11.08.1959
Efri deild: 7. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það kom fram í frumræðu hv. frsm. minni hl. stjskrn., þm. S-Þ. (KK), nú eins og raunar á síðasta þingi, að stjórnarskrána ætti að endurskoða í heild og það væru slæm vinnubrögð að taka kjördæmamálið eitt út úr. Í umr. í vor hér í þessari hv. d. rifjaði ég nokkuð upp þá undirbúningsvinnu, sem unnin hefði verið varðandi heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og benti þar á nokkra tugi atriða, sem ég teldi brýna þörf á að breyta í stjórnarskránni, þegar hún yrði tekin til endurskoðunar öll. Ég benti þá líka á það og ég vil gera það enn, að mín skoðun, mín sannfæring er sú, að það, sem hefur tafið heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar nú í hálfan annan áratug, er eitt og fyrst og fremst eitt og það er hinn mikli ágreiningur milli stjórnmálaflokkanna um kjördæmaskipunina. Hvenær sem unnið hefur verið að endurskoðun stjórnarskrárinnar og nokkrar nefndir hafa verið starfandi í því máli undanfarin 15 ár, — hvenær sem því máli hefur verið eitthvað áleiðis komið, þá hefur jafnan strandað á ósamkomulagi um kjördæmaskipunina. Það er ágreiningurinn um hana, sem hefur talið heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og mun tefja hana, þangað til það mál er komið í höfn. Þess vegna er það skoðun mín og sannfæring, að einmitt til þess að hraða heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, sem ég tel brýna og aðkallandi, sé fyrst og fremst nauðsynlegt að afgreiða kjördæmamálið út af fyrir sig. Þess vegna er það síður en svo, að þessi málsmeðferð, að taka kjördæmamálið eitt sér, tefji fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þvert á móti greiðir það götu hennar og er nauðsynleg afgreiðsla til þess að fá stjórnarskrána endurskoðaða.

Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en aðeins drepa hér á nokkur atriði, sem fram hafa komið gegn frv. í ræðum hv. framsóknarmanna.

Ég vil þá fyrst nefna eitt atriði, sem gengur hér aftur og aftur, bæði á þessu þingi og hinu síðasta, þó að það hafi margsinnis verið hrakið, og það er alls konar hugarburður og villukenningar og rangar fregnir framsóknarmanna um hlutfallskosningar og áhrif þeirra bæði innanlands og utan. Því er slegið föstu af framsóknarmönnum, að hlutfallskosningar, sem að allra sanngjarnra manna dómi, eru aukið spor í lýðræðisátt og runnar, eins og Þórhallur biskup Bjarnarson orðaði það á þingi, „runnar af rót réttlætishugsjónar“, — nú er því haldið fram af framsóknarmönnum, að hlutfallskosningar leiði til upplausnar og stjórnleysis og hafi gert það víðast, þar sem þær hafa verið lögleiddar. Við skulum nú aðeins líta á það, hver sannleikur er í þessu. Því miður hefur þessi áróður framsóknarmanna náð nokkuð til ýmissa landsmanna, sem virðast trúa því, að hætta sé á stjórnleysi, óyfirstíganlegum erfiðleikum um stjórnarmyndanir, ef hlutfallskosningar eru lögleiddar almennt.

Hlutfallskosningar voru teknar upp í bæjar- og sveitarstjórnarkosningum hér á landi árið 1908. Þær eru búnar að vera í hálfa öld í gildi, og við skulum líta á, hvort þessar hlutfallskosningar í hálfa öld í bæjar- og sveitarstjórnarkosningum hafa orðið til þess að fjölga flokkum eða skapa stjórnleysi.

