10.08.1959
Efri deild: 6. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þessi ræða hv. þm. Barð. átti víst að vera sönnun eða tilraun til sönnunar fyrir því, að þetta mál, sem við erum hér að ræða, sú mikla bylting, sem á að gera á stjórnskipunarlögum landsins, hafi verið lögð fyrir kjósendur á þann hátt, sem ætlazt er til í 79. gr. stjórnarskrárinnar.

Ef það hefur verið ætlunin, þá held ég, að flestir, sem á hafa hlustað, geti viðurkennt með mér, að það fari víðs fjarri, að hann hafi fært nokkrar sannanir fyrir því, að málið hafi verið eðlilega fyrir lagt. Það eru líka svo nærtækar sannanir fyrir því gagnstæða, að það er áreiðanlega ofraun fyrir hann að reyna að gera tilraun til að halda því fram, að málið hafi verið heiðarlega lagt fyrir. Nægir þar að benda á, að þegar málið hafði verið samþ. hér á Alþ., héldu öll blöð stjórnarflokkanna eða öll blöð þeirra flokka, sem stóðu að málinu og núv. stjórnarflokkar því fram, að málið væri búið. Það þyrfti ekkert að ræða um það meir. Og fyrir þessu eru svo víðtækar sannanir, að það þarf ekki að rekja það, bókstafurinn blífur. Þá var málið alls ekki búið. En það var verið að reyna að telja kjósendum trú um, að þeir hefðu ekkert um málið að segja, málið væri búið, það væri kosið um allt annað,

Það var sagt, að þrír flokkar hefðu tekið höndum saman um að breyta stjórnarskránni, flokksforingjar hefðu tekið sig saman um það að breyta stjórnarskránni og þar með væri málinu lokið, alveg þvert ofan í ákvæði stjórnarskrárinnar, sem segir, að kjósendur eigi að taka afstöðu til þess, eftir að stjórnarskrárbreyt. hefur verið samþ. á einu þingi, hvort þeir gefa alþm. umboð til þess að samþykkja málið að fullu. Og það er alveg hárrétt, sem er tekið fram í nál. minni hl., að til þess er alls ekki ætlazt, að málið sé lagt fyrir kjósendur á þann hátt, sem gert var af þessum þremur flokkum. Það er þvert á móti gert ráð fyrir því, að kjósendur taki afstöðu til málsins alveg óbundnir af flokkum, sem ekki voru til á þeim tíma, er stjórnarskráin var samþ. Flokksvald þriggja flokka, blöð þeirra og áróðurstæki voru öll notuð til þess að blekkja kjósendur og upphafið var þetta, að málið væri búið, það þyrfti ekki að ræða það meir. Og það var furðanlega vel staðið við þessar fyrstu yfirlýsingar. Það þarf ekki að nefna annað til viðbótar — og þyrfti náttúrlega ekki að nefna neitt til viðbótar þessu, en það má nefna það til viðbótar, að á útifundi í Reykjavík, sem Sjálfstfl. hélt — og þeir útifundir, sem eiga að ná til sem flestra kjósenda, leggja venjulega megináherzlu á það, sem lögð er áherzla á í kosningunum, — á hvað var þar lögð áherzla, um hvað var rætt á fundinum, hvernig var hann boðaður? Var hann boðaður þannig, að nú ætti að ræða stjórnarskrárbreytinguna til þess að skýra málið fyrir kjósendum og fá þá til þess að taka afstöðu til stjórnarskrárbreytingarinnar? Var það? — Nei, það var lagt þannig fyrir, að nú skyldi aldrei aftur koma vinstri stjórn í landinu. Um þetta snerist útifundurinn.

