11.08.1959
Efri deild: 7. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls aftur í þessum umræðum. En það, sem sagt hefur verið, síðan ég talaði síðast, gefur tilefni til þess, að ég segi enn um þetta mál og sérstaklega það, sem andstæðingarnir hafa haldið fram, nokkur orð.

Ég get orðið við þeim tilmælum hv. forseta að svara hv. þm. Barð. engu, því að það var það, sem hann fór raunverulega fram á. Það var hann, sem hóf þessar umræður, sem ekki var hægt að komast hjá að svara og ekki sízt get ég komizt hjá þessu vegna þess, að hv. þm. Seyðf. (BjörgJ) hefur gert þessu máli svo rækileg skil, að það er óþarfi að eyða frekari orðum að því að svara þessum hv. þm.

Umr. hafa snúizt um það nokkuð, hvort málið, sem hér liggur fyrir, stjórnarskrárbreytingin, hafi verið lögð eðlilega fyrir þjóðina, og það er aðalverkefni þeirra þriggja flokka, sem standa að þessu máli, fyrst og fremst að reyna að sannfæra menn um það, gera tilraun til þess að halda því fram, skulum við segja heldur, að málið hafi verið lagt eðlilega fyrir og í samræmi við 79. gr. stjskr. Þó verður þessum hv. þm. eðlilega dálítið hált á svellinu, því að sannanirnar fyrir því, að málið var ekki lagt eðlilega fyrir, liggja fyrir frá óteljandi fundum, frá óteljandi blaðagreinum og þarf ekki að telja það upp, enda of langt mál að telja slíkt upp í þessum umræðum.

Því er aðallega haldið fram, t.d. af hv. þm. Vestm. (GuðlG) og hv. 6. þm. Reykv. (GTh), að það hafi verið lagt nægilega fyrir, vegna þess að Tíminn, blað Framsfl., og frambjóðendur Framsfl. hafi á fundum og í útvarpsumr. lagt megináherzluna á þetta mál. Þeim gengur eðlilega mjög illa að halda því fram, a.m.k. gengur mjög illa að sannfæra nokkurn mann um það, að þeir hafi ekki gert sitt ýtrasta til þess að ræða sem minnst um málið, reyna til þess að vefja það í aðrar umbúðir og láta hug kjósandans, eins og hv. þm. S-Þ. (KK) tók hér vel og skilmerkilega fram, snúast um annað en kosningarnar áttu að snúast um.

Hér var minnzt á það af hv. 6. þm. Reykv. (GTh), hve mikla áherzlu Framsfl. hefði lagt á það að túlka þetta mál, að hann hefði auk Tímans staðið að því — eða Samband ísl. samvinnufélaga — að gefa út Kjördæmablaðið. Þetta er eitt af ósannindum og blekkingum hv. þm., sem verður að mótmæla. Þetta er söguburður, sem hann tekur hér upp í þinginu og hefur ekki við neitt að styðjast. Það voru áhugamenn, sem gáfu út þetta blað og vitanlega gerði það mikið gagn til þess að túlka þetta mál. En sama er, — þegar þrír flokkar, eins og hér hefur verið þráfaldlega tekið fram, leggjast á eitt á framboðsfundum, í öllum sínum blaðakosti, með öllum sínum áróðri og útsendum áróðursmönnum að telja kjósendum trú um, að það sé ekki verið að kjósa um kjördæmamálið, heldur vinstri stjórnina og mörg önnur mál, þá leiðir það af sjálfu sér, að þessir flokkar hafa mikil áhrif til þess að blekkja kjósendur, og það er ekki neitt vafamál, að kjósendur voru beinlínis beygðir af flokksaga til þess að kjósa gegn sannfæringu sinni um kjördæmamálið sjálft. Meira að segja hæstv. forsrh. var svo hreinskilinn, að hann sagði: Ég skal ekki neita því, að sumir þeir, sem kusu með þríflokkunum, voru óánægðir með kjördæmabreytinguna, — sagði hann í svarræðu til mín hér í þessari hv. d. Hann var svo hreinskilinn. En hvers vegna kusu menn, sem voru óánægðir með kjördæmabyltinguna, með sínum flokkum, en ekki gegn þeim? Það var vegna þess, að flokksaganum, flokksáróðrinum var beitt til þess að fá þá til þess að kjósa með sínum flokkum þrátt fyrir óánægju með kjördæmabyltinguna. Og ég veit persónulega um fjöldamörg dæmi þess, að þetta átti sér stað, sem forsrh. minntist á. Ég veit um það í einu kjördæmi, að frambjóðandi fór um kjördæmið að nýju, eftir að fundir höfðu verið haldnir og fékk einhverja tugi af kjósendum til þess að breyta um afstöðu sína, — þeir höfðu ætlað að kjósa gegn kjördæmabreytingunni — og bað þá beinlínis að gera það vegna flokksins. Þessum aðferðum var beitt bæði opinberlega og leynilega og það þýðir ekki að mótmæla því. Þess vegna er það réttmætt, að þjóðaratkvgr. fari fram um þetta mál, eftir að upplýst er, að þessum aðferðum var beitt og það er alveg furðulegt, að það skuli koma hér frá háttvirtum þingmönnum, að það sé nú orðið móðgun að leggja mál undir þjóðaratkvæði.

