10.08.1959
Efri deild: 6. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til umr. á síðasta þingi, lét ég í ljós skoðun mína á því. Ég lét þá í ljós þá skoðun, að þegar kjósandi einhvers staðar í landinu ætti samtímis að kjósa um það, hvort hann væri með þessari kjördæmabreytingu, og jafnframt, hvort hann væri sammála þeim þm., sem væri honum sammála um stjórnarskrárbreytinguna, í öðrum málum, þá væri það hér um bil ekki hægt. Ég sagði þá, að hver kjósandi yrði að athuga skoðun þingmannaefnanna, sem í framboði væru og að reyna að velja þann, sem hann fyndi mest í samræmi við sínar eigin skoðanir. Og þegar stjórnarskrá landsins, sem er þeirra laga dýrmætust og talin vera undirstaða undir öðrum lögum, er slengt inn í það „kaos“, sem kjósandinn verður að reyna að gera sér ljóst, þegar hann kýs og finna samnefnara fyrir, hvort hann er með eða ekki og hvort hann heldur vill kjósa vegna kjördæmamálsins eða annars máls, þá getur hann það ekki. Þess vegna sagði ég þá og hafði reyndar sagt hér áður og meira að segja flutt um það sérstakt frv. einu sinni hér á þingi, að stjórnarskránni ætti að breyta á sérstöku stjórnlagaþingi, það ætti ekki að gera aðrar breytingar á stjórnarskrá landsins af þm. en þá eina að setja inn í hana þau ákvæði, að hún skyldi samþykkt af sérstöku þingi, sem ekkert gerði annað en ræða hana og samþykkja hana, svo að kjósandi fengi að kjósa um það mál eitt, — það mál eitt, hvernig hann vill hafa stjórnarskrána. Það væri eina leiðin til að fá stjórnarskrá, sem væri í samræmi við vilja meiri hluta þjóðarinnar. Þetta hefur enginn viljað hlusta á og enginn viljað sinna, a.m.k. aldrei nógu margir.

Um þetta sannfærðist ég enn betur, en áður, við kosningarnar í sumar. Ég skal ekki fara að lýsa einstökum fundum, en ég skal segja það þó, að jafnaðarmennirnir tveir, sem þar voru, — annar þeirra rakti á fyrsta fundinum ákaflega ýtarlega kosningar til Alþ. og kjördæmaskipan, frá því að Alþ. var stofnað og til þess dags, en sagði ekkert um sína eigin skoðun. Hann mætti ekki á fleiri fundum. Og hinn frambjóðandinn, sem mætti á þeim öllum, minntist aldrei á stjórnarskrána. Hann sagði mönnum frá því, að Alþfl. hefði nú bara komið á togaravökulögunum, — bara einn, þurfti engan annan flokk til þess og hann hefði komið á tryggingunum og þess vegna væri borgað svona mikið tryggingarfé í hreppnum núna, hérna í ár o.s.frv. Hann minntist aldrei á neitt, sem héti kosningalög eða stjórnarskrárbreyting. Sjálfstæðismennirnir sögðu bara, að þau væru afgreidd og það þýddi ekkert að vera að tala um það, þau væru alls ekki til umr. Þegar ég sagði þeim, að á næsta þingi ætti nú að ræða einmitt stjórnarskrárbreytinguna og svo breytingu á kosningalögunum og minntist á margt af því, sem þar þyrfti að breyta og er hérna í tillögunum um breytingu á kosningalögum, sögðu sjálfstæðismenn, að á næsta þingi yrði bara rætt um það, hvort það ætti að vera hér í landinu vinstri stjórn eða ekki. Það væri um það kosið. Ef það heppnaðist að stöðva þessa stjórnarskrá, þá væri alveg víst, að vinstri flokkarnir kæmu sér saman og stofnuðu vinstri stjórn og það yrði að fyrirbyggja. Þetta prédikuðu bæði sjálfstæðismennirnir og Alþýðubandalagsmennirnir. Þess vegna er það alveg gefið, að kjósendurnir, sem mynduðu sér skoðun eftir þessum umræðum, gátu ekkert tillit tekið til stjórnarskrárbreytingarinnar, ef þeir voru harðir og ákveðnir flokksmenn, en það eru þeir sjálfstæðismenn, sem enn hanga í Sjálfstfl. Þótt þeir gjarnan vildu breyta stjórnarskránni, þá gátu þeir ekki gert það, þegar þeir áttu yfir sér eftir sögusögn frambjóðenda Sjálfstfl. og Alþb. að fá vinstri stjórn, sem þeir voru á