06.08.1959
Neðri deild: 11. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

3. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Áður en ég vík að þeim aths., sem fram hafa komið, er rétt, að ég geti þess, að skrifstofustjóri Alþingis hefur bent mér á, að það muni sennilega rétt að bera fram formlegar brtt. nú til að leiðrétta þær misfellur, sem voru í prentuninni í sambandi við 36. brtt., þar sem 2. málsgr. þar á að vera eftir 102. gr., en ekki þar, sem hún var sett inn í hinu prentaða máli, á eftir 107. gr. Leyfi ég mér því fyrir hönd n., þó að ég hafi ekki borið þetta undir hana nú, vegna þess að hennar till. var ekki, að þessi brtt. væri þarna, heldur aftan við 102. gr., að flytja eftirfarandi brtt.:

„1. Á eftir 32. tölul. komi nýr tölul., svo hljóðandi: Aftan við 102. grein bætist ný málsgr., svo hljóðandi:

Sé kosningu frestað skv. 128. gr., má talning atkv. aldrei fara fram, fyrr en kosningu er hvarvetna lokið.“

Þetta leiðir af því, — ég ætlaði að víkja betur að því áðan, en gerði ekki, — að ef aðrar óviðráðanlegar ástæður hamla og kosning ferst fyrir, þá er talið nauðsynlegt og rétt, að það sé hvergi talið annars staðar. Það væri mjög undarlegt t.d., ef í einu kjördæmi, eins og hugsanlegt væri í Reykjavík, færist alveg fyrir kosning, að það væri farið að lesa upp öll kosningaúrslitin annars staðar. Eins er það jafnfráleitt, ef kosningu er frestað í einni kjördeild einhvers kjördæmis, að áður en þar verður kosið endanlega og kosningunni lokið, væru birt fyrir mönnum úrslit annars staðar á landinu. Þetta var sem sagt fyrri brtt. og þá önnur, að 2. efnismálsgrein 36. tölul. falli niður, þ.e.a.s. 2. mgr. í 36. brtt.

Um leið vil ég geta þess, að það var alveg rétt aths., sem fram kom hjá hv. þm. V-Húnv. varðandi 17. brtt., að orðin „framboðslisti í Reykjavík“ eiga að falla niður og það hefur líka slæðzt inn fyrir villu og ég held, að ég verði því einnig að skila hér á eftir skriflegri brtt. um það. Þetta var svona í eldri l., að það átti að auglýsa í dagblöðunum í Reykjavík, en í n. kom okkur saman um að breyta þessu, að auk auglýsingar í útvarpi og Lögbirtingablaði skyldi birta listana í dagblöðum eða vikublöðum í viðkomandi kjördæmum. En þetta er því miður villa, sem hefur slæðzt inn í prentunina, og er rétt að leiðrétta hana, og mun ég þá bera fram brtt. um það eða afhenda forseta hana einnig á eftir.

Þá vil ég aðeins víkja örfáum orðum að þeim aths., sem fram hafa komið og þakka ég hv. þm. fyrir þær leiðbeiningar, sem fram komu í þeirra máli.

Ég tel, að alveg rétt sé í sjálfu sér sú aths., sem fram kom hjá hv. 1. þm. Skagf. varðandi 3. gr., og sé rétt að athuga það nánar. Einnig mun verða athugað nánar um 11. gr., hvort ástæða þykir til að gera hana betur úr garði eða nákvæmari, eins og hann vék að.