Ég held, að það sé sannast að segja óþarfi að ræða þetta atriði nánar. Það liggur svo ljóst fyrir, að það er óþarfi að bæta þar við.

Ég ætla svo að svara nokkrum atriðum úr ræðu hv. 6. þm. Reykv.

Eitt af þeim atriðum, sem hann ber á borð fyrir okkur hér í þessari hv. d., er það, að ágreiningur um kjördæmamálið hafi tafið endurskoðun stjórnarskrárinnar. Eftir að þetta ágreiningsatriði sé úr sögunni, sé auðvelt að afgreiða stjórnarskrána án ágreinings. Ég er nú satt að segja alveg undrandi yfir, að þessi hv. þm. skuli bera aðrar eins rökblekkingar á borð fyrir okkur þingmenn, eins og hann leyfir sér í þessu máli. Ef samkomulag er um öll meginatriði stjórnarskrárinnar önnur, en kjördæmabreytinguna, stjórnarskrárbyltinguna, þá er vitanlega hægt að afgreiða stjórnarskrána í heild og hafa ágreining um þetta atriði, alveg eins og hann er nú, svo að allir sjá, að þetta er ekkert annað en rökblekking. Það gat verið ágreiningur um þetta atriði og ágreiningslaust um önnur atriði, eins og hann heldur fram. En sannleikurinn er sá, að það lá svo mikið á samningunum um þetta mál, að það var afgreitt í flaustri, það var kosið að afgreiða það í flaustri og það er raunverulega ástæðan fyrir því, að málið er afgreitt á þennan hátt, eins og margoft hefur verið rakið.

Hann segir, að hlutfallskosningar séu af rót réttlætis, eins og merkur Íslendingur hafi sagt. Sannleikurinn er sá um þetta atriði, að margir merkir menn héldu því fram, að hlutfallskosningar væru eðlilegasta og hyggilegasta fyrirkomulagið á kosningum og miðuðu í réttlætisátt. En það er jafnvíst, að fjöldi þessara manna hefur breytt um skoðun, enda er einkennilegt, að það er ekki vitnað í aðra en þá, sem eru komnir undir græna torfu. Það er vitað mál, að hlutfallskosningar hafa yfirleitt, eins og ég skal rekja lítils háttar, reynzt illa og það er atriði, sem andstæðingarnir eiga ákaflega erfitt með að mótmæla, þó að þeir vitni stöðugt til Norðurlanda, að stjórnskipulagið standi þar föstum fótum og þar sé sama kosningafyrirkomulag og hér, sem er þó rangt, eins og hv. þm. S-Þ. sýndi fram á og oft hefur verið sýnt fram á, bæði hér í þessari hv. d. og í umr. um þetta mál annars staðar.

