07.08.1959
Efri deild: 5. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umr., er stjórnarskrárfrv. Það er frv. um breyt. á stjórnarskrá Íslands. Allar lýðræðisþjóðir telja stjórnskipunarlög sín höfuðmál sitt og hafa ákvæði um það, að þeim lögum verði ekki breytt, nema þjóðarviljans sé leitað með sérstökum hætti. Slík ákvæði eru einnig í okkar stjórnarskrá, þó að það hafi sýnt sig, að þau ákvæði eru nú orðin úrelt. Þau eru úrelt sökum þess, að þær kosningar, sem bæði nú og stundum í seinn tíð hafa farið fram út af stjórnarskrárbreytingu, hafa raunverulega ekki snúizt um það mál, sem Alþingi hefur verið rofið út af.

Hæstv. forsrh. sagði, að hver einn einasti kjósandi landsins hefði vitað, að þessar kosningar snerust um stjórnarskrármálið og að atkvæði greitt þessum þremur fokkum, sem að því standa, væri þar með greitt framgangi þessa máls. Ég dreg mjög í efa, að þetta hafi ekki fallið í gleymsku hjá ýmsum kjósendum landsins. A.m.k. er mér fullkunnugt um það, að allt var gert, sem hægt var, til að draga athygli kjósenda frá því, að kosningarnar snerust um stjórnarskrármálið. Hvað á flokksmaður að gera, t.d. í Alþfl., sem er annt um flokkinn, en er á móti þessu máli? Hvað átti hann að gera í kosningunum, þegar því var haldið fram, að það þýddi ekkert að ræða um þetta mál, það væri útkljáð, þetta væri samþykkt og yrði samþykkt, hvernig sem kosningarnar færu, því að það vissu allir fyrir fram, að Framsfl. var ekki meirihlutaflokkur meðal þjóðarinnar? En þetta gerðu margir.

Ég get alveg tekið undir það, sem hv. þm. Str. (HermJ) sagði um þá fundi, sem hann hafði verið á. Það gekk eins til á þeim framboðsfundum, sem ég var á, að þar fengust frambjóðendur þessara flokka varla til að ræða um stjórnarskrármálið og deildu á okkur frambjóðendur Framsfl. fyrir að vera að þrástagast á stjórnarskrármálinu, sem væri útkljáð. Frambjóðendur Alþb. og Alþfl. í því kjördæmi ræddu aðallega sín á milli um það, hvor væri betri verkalýðsflokkur og hvor væri meiri svikari við verkalýðinn. Frambjóðendur sjálfstæðismanna ræddu aftur mest um vinstri stjórnina, fyrrverandi og það ætti að vera markmið kosninganna frá þeirra hendi, að aldrei framar kæmi vinstri stjórn í þessu landi, o.s.frv. Ég held, að þó að t.d. hv. sjálfstæðismenn hér spyrðu hv. samþingismann minn, 2. þm. Eyf. (MJ), um það, hvort hér sé ekki rétt frá sagt, þá held ég, að hann mundi segja þeim það sanna, að hér væri rétt frá sagt.

Það er áreiðanlega úrelt aðferð að leita eftir vilja kjósenda um stjórnarskrárbreytingu í almennum kosningum. Með því er ég ekki að segja, að það hafi verið neitt ólöglegt, vitanlega var það löglegt og samkvæmt lögum að rjúfa þingið og láta kosningar fara fram nú í vor, af því að stjórnarskrárbreyting hafði verið samþykkt. Það hefur enginn framsóknarmaður haldið því fram, að slíkt hafi verið ólöglegt og það var það eina, sem hæstv. forsrh. var að sanna, að hér hefði að öllu leyti verið farið löglega að. Það var farið löglega að, að vísu, en það hrekur ekki það, að ekki var leitað þjóðarviljans á þann hátt, að hann kæmi í ljós um þetta mál.