Ég nefndi það ekki á neinn hátt til niðrunar fyrir Ragnar Lárusson, að hann hefði komið með vélritaða ræðu, síður en svo. Mér hafði ekki dottið í hug með einu einasta orði að fara út í þá sálma hér að tala um mótframbjóðendur mína í sýslunni. Það er bara staðreynd, að hann kom með vélritaða ræðu. Og ég er ekki að lá honum það og ég lái engum það, þó að hann komi undirbúinn á fund. En það sýndi það í þessari sýslu eins og annars staðar, að áherzlan var lögð á það og frambjóðendurnir vita ósköp vel, hvað flokksstjórnirnar leggja áherzlu á, þegar þeir fara í framboð, þeir lögðu áherzlu á það, að það væri talað um vinstri stjórnina, um fjármálin og ekki um kjördæmabreyt. Fyrsta ræðan og hver einasta ræða, sem hann hélt upp frá því, þó að hann talaði ekki fyrstur, við skiptumst á um það, hver talaði fyrstur og skiptum röðinni, eins og ég býst við að sé siður víða á framboðsfundum í kjördæmum,og hann flutti alltaf þessa sömu ræðu, við fluttum að sjálfsögðu svipaðar ræður hver og einn á þessum fundum fund eftir fund og áherzlan var hjá honum lögð á vinstri stjórnina, pólitíkina í landinu, flokkapólitíkina í landinu, ekki minnzt á kjördæmamálið einu orði í frumræðunni. — Það náttúrlega mætti koma í veg fyrir það, að atkvgr. yrði hér um þetta mál fyrr en kl. 3 eða 9 annað kvöld, ef maður færi að telja upp öll þessi dæmi. — Þess vegna er það algerlega ofmælt hjá hv. þm. Barð. að láta sér detta í hug að reyna að sanna það, að kosningarnar hafi ekki fyrst og fremst snúizt um annað af hálfu þessara þriggja flokka. Þeir hafa reynt að láta þær snúast um annað, en kjördæmabreytinguna. Þeir vissu, að hún var óvinsæl og reyndu að breiða yfir hana með öðrum málum.

Ég ætla nú ekki að fara að rekja þetta, enda gerist þess ekki þörf og sízt af öllu ætla ég að fara inn á það — hefur aldrei komið það til hugar — að rekja hér sögur af framboðsfundum í Strandasýslu. Ég fullyrti ekkert um Vesturland. Ég sagði, að á þeim fundum, sem ég hefði verið á á Vesturlandi, hefði þetta verið með þeim hætti, að reynt hefði verið að tala um allt annað, en kjördæmamálið. Og þar af leiðandi fullyrði ég ekkert um það, hvernig það hefur verið í Barðastrandarsýslu, þó að ég hafi fulla ástæðu til þess að tortryggja hv. þm., því að vitanlega verða að koma fram viti á hann fyrir það að fara að rekja hér sögur af framboðsfundum og niðra mótframbjóðanda sínum, sem ekki er hér til svara. Það verður að víta þá framkomu. En það er bara til bóta, að það tekur enginn mark á því, sem hv. þm. segir um andstæðing sinn, svo að það gerir kannske ekki svo mikið til. En þetta eru ekki mannasiðir og það á ekki að iðkast hér á Alþ., að menn fari að segja svoleiðis sögur. Ég efast ekkert um það, að hv. mótframbjóðandi hv. þm. Barð. hefur verið fullkomlega maður til að svara honum. Ég þekki ræðuhæfileika hans. Þegar hann er með glósu um það, að hann hafi haldið sömu ræðuna og Daníel Ágústínusson og líklega fengið hana lánaða þar og ég hafi samið báðar, þá er það einfalt mál, að ég er ekki fær um að semja ræður upp í hendurnar á þeim, því að þeir eru a.m.k. báðir eins góðir ræðumenn og ég.

Um Flatey hélt ég nú satt að segja að hv. þm. mundi spara sér að tala. En það grisjaði þarna í gegnum þennan vef, sem hann var að spinna, sem var þó aðallega um það, að mótframbjóðandi hans, Sigurvin Einarsson, hefði talað um kjördæmamálið. Hann talaði ekkert um það, hvernig hann sjálfur hefði talað. Það hefur kannske vantað í ræðu hans, án þess að hann tæki sjálfur eftir því, að hann segði, að kjördæmamálið hefði verið fullkomlega flutt á fundum, vegna þess að Sigurvin Einarsson hefði varið öllum ræðutíma sínum í fyrstu ræðu til þess að ræða málið, sem var vitanlega alveg eðlilegt og það, sem átti að gera. En hann talaði ekki um það, sem er meginatriði, hvernig mótframbjóðendur Sigurvins Einarssonar lögðu málið fyrir. Og það er gefið mál og auðsætt mál, að með blöðum og áróðurstækjum þriggja flokka er auðvelt að hafa í frammi þá hrekki og blekkingar, sem notaðar voru við kjósendur til þess að fá þá til að kjósa um annað, en kjördæmabyltinguna, sem nú á að innleiða. En það grisjar í gegn, sagði ég, í Flatey, — hann segir, að það hafi verið minnzt á atvinnumál og eftir það minntist Sigurvin Einarsson tæpast á kjördæmamálið, vegna þess að hann átti í vök að verjast. Það er nú sennilegt eða hitt þó heldur, að Sigurvin Einarsson hafi átt í vök að verjast út af atvinnumálum í Flatey og í Barðastrandarsýslu.