Það er bisað við að halda því fram, að hlutfallskosningarnar fjölgi ekki flokkum og það er vitnað til Reykjavíkur. Einnig þetta er fullkomin rökblekking. Þótt verið hafi hlutfallskosningar í Reykjavík, þá er það af eðlilegum ástæðum, að flokkum hefur ekki fjölgað af þeim ástæðum einum og það er af þeirri einföldu ástæðu, að það er erfitt að mynda flokka í landinu, nema þeir hafi fylgi og fulltrúa víðs vegar um landið, vegna þess að einmenningsfyrirkomulagið hefur fram að þessu verið í meginatriðum ráðandi, hefur komið í veg fyrir fjölgun flokka, þrátt fyrir það að hlutfallskosningarnar hafa verið í Reykjavík. Þetta að vitna til Reykjavíkur er því hrein rökblekking.

Einnig voru bornar hér á borð þær blekkingar af hv. 6. þm. Reykv. (GTh), — ég man ekki, hvað hann nefndi margra flokka, sem hefðu haft framboð til Alþingis 1916. Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) hefur rakið þetta svo rækilega og hrakið, að ég sé enga ástæðu til þess að bæta við það. En ég ætla að minnast örlítið á það, sem hann hefur minnzt á áður hér og oft hefur verið rætt, það er Þýzkaland, að nazistarnir hafi komizt til valda í Þýzkalandi vegna hlutfallskosninga, sem sé rangt. Ég man eftir því í umr. um þetta mál s.l. vetur, þá nefndi hann einhvern sérstakan fræðimann þýzkan, sem hefði sýnt fram á það, að hlutfallskosningarnar ættu ekki sök á því að hafa fjölgað flokkum í Þýzkalandi.

Það muna nú víst flestir svo langt í sögu, að þeir muni stjórnarmyndanirnar, baslið við stjórnarmyndanirnar vegna hinna mörgu flokka í Þýzkalandi fyrir valdatöku nazista og hvernig basl, stjórnarkreppa, hvað eftir annað féllu stjórnir, — hvernig þetta basl leiddi til þess, að menn gáfust upp á þessu öllu saman og óskuðu eftir að fá hinn sterka mann vegna þeirra vandræða, sem hlutfallskosningarnar höfðu leitt yfir þjóðina. Það er engin sönnun í þessu máli, þó að finnist einhver maður, sem kallar sig fræðimann, sem staðhæfir það gagnstæða. Við sjáum það á okkar eigin þjóð, að það er nægilega mikið til af slíkum mönnum hér í þessu þjóðfélagi og þeir eru líka annars staðar. Og hvers vegna, fyrst það var svona ágætt þetta hlutfallskosningafyrirkomulag, — hvers vegna tóku Þjóðverjar það ekki upp núna, þegar þeir endurreistu sitt lýðveldi? Hvernig stendur á því? Hvernig stendur á því, að þeir gerðu það ekki? Hvernig stendur á því, að þeir gerðu alveg hið gagnstæða? Þeir tóku upp einmenningskjördæmi til þingsins, eins og vitað er, en samkomulag varð um það að hafa hlutfallskosningar í aðra deildina. Sú deildin, sem aðallega ræður stefnunni, hefur þess vegna fyrirkomulag einmennings — meirihlutakosningar.

Það var jafnframt minnzt hér í seinustu umr., sem urðu um þetta mál, áður en það var samþykkt á fyrra þinginu, á Frakkland. Hann fullyrti það, hv. þm., að það hefðu verið meirihlutakosningar í Frakklandi og átti að vera búinn að kynna sér það. Þetta var rangt. Það var blandað kerfi. Fulltrúi úr einni deild stjórnarráðsins hefur samið yfirlit yfir fyrirkomulag á kosningum víðs vegar um lönd og þar er sýnt fram á það, að í Frakklandi var blandað kerfi, í verulegum atriðum hlutfallskosningar. En hvernig stendur á því, að þegar þeir ætla að fara að endurreisa og styrkja sitt lýðveldi eftir þá eymd, sem þar hafði ríkt, nokkrir tugir stjórna eftir heimsstyrjöldina, — hvernig stendur á því, að þeir tóku ekki upp hlutfallskosningar? Gerðu þeir það? Nei, aðalbreytingin var að taka upp meirihlutakosningar til að styrkja lýðveldið.

