11.08.1959
Efri deild: 7. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Björgvin Jónsson:

Herra forseti. Það má nú vissulega telja, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að tala miklu meira, um þetta mál. Öllum rökum andstæðinganna hefur verið hnekkt með það miklum rökum frá okkar hendi, að það ætti varla að vera ástæða til þess að hafa um það miklu fleiri orð. En ég vil aðeins undirstrika það, að í þessum umr. hefur frá hendi þríflokkanna verið lögð höfuð áherzla á það, að alþingiskosningarnar síðustu hafi fyrst og fremst verið þjóðaratkvgr. um kjördæmamálið og tæpir ¾ hlutar kosningarbærra landsmanna hafi greitt atkv. með hinni breyttu kjördæmaskipan, en aðeins rúmur fjórðungur hafi verið þar á móti. Ég hygg þó, að fæstir skilji slíkan málflutning. Við, sem lesum flest blöðin og fylgjumst með þeim áróðri, sem rekinn er fyrir kosningar, urðum vissulega varir við það, að af þríflokkanna hálfu var lögð áherzla á flest annað öðru meira, en kjördæmamálið.

Sjálfstfl. gekk fyrst og fremst til kosninganna undir vígorðinu um, að aldrei yrði aftur stofnuð vinstri stjórn hér á landi og þar sem ég gat hlustað á frambjóðendur Sjálfstfl., var það höfuðinntak í þeirra ræðum, kjördæmamálið algert aukaatriði, enda var í áróðri flokksins lögð höfuðáherzla á það, að kjördæmamálið væri þegar afgreitt mál.

Frá hendi Alþb. var landhelgismálið mjög í hávegum haft og vildi sá flokkur fyrst og fremst slá sig til riddara á því, að hann hefði verið hinn eini sanni forustuflokkur í því máli.

Frá hendi Alþfl. var fyrst og fremst því haldið fram við flokksmenn, að hreysti flokksins við þá stjórnarmyndun, sem þá var nýafstaðin, og dugnaður hans í stjórninni, þar sem hann stæði einn og nærri því óstuddur, væri svo mikill, að landsfólkið yrði að sýna honum traust.

Þetta kemur berlega fram, jafnvel í ræðu hv. þm. Barð. (GíslJ). Hann eyddi í það miklum tíma í gær að túlka það sjónarmið sitt, að síðustu alþingiskosningar hefðu verið fyrst og fremst þjóðaratkvgr. um kjördæmamálið og hann endurtók það aftur og aftur í ræðu sinni hér í dag. Síðan sagði hann — ég held orðrétt: Kjördæmamálið var eina málið, sem Framsfl. lagði nokkra verulega áherzlu á, í síðustu alþingiskosningum og hann fékk þó nokkuð af atkvæðum út á þetta mál.

Nei, það rekur sig eitt á annars horn, þegar farið er að flytja mál eins og gert er nú hér á hv. Alþ. Við vitum það, að þríflokkarnir allir lögðu fyrst og fremst höfuðáherzlu á að skýla sér á bak við önnur mál og reyna að vitna ti1 flokkstryggðarinnar og þess, að viðkomandi flokkur mætti ekki tapa þrátt fyrir kjördæmamálið.

Ég gerði kjördæmamálið nokkuð að umræðuefni á síðasta Alþ. og ætla ekki að rekja það mjög, sem ég sagði þá. Í þeirri ræðu lagði ég höfuðáherzlu á, að það væri tvennt, sem þríflokkarnir ætluðu að breyta, eða tvö takmörk, sem þeir ætluðu að ná í sambandi við hina nýju kjördæmaskipun: Fyrra atriðið væri það, að þeir ætluðu að veikja og eyðileggja Framsfl. Seinna atriðið væri það, að þeir ætluðu að auka flokksvaldið. Staðreyndirnar hafa sýnt, eins og ég undirstrikaði í þeirri ræðu, sem ég hélt þá, að þríflokkunum hefur ekki tekizt að veikja Framsfl. Hann hefur aldrei verið sterkari, en hann er í dag og verður aldrei sterkari, en eftir haustkosningarnar.

En þessi styrkur Framsfl. réttlætir ekkert kjördæmamálið. Kjördæmamálið er mál þjóðarinnar, en ekki mál neins einstaks flokks. Hér er verið að tefla um örlög þjóðarinnar, en ekki um örlög flokkanna og þar greinir á. Alþfl.-menn héldu því t.d. mjög fram í kosningabaráttunni, að hér væri verið að kjósa um örlög Alþfl. Alþfl. og allir stjórnmálaflokkarnir eru aðeins fyrirbrigði, sem geta horfið, hvaða dag sem er, en þjóðin sjálf, — það er það, sem um er teflt og það er þjóðarhagurinn, sem hlýtur og verður ávallt að sitja í fyrirrúmi. Og við höfum haldið því fram, framsóknarmenn og teljum það réttan málflutning og vitum, að það er réttur málflutningur, að í öllum stjórnarskrárbreytingum verður fyrst og fremst að taka tillit til hags þjóðarinnar, en ekki hags flokkanna. Því miður fer þetta ákaflega sjaldan saman.

