11.08.1959
Efri deild: 7. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef ekki rétt nema til að gera stutta aths. og skal ekki heldur gera það.

Hv. 6. þm. Reykv. minntist á það, að þegar þm. Framsfl. 1931 ákváðu að vera allir í kjöri í kosningunum, þá hefði það ekki verið lýðræði. Það hefðu svo sem ekki verið kjósendurnir, sem hefðu ákveðið það, heldur þm. sjálfir. Það var nú þannig fyrirkomulag í landinu þá, að framboð var ákveðið af manninum sjálfum. Menn voru ekki boðnir fram í þá daga, heldur buðu þeir sig sjálfir fram. Og það, sem þurfti til þess, var að fá ákveðna tölu meðmælenda. Þetta hafði verið svo frá upphafi, að Alþ. var endurreist og var svo enn og reyndar utan Reykjavíkur allar götur til 1942 og í mörgum kjördæmum enn, svo að þetta er ekkert athugavert. Lýðræðið kom fram í því, að kjósendur voru vitanlega alveg sjálfráðir að því, hvort þeir kysu þessa þm. eða ekki. En það fór nú bara svo, að allir þm. Framsfl. voru kosnir í kosningunum á eftir og fleiri til, nema þessi eini maður, sem minnzt hefur verið á, Benedikt Sveinsson. En það er hreinn misskilningur, að það hafi verið stjórn flokksins, sem ákvað framboðið á móti honum. Það er alls ekki rétt. Ég get gjarnan sagt hv. þm., hver var þá form. Framsfl. Það var Tryggvi Þórhallsson og ég fullyrði, að Tryggvi Þórhallsson átti ekki nokkurn minnsta þátt í því, að boðið var fram á móti Benedikt Sveinssyni, — fullyrði það alveg. Og ég ráðlegg hv. þm. að spyrja t.d. tengdaföður sinn um þetta atriði, því að hann var á þingi þá eins og ég og í sama flokki og ég.

Þá minntist hann á það, að þegar tveir þm. Framsfl. neituðu að styðja þá stjórn, sem flokkurinn ætlaði að standa að, þá voru þeir reknir úr flokknum. En þegar það sama skeði í Sjálfstfl., þá segir hann: þeir voru ekki reknir. En það stóð nú ofurlítið öðruvísi á. Þessir 2 þm. Framsfl. 1933 gátu með sinni andstöðu komið í veg fyrir, að þessi stjórn væri mynduð. Það mátti ekki missa þá, til þess að það væri hægt á þingræðislegan hátt. En þegar nýsköpunarstjórnin var stofnuð, þá máttu þessir fimm eða sex þm. vel missa sig, enda láku þeir niður, þessir þm., allir nema einn, Gísli Sveinsson var sá eini, sem í raun og veru stóð við það, sem hann hafði sagt. Og ég vissi ekki betur, en hann fengi sína refsingu á næsta þingi á eftir. Honum var sparkað sem forseta sameinaðs þings á næsta þingi, svo að ég held, að það sé ekkert meira lýðræði í því, sem hv. þm. nefndi úr sínum flokki, heldur en kom fram hjá Framsfl. í þessu tilfelli.

Ég lýt þingsköpum og lengi ekki þetta mál, þar sem ég hafði ekki rétt til að flytja hér ræðu.