Það er sennilegt — eða hitt þó heldur. Ég hélt nú satt að segja, að hv. þm. Barð. vissi um það, að framferði hans í Flatey er frægt að endemum um allt Ísland. Þar var byrjað á að hlaða upp grjóti fyrir hverjar kosningar, — ég held þrennar — og þegar menn lofuðu í einhverjum kosningum, þá var það kallað síðar á Íslandi „Gíslagrjót“. Gíslagrjótið í Flatey er of frægt til þess, að það þurfi nokkur maður að segja mér, að hv. fyrrv. þm. Barð. hafi átt í vök að verjast þar, — nema þá hann hafi eytt tímanum í það að rekja hrakfallasögu hv. núv. þm. Barð. í atvinnusögu Barðstrendinga, sem er að endemum og skal ekki eytt tíma í að rekja hér. Átti ekki að byggja allt upp í Flatey og Bíldudal, — og hvar eru þessi atvinnutæki nú?

Ég ætla svo aðeins að víkja örfáum orðum — skal ekki hafa þau mörg, því að ég hef aldrei ætlað mér að lengja þessar umr., að öðrum staðhæfingum hv. þm. Hann sagði, að Sjálfstfl. og nýsköpunarstjórnin hefðu skapað undirstöðuna undir allar þær framfarir, sem hefðu orðið í þessu landi fram á þennan dag og útlendingar, sem sæju þessar framfarir, undruðust, hve miklar framfarir hefðu orðið í landinu. Ég skal nú ekki fara að ræða það, eins og ég sagði áðan, í löngu máli, þó að hann minntist á nýsköpunarstjórnina. En þá er það kannske við hæfi, að ég segi það, sem satt er, að þessi stjórn, þessi auma stjórn, tók við meiri auðæfum, en nokkur önnur stjórn hefur tekið við á Íslandi og sannleikurinn er sá, að hún var eins og ríkt barn, sem tekur við arfi og sólundar honum á stuttum tíma með óráðsemi. Það er nú það, sem hún gerði. Meginhlutinn af gjaldeyri þjóðarinnar fór í allt annað, en framleiðslutæki. Og það er ekki mikill vandi, þegar fjárfúlgur liggja fyrir, svo að mörgum hundruðum milljóna skiptir í erlendum gjaldeyri, að kaupa atvinnutæki. Hún sólundaði þessum fjármunum í margt annað, eins og hefur verið rakið og var rakið m.a. í umr. í hv. Nd. og hún skildi þannig við og það þarf ekki að fara í neinar grafgötur til þess að finna það, — hún skildi þannig við, að fjórir hagfræðingar, einn óflokksbundinn, einn maður frá Sjálfstfl. og tveir frá öðrum flokkum, lýstu því yfir, að hún væri búin að eyða hverjum einasta eyri í gjaldeyri og þannig stóð á með byggingar m.a. hér í Reykjavík, að Reykjavík var eins og eftir loftárás, það var byrjað á byggingum, sem ekki var hægt að ljúka við vegna fjárskorts og þannig hrökklaðist hún frá, stjórn, sem tók við meiri auðæfum, en nokkur önnur stjórn, sem hefur tekið við í þessu landi. Og henni tókst á stuttum tíma að gera það, sem margrakið hefur verið, að hækka dýrtíðina um 89 vísitölustig, svo að allt er hégómi, síðan hún stofnaði undirstöðuna undir vísitöluna, hún kvað upp vísitöludrauginn án þess að vera fær um að ráða við hann og það hefur enginn verið fær um að ráða við afleiðingarnar af því, sem þessi stjórn gerði. Það er hið sanna og enn eru menn að glíma við þá, og það verður glímt við það í haust.