Það er allt útlit fyrir það og nærri því full og örugg vissa fyrir því, að í dag verður formlega afnumið hið forna byggðavald hér á Alþ. og upp tekið alræði íslenzkra stjórnmálaflokka. Ég ætla bara til að koma í veg fyrir misskilning að taka það fram, að það verður ekki síður alræði Framsfl. í þeirri mynd. Hann er eins og aðrir stjórnmálaflokkar. Það er mannlegur breyskleiki að vilja drottna og í Framsfl. er vafalaust eitthvert flokksvald líka og ber ekki að efa það. En í þessu máli höfum við barizt og munum berjast. Víð börðumst fyrir því, að byggðavaldið væri afnumið og við munum berjast fyrir því, þrátt fyrir það þótt við lútum þessum lögum, að valdið verði fært á ný sem mest til byggðanna.

Það kemur líka fljótt í ljós, þetta sem við vöruðum við og töluðum um í sambandi við flokksvaldið. Hér í Nd. hv. Alþ. liggur fyrir kosningalagafrv. Við þetta frv. eru komnar fram margar brtt. Núna síðustu dagana beinast brtt. fyrst og fremst að því að auka flokksvaldið og minnka vald hins óbreytta kjósanda. Síðustu till. eru um það að gera kjósendum nær ómögulegt að færa til á framboðslistum. Það á að vera nær ógerningur fyrir hinn óbreytta kjósanda að láta á nokkurn hátt vilja sinn í ljós um, hverja hann kýs. Hann kýs bara viðkomandi flokk, en það eru flokksstjórnirnar, innstu koppar þar í búri, sem raða upp á listann. — Svo er það með yfirkjörstjórnirnar. Það var talað um það upphaflega í frv., að það yrðu innanhéraðs embættismenn, sem gegndu þessum trúnaðarstörfum. Nú er upp komið, að það er ekki nóg. Þetta vald verður líka að flytja inn á Alþ. og kjósa eftir hlutfallskjöri til þessara trúnaðarstarfa.

Hv. 6. þm. Reykv. (GTh) hélt hér í annað sinn, sinn langa fyrirlestur um stjórnarskipunarlög ýmissa Evrópuþjóða. Það má um hann segja, að hann hefur nokkra sérstöðu, því að hann er víst sá einn Íslendinga, sem sendur hefur verið alveg sérstaklega til Evrópu til að kynna sér stjórnarskrár og þannig hefur hann nokkra sérstöðu, því að almennt hafa þm. ekki jafntæmandi upplýsingar um stjórnarskrár Evrópuþjóða og hann hlýtur að hafa aflað sér á þessari sinni löngu reisu. En hann gat ekki stillt sig um það samt, þessi ágæti þm., að fara að segja hér sögu Framsfl. Þessi saga var nú náttúrlega sögð á eitthvað svipaðan hátt og sagt er, að viss aðili lesi biblíuna. En nóg um það. Það hefur verið rækilega hrakið af 1. þm. Eyf. (BSt) og þm. S-Þ. (KK) allt, sem hann sagði um flokksstjórnarvald Framsfl. og ég hélt nú satt að segja, að þessi hv. þm. yrði jafnvel þm. síztur til að tala mjög mikið um flokksstjórnarvald.

Hv. þm. Barð. (GíslJ) hefur haldið hér langar og miklar tölur. Ég hef nú ekki orðið þeirrar ánægju aðnjótandi fyrr, að sitja hér með honum í þessari háu deild eða þessu virðulega Alþ., en það verður um hann að segja, að hann virðist vera mjög röggsamur maður, a.m.k. í málfari. Hann fann til þess sérstaka ástæðu í gær að tala um það, að atvinnutæki hefðu verið flutt úr ákveðnum litlum stað á Vestfjörðum, flutt burt til annarra staða og fór að ásaka fyrir það sinn mótframbjóðanda, fyrrv. þm. Barð. og tók þar alveg sérstaklega dæmi, andstætt dæmi, þar sem atvinnufyrirtæki væru allt of mikil og tók þar til dæmis Seyðisfjörð, það kjördæmi, sem ég er kosinn á þing fyrir. Mér er nú ekki kunnugt um, að þessi hv. þm. hafi komið á Seyðisfjörð, þó má vel vera, að svo sé, en örugglega ekki á seinni árum og því síður er mér kunnugt um, að það hafi verið nokkuð til hans leitað í sambandi við atvinnumál Seyðisfjarðar. En ef svo hefur verið, þá er það eingöngu af fylgismönnum hans sjálfs á Seyðisfirði. Seyðfirðingar almennt telja, að það sé lágmarksskylda þjóðarbúsins, að þannig, verði að þeim stað búið, að þeir, sem vilja vinna við framleiðslustörf og lífræn störf, geti fengið vinnu. Í stjórnartíð vinstri stjórnarinnar stefndi þar allt í rétta átt. Það urðu snögg umskipti, þegar eftir að minnihlutastjórn Alþfl. tók við völdum, því miður. En það virðist ekki að dómi sjálfstæðismanna þar nóg að gert enn þá, því að þessi mikli valdamaður í Sjálfstfl. lét að því liggja, að enn væri hægt að tæta þar einhver atvinnutæki í burtu. Og í ræðu sinni í dag var hann svo að tala um atvinnuuppbyggingu Vestfjarða. Mér varð hugsað til forns málsháttar, sem segir: Miklir menn erum við, Hrólfur minn, — því að hann stakk hendinni í vasann og sagði: Ég hef byggt atvinnulífið upp í þorpunum í Barðastrandarsýslu einu eftir annað. — Já, hann hefur vissulega byggt margt fyrir vestan, hv. þm. Hann hefur byggt þar rækjuverksmiðju. Starfrækir hann hana ekki enn í dag? Ég veit ekki betur en hann hafi gefizt upp við þá starfrækslu og samvinnufélagið á staðnum hafi orðið að yfirtaka hana til rekstrar og að það sé á herðum þess, sem þungi atvinnulífsins á Bíldudal hvílir í dag. Hann byggði þar einnig mikið verzlunarhús. En ég veit ekki betur, en kaupfélagið á Bíldudal hafi orðið að yfirtaka þetta hús, til þess að hægt væri að veita fólkinu þar í kring þjónustu. Á stríðsárunum var hann með togaraútgerð frá Bíldudal. En eftir styrjöldina, þegar aðrir notuðu sína nýsköpunarsjóði til að endurnýja togaraflotann, — ja, mér er ekki kunnugt um, að hv. þm. hafi þá keypt togara til útgerðar á Bíldudal.