móti. Það voru margir sjálfstæðismenn, sem ekki vildu það og kusu þess vegna ekki eftir málinu, sem fyrir lá og málinu, sem við erum núna að ræða, heldur eftir allt öðrum sjónarmiðum. Þetta er alveg deginum ljósara og ég þyrði að veðja nærri því eins miklu og vera skyldi um það, að ef kosið væri um þetta mál eitt í Norður-Múlasýslu, þá yrðu það ekki 866 atkvæði, sem stæðu með því, — það eru þau atkvæði, sem við fengum seinast, — heldur miklu meira, — líklega í kringum 1.100 atkvæði, sem væru með því og þó trúlega meira. Það þori ég alveg að fullyrða, bæði eftir því, hvernig fundirnir lágu og eins eftir viðtölum mínum við menn. Þess vegna er það í mínum augum glæpur, augljós glæpur hjá þeim, sem standa að þessu máli, að afgreiða mál, sem er undirstaðan undir öllu okkar stjórnarfari, stjórnarskrána, án þess að lofa þjóðinni að greiða um það atkvæði og ráða það með sér.

Ég skal ekki endurtaka það, sem ég sagði hér á síðasta þingi. Ég sagði þá, að þessi breyting leiddi til þess að draga úr sjálfræði kjósenda um það, hverja þeir kysu og hverjir kæmu til með að sitja á þingi og legði það meira og minna á vald flokkanna, — ég sagði það þá og ég geri það enn. Ég skal alveg fullyrða, að þegar nokkur ár eru liðin, — ég lifi það kannske ekki, af því að ég er orðinn svo gamall, en þeir, sem yngri eru hérna og nú eru hér margir ungir menn, þeir lifa það áreiðanlega, líklega ekki þó fyrr en eftir tvennar kosningar, að kjósendurnir verða ekkert spurðir um, hverjir verði í kjöri í kjördæmunum. Það verða bara miðstjórnirnar, sem búa listana til. Og það mætti segja mér, að sums staðar færi það strax svo í haust, að það yrði þannig. Það mætti segja mér, að mennirnir, sem núna t.d. á Sjálfstæðisflokksins vegum eru farnir að ferðast um og reyna að ná meðmælendum með því, að þeir verði efstir á lista í kjördæmi, þar sem eru líkindi til, að ekki komist að nema einn maður, — þá mætti segja mér, að þar yrði flokksstjórnin að koma til með að skera úr, hverjir það yrðu, þegar þeir kæmu allir með lista, er sýndu, að þessi hefði mælt með sér og þessi með hinum. Það mætti segja mér, að það kæmi fram strax í haust hér og þar á landinu, að miðstjórnirnar yrðu að skera úr. Og það er líka auðséð að, að því stefnir, því að ég sé ekki betur af till., sem þarna liggur frammi, ég veit ekki, hvort samþ. verður, að það á ekki einu sinni að lofa mönnum að ráða því, hvort þeir vilji mennina, sem eru á listanum eða ekki. Þeir eiga ekki að fá að strika þá út. Það á ekki að hafa nein áhrif að strika út og er því þegar farið að skerða rétt kjósenda. Það er byrjað þar ekki einungis að svipta þá því frelsi, að þeir fái sjálfir að koma saman í þessum stóru kjördæmum, sem er nú hér um bil ómögulegt sums staðar og ráða framboðslistanum. Þeir, sem vilja hafa röðina á listanum einhvern veginn öðruvísi, þegar þeir kjósa hann, eiga ekki að fá að breyta honum hér um bil neitt. Næsta stigið: landið eitt kjördæmi og þá geta þeir gott að sér, — hér er staddur 8. landsk. (BjörnJ), þá getur hann brosað breitt, því að næsta stigið verður það að hafa bara einn lista í kjöri og leyfa ekki aðra lista. Þá er kommúnisminn kominn og hjálpa honum drjúgt til þess þeir, sem nú eru með þessari kjördæmabreytingu. Það er bara stig af stigi áfram. Nú á að bjóða kjósandanum að ráða, hverja hann eigi að kjósa af mönnunum, sem eru á listanum, og þar næst er, að miðstjórnin býr listann til og hætt er að láta kjósendurna koma nærri því, þriðja stigið: einn flokkslisti búinn til af ráðandi ríkisstj. og aðrir komast ekki að. Kosningin verður lík og í Rússlandi. Þá er stigið komið. Og það eru börnin okkar og barnabörnin, sem lifa það.

