05.08.1959
Neðri deild: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd út af ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hann sagði, að afstaða Framsfl. hefði jafnan verið sú í efnahagsmálunum að vilja spenna verðlagið upp, en afstaða þeirra Alþb.-manna að halda verðlaginu í skefjum. Sannleikurinn er sá, að afstaða Alþb. í verðlagsmálum hefur byggzt á því að hafa halla í þjóðarbúskapnum, sem hlaut að mynda verðbólgu og reyna svo að láta dragnast áfram framleiðslulífið með því að flytja inn lúxusvörur til þess að ná tekjum í uppbætur. Þessi stefna ber dauðann í sér og hlaut að reka í strand.

Hv. síðasti ræðumaður sagði, að það bæri ekki að taka hart á því, þó að nýsköpunin hefði reynzt meðalaglös og varahlutar í reiðhjól, því að það hefði þurft svo mikinn gjaldeyri. En hefði nú ekki verið ágætt fyrir hv. þm. að athuga, að það var ekki aðeins, að svona færi um þessar 300 millj., sem áttu að fara í nýsköpunina, að þær færu í hluti eins og þetta að verulegu leyti, heldur eyddi sama stjórn á þriðja hundrað millj. af innstæðunum í almennan innflutning þar að auki og svo öllum gjaldeyristekjum í viðbót þann tíma, sem hún sat.

Hv. þm. sagði, að Olíufélagið h/f hefði verið kröfuharðast um verðlagsmál. Hv. þm. munar ekkert um að búa þetta til. En hitt hefði verið rétt fyrir hann að upplýsa, að það voru miklir erfiðleikar í rekstri Olíufélagsins, sem hafa stafað af því, að lögin um verðjöfnun á benzíni og olíum hafa aldrei verið framkvæmd til fulls og það hefur komið sérstaklega hart niður á rekstri Olíufélagsins vegna þess, hvað það selur mikið af varningi sínum víðs vegar um landið.

Hv. þm. sagði, að hvert kaupfélagið af öðru, hefði verið gert að kosningaskrifstofum fyrir Framsfl. Þetta er algerlega tilhæfulaust, enda getur hv. þm. auðvitað ekki fært nein dæmi að slíkum fullyrðingum.

Ég skal láta þetta nægja um einstök atriði, enda þetta aðeins örstutt athugasemd. En ég vil segja að lokum í þessum umr.:

Það er alveg augljóst, að hv. þm. Alþb. og sama er að segja raunar um aðra hv. forgöngumenn þessa máls, eru ofsahræddir. Það sýna þær umr., sem hér hafa átt sér stað, — ég verð að segja þær furðulegu umræður af þeirra hendi. Og við hvað eru þeir svona hræddir? Þeir eru hræddir við, að línurnar hafi skýrzt í þjóðmálum landsins nú undanfarið í þeirri viðureign, sem orðið hefur um kjördæmabreytinguna og annað, sem í sambandi við hana stendur. Það kemur sem sé í ljós, að viss öfl í þessum þremur flokkum, sem standa að stjórnarskrárbreytingunni, standa að flokkastefnunni í stjórnarskrármálinu, sem er í því fólgin, að það skuli miða stjórnarskrána eingöngu við flokkana, en að engu leyti við byggðarlögin í landinu. Og þeir ætla sér að halda áfram með þessa stefnu. Þetta er bara áfangi. Enn fremur hefur komið í ljós, að í öllum þessum flokkum eru sterk öfl, sem einnig vilja halla sér að niðurskurðarstefnunni í efnahagsmálum, sem er byggð á því höfuðsjónarmiði, að framkvæmdirnar eigi að víkja, en eyðslan eigi að haldast. Þetta hefur skýrzt mjög á undanförnum mánuðum og það er þess vegna ekkert einkennilegt, þó að það sé nokkur beygur í talsmönnum þessara sjónarmiða út af því, hvernig fólki muni lítast á blikuna. Og það er þetta, sem gerir þann taugaóstyrk, sem á ber í sambandi við þetta mál og hefur komið þannig fram hjá hv. Alþb.-mönnum, að þeir hafa talað þindarlaust, þannig að með eindæmum má telja, en aftur á móti haft þau áhrif á hv. sjálfstæðismenn, að þeir hafa steinþagað allt aukaþingið. En rótin er sú sama. Það er beygurinn, — beygurinn út af þeirri stefnu, sem upp hefur verið tekin og sameiginlega á að berjast fyrir.