Um 110. gr. eru hins vegar sjálfsagt nokkuð skiptar skoðanir um það, hvort fella beri algerlega niður heimildina til útstrikana og a.m.k. var ekki sú skoðun uppi í n. Hins vegar vildu menn breyta reglunum, sem um þetta giltu og það er auðvitað sitt hvor reglan, sem gildir um útstrikun og röðun, því að breyt. á röðun á lista hefur miklu minni áhrif en útstrikun eftir eldri reglunum og helzt enn, vegna þess að í síðara tilfellinu telst viðkomandi manni ekkert atkv. á listanum. En það er í sjálfu sér ákaflega lítil breyt., við skulum segja t.d. á lista í Reykjavík, ef fyrsti maður er númeraður nr. 2 og annar maður nr. 1. Þá fær fyrsti maður á viðkomandi lista í staðinn fyrir 24/24 23/24 og annar í staðinn fyrir 23/24 24/24. Auðvitað verða þessar breyt. í sambandi við röðunina þeim mun meiri, sem neðri maður er færður hærra upp og þess vegna breytilegar eftir því, hvar menn áður áttu sæti á listanum.

Ég veit, að sumir eru sömu skoðunar og hv. 1. þm. Skagf. um, að útstrikanir ætti í raun og veru ekki að leyfa, og að því má færa ýmis rök og réttilega þau rök, að ef útstrikanir séu leyfðar, mættu menn taka inn ný nöfn o.s.frv. Þetta má segja að sé allt saman rökrétt. En í meginatriðum held ég, að fleiri muni hallast að því, að miðað við þá venju, sem fengizt hefur og viðhorf kjósenda almennt sé kannske hæpið að afnema alveg þessa heimild og með því móti e.t.v. gengið of langt á rétt kjósenda til þess að hafa einhver meiri áhrif við kosninguna, en það eitt að kjósa listann og þá að láta í ljós vantraust sitt á viðkomandi manni með útstrikun og með þeim afleiðingum, sem um það er svo kveðið á að öðru leyti í kosningalögunum.

Ég tel sjálfsagt að athuga nánar þá aths., sem fram kom hjá hv. 1. þm. Skagf. varðandi 2. mgr. 127. gr. Ég held nú ekki fljótt á litið, að þessi breyt. á úthlutun uppbótarsæta, að þau skuli alltaf vera 11 í staðinn fyrir allt að 11, breyti því, að þessi mgr. eigi rétt á sér, því að enda þótt það sé rétt, að það hafi verið úthlutað allt að 11 uppbótarsætum áður, gat það engu að síður farið svo, að breyt. gat orðið á úthlutun uppbótarsætanna. Ef einhver missti sæti sitt, þá þýddi það ekki þá, að það yrði einum uppbótarþm. færra, því að það gat valdið því vegna nýrra kosninga eða annarrar niðurstöðu í kjördæmakosningunni, að einhver annar fékk uppbótarsætið. Og það er jafnvel hugsanlegt, held ég, að uppbótarþm. hefðu orðið fleiri í slíku tilfelli, en þeir voru við fyrstu niðurstöðuna. Ég held, að það sé teoretiskt fljótt á litið hugsanlegt, en það er sjálfsagt að athuga það nánar.

Þá hef ég vikið að annarri aths. hv. þm. V-Húnv., sem réttmæt var, en sú síðari var varðandi 24. brtt., um 100. gr. og það er rétt, að það komi til athugunar, en þá þarf einnig að athuga 101. gr., en aths. sýnist mér hafa verið alveg réttmæt. En í 101. gr. er ákvæði um það, að um leið og kosningu sé lokið og kjörstjórn hefur unnið nauðsynlegar skýrslur úr kjörskránni, sendir hún kjörskráreintök þau, sem notuð voru við kosninguna, í innsigluðum umbúðum til yfirkjörstjórnar. Það er fyrst það, hvort þetta nægir ekki, því að það er ekki fyrr, en að atkvæðatalningunni lokinni, sem yfirkjörstjórn á að skila þessu aftur til sýslumanns eða bæjarfógeta. Mér skilst sem sagt við fyrstu sýn, að þessi mgr. 101. gr. muni nægja til þess að ná því marki, sem efnislega var rétt að vikið hjá hv. þm. í sambandi við 100. gr., en að sjálfsögðu er rétt að hugleiða það nánar.

Ég leyfi mér svo að leggja fram þessa skriflegu brtt., sem ég gat um áðan,og vildi biðja forseta aðeins um tóm til að rita hina brtt., sem ég gerði grein fyrir.