11.08.1959
Efri deild: 7. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það er ekki til þess að blanda mér í þær deilur, sem staðið hafa um þetta stórmál á hv. Alþingi, sem ég kveð mér hljóðs undir lok umr. um það. En ég vildi leyfa mér að benda á það, að hér í hv. Ed. Alþingis er í dag merkilegur og sögulegur atburður að gerast. Hið 1.029 ára gamla Alþingi Íslendinga er að leggja nýjan og traustari grundvöll að íslenzku lýðræði og þingræði.

Með samþykkt þeirrar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins, sem nú er að hljóta lokaafgreiðslu, er verið að staðfesta vilja nær 73% íslenzkra kjósenda úr síðustu kosningum. Réttlætið hefur unnið mikinn sigur. Gegn því hefur að vísu verið hörð barátta háð, en það er gömul og ný saga. Það hefur ávallt kostað baráttu að koma réttlætismálum fram og ekkert er heldur eðlilegra, en að menn greini á í lýðræðislandi, þegar um verulegar breytingar er að ræða á skipulagi, sem lengi hefur staðið.

En þróunin hefur gengið sinn gang. Alþingi er nú í tólfta sinn að breyta þeirri kjördæmaskipan, sem erlent konungsvald lagði grundvöll að fyrir 114 árum. Nýir tímar og breyttar þjóðlífsaðstæður skapa nýjar þarfir. Það er hlutverk Alþ., sem í rúm þúsund ár hefur verið brjóstvörn þjóðarinnar í sókn hennar til pólitísks og efnalegs sjálfstæðis, að skilja kall hins nýja tíma, um leið og það heldur trúan vörð um þau verðmæti liðins tíma, sem tilvera þjóðarinnar byggist á.

Frumskilyrði þess, að Alþ. geti rækt þessa skyldu sína og haldið virðingu sinni og trausti meðal þjóðarinnar er, að það sé sem sönnust og réttust mynd af vilja hennar á hverjum tíma. Því miður hefur þessi forna löggjafarsamkoma vor sjaldnast verið það á síðustu áratugum. Þess vegna hefur hún ekki alltaf notið þeirrar virðingar, sem henni ber og þess vegna hefur hún ekki heldur alltaf verið fær um að leysa þau vandamál, sem að höndum hefur borið. Það er von og ósk okkar sjálfstæðismanna og vafalaust annarra fylgismanna þessarar stjórnarskrárbreyt., að hún megi treysta aðstöðu okkar fornhelga þings, gera það hæfara til þess að framkvæma vilja íslenzku þjóðarinnar og skapa henni heilbrigt og gott stjórnarfar.

Átökunum um kjördæmaskipunina er nú að ljúka. Fram undan bíður fjöldi óleystra verkefna. Efnahagsleg viðreisn, lausn landhelgisdeilunnar, án þess að í nokkru verði hvikað frá markaðri stefnu Íslendinga, áframhaldandi uppbygging landsins í sveit og við sjó. Það er óbifanleg skoðun okkar sjálfstæðismanna, að hin nýja kjördæmaskipun muni leggja grundvöll að aukinni samvinnu byggðarlaganna í strjálbýlinu og meiri og nánari samvinnu fólksins þar við fólkið í þéttbýlinu. Af slíkri samvinnu mun margt gott leiða, ekki sízt fyrir það fólk, sem vinnur að mikilvægum framleiðslustörfum við erfiðar aðstæður í hinum strjálbýlu sveitum og dreifðu sjávarþorpum Íslands.

Herra forseti. Þjóðin hefur með yfirgnæfandi meiri hluta atkv. í síðustu kosningum lýst sig samþykka þessari nýju kjördæmaskipan. Mikill meiri hluti Alþingis hefur staðfest þann vilja hennar. Þing og þjóð bíður nú dóms reynslunnar, sem örlagaríkastur og réttmætastur er allra dóma. Það er ósk og von vor allra, að það verði þjóðinni, framtíð hennar allri og gæfu í hag.