Nei, þetta stjórnarskrárfrumvarp er ákaflega skaðlegt fyrir þjóðina. Þó er ekki nóg með það. Það er líka skaðlegt á þann hátt, að það dregur úr sjálfstæðri hugsun, sjálfstæðri skoðun kjósandans á málunum, en styður að múgsefjun fjöldans og kosningu eftir augnabliksáhrifum, sem þeir verða fyrir, sem talað er við. Það verður alltaf svona í heiminum, að mennirnir, sem alast upp við margþætt verkefni og verða að hugsa og taka ákvarðanir sjálfstætt um þau, eins og bændur allra landa í öllum heiminum þurfa og útgerðarmenn líka og ýmsir iðnaðarmenn, það er aðstaðan, svo að þessir menn hafa víðari sjóndeildarhring og eru betur færir og meira hugsandi um hvaða mál sem er heldur en hinir, sem alast upp í stórborgunum, — við eigum nú sem betur fer ekki neitt af þeim enn þá, þó að það sé á leiðinni hér í Reykjavík, þar sem sami maðurinn, frá því að hann byrjar að taka til hendinni, gerir eitt ákveðið verk og þarf aldrei að hugsa um annað en það. Með því fást meiri afköst, meiri tekjur fyrir þjóðarbúið, þegar svo er komið, en þá fáum við um leið menn, sem hafa ekki neina þekkingu eða neina möguleika til að mynda sér sjálfstæða skoðun um þjóðmál, sem þeir hafa aldrei komið nærri og vita ekki nokkurn hlut um. Að þessu styður þessi stjórnarskrárbreyting. Hún styður að múgsálinni. Hún styður að því, að við þessa menn geti einn maður talað, fengið þá til að hrífast með á fallegum mannfagnaði, kannske án þess að þeir komi nokkuð að málinu, sem um er að ræða, af því að tilheyrendurnir hugsa ekkert sjálfir um málið og geta ekki hugsað um það sjálfstætt.

Þess vegna er það alveg rétt, sem hefur verið haldið fram af mörgum í þessum kosningum, að þessi stjórnarskrárbreyting, sem nú er gerð, dregur úr því, sem kallað hefur verið bændamenning hér á landi, sem er reyndar líka í fjöldamörgum bæjum og alveg einráðandi í mörgum smærri bæjum og mikils ráðandi í þeim stærri líka, enn sem komið er, en smábreytist, eftir því sem verkaskiptingin vex og við komumst inn á meira einhliða framleiðslu fyrir einstaka menn. Hún styður undir hópsálina, múgmennskuna. Þetta er eins víst og tveir og tveir eru fjórir og þetta verður til bölvunar fyrir okkar þjóð tvímælalaust. Þess vegna hef ég verið á móti þessu frv. og verð það og það má náttúrlega enn þá bera það undir þjóðina, eins og hér er till. um, meira segja gera það á tvo ólíka vegu. Það má gera það eins og rökst. dagskráin hljóðar um og það má líka gera það með því að ákveða, að lögin öðlist ekki gildi, fyrr en þau hafa verið samþykkt með alþjóðaratkvæði.