Hér er talað um fleiri lönd og það var vitnað til þess í kosningabaráttunni, að ekki hafi Írland viljað taka upp meirihlutakosningakerfið. Það er vitað mál, hvernig hlutfallskosningarnar komust á í Írlandi. Sjálfstæðisflokkur Írlands var sterkur í dreifbýlinu og landsbyggðinni og þar af leiðandi létu Englendingar innleiða hlutfallskosningar til að reyna að eyða áhrifum hans. En þetta stjórnarkerfi telur einn þekktasti stjórnmálamaður, sem nú er uppi og forustumaður sinnar þjóðar um langt skeið það skaðlegt, að hann telur það eiga að verða sitt síðasta og stærsta verk að innleiða meirihlutakosningar í Írlandi og barðist fyrir því. En einn stór flokkur og litlu flokkarnir beittu sér allir gegn því til þess að vernda líf sitt og þeim tókst að koma í veg fyrir það. Þetta sýnir m.a., hve það er erfitt að afnema þennan óskapnað, þó að illa hafi reynzt að áliti beztu manna, einmitt vegna þeirra smáflokka, sem myndast og reyna þar af leiðandi að viðhalda kerfinu með tilliti til flokkshagsmuna sinna, en á kostnað hagsmuna þjóðarinnar í heild.

Ég vil vekja sérstaklega athygli á því, að ég vænti þess, að þegar nú er talað af þessum hv. þm. um það ranglæti, sem fellst í þeim till., sem Framsfl. hefur barizt fyrir, þá minnist þeir þess, a.m.k. sjálfstæðismenn, þegar þeir eru að úthúða þessu kerfi, að varaformaður flokks þeirra hefur stungið upp á því að taka upp þetta kerfi í þeirri n., sem starfaði til þess að breyta stjórnarskránni. Og það eru dálítil rök, eða ég býst við, að menn vilji fallast á það, að ég veit ekki til, — ég er ekki svo fróður, að ég þori að fullyrða, en ég veit ekki til, að nokkurt ríki, sem hefur breytt sinni stjórnskipun seinustu árin eftir reynsluna, sem er af hlutfallskosningunum, hafi tekið upp annað, en meirihlutakosninga, og ekki eitt einasta ríki, sem hefur verið stofnað, hefur tekið upp hlutfallskosningar, heldur meirihlutakosningar.

Við erum þeir, sem höfum efni á því að ganga á móti reynslunni og móti þróuninni og erum sennilega eina ríkið eða eitt af fáu ríkjunum, sem leyfa sér slíkt háttalag, enda gefur það að skilja og hefur oft verið til þess vitnað, að þær stjórnarkreppur, sem nú gera vart við sig í þessum löndum, þar sem hlutfallskosningar eiga sér stað, — ég hef vitnað í Holland, þar sem fleiri mánuðir hafa farið í að mynda stjórn, það má benda á Finnland, sem er með það sama, það má benda á það, að hver veit, hvernig er í Svíþjóð núna, að það var eitt stærsta mál Svíþjóðar, samþykkt af þeim stjórnarflokki, sem þar er, en þurfti að sækja eitt atkvæði til kommúnistanna til þess að koma þessu máli fram, sem er eitt stærsta mál, sem hefur verið samþykkt á þingi Svía, — það gefur bendingu um það los, sem er að verða og er alls staðar afleiðing þessa fyrirkomulags.