Alls staðar hjá lýðræðisþjóðum mun þykja sjálfsagt að vanda sem mest til stjórnskipunarlaga og til breytinga á þeim. Slík mál eru þaulrædd, oft í mörg ár, nefndir eru settar til undirbúnings og sjálfsagt þykir í lýðræðislöndum að ná sem víðtækustu samkomulagi um þess konar mál, helzt allra flokka. Það eru örfá ár síðan Danir t.d. breyttu sínum grundvallarlögum. Þeir voru búnir að ræða það mál í mörg ár og hafa í því nefndir og ég hygg, að síðast hafi tekizt samkomulag allra flokka eða svo til allra flokka um þær breytingar, sem gerðar voru. Var ein sú breyting töluvert róttæk, það var að breyta ríkisþinginu þannig, að í staðinn fyrir tvær deildir skyldi koma ein málstofa. Ákvæðinu um ríkiserfðir var einnig breytt og ýmislegt sett inn í grundvallarlögin, sem orðin var föst venja, en ekki hafði áður staðið í lögunum. Ég hygg, að meðal þessara þjóða sé það alveg óþekkt fyrirbrigði, að þingflokkar hlaupi saman, reikni út, hvað hver þeirra gæti haft mikið upp úr breyttri kjördæmaskipun, breyti svo stjórnskipunarlögum landsins í samræmi við það. En þetta hefur þó skeð hér og þetta skeði í hinu mesta flaustri á síðasta Alþingi. Og nú er helzt ætlazt til, að þetta mál sé ekki rætt. Það á að ganga mjög hratt í gegnum Alþingi eða í gegnum þessa hv. d., og það er alveg í samræmi við það; sem sagt var í kosningunum í vor, að málið væri raunverulega útrætt, þyrfti ekki meira um það að ræða eða hugsa.

Ég hef enga löngun til að tefja þetta mál, en ég ætla samt að leyfa mér að fara nokkrum orðum um það og víkja þá fyrst og fremst og jafnvel aðallega að meðferð þess hér í þinginu.

Þingið er nú búið að standa hátt á þriðju viku. Allan þann tíma hefur þessi hv. d. verið með öllu aðgerðarlaus. Aðalblað ríkisstj., Morgunblaðið, því að það verður að teljast aðalblað ríkisstj. nú, talaði um það, um leið og þingið var sett, að þetta þinghald ætti ekki að þurfa að standa nema hálfan mánuð, nema svo skyldi nú vilja til, að hinir vondu framsóknarmenn færu að halda uppi málþófi, en málþóf er það víst að ræða málið. En í hv. Nd. hafa framsóknarmenn ekki rætt þetta mál meir en svo, að þess vegna hefði verið hægt að ljúka hverri umr. á einum degi. Það er sjálfur foringi þríflokkanna í þessu máli, hæstv. forsefi Nd. (EOl), sem tafið hefur málið. Hann sleit fundi á föstudaginn var eða fyrir viku kl. hálf þrjú að ástæðulausu, að því er séð varð. Og hann hefur haldið lengstar ræður við umr. málsins þar, þó ekki um málið sjálft, heldur um menn og málefni, sem ekkert koma þessu máli við, en hefur þó orðið til þess, að menn hafa talið sig neydda til að svara nokkru af því, sem hann sagði. Að formi til hafa þessar ræður hans verið skammir um Framsfl., en innihaldið og meginkjarninn hefur verið ákaft bónorð til Sjálfstfl. um að lofa nú Alþb.-mönnunum að komast inn í þá stjórn, sem búizt er við að Sjálfstfl. myndi í haust.

Það var auðvitað frá upphafi fjarstæða að gera ráð fyrir hálfs mánaðar þinghaldi nú. Að vísu hefði verið hægt að afgreiða stjórnarskrármálið á þeim tíma, vegna þess að meiri hluti þings var búinn að semja um það, ef hæstv. forseti Nd. hefði ekki tafið það. En það var óframkvæmanlegt að afgreiða kosningalögin, svo að vel væri, á hálfum mánuði. Ég efa ekki, að hæfir menn hafa undirbúið kosningalagafrumvarpið, en þeim var bara gefinn allt of stuttur tími til þess verks. Ég álít, að það hefði borgað sig betur að gefa þeim lengri tíma og kalla þingið síðar saman.