En annars hef ég talið og tel og hef alltaf talið, að stjórnarskránni eigi ekki, eins og flokkaskiptingin er orðin í landinu núna, harðvítug og menn fastir í flokkum, já, mjög fastir í flokkum, þá á hún ekki að afgreiðast í bendu með öðrum málum, heldur afgreiðast ein sér á sérstöku stjórnlagaþingi, sem þjóðin greiði atkv. um og kjósi til, eftir að fyrir liggur, hvernig þjóðin skiptist í flokka um stjórnarskrána, sem þá lægi fyrir eða menn hugsuðu sér að setja. Því miður hefur það ekki veri, og við því er ekkert að segja, það hefði ekki fengizt fyrir minn hlut. Ég reyndi að friða þá menn, sem ég vissi að voru með okkur framsóknarmönnum í stjórnarskrármálinu, þó að þeir væru á móti okkur í öðrum málum, með því að segja þeim, að stærstu vinningsmöguleikar, sem til væru fyrir Framsfl., væru 5 ný þingsæti og þó að við héldum öllum okkar gömlu, þá hefðum við samt ekki meiri hluta til að stöðva málið, svo að þeim væri óhætt að kjósa, eins og þeirra sannfæring byði í þessu máli, hvað sem liði verðandi vinstri stjórn, sem Alþb.-mennirnir sérstaklega héldu fram að mundi myndast, ef þeir kysu með stjórnarskránni. En ég reiknaði þá ekki með því, að Alþfl. yrði lánað eins mikið í þessum kosningum af atkv. frá Sjálfstfl. og gert var. Okkar menn komust ekki að nema í 4 af þingsætunum 5, sem ég átti von á að þeir gætu kannske komist, og það var nú ekki neitt. Sömuleiðis var reynt að hræða þá mikið, sem voru þess sinnis, að þeir vildu nú fella stjórnarskrána, en þó ekki láta Framsfl. fá meiri hluta, á Hræðslubandalaginu. Sérstaklega var það einn frambjóðandi, sem gerði það nokkrum sinnum. Ég minnti hann á, að hann hefði sjálfur verið í framboði og talið sig þá Bændaflokksmann og haft með sér Sjálfstæðisflokksmann, þá átti að kjósa saman og þeir höfðu gefið því nafnið Breiðfylkin, og eftir því sagði sá nú, að hann hefði sjálfur verið notaður sem agn til þess að taka þátt í sjálfri Breiðfylkingunni, — þá hætti hann nú dálítið að tala um Hræðslubandalagið. En sem sagt, allir þeir sjálfstæðismenn, þeir eru nú reyndar ekki nema 300 í sýslunni allri, en af þeim hóp voru þeir margir, sem voru í raun og veru á móti stjórnarskrárbreyt., — þeir voru allir fræddir á því, að ef þeir greiddu atkv. þannig, þá yrði aftur mynduð vinstri stjórn, þá tæki Framsfl. aftur saman við kommana og Alþfl. og myndaði vinstri stjórn og hún hefði verið svona og svona bölvuð. Því svaraði ég nú aldrei, því að því svöruðu Alþb.-mennirnir. Þeir svöruðu því, en ég þurfti ekki að skipta mér af því. Þess vegna fullyrði ég alveg hreint, að kosningin í Norður-Múlasýslu segi ekkert um það, hve margir Norðmýlingar eru á móti þessari stjórnarskrárbreytingu. Þeir eru miklu fleiri, en fram kemur í atkvæðatölunum, sem eru 866, sem kusu okkur og milli 300 og 400, sem kusu hina. Hún segir ekkert um það.