11.08.1959
Efri deild: 7. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Bernharð Stefánsson; Herra forseti. Mér þykir það næsta undarleg kenning, sem kom fram hjá hv. þm. Vestm. (GuðlG), að það sé lítilsvirðing á þjóðarviljanum að leita hans, svo að ótvírætt sé. Það, sem framsóknarmenn hafa stungið upp á í báðum d. Alþingis, er það, að þjóðaratkvæðis verði leitað um þetta mál. Við skulum segja, að þjóðarviljinn sé eitthvað svipaður um þetta mál og þeir segja, að hafi komið fram í kosningunum. Er þá nokkur goðgá, að gengið sé úr skugga um það, að kjósendur hafi kosið um þetta mál, þegar þeir kusu? Það er ætlazt til þess af sjálfu Alþingi, ef það breytir stjórnarskránni eða setur nýja stjórnarskrá, að þá samþykki Alþingi það tvisvar. Það mætti þá alveg eins segja, að það væri lítilsvirðing á Alþingi að ætla því að samþykkja þetta mál tvisvar.

Nú er það vitanlega alveg rangt, sem hv. þm. Vestm. sagði, að kosið hefði verið um þetta mál í vor og sízt af öllu eingöngu. Við vitum það allir, — ég veit, að hver einasti maður hér í hv. d. veit það og viðurkennir með sjálfum sér, að þegar gengið er til almennra alþingiskosninga, þá er kosið um flokka. Það er ekki kosið um einstakt mál, jafnvel þó að þing sé rofið af því. Og mér er alveg fullkunnugt um það, að víða var það svo, að það var gert, eins og hér hefur komið fram, allt sem hægt var, til að leiða athygli kjósenda frá því, að það væri verið sérstaklega að kjósa um stjórnarskrármálið.

Hér var við 2. umr. málsins í gær töluvert rætt um það, einkum af hv. þm. Barð. (GíslJ), hvernig ræður manna hefðu fallið á framboðsfundum í vor. Ég get vottað það úr mínu kjördæmi, að þar voru frambjóðendur annarra flokka, en Framsfl. mjög tregir til að ræða um stjórnarskrármálið, sögðu að það væri útkljáð mál. Fyrri frambjóðandi sjálfstæðismanna ræddi að vísu lítillega um það, eftir að við framsóknarframbjóðendurnir höfðum gefið tilefni til þess. Hinn frambjóðandi sjálfstæðismanna minntist aldrei á það á neinum fundi og frambjóðendur Alþfl. og Alþb. ræddu mjög lítið um það og reyndar ekki fyrr en annar frambjóðandi Alþb. mætti á tveimur síðustu fundunum, hann talaði um það, en aldrei aðalframbjóðandi Alþb. Það, sem mest gekk út á fyrir þessum tveimur flokkum, voru innbyrðis deilur þeirra á milli og gæti verið skemmtun að því, — ég man nú dálítið af því, — ef ég færi að segja það hér í d. En þar sem deildarfundir eru engin skemmtisamkoma, tel ég betur sæma að sleppa því. T.d. sagði aðalframbjóðandi Alþfl. mjög skemmtilegar dæmisögur á hverjum einasta fundi, sem e.t.v. væri fróðlegt fyrir menn að heyra.

Hv. þm. Barð. vék lítillega að mér í ræðu sinni í gær undir 2. umr. málsins og minntist eitthvað á það, að ég mundi hafa fengið Alþýðuflokksatkvæði við kosningarnar 1956. Það kann vel að vera, að ég hafi fengið einhver Alþýðuflokksatkvæði, ég veit ekki svo um það, hvernig hver kjósandi kaus í mínu kjördæmi. Ég held enga bók um það, hvernig menn kjósa. En nokkuð er það, að í síðustu kosningum, þegar Alþfl. hafði þar eins og alls staðar annars staðar framboðslista í kjöri, þá fékk ég nú fleiri atkvæði, en við kosningarnar 1956, þegar ég átti að vera í bandalagi við Alþfl. Og það væri kannske rétt fyrir hv. þm. Barð. að ráða ofur litla gátu og hún er um það, hvernig á því muni hafa staðið, að Sjálfstæðisfl. tapaði svo til nákvæmlega jafnmörgum atkvæðum í kosningunum í vor og Alþfl. fékk fram yfir það, sem hann fékk á landslista 1956. Mér virðist sú niðurstaða benda á það, að e.t.v. hafi ekki verið laust við einhvers konar leynibandalag þarna á milli og verkað alveg eins mikið og bandalag við Framsfl. Það virðist mér.