Fyrsta árið, 1903, fóru fram bæjarstjórnarkosningar hér í Reykjavík, og hvað ætli flokkarnir eða listarnir hafi þá verið margir? Listarnir voru 18, sem voru bornir fram hér í Reykjavík við bæjarstjórnarkosningarnar. Eftir hálfa öld fóru aftur fram bæjarstjórnarkosningar, í janúar 1958. Þá vor listarnir 5. Einn þeirri náði ekki fulltrúa kosnum, það eru 4 flokkar, sem eiga þar fulltrúa. Og reynslan í þessi 50 ár sýnir, að jafnt og þétt hefur þessum listum og flokkum farið fækkandi og ef við lítum á heildarmyndina, þá er fækkað úr 18 listum niður í 5 lista.

Ef við lítum á alþingiskosningarnar, þá voru hlutfallskosningar í alþingiskosningum fyrir utan landskjörið lögleiddar eða komu fyrst til framkvæmda 1920, að ég ætla. Ég ætla, að síðustu almennar þingkosningar, þar sem kosið var óhlutbundnum kosningum um allt land, meirihlutakosningu í hverju einasta kjördæmi, hafi farið fram 1916. Hvað voru flokkarnir margir þá? Flokkarnir, sem buðu fram, voru 8 að tölu. Það voru 8 flokkar, sem buðu fram við alþingiskosningarnar 1916, þegar engar hlutfallskosningar voru til, alls staðar kosið meirihlutakosningu og að lang mestu leyti í einmenningskjördömum. Nú á þessu ári, 1959, fóru fram alþingiskosningar. Það voru hlutfallskosningar á nokkrum stöðum, þ.e. í höfuðborginni og í 6 tvímenningskjördæmum og búnar að vera um hríð. Hafa þessar hlutfallskosningar leitt til fjölgunar flokka? Í síðustu alþingiskosningum, í sumar, buðu fram 5 flokkar. Einn þeirra náði ekki þingmanni kosnum, þannig að 4 flokkar eiga fulltrúa á Alþingi. M.ö.o.: 1916, þegar engar hlutfallskosningar voru, þá voru flokkarnir 8, nú þegar hlutfallskosningar hafa verið í ýmsum kjördæmum um langan aldur, eru flokkarnir 5.

Hvort sem litið er á alþingiskosningarnar eða bæjarstjórnarkosningarnar, hefur flokkunum fækkað og það verulega, frá því að hlutfallskosningar voru fyrst lögleiddar, en ekki fjölgað, flokkar ekki sundrazt og leitt af sér stjórnleysi, eins og framsóknarmenn leyfa sér að halda fram hvað eftir annað, þó að margsinnis sé búið að leiðrétta þessar villukenningar þeirra.

Ef við lítum á Norðurlöndin, sem — eins og ég gat um í framsöguræðu minni í gær — hafa nú um 30–50 ára skeið haft nokkur stór kjördæmi og hlutfallskosningar og sum þeirra einnig uppbótarsæti, þá fer því fjarri, að flokkum hafi fjölgað þar. Ég held, að það sé ekki hægt að segja, að þessar ágætu frændþjóðir okkar, sem eru meðal viðurkenndustu lýðræðisþjóða í veröldinni, búi við nokkurt stjórnleysi eða hafi átt við sérstaka erfiðleika að etja vegna stjórnarmyndana, þegar eitt landið er frá tekið, sem er Finnland, en eins og ég tók fram í gær, þá stafa erfiðleikar þar um stjórnarmyndanir alls ekki af hlutfallskosningafyrirkomulaginu, heldur af ógnun og áþján hins volduga nágranna.

Dómur hv. þm. Str., form. Framsfl., um þetta frv. er svo byggður á þessari röngu forsendu um hlutfallskosningarnar og hann kveður svo fast að orði, að hann lauk sinni ræðu hér í gær með því að segja, að ekki væri enn séð fyrir þá ógæfu, sem þetta mál mundi leiða yfir þjóðina. En þessi meginrök hans um afleiðingar hlutfallskosninga eru röng, byggð á tilbúningi og hugarburði og röngum upplýsingum.