Hins vegar er ekki hægt að benda á, að ég hygg, eða a.m.k. fá dæmi þess, að þar sem meirihlutakosningakerfið gildir, sé ekki auðvelt að mynda stjórn. Það er ekki hægt að benda á dæmi þess, að það sé ekki yfirleitt sterkasta og eðlilegasta stjórnskipulagið. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það, að þegar kosið er í Englandi, þá veit hvert mannsbarn, um leið og atkvæðin hafa verið talin úr kössunum, hver verður forsætisráðherra Englands og aðalspurningin er, hverja hann tekur með sér í ríkisstj. Svo einfalt og sterkt og óbrotið er kerfið. Alveg sama er núna í Þýzkalandi, alveg sama í Frakklandi og Bandaríkjunum. Við höfðum þetta kerfi og við munum það úr okkar sögu, þegar tveir flokkar áttust við og einmenningskjördæmi voru hér í landinu, þá var enginn vafi á því, hverjir mynduðu ríkisstj., eftir að árangur kosninganna hafði verið leiddur í ljós. Það var ákaflega einfalt.

Það hefur verið reynt að hártoga ummæli hv. 1. þm. N-M. (PZ) um, að það hafi verið kosið um vinstri stjórn, en ég hafi hins vegar sagt, að Framsfl. hafi unnið mikið á og að það hefðum verið við, sem hefðum haft forustuna í vinstri stjórninni. Þetta þarf vitanlega alls ekki á nokkurn hátt að stangast á, þessi ummæli. Ég álít, að það sé ekki hægt að neita því, að kosningarnar eru viðurkenning á tvennu: viðurkenning á forustu Framsfl. í vinstri stjórninni, sem hann stóð að heill, að svo miklu leyti sem var barizt um það, en inn á þær leiðir reyndi Sjálfstfl. að leiða baráttuna og jafnframt fyrir baráttu hans gegn kjördæmabreytingunni. En ég gæti nefnt fjöldamörg dæmi um sjálfstæðismenn, sem komu til mín eftir fundi og sögðu við mig: Við erum á móti kjördæmabreytingunni, en okkur er sagt af okkar flokksmönnum — og ég er ekki grunlaus um, að hv. þm. Barð. hafi sagt þetta eitthvað í sínu kjördæmi, því að hann sagði það við mig, að ef við hefðum fengið meiri hl. með Alþb., þá mundum við hafa myndað stjórn með því núna eftir kosningarnar. En þetta var einmitt það, sem þeir sögðu, sjálfstæðismennirnir: Notið þið þá ekki valdið til þess að mynda stjórn með Alþb. gegn Sjálfstfl.?

Þetta var látið ganga á bak við og þeir komu til mín hver eftir annan og spurðu: Er þetta rétt? Með þessu móti voru menn fengnir til þess að hlýða flokksaganum: Þið kjósið Sjálfstfl., því að annars verður mynduð stjórn gegn honum. — Þetta var eitt af því, sem var beitt.

Svo kom hv. 6. þm. Reykv. hér að flokksvaldinu og sagði, að það væri hvergi meira, en í Framsfl. Raunverulega hefur þessu verið svarað svo rækilega, að ég get farið hér fljótt yfir sögu. En það er eftirtektarvert og það er eins og með önnur rök þessa hv. þm., að þau snúast alveg í hans eigin hendi og eru alveg öfug við það, sem hann vill halda fram. Dæmin, sem hann nefndi, sanna einmitt ekki flokksvaldið í Framsfl., sem vitað var, heldur lýðræðið í Framsfl. og ég hygg, að betur sé ekki hægt að ganga frá því, en hv. þm. S-Þ. gekk frá hér í þessari hv. d. Ég veit ekki, hvort hv. 6. þm. Reykv. hefur hlustað á það. Þar eru það flokksmennirnir heima fyrir, sem ráða framboðinu, eins og Karl Kristjánsson lýsti greinilega, alveg fullkomlega með lýðræðislegum hætti, án þess að flokksstjórnin skipti sér af því eða fái þar við ráðið, svo að dæmið snýst alveg við. Hann ætti að nefna sem flest af þessum dæmum, því að þetta eru sannanir fyrir því, hvílíkt lýðræði er í Framsfl. að því er snertir framboð, eins og þetta dæmi sannar, — enn fremur það, sem 1. þm. Eyf. minntist á um framboð í N-Þingeyjarsýslu. Ég minnist þess, að ég var á þeim fundi, þar sem var ákveðið, að allir þm. Framsfl. skyldu bjóða sig fram, og flokksstjórnin stóð að framboði allra þingmannanna. En það var óánægja meðal kjósenda, kannske réttmæt, kannske ekki réttmæt, — ég skal ekkert ræða um það. Þeir tóku fram fyrir hendurnar á samþykkt, sem var gerð samhljóða af flokksstjórninni, sem þá var þingflokkurinn, því að þá var ekki myndað það stjórnarkerfi í flokknum og flokkum yfirleitt, sem nú er og buðu fram í sýslunni, án þess að samhljóða samþykkt flokksins fengi þar við ráðið. Þetta sannar því öfugt við allt það, sem hann vill sanna.