Fyrir seytján árum, 1942, stóð mjög svipað á og nú. Þá hafði verið samþykkt stjórnarskrárbreyting, sem aðallega fjallaði um aðra kosningatilhögun, hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum, og nokkra fjölgun þingmanna. Ef ég man rétt, kom aukaþingið, sem kallað var saman út af þessari stjórnarskrárbreytingu, saman 4. ágúst og því var slitið 9. sept. Þetta hygg ég að sé rétt, þó að ég hafi nú ekki skrifaðar heimildir fyrir framan mig um það og það tókst mæta vel að hafa kosningar um haustið og allt gekk sinn eðlilega gang fyrir því. En þrátt fyrir þau ákvæði í kosningalagafrv., sem eru víst í síðustu grein þess, að það öðlist gildi sem lög jafnhliða stjórnarskrárfrv., þá mundi ég ekki treysta mér til að fullyrða, að það væri löglegt að taka kosningalagafrv. til meðferðar, á meðan sú stjórnarskrá, sem nú gildir, er í gildi, því að kosningalagafrv. kemur að sjálfsögðu algerlega í bága við þá stjórnarskrá, sem nú er í gildi. En þetta hefur verið gert áður, og ég ætla ekkert að átelja það, þó að kosningalagafrv. sé til meðferðar í þinginu samhliða. En ef það er á annað borð löglegt að taka það til meðferðar í þinginu, þá tel ég, að það hefði verið jafnlöglegt að taka það til meðferðar í annarri deild, en stjórnarskrárfrv, var lagt fyrir. Ef stjórnarskrárfrv. var lagt fyrir Nd., eins og gert var, þá hefði verið jafnlöglegt að leggja kosningalagafrv. fyrir hv. Ed. og þá hefðum við ekki þurft að vera aðgerðarlausir allan þennan tíma hér í hv. deild.

Þetta hefði ég talið heppilegri og skynsamlegri vinnubrögð og sennilega stytt þinghaldið um eina viku eða svo. En vitanlega mátti ekki afgreiða kosningalagafrv. sem lög frá Alþingi, fyrr en eftir að búið var að samþykkja stjórnarskrárfrv.

Stuðningsflokkar stjórnarinnar — og ég skýt því inn, að ég tel Alþb. einn af þeim, — sömdu um þetta mál og ákváðu að taka engin rök til greina. Innihald frv. er að afnema öll núverandi kjördæmi landsins utan Reykjavíkur og setja í staðinn sjö stór kjördæmi, þar sem viðhafðar eru hlutfallskosningar, m.ö.o.: innihaldið er það að afnema persónulega kosningu þm. eða þær leifar, sem eftir voru af henni og taka upp í staðinn flokkskosningu. Það verður ekki framar kosið á milli manna og mun fara lítið eftir því, hvers trausts menn njóta hjá kjósendum, hverjir verða þm., heldur verða flokkarnir kosnir. Þessu verður auðvitað ekki haggað, þar sem meiri hluti þings hefur um það samið, en þess hefði átt að mega krefjast af þessum flokkum, að þeir gengju a.m.k. sæmilega frá þessu atriði, sem þeir eru að koma í kring og eru allir sammála um. En þar finnst mér vera misbrestur á og skal ég þó ekki eyða tímanum til að rekja það, en minnast aðeins á eitt atriði.