Það bar á góma hér í umr. í vor, man ég eftir, m.a., að hlutfallskosningar hefðu orðið þess valdandi, að nazistar komust til valda í Þýzkalandi, að þegar Weimar-lýðveldið svokallaða var stofnað 1918, eftir fyrri heimsstyrjöldina, þá hafi verið lögleiddar hlutfallskosningar, þær hafi í Þýzkalandi leitt af sér slíkan glundroða og skapað svo marga smáflokka, að það hafi rutt brautina fyrir valdatöku Adolfs Hitlers og nazista hans. Ég upplýsti þá, sem er óvéfengjanleg söguleg staðreynd, að það er ekki minnsti fótur fyrir þessari kenningu, vegna þess að áður, en hlutfallskosningar voru lögleiddar í Þýzkalandi 1918, voru stjórnmálaflokkarnir fleiri, en þeir voru, eftir að hlutfallskosningarnar komu til. Þar mun sem sagt hlutfallskosningafyrirkomulagið engan veginn hafa fjölgað flokkunum. Ástæðurnar til valdatöku nazista eru auðvitað allt aðrar og eiga ekkert skylt við hlutfallskosningafyrirkomulagið.

Fyrir utan þetta tvennt, að stjskr. eigi að endurskoða alla nú þegar í heild og ekki taka þetta mál út úr og svo um hlutfallskosningarnar, sem ég hef hvoru tveggja svarað nú, þá er þriðja röksemd Framsfl. sú, að í kosningunum í sumar hafi alls ekki verið kosið um kjördæmamálið, kjósendurnir hafi ekki fengið tækifæri eða aðstöðu til þess að segja álit sitt um kjördæmamálið og þess vegna þurfi nú að efna til þjóðaratkvgr. sérstaklega um þetta frv. Nú skal ég taka það fram strax, að ég hef lengi haldið því fram og hélt því m.a. fram í umr. hér í vor, að varðandi stjórnarskrárbreytingar almennt tel ég æskilegt í framtíðinni, að lögleitt sé þjóðaratkvæði, eins og rétt sé að skapa möguleika til þjóðaratkvæðis um ýmis meiri háttar mál, þegar viss skilyrði eru fyrir hendi. Þessi breyting hefur hins vegar ekki komizt á enn. Við skulum vænta þess, að hún verði tekin upp við endurskoðun stjskr. En hingað til hefur það ákvæði stjskr. verið látið nægja og verið talið nægilegt öryggi eða bremsa gegn of tíðum eða vanhugsuðum stjskrbreyt., að ef breyt. á stjskr. verður samþ. á þingi, þá verði þing þegar í stað rofið, efnt til nýrra kosninga og næsta þing þyrfti svo að samþykkja stjskrbreyt. óbreytta. Og þessari aðferð stjskr., sem verið hefur í gildi nú í yfir 80 ár, hefur verið fylgt í einu og öllu við þessar kosningar eða við þessa stjskrbreyt.

Ég er sannast sagna undrandi yfir því, að reyndir og greindir menn skuli koma hér fram á Alþ. og halda því fram, að ekki hafi verið kosið um stjskr.-málið í sumar, — það hafi verið kosið um allt önnur mál. Stjskr.-málið, kjördæmabreytinguna, ber fyrst á góma að nýju, að ég ætla, opinberlega í des. s.l. og núverandi hæstv. ríkisstj., sem mynduð var í des., lýsti því yfir, að hún teldi það eitt sitt meginverkefni að koma í gegn breyt. á stjskr. til að fá kjördæmaskipunina lagfærða. Í 6–7 mánuði var stanzlaust skrifað í öll helztu blöð landsins, a.m.k. oft í viku og jafnvel daglega, — lengst af daglega, — um þetta mál, um kjördæmabreytinguna. Ég ætla, að um langan aldur hafi ekki fyrir kosningar verið ritað og rætt jafnmikið og jafnlengi um eitt ákveðið mál eins og kjördæmamálið. Jafnvel hið mikla mál landsmanna, landhelgismálið, hefur á þessu tímabili, þessu undanfarna missiri, ekki verið rætt í íslenzkum blöðum nándar nærri eins mikið og kjördæmamálið.