Síðan nefndi hann, að það hefðu verið reknir menn úr flokknum 1933, hefði verið vikið úr flokknum vegna óhlýðni. Hv. 1. þm. Eyf. svaraði þessu atriði, svo að ég þarf lítið um það að ræða. En ég held, að einnig þetta dæmi sanni ekki það, sem hv. þm. vill sanna, heldur alveg hið öfuga. Það þarf að taka dæmi úr sögu flokksins, meira en aldarfjórðung aftur í tímann til þess að sýna fram á það, að flokksvaldi hafi verið beitt, meira en aldarfjórðung aftur í tímann. Og hvaða dæmi getur hann nefnt önnur? Það væri fróðlegt, ef hann gerði það, því að með þeim aga, sem er í Framsfl., get ég sem flokksformaður upplýst, að það er hægt að gera mál að flokksmáli, með því að báðir standi saman, þm., sem eru vitanlega kosnir af kjósendum flokksins, og miðstjórnin, sem í eru fulltrúar fólksins víðs vegar um landið og er æðsta ráð flokksins. Þeir verða að vera sammála, til þess að það sé hægt að gera mál að flokksmáli. En það hefur bara aldrei verið gert síðan. Þetta er flokksvaldið og flokksaginn. En flokkurinn stendur saman og þarf ekki að gera slíka samþykkt og það er það, sem blekkir hv. þm.

Hann minntist á það, hv. þm., að landið ætti ekki að hafa réttinn til þess að kjósa, heldur fólkið, sem byggði landið, það hefði færzt til eða orðið miklir fólksflutningar og þess vegna væri eðlilegt að breyta kjördæmaskipuninni. Ég þarf ekki að eyða að þessu mörgum orðum. Við framsóknarmenn höfum viðurkennt þessa staðreynd og viðurkennt það, að taka beri tillit til hennar. Þess vegna er það ekkert annað, en að stangast við staðreyndir hvað eftir annað að halda því fram, að Framsfl. hafi ekki viljað jafna þennan rétt, eftir að hann er búinn að bera fram till. hér í báðum þd. til þess að jafna réttinn á þann hátt, sem fullnægir á svipaðan hátt þessu tilliti eins og þær till., sem hér eru bornar fram, en aðeins gert án þess að ræna landsbyggðina sinum rétti. Það er munurinn. Það er þess vegna margsýnt fram á það, að Framsfl. vildi viðurkenna það að leiðrétta hlut þéttbýlisins, hafði boðið það í samningum við Alþfl. og Alþb., hefur borið fram um það till. hér á Alþ. Samt heldur þessi þm. sig knúinn til að standa upp, til að stangast við þessar staðreyndir, enn einu sinni. Og hann sagði, að þetta fólk úti á landsbyggðinni væri eins og aðallinn, frekt og aðgangshart að því er snerti þann rétt, sem það hefði fengið. Ég held nú, að þetta dæmi hafi verið a.m.k. að hálfu leyti fremur illa valið. Ég get fallizt á það með honum, ef hann á við það að, að mörgu leyti ber fólkið úti á landsbyggðinni ekki síður með sér aðalseinkenni á margan hátt, heldur en annars staðar í þessu landi. En að það sé frekt á forréttindi eins og aðallinn í öðrum löndum og eigi að líkja því við réttindaræningja, sem þar hefur orðið að kveða niður, það held ég að sé heldur illa valið dæmi. Og það er kannske engin tilviljun, að hann sagði jafnframt og það sýnir m.a. hug hv. 6. þm. Reykv., að hann sagði, að þessi stefna Framsfl. væri — og það er orð, sem lengi má lifa: stefna óbyggðanna. Það er dreifbýlið úti um landið, það eru héruðin, það eru byggðirnar, það eru í hans augum óbyggðir, stefna óbyggðanna. Þetta kemur alveg heim við þann anda, sem ég varð var við á einum framboðsfundi og það eru orð, sem eru töluð í viðurvist nokkur hundruð manna, að fulltrúi, sem kom á landsfund Sjálfstfl., það var borið á hann á fundi í mínu kjördæmi, að hann hefði haldið því fram, að það ætti raunverulega að eyða Strandasýslu norðan Hólmavíkur og þessu hélt hann fram. Ekki veit ég, hvort þessi andi er frá landsfundinum, en hann kom af landsfundinum, þegar hann hélt þessu fram og hann stóð upp til þess að vitna um það, að þetta væri sín skoðun. Það ætti raunverulega alls ekki að vera nein byggð norðan Hólmavíkur. Það væri, eins og það virðist vera í augum hv. þm., þar ættu raunverulega að vera óbyggðir.