Árið 1874 voru engir flokkar til í landinu, enda nefndi stjórnarskrá sú, sem þá var sett, ekkert um neina flokka og þeir voru ekki heldur nefndir, þegar stjórnarskránni var breytt, bæði skömmu eftir aldamótin og síðar. Í fyrsta sinn eru flokkar nefndir 1933, þegar uppbótarþingsætin koma til sögunnar. Þá kom ákvæði um það í stjórnarskránni, að þessi uppbótarsæti skyldu vera til jöfnunar á milli þingflokka og ekkert annað um þingflokka. Þetta var skilið svo, að flest þau samtök, sem kæmu einum manni eða fleiri inn á þing, skyldu teljast þingflokkur, en það var ekkert skilgreint í stjórnarskránni, hvaða skilyrðum þyrfti að fullnægja öðrum til þess að geta heitið stjórnmálaflokkur eða þingflokkur eða hvers eðlis þeir þyrftu að vera. Það hefur þó sýnt sig, að þess hefði verið þörf, því að það hefur síðan orðið að miklu deilumáli, hvað þingflokkur væri. Það skeði upp úr kosningunum 1956. Þá var því haldið fram, að tveir flokkar, sem báðir höfðu þó starfað í 40 ár, væru einn flokkur. Og það lá við borð, að sá skilningur yrði ofan á hér í hinu háa Alþingi. En hafi verið þörf á því að skilgreina hugtakið þingflokkur eða hugtakið stjórnmálaflokkur áður, er miklu meiri þörf á því nú, þegar öll stjórnskipunin á að fara að hvíla á flokkum. Þá er alveg nauðsynlegt að setja skýr ákvæði um þetta í stjórnarskrána, hvað sé átt við með orðinu þingflokkur. En þetta hefur láðst að gera. Sjálfsagt fæst þó þetta nauðsynlega atriði, sem stendur í beinu sambandi við þær breytingar, sem nú er verið að gera, ekki einu sinni tekið til athugunar í sambandi við þetta mál og verður þá að sætta sig við það að sinni.

Ég var einn af þeim, sem ræddu nokkuð um þetta mál á síðasta Alþingi og eins og ég sagði áðan, vil ég ekki tefja málið með því að endurtaka það, sem ég sagði þá. Þó verð ég að láta það sama í ljós og þá, að þessi afgreiðsla sjálfs stjórnarskrármálsins er hrein svik við þjóðina. Það er öllum í fersku minni, þegar lýðveldi var stofnað 1944 og lýðveldisstjórnarskrá sett, þ.e.a.s. bráðabirgðastjórnarskrá fyrir lýðveldið og því var lofað af þinginu í heild sinni og öllum þingflokkum og virtust allir sammála um það, að þessa stjórnarskrá lýðveldisins þyrfti að endurskoða og það sem fyrst. Og það voru settar nefndir til þess að vinna þetta verk og ýmsir samningar fóru fram um það. Ég álít það hreint hneyksli, að nú skuli stjórnarskrá landsins vera breytt, án þess að um heildarendurskoðun lýðveldisstjórnarskrárinnar sé að ræða samkvæmt loforðum þingsins í heild sinni. Því er borið við, að Framsfl. hafi ekki fengizt til að semja um heildarlausn þessa máls vegna kjördæmamálsins. Þetta er vitanlega fjarstæða, því að auðvitað hefði mátt beita atkvæðamagni um þetta atriði stjórnarskrárinnar, þó að heildarendurskoðun hefði farið fram og frv. til lýðveldisstjórnarskrár legið fyrir. Þá hefðu þessir sömu flokkar getað beitt sínu þingvaldi til þess að ákveða kjördæmin eins og þeim sýndist.

Það eru líka ósannindi, sem mjög hefur verið haldið á loft af fyrrv. samstarfsflokkum Framsfl., að hann hafi svikið nokkra samninga frá 1956 um endurskoðun stjórnarskrár. Hann bauð samstarfsflokkum sínum upp á það og það var sett n. af fyrrv. stjórnarflokkum í þetta mál og hún var starfandi, þegar upp úr slitnaði. Það var samið um það, að þessu verki skyldi lokið á starfstíma fyrrv. stjórnar, en vitanlega var sá starfstími áætlaður út kjörtímabilið eða til ársins 1960 og liggja skjallegar sannanir fyrir því, að Framsfl. gerði ítrekaðar tilraunir til að fá málið athugað af þessum flokkum með það fyrir augum, að það yrði afgreitt á næsta reglulegu Alþingi.