Eftir að þetta liggur fyrir, eftir að það liggur fyrir, að í útvarpsumræðum var ekkert mál rætt meira, en kjördæmamálið, á hverjum einasta framboðsfundi var mikið um kjördæmamálið rætt og oftast langsamlega mest, þá leyfa fulltrúar Framsfl. sér að koma hingað og segja, að þetta mál hafi alls ekki legið fyrir, kjósendur hafi ekki átt þess kost að kjósa um það. Málgagn Framsfl., aðalmálgagn, Tíminn, hafði í frammi svo harðvítugan áróður í þessu máli í meira en missiri, að ég held, að hann hafi aldrei beitt sér eins út af nokkru máli fyrr eða síðar og hann lét sér það ekki nægja, heldur efndi Framsfl. með aðstoð Sambands ísl. samvinnufélaga og að nokkru leyti á kostnað þess til útgáfu á sérstöku blaði, Kjördæmablaðinu, sem sent var inn á hvert einasta heimili í landinu mánuðum saman, helgað eingöngu þessu máli. Hvernig dettur hv. þm. Str. og hv. frsm. minni hl. í hug að koma hingað fyrir þessa hv. d. og segja, að þetta mál hafi alls ekki verið á dagskrá og alls ekki kosið um það? Meina þessir fulltrúar Framsfl., að landslýðurinn hafi alls ekkert mark tekið á Framsfl. eða málgagni hans, sem hélt því fram, að það væri þetta mál, sem ætti um að kjósa?

Nei, um þessa stjórnarskrárbreytingu hefur í einu og öllu verið fylgt settum reglum, ekki aðeins lögboðnum reglum stjórnarskrárinnar, heldur lýðræðisreglum, þar sem þetta mál hefur verið meira rætt og ritað og lagt skýrar og greinilegar fyrir kjósendur, en ég ætla um nokkurt mál um langan aldur.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að Sjálfstfl., — þríflokkarnir, hefur hann víst orðað það, — hafi gert allt, sem hægt var, í þessum kosningum til að leiða athygli frá kjördæmamálinu. Mér finnst þeim góða og greinda manni skjöplast hér heldur alvarlega, því að það vita allir menn, að það var síður en svo, að athyglin væri leidd frá kjördæmamálinu. Að því er varðar sjálfan mig t.d. get ég nefnt það, að í þeirri einu ræðu, sem ég flutti í útvarpsumræðunum fyrir kosningar, talaði ég um kjördæmamálið og ekkert annað en kjördæmamálið og þannig var það um marga fleiri.

Manni skilst, að í þessum kosningum, hefði að áliti framsóknarmanna ekki í rauninni verið leyfilegt að minnast á neitt annað mál, en kjördæmabreytinguna. Nú er það vitanlega þannig, að í hverjum einustu kosningum, hvort sem það er í sambandi við stjórnarskrárbreytingu eða annað, þá hljóta kjósendur að hugleiða og mynda sér skoðanir um ýmis mál, bæði ýmis þjóðmál og um stjórnarskrárbreytinguna og um frambjóðendur og um flokka og byggja svo afstöðu sína og atkvæði á þeirri heildarmynd, sem þeir skapa sér af stjórnmálunum í heild. Það má vera, að þetta mál hafi aðaláhrif á atkvæði þessa kjósanda, annað mál megin áhrif á atkvæði hins. En að í þingkosningum sé það óleyfilegt og jafnvel stjórnarskrárbrot, eins og mér skildist á hv. þm. Str., að ræða um á framboðsfundum og í kosningaundirbúningi annað en stjórnarskrána, það er náttúrlega fráleitt. Þeir framsóknarmenn tala mjög um, að það hafi verið hin mesta goðgá og nálgist lýðræðis- og stjórnarskrárbrot, að minnzt skuli hafa verið á það, að við ættum aldrei að fá aftur vinstri stjórn í landinu. Ja, ég vil segja, að þótt vinstri stjórnin hafi verið afleit og margt af sér brotið, þá get ég ekki fallizt á, að það sé stjórnarskrárbrot að nefna hana á nafn. Vitanlega hlýtur í þessum kosningum eins og öðrum að vera rætt um ýmis mál.