Hv. þm. Barð, hefur — held ég — haft illt af því að vera utan við þingið þessi þrjú ár. Hans ræða í gær var miklu líkari ræðum hans 1942 og fyrstu árin, sem hann var hér á þingi í hið fyrra sinn, heldur en ræðum hans síðari hluta þess tíma, sem hann var á þingi. En það verð ég að játa, að hv. þm. Barð. fór mjög mikið fram þau 14 ár, sem hann sat hér á Alþingi, svo að það, að ræða hans í gær líktist meira frumræðum hans hér, virðist ekki benda á framför þann tíma, sem hann var utan þings. Hann var ekki búinn að vera hér nema fáa daga, eftir að hann hóf hér þingmennsku, þegar hann gerði mótframbjóðanda sinn í Barðastrandarsýslu að aðalumtalsefni í einni ræðu. Sama var upp á teningnum í gær. Það, sem hann hafði aðallega að segja, var um aðalmótframbjóðanda sinn í Barðastrandarsýslu nú. Að vísu var miklu hóflegar í sakirnar farið í gær, en fyrir seytján árum, þegar hann talaði þá.

Þetta mál er nú komið á síðasta stig hér í hinu háa Alþingi og gengur sjálfsagt fram í dag og líklega fyrr en síðar og verður að lögum. Þar með er meira en hundrað ára gamalli kjördæmaskipun, sem staðið hefur í öllum aðalatriðum óbreytt allan þann tíma, gerbreytt og algerlega nýtt skipulag tekið upp. En þeir, sem að þessu standa, gera sér sennilega von um, að þessu nýja skipulagi fylgi batnandi tímar að einhverju leyti og mig grunar, að það eigi sérstaklega að liggja í því, að þeirra eigin flokkar hafi hag af því að taka þessa breytingu upp. Þess vegna finnst mér ekki sitja á hv. þm. Vestm. að vera að tala um það, að flokkar meti þetta mál eftir sínum eigin hagsmunum. Ég held, að það hafi verið hagsmunir þessara flokka, sem nú hafa slegið sér saman í þessu máli, sem komu málinu af stað og ekkert annað. Það veit ég alveg fyrir víst og ég hygg, að sumir þm. þessara flokka hér inni muni ekki neita þessu. Það er kannske, að nýir þm. í góðri trú neiti því, en þeir eldri og reyndari munu tæplega gera það margir. Annars þykir mér það ákaflega undarlegt, að hv. þm. Vestm. skuli vera stuðningsmaður þessa máls óbreytts, því að ef nokkurt kjördæmi landsins hefði nú átt að fá að halda sér óbreytt, þá voru það Vestmannaeyjar. Vestmannaeyjar eru fyrst og fremst eyland, allfjarri landinu og ég hygg, að líf fólks þar og atvinnuvegir séu svo ólíkir því, sem er annars staðar í því kjördæmi, sem þeir eiga að lenda í, að það hefði átt að vera þeirra krafa að fá að vera sérstakt kjördæmi. Ég álít, að þeim veiti ekkert af því að eiga sérstakan fulltrúa á Alþingi og mér er nær að halda, að fyrri þingmaður Vestmanneyinga hafi raunverulega lítið svo á og ekki verið ákaflega áhugasamur um það, að þetta mál næði fram að ganga.