Það er talið, að þjóðin hafi samþykkt þetta frv. í kosningunum. Að forminu til er þetta rétt, en raunverulega tel ég það mjög vafasamt, eins og hér hefur komið fram, vegna þess að allir stuðningsflokkar þessa máls reyndu að láta kosningarnar snúast um allt annað og sjálft stjórnarskrármálið var hreint aukaatriði. En hvað sem um þetta er, þó að það kunni að vera svo, að hægt sé að halda því fram með nokkrum hætti, að meiri hluti þjóðarinnar hafi í kosningunum samþykkt þetta frv., þá er hitt víst, að einstakir landshlutar, sem þessi breyting á að bitna á, hafa mótmælt því og það kröftuglega.

Eitt af þeim kjördæmum, sem gersamlega hafa mótmælt þessu frv., er mitt kjördæmi. Þar var allverulegur meiri hluti allra kjósenda í kjördæminu, sem kaus Framsfl. Sama er að segja um báðar Þingeyjarsýslur, en þessum sýslum á nú að steypa saman í eitt kjördæmi ásamt Akureyri á móti vilja þeirra sjálfra og sá vilji kom greinilega fram í kosningunum.

Á síðasta þingi, þegar þetta mál var til umr., sagði hv. 1. þm. Reykv. (BBen) á þá leið, að hér ætti ekki að afnema nein kjördæmi, eins og við framsóknarmenn hefðum haldið fram, það ætti að sameina þau og líkti hann þessu við það, að það ætti að gifta kjördæmin. Að vísu var þá um fjölkvæni að ræða, því að síður er það í okkar þjóðfélagi, að það sé einungis karl og kona, sem giftast, en ekki margir í einu hjónabandi, kannske fleiri karlmenn og fleiri konur. Ég veit ekki, hvernig hann hefur hugsað sér þetta sem líkingu á giftingu. En hvað sem um það er, þá er það víst og kom ljóslega fram í kosningunum, að t.d. Eyfirðingar og Þingeyingar vilja ekki láta gifta sig á þennan hátt. Það er ekki vegna neinnar óvildar á milli þessara héraða, þvert á móti, það fer mjög vel á með Eyfirðingum og Þingeyingum. En hvort héraðið um sig vill halda sjálfstæði sínu og halda sínum þm., sem það hefur undanfarið haft. Margir ofbeldisseggir á fyrri tímum giftu dætur sínar nauðugar og ævinlega í eiginhagsmunaskyni. Stuðningsflokkar þessa máls ætla auðsjáanlega að feta í fótspor þeirra manna.

Í fullu umboði kjósenda minna mótmæli ég því ofbeldi, sem hér á að fremja gagnvart þeim og öðrum þeim héruðum, sem hafa ótvírætt sýnt það í kosningunum, að þau vilja ekki láta svipta sig sínum sérstöku þingmönnum. Ég veit, að þau mótmæli verða ekki tekin til greina, en það gæti farið svo, að eftir því yrði munað í kosningunum í haust.