En um leið og hv. þm. Str. telur, að Framsfl. hafi ekki aldeilis tapað atkvæðum vegna vinstri stjórnarinnar, heldur eigi hann sinn stórkostlega sigur, sem hann talar um, mjög að þakka því, að hann hafði forustu í vinstri stjórninni, þá kvað við heldur annan tón hjá hv. 1. þm. N-M. (PZ). Hann sagði, að ýmsir sjálfstæðismenn í hans kjördæmi, sem hefðu verið á móti kjördæmabreytingunni, hefðu verið gerðir svo hræddir við að fá kannske aftur vinstri stjórn, að þeir hefðu samt kosið sjálfstæðismanninn, m.ö.o., að þó að þeir væru í hjarta sínu eindregið á móti kjördæmabreytingunni og teldu hana stórháskalega, þá var í þeirra augum vinstri stjórnin, enn þá verri Grýla. Það er svo þeirra mál, hv. formanns Framsfl. og hv. 1. þm. N-M., að gera upp sakirnar, hvor hafi réttara fyrir sér, að vinstri stjórnin hafi verið bezta stjórn, sem Ísland hafi átt því láni að fagna að hafa um sina daga, eða hún hafi verið slík óskapleg Grýla sem 1. þm. N-M. lýsir.

Ummæli hv. 1. þm. N-M. um hópsálirnar og múgsálirnar og hans heimspeki í því efni skal ég ekki gera að umræðuefni, en hans kenning er sú, að fólk, sem býr í þéttbýli, séu múgsálir og hópsálir, sem geti ekki hugsað nokkra sjálfstæða hugsun, en því lengra sem er milli bústaðanna, þeim mun sjálfstæðara verði það í hugsun. Eftir þessu að dæma ætti að fara heldur lítið fyrir sjálfstæðri hugsun hjá hv. 1. þm. N-M., því að hann er búinn að búa mjög lengi í þéttbýli.

Þá er enn ein meginröksemd framsóknarmanna og fegurst og fjálglegast hefur nú talað um það eins og fleira hv. þm. S-Þ. (KK), hann flutti hér skáldlegar ræður og var hjartnæmur og klökkur, þó að ekki rynni nú beint út í fyrir honum eins og í útvarpsumræðunum í vor um kjördæmamálið. Hann talar hér um „eitt einasta syndaraugnablik“ og um „eymdarstrik ævilangt“, „um kaffi og háttatíma“ og hitt og þetta fleira. Hann hélt svo friðarræðu mikla og sýndi fram á það, að í einmenningskjördæmum væri sífelldur friður, en í þessum stóru kjördæmum með hlutfallskosningum mundi, eins og hann orðaði það, verða „eilífur stormbeljandi“. (KK: Það er Kiljan, sem . . . ) Já, ég kannast nú við vísuna. — Ég vil minna á það, að ég ætla, að reynslan sýni nokkuð annað. Í fyrsta lagi held ég, að það sé ofmælt um hinn mikla Fróðafrið í einmenningskjördæmunum og ég mundi ætla, að ef maður ber saman kosningabaráttuna, friðinn og ófriðinn, í einmenningskjördæmunum og tvímenningskjördæmunum með hlutfallskosningunum undanfarin seytján ár, þá held ég, að það sé flestra dómur, að hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmunum hafi einmitt orðið til að koma á meiri friði og ró, friðsamlegu og góðu samstarfi í héruðunum, vegna þess að í flestum þessara tvímenningskjördæma a.m.k. hefur farið svo, að þingmenn hafa verið hvor af sínum flokki og yfirleitt tekizt hið bezta og drengilegasta samstarf milli þeirra, þingmannsins úr Sjálfstfl. og þm. úr Framsfl., um málefni héraðsins. Ég held því, að þessu sé alveg þveröfugt farið við það, sem hv. þm. S-Þ. sagði í sinni ræðu. Ég held einmitt, að friðurinn hafi verið og sé meiri, þar sem hlutfallskosningarnar eru, heldur en í einmenningskjördæmunum, enda ætla ég líka, að af þeim fregnum, sem bárust af kosningabaráttu víðs vegar um land fyrir þessar síðustu kosningar, hafi háværustu sögurnar, mesti hávaðinn og mesti skarkalinn og harðastur bardaginn verið í einmenningskjördæmunum, en ekki tvímenningskjördæmunum.