Fullyrðingar eins og þær, að Framsfl. standi gegn lýðræðinu í landinu, — hann minntist á, að það hefðu verið hrekkir, kosningabandalagið milli Framsfl. og Alþfl. Það er kannske óþarfi að vera að ræða þessi mál, því að hver og einn, sem hlustar á þetta, getur svarað því sjálfur, enda það svo oft rætt. Þessir hrekkir voru þá þannig, að einn allra þekktasti lögfræðingur landsins, Jón Ásbjörnsson, dómari hæstaréttar, sjálfstæðismaður og ég held enginn eða fáir, — ég held enginn tortryggi samvizkusemi hans, hann dæmdi ekki, að það væru hrekkir. Hann dæmdi, að það væri löglegt. Og það voru stjórnskipunarlög, sem Framsfl. stóð ekki að, að setja, við stóðum ekki að því að setja þessi stjórnskipunarlög, sem svokallað Hræðslubandalag eða Framsóknarbandalag, hvort sem við viljum heldur kalla það, var stofnað samkvæmt. Þetta voru stjórnskipunarlög, sem Sjálfstfl., Alþfl. og Alþb. höfðu samið og Jón Ásbjörnsson sagði, að það væri löglegt, þetta bandalag. Náttúrlega man hv. þm. ekki heldur eftir því, þegar hann var í sínum ham, að Sjálfstfl. og Bændaflokkurinn voru búnir að stofna sams konar bandalag áður. Ég ætti m.a. að muna eftir því, ég hafði þá í minni sýslu, án þess að vera að rekja það, 350 atkv., Sjálfstfl. 250 og Bændaflokkurinn 250, kosningarnar 1934. Leikurinn var svo einfaldur. Þetta, sem hann kallar hrekki og Sjálfstfl. var þá að drýgja með Bændaflokknum, hann man náttúrlega ekki eftir því. Það voru 500 atkv., 250 og 250 eru 500, og 350 áttu að vera mitt hlutskipti. Það fór nú með öðrum hætti raunar og ég skal ekki rekja það, en svona var þetta víða. Ef hann kallar þetta hrekki, þá var Sjálfstfl. búinn að gera tilraun til að leika þessa hrekki, þessa sömu hrekki og okkur framsóknarmönnum datt aldrei í hug að halda því fram, að það væri neitt ólöglegt við það. Nei, þeir máttu leika þetta, sem hann kallar nú hrekki og þá var það lögmætt. En þegar Framsfl. og Alþfl. stofna sams konar samband, þá eru það hrekkir.

Hann kemur með fullyrðingar eins og þær, að við viljum viðhalda núv. kjördæmaskipun og við stöndum gegn lýðræðislegri stjórnskipun, Framsfl. Hvers konar fullyrðingar eru þetta? Ég ætla ekki að fara að rekja það, hvað var sagt á framboðsfundum. En vitanlega var auðvelt að svara þessu á þessum öllum framboðsfundum, ef einhver kom fram með þessa fjarstæðu. Tilboð okkar til Alþfl. og Alþb. um að reyna að leysa þetta mál, er kannske ekki fullkomin sönnun. En sú fullkomna sönnun er það, sem við lögðum fram hér á Alþ. og að minnsta kosti flestir eru í vafa um það, — ég býst ekki við, að hv. þm. Barð. verði í vandræðum með að fullyrða það gagnstæða, — en flestir eru í vafa um það, hvort nokkuð er ólýðræðislegri sú stjórnskipun, sem við stungum upp á, án þess að leggja niður héruðin úti um land, heldur en það, sem nú er verið að samþykkja. Við buðum fullkomið réttlæti gegn því, að kjördæmin yrðu ekki lögð niður og við vorum búnir að bjóða Alþfl. og Alþb. að fara inn á þessar brautir. Svo kemur hv. þm. og segir, að við stöndum gegn því, að lýðræðisskipun sé í landinu. Þetta er vitanlega fjarstæða og ekkert annað en út í bláinn, þvert ofan í staðreyndir, sem liggja fyrir hér f prentuðum þskj.

Svo heldur hann því fram, að útilokun Sjálfstfl. frá stjórnarmyndun, þegar vinstri stjórnin var mynduð, hafi verið ólýðræðisleg. Þessir þrír flokkar, sem stóðu að ríkisstj., voru í meiri hl., og ég get ekki séð neitt ólýðræðislegt við það, þó að flokkur, sem er í minni hl., sé í stjórnarandstöðu. Þessi vefur er þess vegna allt saman meira og minna fjarstæður.

Svo að lokum þetta, að hann segir, að kosningin í Barðastrandarsýslu hafi sýnt það, að kjósendur þar hafi verið með þessari kjördæmabyltingu. Mér satt að segja finnst nú, að hv. þm. þurfi ekki að vera sérstaklega hreykinn af þessum meiri hl., 11 mönnum, 11 atkvæðum og þar á meðal var eitt tekið gilt, sem kaus Gísla Sveinsson, svo að það er nú ekki neinn sérstakur glans yfir þessari kosningu, svo að hann þurfi að vera neitt sérstaklega hreykinn af henni. Enn fremur er vitað, að mikið af Alþfl. var fengið til þess að kjósa hv. þm., eins og atkvæðatölurnar frá 1953 sanna. En það er sama, hann getur sagt það með réttu, að það komi ekki málinu við, það hafi verið kjósendur, sem greiddu atkvæði með því, að núverandi stjórnskipunarlög yrðu samþ.