Hv. þm. N-Ísf. hélt hér hugnæma ræðu, eins og oft er, þegar verið er að koma fram máli, sem er vafasamt. Það er nógu mikið til af krókódílstárum, sagði frægur maður. Réttlætið hefur sigrað og af því að þetta átti nú að vera ávarp, skyldi maður ætla, að hann gæti nú farið rétt með. Nú hefur kjördæmaskipun, sem erlent konungsvald hefur þröngvað upp á Íslendinga, verið afnumin. — Ég er ekki fróðari í sögu en það, að ég veit ekki betur en þetta konungsvald sé Baldvin Einarsson. Baldvin Einarsson stakk fyrstur upp á þessari kjördæmaskipun, sem var lögleidd á Íslandi. Það er erlenda konungsvaldið. Það er laglega farið með sögu í þessu, sem á að vera ávarp. Og hann kom með þessa sömu tuggu, — fyrirgefið, að ég nota það orð, — að nú yrði þingið sönnust og réttust mynd af þjóðarviljanum og gaf í skyn, að önnur leið hefði ekki verið fær til þess. Ég hef svarað því áður, hverjar till. Framsfl. voru í því máli, svo að hér er enn einu sinni farið með rangt mál.

Það er talað um, að það verði samvinna milli byggðarlaganna innbyrðis og samvinna milli byggðarlaganna við þéttbýlið. Við vitum ósköp vel, hvað þetta þýðir. Þetta eru því miður innantóm orð. Við þekkjum það, sem höfum setið í ríkisstjórnum undanfarin ár, við hvað hefur verið að stríða til þess að halda uppi rétti byggðarlaganna, — vitum það ósköp vel. Það er orrusta, sem hefur verið háð á bak við tjöldin og við sjáum ósköp vel, hvert stefnir, þar sem ráðizt var á bændastétt landsins á síðasta þingi og réttur hennar skertur frá því, sem var og réttur hennar skertur í hlutfalli við aðrar stéttir, sem hefur ekki áður átt sér stað. Þetta þorðu þeir þegar að gera.

1. maí, eftir að þessi kjördæmaskipun var samþykkt, var farið að halda ræður um það af einum formanni eins stéttarfélags, sem er sjálfstæðismaður — hann segir í opið geðið á bændum og landsbyggðinni, að það þurfi að fækka bændum um helming. Þá hefur maður það. Og það mætti minnast á mörg önnur mál, eins og rafmagnsmálin og nærtækast er það að nú er nýbúið að samþykkja í hv. Nd., að það megi ekki trúa byggðarlögunum fyrir að kjósa yfirkjörstjórnir, Alþingi á senda þeim eins konar hirðstjóra til eftirlits.