Hv. þm. S-Þ. talar hér klökkum rómi og hjartnæmum orðum um þau ósköp, sem séu að dynja yfir þjóðina með þessu frv., það verði til þess að efla flokksræðið, að flokksstjórnarvaldið verði allsráðandi hér á landi og jafnvel geti svo farið og muni svo fara, eins og hann orðaði það í sinni seinni ræðu, að það verði flokksstjórnarvaldið, sem ákveður frambjóðendur, en ekki fólkið sjálft, ekki kjósendurnir.

Ég vil nú aðeins minna á það, að ég ætla, að flokksvald og flokksveldi hafi aldrei komizt — ég veit ekki, hvort á að segja á jafnhátt stig eða verið eins yfirgnæfandi og voldugt og einmitt hjá Framsfl. nú og í rauninni síðan hann varð til, ef kannske er undantekinn kommúnistaflokkurinn. En eins og vitað er, hafa kommúnistaflokkar ákaflega sterkt skipulag og mikið flokksvald og sterkan flokksaga. En ef kommúnisminn er frátekinn, þá er það víst, að flokksstjórnarvald og flokksagi er hvergi og hefur ekki verið á Íslandi neitt svipað því, sem er í Framsfl. og skal ég nú nefna dæmi.

Það gerðist hér á Alþingi 1933, að tveir þm., mikilsmetnir þm. Framsfl., höfðu aðra skoðun varðandi stjórnarmyndun, en Framsfl. eða meiri hluti hans og þeir leyfðu sér að koma þeirri skoðun á framfæri og lýsa því yfir, að þeir stæðu við hana. Þeir neituðu að kasta burt sinni sannfæringu. Hvað gerðist? Framsfl. gerði það, sem ég ætla að hafi aldrei áður komið fyrir í íslenzkri stjórnmálasögu, að Framsfl. samþykkti að reka þessa tvo þm. úr flokknum. Framsfl. rak þessa tvo þm. úr flokknum fyrir það, að þeir leyfðu sér að fylgja sannfæringu sinni. Flokksstjórnarvaldið, hv. þm. S-Þ. hneykslast óskaplega á því. En honum ætti úr Þingeyjarsýslunum báðum að vera nokkuð kunnugt um flokksstjórnarvaldið, því að það hefur komið þar nokkuð við sögu, einnig í sambandi við þingmennsku og í sambandi við undirbúning að hans eigin framboði. Árið 1931 átti hér sæti á þingi og var forseti Nd. einn af hinum merkustu þm. og frumherjum í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, Benedikt Sveinsson. Hann var í Framsfl. þá og bauð sig fram, hafði verið þm. N-Þ, þá um margra ára skeið og býður sig fram við kosningarnar 1931 sem