Það er náttúrlega algert einkamál, hvað menn gera við sitt fjármagn og hvernig þeir verja því. En það kemur úr hörðustu átt, þegar verið er að sneiða að fólki í öðrum byggðarlögum, sem er að reyna að byggja upp sina atvinnuvegi, af mönnum, sem hafa þótzt, hafa sagzt ætla að byggja upp byggðarlögin á einkaframtaki, en hafa flúið frá þessu öllu. Seyðfirðingar eru fyrir löngu búnir að gefast upp á slíku. Það var búið að halda þeim í áratugi í voninni um, að einhver einkafjármagnsprins kæmi til að byggja upp þeirra atvinnuvegi. Þeir eru búnir að uppgötva nú, að það getur enginn byggt upp atvinnuvegi, nema mikil arðsvon sé, annar en fólkið sjálft.

Síðan talaði hv. þm. Barð. um jafnvægi í byggð landsins og um jafnvægisfrv. fræga. Hv. þm. S-Þ. svaraði því ýtarlega, en ég vil aðeins bæta því við: Hverjir voru það, sem stóðu að því á síðasta Alþ., strax eftir að stjórnarskipti urðu, að atvinnuaukningarféð var lækkað um þriðjung? Voru það mennirnir, sem báru hagsmuni hinna dreifðu byggða fyrst og fremst fyrir brjósti? Voru það þeir? Það munar um, þó að það séu ekki nema 5 milljónir. Það munar um það. Það munar um minna.

Hv. 6. þm. Reykv. tók Jónas Jónsson sem sérstakt dæmi um flokksstjórnarvald Framsfl. Hv. þm. S-Þ. svaraði þessu ýtarlega, en ég vil aðeins benda hv. 6. þm. Reykv. á það, að Jónasi Jónssyni hefur ekki verið vikið úr Framsfl, enn þá og mér er ekki kunnugt um, hvort hann hefur gengið úr honum.

Og svo aðeins að lokum í sambandi við þetta rabb: Hér er talað mikið um, að hlutfallskjörið og hin nýja skipan sé hið háþróaða lýðræði. Hvernig stendur á því, að tveir af þeim þrem flokkum, sem að þessari stjórnlagabreytingu standa, hafa ekki leitt þetta háþróaða lýðræði inn í verkalýðshreyfinguna, þar sem þeir telja sig þó sjálfkjörna til allra starfa? Hér í þessari hv. d. eiga sæti bæði varaforseti Alþýðusambands Íslands og einn af stjórnarmeðlimum þess. Það væri fróðlegt fyrir okkur að fá að vita, hvernig stendur á því, að þessir menn, sem stjórna verkalýðshreyfingunni á Íslandi, skuli halda henni undir því ógurlega oki, að þar séu meirihlutakosningar? Af hverju leiða þeir ekki inn hið háþróaða lýðræði til blessunar fyrir verkalýðshreyfinguna?

Það er vissa mín, að þessi stjórnarskrárbreyting verður okkur til varanlegs tjóns, meðan hún helzt. Þrátt fyrir það verðum við allir að una henni eins og öðrum þeim lögum, sem sett eru. Þessi lög eru sett á stjórnskipulega réttan hátt, þrátt fyrir það, þó að andi stjórnarskrárinnar sé þverbrotinn með því að misnota gamalt ákvæði í sambandi við hana. En ég vil aðeins að lokum vona, að þróttur þjóðarinnar sé þó það mikill, að tjónið verði ekki allt of stórkostlegt.