Allt þetta bendir í þá átt, sem stefnt er og stefnt verður og það er vitað mál, að það, sem hefur skeð, er það, að Sjálfstfl. ætlaði sér eftir kjördæmaskipuninni, eins og hún var, að fá meiri hluta í þessu landi. Hann lýsti því yfir hvað eftir annað við kosningar, að hann vantaði ekki nema 317 atkv. í vissum kjördæmum, til þess að fá hreinan meiri hluta. Á meðan var reynt að gera sæmilega við landsbyggðina, þó held ég, að það sé enginn, sem heldur því fram, að lífskjör fólksins úti á landinu séu betri, en þau eru í þéttbýlinu. En Sjálfstfl. bara gefst upp við þessa glímu. Hann vill ekki keppa um kjördæmin. Það er of dýrt. Og það er eins og einn sjálfstæðismaður, mikill sjómaður, sagði: Vitanlega, það er þetta, sem á að ske. Það er þéttbýlið, sem á að leggja áherzlu á, því að hver maður mun leyfa sér eftir þessa kjördæmabreyt. að eltast við gisnu torfurnar, þegar maður hefur þéttu torfurnar rétt við bátinn.

Það, sem hefur gerzt er þetta, að Sjálfstfl. vill ekki keppa um kjördæmin og nú á að taka upp aðrar vinnuaðferðir, sem ég hef bent á, að þegar bryddir á og mun þó meira á eftir koma. Þessi stefna, sem hér er tekin upp, byggist á vantrú þessara manna á landsbyggðinni. Hún byggist á vantrú manna á Íslandi öllu. Hún byggist á því, að þeir álíta, að það eigi ekki að byggja Ísland allt. En sannleikurinn er sá, eins og einn vitur maður sagði, að skaðlegustu mennirnir fyrir byggðarlögin úti um land, skaðlegustu mennirnir fyrir Reykjavík og þéttbýlið, skaðlegustu mennirnir fyrir þjóðina í heild eru þeir menn, sem ekki sjá út fyrir Hringbraut. Það er angi af þessu, sem kemur fram í þessu máli, eins og greinilega lýsir sér í þeim aðgerðum, sem þegar hafa átt sér stað, þó að það sé lítið hjá því, sem á eftir kemur.

En ég þykist vita, að þeir hv. þm., sem standa að þessu máli, telji sig nú hafa vissan sigur. Það er nú svo með stríð fyrir réttum málum og baráttu fyrir hverju einu, að það er ekki ein orrusta, sem ræður úrslitum, það er löng barátta, sem það gerir. Við þurfum ekki annað en að fara gegnum okkar þingsögu og þar er miklu meira en talið verður á fingrum sér af málum, sem hefur verið barizt fyrir langa tíð og beðinn hefur verið ósigur, en sigrað að lokum. Og eitt er alveg víst, að baráttunni um þetta mál er ekki lokið með þessari orrustu. Það skulu menn vera alveg vissir um. Baráttunni verður haldið áfram. Og þegar koma fram afleiðingar þessa máls stjórnskipulega, sem nú er að brydda á, þá mætti svo fara, að sá tími væri skemmra undan, en menn halda, þó að þessi kjördæmabreyt. þurfi sjálfsagt nokkurn tíma og það eitur, sem hún er, til þess að grafa um sig og sýna afleiðingar sínar, — það mætti fara svo, að það væri skemmra, en menn halda, þangað til menn, sem núna standa fyrir þessu máli og samþykkja það, eða aðrir menn úr þeirra flokkum yrðu þeirri stund fegnastir að fella þetta mál og taka upp nýja skipun. Þannig fer þetta mál að lokum, því að baráttunni fyrir því verður haldið áfram.