Framsfl.-maður eftir ósk sinna kjósenda, sem hann hafði starfað fyrir og þjónað um langan aldur. Hvað gerist þá? Flokksstjórn Framsfl. vildi ekki viðurkenna þennan mæta mann, þótti hann ekki nógu mikill flokksþjónn, eins og einhver framsóknarmannanna orðaði það hér áðan. Þess vegna ákvað flokksstjórnarvaldið í Framsfl. að bjóða fram gegn þessum þjóðkunna, mikils metna þingmanni Framsfl., bauð fram annan mann í krafti flokksstjórnarvaldsins og fékk hann kosinn. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Það liggja hér fyrir skýrslur um það, prentaðar, þetta liggur allt saman skjallega fyrir.

Annað skiptið, sem ég vildi nefna og einmitt er í kjördæmi hv. þm. S-Þ., er 1946. Fyrrv. formaður Framsfl., Jónas Jónsson frá Hriflu, hafði þá fallið í ónáð hjá Framsfl. eða meiri hluta hans. Hann hafði verið þm. S-Þ. um langan aldur og ákvað að bjóða sig fram aftur — eftir ósk sinna kjósenda að sjálfsögðu — sem Framsfl.-maður. Hvað var gert? Hvað gerði flokksstjórnarvaldið, sem hv. þm. S-Þ. er svo hneykslaður á? Það ákvað að bjóða fram annan mann í nafni og krafti flokksins, hvað sem hinum gamla þingmanni og kjósendum hans og vilja fólksins liði. Þetta var gert árið 1946. Flokksþjónninn, svo að ég noti orð framsóknarmanna sjálfra, náði að vísu ekki kosningu þá, en þetta var undirbúningurinn að því, að áður en langt um leið var núverandi hv. þm. S-Þ. búinn að ná þar kosningu og situr í því sæti enn.

Þess vegna, þegar litið er á sögu Framsfl., sætir það vissulega furðu, þegar þm. þess flokks leyfa sér að koma fram fyrir alþjóð manna eða Alþingi, berja sér á brjóst og tala klökkum rómi og hjartnæmum orðum um flokksstjórnarvaldið og að þetta frv. verði til að efla flokksræðið. Það er eins og þetta væru hvítir englar, hreinir, með hreina fortíð, í staðinn fyrir að allir, sem eitthvað þekkja til íslenzkrar stjórnmálasögu, vita, að flokksræði, flokksveldi, flokksagi er hvergi neitt svipað því utan kommúnismans sem í Framsfl. Þess vegna er ekki hægt að taka slík hneykslunaryrði alvarlega.

Hv. þm. S-Þ. ræddi um það í sinni síðustu ræðu, að þetta frv. mundi draga stórlega úr valdi dreifbýlisins. Ja, ég vil segja: Maður, líttu þér nær. Hvaða áhrif hefur þetta frv. t.d. á vald þess landshluta, sem hann er þingmaður fyrir? Eftir hinu nýja frv. eiga Eyjafjarðarsýsla, Akureyri og Þingeyjarsýslur báðar að verða eitt kjördæmi og kjósa sex þm. Þessi kjördæmi kjósa núna fimm þm. Þetta frv. fer fram á það, að þessi landshluti, Þingeyjarsýslurnar og Eyjafjörður, fái einum þm. fleira, en verið hefur. Er þetta að draga úr valdi þessa landshluta? Nei, vissulega er þessi fullyrðing hv. þm. svipuð rökleysa eins og fjölmargt fleira, sem fram hefur komið í þessu máli frá fulltrúum framsóknarmanna.

