kennd hefur verið við bolabrögð og hefur aldrei þótt falleg þeim, sem á hafa horft, enda mun það sannast, að þeir, sem álengdar standa og fylgjast með gangi þessara mála, munu launa þeim flokkum, sem hljóðir ýta þessu máli á undan sér nú, launa það, þó að síðar verði.

Það er sagt, að þeir, sem þannig glíma, valdi oft slysum. Ég vildi óska þess, að þrátt fyrir það þótt þeir leggist með þunga sínum nú ofan á þetta mál og knýi það fram, þá verði það ekki til stórslysa fyrir íslenzkt þjóðlíf. En svo mætti þó fara.

Það er aðeins einn maður af þeim, sem eru í þríflokkunum, hv. 3. þm. Reykv., sem hér hefur haldið uppi vörn fyrir þetta mál, að sönnu ekki mikilli vörn, en hann hefur þó rætt hér um margs konar þjóðmál að undanförnu og gæti ég því haldið og við, sem ókunnugir erum málum, að hann hefði verið kosinn sem eins konar einkaframsögumaður og málflytjandi þessarar stóru samfylkingar og þar mætti enginn annar að komast. Ég verð að játa, að mér finnst margt fróðlegt, sem hv. þm. hefur sagt hér. En margt af því orkar þó tvímælis í mínum huga.

Hann var að tala um það m.a. í sinni löngu ræðu í gær, að fulltrúarnir, sem væru kosnir fyrir umbjóðendur sína, yrðu að standa trúan vörð um réttindi þess fólks, sem þeir væru kjörnir fyrir. Þetta er hárrétt. Þetta er mér fullkomlega ljóst og vegna þess að ég veit, að að minnsta kosti 75% af íbúum þess héraðs, sem hafa kjörið mig til að koma hér og mæta fyrir sína hönd á Alþ., eru á móti þessari kjördæmabyltingu, þá get ég ekki annað, en haldið uppi vörnum fyrir þetta mál, enda mín eigin skoðun, — vörnum gegn því, að kjördæmabreytingin nái fram að ganga. Annað væru svik við mína umbjóðendur.

Ég þykist vera umbjóðandi hins vinnandi fólks ekki síður en 3. þm. Reykv., og ég get fullkomlega sagt honum það, að vinnandi fólk með kannske lík sjónarmið og hann hefur í huga væntir þess ekki, þegar komið er inn hér í hv. Alþ. til að fjalla endanlega um þetta mál nú, að hann muni stiga það stóra skref að vinna að því, að þessi kjördæmabreyting nái fram að ganga. Það er áreiðanlegt, að þetta fólk telur það ekki sína hagsmuni. Það er alveg víst.

Það hefði verið fróðlegt að fara hér út í og ræða um ýmis þjóðmál, sem hér hefur verið rætt um á við og dreif í þessum umræðum, og ekki sízt það, sem hv. 3. þm. Reykv. hefur verið að ræða um hér undanfarið.

Í rauninni er það svo, að mér virðist, að stefnurnar í íslenzku þjóðlífi séu í meginatriðum þrjár: hin frjálsa samkeppni kapítalismi, samvinnustefna og sósíalismi. Mér hefur fundizt, að það mætti skilgreina höfuðstefnurnar í þjóðmálum þessar, og það verður að segjast eins og það er, að við framsóknarmenn teljum okkur fyrst og fremst málsvara samvinnustefnunnar. Þessi stefna hefur reynzt vel í landinu. Hún er byggð upp af fjöldanum, af þeim smáu, í upphafi fátækum og veikum, og hefur hjálpað einstaklingunum til þess að verða þó dálítið að manni. Hún er þrautgróin orðin í okkar þjóðfélagi og það er alveg öruggt, að hún hæfir vel okkar lundarfari og okkar lífsstefnu yfir höfuð. Það er vegna þess, að við byggjum strjálbýlt og stórt land, erfitt, ofvaxið einstaklingnum til þess að nytja og gera sér undirgefið. Fjöldasamtökin hljóta að þurfa að koma til, svo að hér verði eitthvað gert að gagni. Það er því ekki að ófyrirsynju, þó að við viljum eitthvað um þessa stefnu tala. Hitt er annað mál, að ég álít, að hér sé nú ekki tími og tíð til þess.

