11.08.1959
Efri deild: 7. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til svara nokkrum atriðum í ræðu hv. þm. Str. (HermJ).

Hv. þm. sagði hér í síðustu ræðu sinni, að ekkert lýðræði væri til í Sjálfstfl. Minna mátti nú ekki gagn gera. Ég vil upplýsa hv. þm. og aðra um það, að í öllum kjördæmum landsins eru starfandi og hafa verið starfandi um áratuga skeið annaðhvort héraðsnefndir eða fulltrúaráð sjálfstæðismanna. Þessar stofnanir flokksins velja landsfundarfulltrúa og taka ákvarðanir um framboð í viðkomandi kjördæmum. (Gripið fram í: Hver skipar héraðsnefndirnar, má ég spyrja?) Héraðsnefndirnar eru valdar af flokksmönnum í hverjum einstökum hreppi, og yfirleitt eru einn eða tveir menn í hverjum hreppi í héraðsnefndunum. Í fulltrúaráðunum eru nokkru fleiri menn.

Varðandi stofnun flokksfélaga á s.l. vetri í Gullbringu- og Kjósarsýslu er það að segja, að áður voru starfandi í þessu stærsta kjördæmi landsins utan Reykjavíkur mörg flokksfélög. Það voru fyrst og fremst flokksmenn í nokkrum byggðarlögum, sem til þessa höfðu ekki myndað með sér samtök, sem á s.l. ári og s.l. vetri gengu til myndunar flokksfélaga.

Ég vænti, að af þessu sjáist, hversu rakalausar fullyrðingar hv. þm. Str. eru um það, að innan stærsta flokks þjóðarinnar ríki ekkert lýðræði. En einmitt slíkar fullyrðingar sýna greinilega, hversu fátt er orðið um fína drætti í röksemdafærslu hv. framsóknarmanna gegn því máli, sem hér liggur fyrir til umr.

Aðeins örfá orð að lokum um nokkur önnur atriði úr ræðu hv. þm. Str. Hann sagði, að ekki hefði verið hægt að mynda stjórn í Hollandi í marga mánuði vegna þess, að þar hefði verið hlutfallskosningaskipulag. En mætti ekki varpa þeirri spurningu fram, hvort það hefði verið hlutfallskosningakerfinu að kenna, að á Íslandi var ekki hægt að mynda þingræðisstjórn, stjórn, sem studdist við þingmeirihluta, í tvö ár á árunum 1942–1944? Allir hv. þm. vita, að það hefur oft tekið marga mánuði á undanförnum árum að mynda ríkisstj., þrátt fyrir það að sú kjördæmaskipun hafi gilt, sem hv. framsóknarmenn halda nú dauðahaldi í.

Hv. þm. S-Þ. (KK) hygg ég það hafi verið, sem hélt því fram áðan, að byggð muni eyðast í heilum landshlutum, ef hlutfallskosningar verða teknar upp, eins og ákveðið er með því frv., sem hér liggur fyrir. Í þessu sambandi má á það benda, að á árunum frá 1930 til þessa dags hefur fólki, sem vinnur að landbúnaðarstörfum í sveitum Íslands, fækkað úr u.þ.b. 40 þús. niður í rúmlega 20 þús. manns. Ekki er það hlutfallskosningakerfinu að kenna.

Og hv. 1. þm. N-M. (PZ) dró upp mjög sterkar myndir af því hér áðan, hvernig fólkinu hefði einmitt fækkað í einstökum sýslum. Hann vildi að vísu telja, að það væri fyrst og fremst í kjördæmum sjálfstæðismanna. Allir hv. þm. vita hins vegar, að þrátt fyrir þá ríkjandi kjördæmaskipun, sem nú er verið að breyta, hefur fólki fækkað stórkostlega í fjölmörgum héruðum landsins. Og ég man ekki betur, en einmitt hv. þm. S-Þ. hafi í mjög fallegri ópólitískri útvarpsræðu, sem hann flutti á s.l. vetri, skýrt frá því, hvernig byggð hefði verið að eyðast í einni fjarðarbyggðinni í Suður-Þingeyjarsýslu. Þessi saga hefur því miður endurtekið sig í fleiri héruðum. Hún hefur gerzt í Norður-Þingeyjarsýslu, hún hefur gerzt í Suður-Múlasýslu, hún hefur gerzt í útsveitum Skagafjarðarsýslu og Eyjafjarðarsýslu, og hún hefur gerzt því miður allt of víða á landinu. Og auðvitað fer því víðs fjarri, að fólkinu hafi fyrst og fremst fækkað í þeim kjördæmum, þar sem sjálfstæðismenn hafa verið kjörnir til trúnaðar og forsvars fyrir héruðin á Alþingi.