Í framhaldi af þessu er sífellt tönnlazt á þessu sama, að það sé verið að afnema kjördæmin, leggja niður öll kjördæmi utan Reykjavíkur. Víð höfum á Vestfjörðum nú m.a. þrjú kjördæmi, Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýslur og Ísafjörð. Hver kýs sinn þm. Á dögum Jóns Sigurðssonar var þetta allt eitt kjördæmi. Var það eitthvert lýðræðisbrot eða var það eitthvert hermdarverk gagnvart þessum landshluta, að þessi þrjú héruð, skulum við segja, Norður- og Vestur-Ísafjarðarsýsla og Ísafjörður, kusu þá sameiginlega einn þm.? Nei, að kalla það árás á héruðin og sjálfstæði þeirra, þó að ákveðið sé, að nokkrar sýslur gangi saman og kjósi sameiginlega þingmenn, það er náttúrlega hin mesta fjarstæða. Og enn meiri fjarstæða er þó kjörorðið, sem framsóknarmenn hafa valið sér, þar sem þeir segjast berjast fyrir byggðastefnunni gegn hinu nýja kjördæmafrv. Ég hef í rauninni aldrei heyrt annað eins öfugmæli í stjórnmálum og þetta. Framsóknarmenn, sem vilja halda dauðahaldi í það gamla skipulag að taka lítið sem ekkert tillit til fólksflutninga, þ.e.a.s. til byggðarinnar í landinu, þeir telja sig fylgja byggðastefnunni, einmitt framsóknarmenn, sem vilja ekki taka tillit til þess, að byggðin breytist, ekki miða við, hvar fólkið býr, hvar byggðin er, heldur við landshlutann. Ég hefði þó álitið, að það væri fyrst og fremst fólkið sjálft, en ekki landið, sem á að velja þingmanninn.

Vitanlega verður að miða þingmannatölu og áhrif á Alþingi við það, hvar fólkið er í landinu. Það var komið svo í Bretlandi fyrir mörgum árum, að sum hinna gömlu kjördæma voru orðin svo að segja mannlaus, en afturhaldsmennirnir þar eins og framsóknarmennirnir hér héldu dauðahaldi í það, að það væri árás á hinar dreifðu byggðir að fara að taka þingmennina af þessum kjördæmum, þar sem voru eftir kannske örfáar manneskjur, en flest allt fólkið flutt burt á aðra staði.

Nei, þetta steinrunna afturhald gengur alltaf aftur og aftur hér í líki Framsfl., í öðrum löndum í líki einhverra annarra afturhalds- og kyrrstöðuflokka, sem í lengstu lög reyna að halda í þau forréttindi, þau sérréttindi, sem þeim hefur tekizt að ná í, eins og aðlinum í mörgum löndum á sínum tíma, — aðlinum, sem verið var í nafni lýðræðis og krafti þess að taka af forréttindi og láta alþýðu manna njóta jafnréttis. Auðvitað barðist aðallinn heiftúðugri baráttu með mörgum sömu kjörorðum og slagorðum og Framsfl. nú fyrir að halda sínum forréttindum. Þetta undrar mann kannske ekki. En þó hefði verið meiri stjórnmálaþroski og manndómur í framsóknarmönnum að taka þessu eins og það er, að skilja þróun tímanna og ganga til skynsamlegrar lausnar á þessu máli. En það vita allir, að langsamlega hyggilegasta lausnin fyrir þjóðina í heild og fyrir strjálbýlið líka, er einmitt sú leið, sem við nú förum hér að dæmi frændþjóða okkar á Norðurlöndum: stór kjördæmi með hlutfallskosningum. Að kalla baráttu framsóknarmanna byggðastefnu, er auðvitað hið mesta rangnefni, það væri miklu nær að kalla hana stefnu óbyggðanna.

Tilgangur þessa frv. er sá að jafna kosningarréttinn meir, en nú er og gera Alþingi Íslendinga að réttari mynd af þjóðarviljanum. Frv. miðar að því að draga úr því mikla misræmi, sem er um áhrifavald byggðarlaga og stjórnmálaflokka í landinu á skipun Alþingis. Ég er viss um það og ég er sannfærður um það, að sú kjördæmaskipun og kosningatilhögun, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, mun verða til verulegra umbóta frá því úrelta og ósamstæða skipulagi, sem við nú búum við.