Það má að sjálfsögðu margt gott segja um allar þessar meginstefnur. Enginn vafi er á því og allar geta þær í raun og veru tryggt góða lífsafkomu og lífskjör, ef rétt er á spilunum haldið. En það er alveg sama, hvaða stefna er og hversu skýrt og fallega hún setur upp sína stefnuskrá, — það getur allt gengið úr skorðum. Það eina, sem getur bjargað öllu þessu, er það, að við stýrið á hverri stefnu og framkvæmd hennar standi menn, sem eru fyrst og fremst mannvinir. Ef menn eru það ekki og ef þeir reka ekki stefnu sína á þeim grundvelli, með mannúð fyrir augum, af kærleika til náungans, þá er voðinn vís.

Það hefur verið nógu gaman að fylgjast hér að ýmsu leyti með þessum umræðum, sem hér hafa komið fram og óneitanlega er sumt kátbroslegt, sem ekki er hægt að komast hjá að minnast á. Mér fannst það t.d. vera heldur mikil afbrýðisemi hjá 3. þm. Reykv., þegar hann fór hálfgert að ávía hv. þm. A-Húnv. fyrir það, að hann hefði lýst sig eitthvað hrifinn af Sjálfstfl. Það er nú svo með alla þessa stjórnmálaflokka og formenn þeirra og foringja, að þeir hafa unnið að málum sitt á hvað, eftir því sem bezt hefur þótt henta á hverjum tíma. En ég er anzi hræddur um, að of mikið fjöllyndi og fát hafi gripið formann Alþb. núna eftir síðasta kosningaósigur og hafi hann því lent upp í skakkt rúm.

Það var ýmislegt, sem kom fram í þessari löngu ræðu, sem ástæða væri til að tala um. Eitt af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér í gær, var það, að höfuðundirstaða og aðalundirstaða íslenzks útflutnings væru togarar og aftur togarar. Ég fór svolítið að athuga þetta að gamni mínu og vita, hvort þetta stæðist, til þess að fá vitund á því, hvort þetta væri sönnun fyrir því, að allur hans málflutningur hefði verið sannleikanum samkvæmur. Ég komst að þeirri niðurstöðu, að þetta er ekki alls kostar rétt. Bátaflotinn hefur miklu stærra hlutverki að gegna í þessu efni, samanber það, að 1957 fiska togararnir nálægt 160 þúsund tonnum, en bátaflotinn 275 og 1958, sem var þó eindæma gott ár hjá togurunum, nálægt 190 þúsund tonnum hjá togurunum, en 315 þúsund hjá bátunum, svo að ég álit, að það geti verið varhugavert að halda því fram, að togararnir séu fyrst og fremst undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Bátarnir eru það ekkert síður og verða enn meiri þátttakendur og stærri við það, að landhelgin færist út og meira svigrúm fæst til að fiska á hinum smærri skipum í friði fyrir erlendri ágengni við strendur landsins. Ég held, að bátarnir komi til með að gegna enn stærra hlutverki í sjávarútveginum, en nokkru sinni áður.

Ég hef nú komið upp í ræðustólinn til þess að minna á þetta sérstaklega og undirstrika, að mér hefur fundizt dálítið einkennilegt, hvernig flytjendur þessa máls hafa hagað sér við umr. hér í hv. Nd. og ég ætla, að eftir þeim málflutningi eða þeirri meðferð, sem þeir hafa haft um málið, muni þeir upp skera í næstu kosningum. Hitt er annað mál, að ég veit, að í sambandi við afgreiðslu þessa máls á þessu hæstv. Alþ. er það alveg víst, að hinn vinnandi maður í landinu mun vita, hvað til síns friðar heyrir og hann mun byrja á því í stórum stíl að taka rökrétta ályktun af því, sem hér hefur verið gert, í næstu kosningum.