Enn fremur eru fullyrðingar um óvinsældir vinstri stjórnarinnar. Það hefur nú svo mikið verið rætt um það, að ég skal ekki mikið um það ræða. En ég ætla aðeins að segja, að það er dálítið erfitt fyrir þá, sem halda því fram. Það er vitað um vinstri stjórnina, að það var ágreiningur í Alþb. um að standa að vinstri stjórninni. Þetta vita allir landsmenn. Það er svo þaul rætt og hefur komið svo víða fram í nefndum, 19 manna nefndinni, Alþýðusambandsþingi, að þetta vita menn. En þeir vita jafnframt, að Framsfl. stóð heill og óskiptur alla tíð að stjórninni og að það var ekki hans sök, að rofnaði, og ég skal ekki fara að rökræða um það. En þetta hefur fólk á tilfinningunni og það er erfitt að koma því heim og saman, að vinstri stjórnin hafi verið óvinsæl, en flokkurinn, sem veitti henni forustu, fái einn þann mesta kosningasigur, sem nokkurn tíma hefur þekkzt á Íslandi, út úr kosningunum. Hvernig fer hv. þm. að koma þessu saman? Ef nokkur snefill væri af sannleika í þessum rökum, hefði forustuflokkurinn átt að fara verst út úr því í kosningunum, en það var eitthvað annað og frekar þarf maður ekki að ræða um það.

Hv. þm. álítur, að þessi kjördæmabreyting muni hreinsa andrúmsloftið og því hefur verið haldið fram hér við framsögu þessa máls, að hér væri verið að taka upp kosningafyrirkomulag, sem hefði gilt og gilti á Norðurlöndum og vel reynzt. Það getur verið rétt, að Norðurlönd hafi verið nægilega traust stjórnskipulega til þess að þola þetta eitur, sem hlutfallskosningar eru og hafa reynzt í flestum löndum. Það hefur verið svo fram á þennan dag, þó að ekki sé hægt að minnast á það öðruvísi, en að minna á Finnland og ekki er hægt að minnast á það öðruvísi en að geta þess, að jafnaðarmennirnir, sem hafa víða verið sterkir um skeið, hafa myndað meiri hluta í þessum löndum. En hvernig fer þetta, þegar sá meiri hluti hverfur og þarf að fara að mynda stjórnir eins og núna í Danmörk og hvernig fer það í Svíþjóð, þegar meiri hlutinn þar hverfur? Við höfum fulla ástæðu til þess, að það fari eins og í Hollandi, þar sem ekki hefur verið hægt að mynda stjórn í 3 mánuði núna á þessu og seinasta ári og hvert vandræðatímabilið eftir annað verður, þegar í að fara að mynda nýja ríkisstjórn. Og við höfum raunverulega beztu sannanirnar fyrir því, — ég held, að ég fari þar með rétt mál, ég hef verið að athuga það og ég hef ekki getað komizt að annarri niðurstöðu en þessari: Hvert einasta land í veröldinni, sem breytir sinni stjórnskipun núna seinustu árin, leggur hlutfallskosningarnar til hliðar, tekur upp meirihlutakosningar. Hvert einasta ríki, sem fær sjálfstæði núna seinustu árin, tekur ekki upp hlutfallskosningar, heldur meirihlutakosningar. Það getur vel verið, að það sé til einhver undantekning, en ég hefði gaman af að heyra, hver hún er og hvar hún er, ef þau á annað borð breyta sinni stjórnskipun og taka upp nýtt stjórnskipulag, vegna þess að þau verða sjálfstæð ríki. Og það er langt frá því, að þetta hreinsi andrúmsloftið. Það hefur hvergi gert það í neinu landi. Þetta er sú mesta óhreinkun á pólitísku andrúmslofti, sem til er fyrir nokkurt land og það mun ásannast, að þeir, sem samþykkja þetta mál, vinna hér mjög slæmt verk fyrir okkar þjóðfélag. Og það er nú sennilega séð fyrir endann á þessu í bráð. En þó að séð sé fyrir endann á málinu, þá er því miður ekki séð fyrir endann á þeirri ógæfu, sem þetta á eftir að leiða yfir íslenzkt þjóðfélag.