Að lokum langar mig svo til að minnast aðeins á eitt mál, sem ekki er beinlínis tilheyrandi stjórnarskránni, en stendur þó í nánu sambandi við þær breytingar, sem hér er verið að gera. Það á að fjölga þm. upp í 60. Þegar þetta hús var byggt, — 1880 mun það hafa verið, — þá voru þingmennirnir 3, og húsið var miðað við það, að hér ynnu 36 þingmenn. Síðan hefur þingmönnum verið smáfjölgað, og nú eru þeir 52. Og það vita allir, jafnvel nýkosnu þingmennirnir, að hér í þessu húsi eru engin vinnuskilyrði fyrir svo marga menn, ekki nokkur og þeir, sem hafa þótt ekki sé nema lítið inn í þinghús annarra þjóða, t.d. á Norðurlöndum, vita enn betur, hvernig vinnuskilyrðin eru hér og vinnuskilyrðin eru þar. — Ég sé nú ekki betur, en hæstv. ríkisstj. sé horfin héðan og mun það vera framhald af því, sem hún hefur gert, þegar þetta mál hefur verið til umr. í hv. Nd. En ég vildi nú mega spyrja hæstv. ríkisstj. eins, — ja, það bólar ekki á hæstv. ríkisstj. (Forseti: Ég vil aðeins skýra þm. frá því, að ég hef gert ráðstafanir til þess, ef ráðherrarnir eru í húsinu, að þeir verði kvaddir hingað.) Í haust verða þm. 60. Nú vildi ég mega beina þeirri spurningu til hæstv. ríkisstj., hvernig hún hugsar sér, að þessir 60 þm. gefi haft vinnuskilyrði hér í þessu húsi og hvernig yfirleitt á að koma þeim fyrir hér í þessu húsi á fundum, þannig að þeir hafi þó sæti og geti setið við borð. Ég heyri sagt, að í brezka þinginu hafi ekki allir þingmenn sæti, enda er það víst sjaldan, að þeir mæti allir. Það á kannske að taka upp það brezka fyrirkomulag að láta einhverja þingmenn vera án sætis og fyndist mér það þá sanngjarnt, að það yrðu uppbótarþingmennirnir, sem ekki hefðu sæti. Þeir eru hvort sem er ekki kosnir, heldur bara úrskurðaðir inn í þingið með lögum.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að skýra frá því, að fyrrv. forsetar gerðu ráðstafanir til þess að fá hæfa menn til þess að athuga möguleika á viðbótarbyggingum fyrir Alþingi hér á lóð þess. Og ég veit, að það hefur komið álitsgerð, kannske ekki mjög ýtarleg, en þó nokkur um þetta og teikning af því, hvernig a.m.k. einn arkitekt hugsar sér, að koma megi þessu fyrir. Nú vildi ég mega spyrjast fyrir um það, hvort hæstv. ríkisstj. hugsar sér ekki að gera ráðstafanir til þess og það nú í vetur, á aðalþinginu, að koma skriði á þetta mál, t.d. að biðja Alþingi um fjárveitingu og eins að undirbúa það á annan hátt, að Alþingi fái aukið húsnæði. Ég býst við, að mér komi þetta mál ekki mikið við persónulega og að ég hafi ekki mikil óþægindi af því, þó að hér verði ekki hægt að vinna. Það hefur nú í mörg ár ekki verið hægt að vinna í Alþingi. Það vitum við allir, sem hér höfum verið. Hér er ekki hægt að taka á móti t.d. sendinefndum, sem oft koma til þess að finna þingmenn, eða það eru a.m.k. mestu vandræði, og annað er eftir því. Forsetar Alþingis 3 hafa nú loksins fengið eitt lítið herbergi til umráða fyrir sig, allir 3 í sameiningu. Annars staðar mun það vera, að forsetar þinganna hafa heilar skrifstofur og flestir þingmenn herbergi í þinghúsinu til að geta starfað þar. Mér finnst, þegar nú á að fjölga þingmönnum svo mikið sem nú er gert ráð fyrir, að þá sé óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir í þessu efni og sérstaklega þá sökum þess, að það gefur óðar en líður, orðið of seint að hugsa sér viðbótarbyggingar hér á lóð Alþingis. Ef Reykjavíkurbær ætlar að fara að eyðileggja lóðir Alþingis með því að byggja stórt ráðhús úti í Tjörninni, þá er vitanlega loku fyrir það skotið, að hægt sé að nota lóð Alþingis til nýrra hæfilegra bygginga. Mér hefði nú fundizt, að hæstv. ríkisstj. ætti að gangast fyrir löggjöf um það að óheimila Reykjavíkurbæ slíka fjarstæðu að fara að byggja ráðhús útí í Tjörninni og hæfist eitthvað handa um það, að þessir 60 þingmenn hennar geti þó komizt inn.