Ég vil í sambandi við það, að hv. þm. Framsfl. hafa haldið því fram, að þessi kjördæmabreyting komi fyrst og fremst með valdboði frá þéttbýlinu og þá fyrst og fremst frá Reykjavík, minna á það, að fyrir að ég hygg 6 eða 7 árum var gerð samþykkt á fjórðungsþingi Vestfjarða, sem haldið var á Hólmavík, þar sem lagt var til með miklum meiri hluta atkvæða og voru sjálfstæðismenn þó í minni hluta á því þingi, að landinu yrði einmitt skipt í nokkur fá og stór kjördæmi með hlutfallskosningu. Á þessu þingi áttu sæti margir framsóknarmenn. Þá voru málin rædd af yfirvegun og skynsemi og pólitískur æsingur komst þar hvergi að. Þá varð niðurstaðan þessi, að einmitt fulltrúar á fjórðungsþingi þessa strjálbýlasta hluta landsins eygðu þá leið skynsamlegasta til réttlátrar kjördæmaskipunar, að landinu yrði skipt í nokkur fá og stór kjördæmi með hlutfallskosningu.

Hv. þm. Str. minntist á það hér áðan, að varaformaður Sjálfstfl. hefði gert Framsfl. og öðrum flokkum tilboð um það fyrir nokkrum árum í stjórnarskrárnefnd, að landinu skyldi öllu skipt í einmenningskjördæmi og þá einnig Reykjavík. En má ég þá spyrja: Ef framsóknarþingið í vetur hefur meint eitthvað með sinni till. um, að það teldi einmenningskjördæmi skynsamlegustu leiðina í þessum málum, hvers vegna tók þá ekki Framsfl. þessu tilboði Sjálfstfl.? Var þá trúnaðurinn við einmenningskjördæmin eftir allt saman, ekki meiri en þetta? Þeir tóku engan veginn í þetta tilboð, sem hv. þm. Str. segir að varaform. Sjálfstfl, hafi gert Framsfl.

Sannleikurinn er auðvitað sá, að síðan hafa framsóknarmenn flutt till. um það, að hlutfallskosning yrði tekin upp á Akureyri og hlutfallskosning héldist í Reykjavík og í tvímenningskjördæmunum. Hræðilegri, en þetta, eru þá hlutfallskosningarnar eftir allt saman ekki.

Að lokum sagði hv. þm. Str., að kjördæmaskipunin frá 1845 væri ekki runnin undan rifjum konungsvaldsins, heldur Baldvins Einarssonar, hinnar ágætu og elskuðu frelsishetju íslenzku þjóðarinnar. Ég hygg nú, að hv. þm. Str. ætlist til of mikillar vanþekkingar á íslenzkri sögu af hálfu hv. þm. í þessari þingdeild, ef hann heldur, að þm. verði sagt það og að þeir trúi því, að Baldvin Einarsson hafi krafizt þess, að af 26 þm., sem sæti áttu á hinu endurreista Alþingi, væru 6 konungkjörnir. Ég hygg, að það sé vandleitað að þeirri kröfu Baldvins Einarssonar, að konungsvaldið ætti svo ríflegan hluta af hinu endurreista Alþingi.

Á hitt má benda, að þegar á hinu endurreista Alþingi 1845 komu fram hvorki meira né minna en 17 bænarskrár úr öllum landshlutum og flestum héruðum landsins, þar sem óskað var breytinga á kjördæmaskipuninni. Úr Strandasýslu barst meira að segja bænarskrá um það, að þjóðkjörnum þm. yrði fjölgað úr 20 upp í 40 og þm. Reykjavíkur yrði fjölgað um helming. Reykjavík átti einn þm. á hinu endurreista Alþingi, og í bænarskrá sinni lögðu Strandamenn til, að Reykvíkingar fengju tvo þm. Af því má bezt marka, þessum fjölmörgu bænarskrám úr öllum landshlutum, hversu andstæð þjóðinni þessi kjördæmaskipun var, sem konungsvaldið hafði sannanlega sett landsmönnum.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að endurtaka þá ósk, sem ég setti fram hér í minni stuttu ræðu í dag, að þessi nýja kjördæmaskipun megi verða þjóðinni til góðs, í senn fólkinu í sveitum og sjávarþorpum landsins og fólkinu í þéttbýlinu. Allt bendir einnig til þess, að svo muni verða.