En vitanlega er búið að búa svo um hnútana, að þetta mál gengur fram og það í dag. Og þá verður ekki annað að gera fyrir okkur alla, en að óska þess, að það verði þjóðinni helzt til heilla og a.m.k. til svo lítilla óheilla, sem auðið er. Ég er viss um það alveg, að þessi breyting verður til óheilla fyrir vissa hluta þessa lands, afskekktar byggðir. Það er alveg gefið mál. Það kann að vera, að þess gæti ekki í fjölmennari byggðum og ég tala nú ekki um þar, sem fjölmennið er mest. Að því leyti er þetta illt verk, sem verið er að vinna, að mínu áliti. Og ég hygg, ef menn hefðu viljað vinna að þessu máli og reyna samkomulag, þá hefði mátt finna þá lausn, að því, sem verið er að ná með þessum breytingum, hefði mátt ná án þess að taka hina sérstöku þm. af öllum byggðum þessa lands, sem verið hafa kjördæmi. Það voru ýmsar leiðir til þess. Það var t.d. hægt að fjölga uppbótarþingsætum og fleiri leiðir voru til, til þess að ná þessu svokallaða jafnrétti flokka, heldur en endilega þetta.

Og svo er enginn kominn til að segja það, að hlutfallskosningar þær, sem nú á að taka upp um land allt, jafni svo á milli flokka, jafnvel að meðtöldum uppbótarsætunum, að atkvæðatala hvers flokks verði á eftir hnífjöfn á hvern þm. Ef litið er á bæjarstjórnir ýmsar, þá hefur það jafnvel sýnt sig sums staðar, að meiri hluti bæjarstjórnar hefur verið kosinn af minni hl. kjósenda og mér finnst, að það geti vel komið fyrir, að það sama verði upp á teningnum í þessum kjördæmum, að þetta ruglist töluvert, og er óvíst, að uppbótarsæti nægi til þess að gera þetta hnífjafnt.

En hvað sem um það er, ég ætla ekki að lengja þetta meira, — ég hef enga minnstu löngun til þess. Mér finnst þetta þing hafa verið með þeim leiðinlegri, sem ég hef setið á og eru þau orðin allmörg og ég hef enga löngun til að lengja það og þar af leiðandi ekki til að lengja mál mitt. Og ég enda með því að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég vildi þó þrátt fyrir allt óska þess, að þessi breyting yrði helzt af öllu þjóðinni til blessunar eða a.m.k. til svo lítils ófarnaðar sem kostur er á og verður það mál þá mest undir kjósendum landsins komið, hvernig það ræðst, og þó ekki eingöngu undir kjósendum landsins komið, heldur einnig undir þeim komið, sem leiðbeina kjósendum. Það er mikið komið undir blöðum landsins og áróðursmönnum flokkanna, hvernig um það muni til takast.

Ég er ekki sérstaklega hræddur við þessa breytingu vegna míns flokks. Ég hugsa, að hann spjari sig nokkuð, þó að þessi breytta kjördæmaskipun verði tekin upp. En ég er meira hræddur um það, að þeir, sem veljast inn á Alþingi, einkum þegar á liður, verði frekar flokksþjónar, sem settir eru þangað inn, vegna þess að þeir hafa traust sinna flokksforingja, a.m.k. til þess að vera góðir flokksþjónar á Alþingi. En áður var það lengi svo, að það komst enginn maður á þing í héruðunum, nema hann hefði sýnt það með einhverju starfi, annaðhvort í sínum einkaatvinnurekstri, í félagsmálum eða einhverju öðru, að hann væri einhvers virði og eitthvað meira en málpípa flokks. Ég óttast, að það verði breyting í þessu efni til hins verra. En samt sem áður vildi ég mjög óska þess, að þetta yrði allt til hins betra og að þjóðinni vegnaði vel undir þessu nýja skipulagi og þingið yrði ekki verr skipað en það, að það yndi mjög bráðan bug að því, eftir að þessi hríð er afstaðin, að gera ráðstafanir til þess að fullnægja því loforði, sem allt þingið og allir flokkar gáfu við lýðveldisstofnunina, að lýðveldisstjórnarskráin skyldi mjög bráðlega verða endurskoðuð.