10.08.1959
Neðri deild: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

3. mál, kosningar til Alþingis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Við höfum leyft okkur, fulltrúar þriggja af flokkunum, sem eru í stjskrn., hv. 9. landsk. þm. (StSt), 4. þm. Reykv. (JóhH) og ég, að flytja hér nokkrar brtt., sem eru á þskj. 25.

1. brtt., við 9. gr., er á þá leið, að í staðinn fyrir, að sýslumenn skuli vera sjálfkjörnir sem yfirkjörstjórar í hinum stóru kjördæmum, skuli vera kosin yfirkjörstjórn slíkra kjördæma af sameinuðu Alþingi, á sama hátt og landskjörstjórn er kosin. Okkur finnst þetta eðlilegt. Það er í samræmi við það, sem gert er viðvíkjandi landskjörstjórn og slík aðstaða á að tryggja a.m.k. eins vel eða jafnvel betur hlutleysi og eftirlit í sambandi við kosninguna heldur en það fyrirkomulag, að sýslumenn séu í því eftir aldri.

Það hefur fallið þarna niður, sem er sjálfsagt líka og það er, að þeir menn, sem kjörnir séu, skuli búsettir í viðkomandi kjördæmum og verður þskj. prentað upp með þeirri leiðréttingu.

Þá leggjum við enn fremur til með 2. brtt., við 10. gr., að í síðari mgr. sé þar breytt 1. málslið, þannig að í kaupstöðum, þar sem kjördeildir séu fleiri en ein, kjósi bæjarstjórn þriggja manna kjörstjórn til þess að hafa með höndum stjórn undirkjörstjórna á hverjum kjörstað. Það er í hinum stærri bæjum þannig, að víða eru margar kjördeildir, jafnvel margir kjörstaðir, við skulum segja eins og í Reykjavík og það þarf að vera hægt að hafa eina nefnd, eina kjörstjórn, sem hefur eins konar verkstjórn á þessum undirkjörstjórnum og samræmir þeirra verk, þeirra úrskurði og þeirra afstöðu. Í öðru lagi mundi slík kjörstjórn hafa það verkefni með höndum að hafa samband við yfirkjörstjórn. Í þessum stóru kjördæmum er alveg greinilegt, að þarna vantar eins konar millilið á milli og þessi brtt. okkar ætti að bæta úr því.

Þá leggjum við til í þriðja lagi, að breytt sé 40. gr., þannig að stjórnmálaflokki sé heimilt að velja sér bókstaf, sem er ekki notaður af þingflokki, en tilkynna skuli hann landskjörstjórn slíkt val samstundis. Það hefur verið skoðun ýmissa okkar, að það væri rétt að breyta því fyrirkomulagi, sem nú er og ég fyrir mitt leyti kom með þær uppástungur í stjskrn., en varð ekki samkomulag um. Það hefði verið rétt nú að mínu áliti, um leið og stjórnarskránni og kosningalögunum er breytt, að hrista upp þetta gamla fyrirkomulag, sem verið hefur nú um nokkur ár, að eldri flokkarnir hafi þarna sérstaka bókstafi, löghelgaða sér, síðan sé haldið áfram með stafrófið gagnvart nýjum flokkum, en um það hefur ekki orðið samkomulag. Við höfum hins vegar gert samkomulag um það, að stjórnmálaflokki væri heimilt að velja sér bókstaf. Það er vitanlegt, að þessir bókstafir, eins og þeir eru núna, geta verið bæði til óþæginda fyrir stjórnmálaflokkana sjálfa og fyrir kjósendurna, sem eiga að skrifa þá, bara vegna þess, hve erfitt er að tryggja það, að hægt sé að skrifa slíka bókstafi þannig, að menn geti alltaf verið öruggir um, hvað eigi að lesa út úr þeirri skrift. Þegar það meira að segja kemur fyrir á Alþingi, að svo ólíkir bókstafir, sem manni finnst A og D vera, eru skrifaðir þannig, að forsetar Alþingis eru í nokkrum vafa um, hvernig lesa skuli, þá getur maður hugsað sér, hvernig sé með aðra bókstafi og almenning, þegar hann á að skrifa þetta.

Þess vegna er það ekki nema eðlilegt, að nýr flokkur og eins flokkar, sem eru þingflokkar, geti valið um það, ef þeim finnst annar bókstafur þægilegri en sá, sem þeir mundu fá eftir stafrófsröðinni, að þeir megi þá kjósa sér hann. Mér virðist það vera mjög sanngjarnt.

Þá hefur enn fremur orðið samkomulag um þá breytingu, sem er hin fjórða á þessu þskj., við 133. gr., að það megi ekki safna undirskriftum um stuðning eða andstöðu við ákveðin málefni, sem heyra eða heyrt geta undir valdsvið Alþingis, eftir að almennar alþingiskosningar hafa verið ákveðnar.

Í stjórnarskrá og kosningalögum eru gerðar mjög miklar ráðstafanir til þess að reyna að hindra, að á þeim tímum, sem alþingiskosningar fara fram, sé verið að grennslast eftir skoðun kjósenda eða reyna að binda kjósendur með undirskriftum, sem vitanlegt er að menn taka mjög hátíðlega, eins og vera ber. Og í samræmi við það eru mjög ákveðin fyrirmæli í l. um, að ekki megi safna nema ákveðinni tölu undirskrifta til meðmæla með mönnum og ekki megi skora t.d. á menn á slíkum tímum eða annað slíkt. Þetta er allt saman gert með það fyrir augum, að það sé ekki hægt að fá menn til þess að binda sig þannig eða komast eftir skoðunum manna þannig með því að spyrja, hvort þeir vilji skrifa undir þetta og þetta. Nú er hægt oft að gera þetta sama, þegar kannske eitt mál er höfuðmál í einum kosningum og hefur jafnvel sýnt sig, að slíkt hefur verið gert í allríkum mæli og stundum kannske allir kjósendur í heilum hreppi verið látnir skrifa undir slíka áskorun, sem jafngilti raunverulega, að þeir segðu, hvernig þeir ætluðu að kjósa. Það er þess vegna ekki nema í samræmi við alla þá stefnu, sem í stjórnarskránni er, að það skuli dregið úr og bannað að safna slíkum undirskriftum þennan tíma, sem sjálfar alþingiskosningarnar standa yfir, allur undirbúningur undir þær, þ.e. upp undir tveggja mánaða tíma og er þetta til samræmis við þær aðrar ákvarðanir, sem eru í kosningalögum og eiga að stuðla að því, að menn séu ekki bundnir með undirskriftum meira, en allra nauðsynlegast gerist vegna framboðs eða að ekki sé verið að knýja menn til þess að láta í ljós eða neita sínum skoðunum eða binda sig með þær, þegar búið er að ákveða kosningar. Hins vegar dregur þetta ekki á neinn hátt úr allri þeirri annarri starfsemi, sem flokkar hafa með höndum þess á milli.

Ég er enn fremur meðflm. á þskj. 27 ásamt hv. 9. landsk.brtt., sem hann þegar hefur mælt vel fyrir, þannig að engin þörf gerist á að bæta þar neinu við.

Þá vildi ég að lokum aðeins segja örfá orð í sambandi við till. stjskrn. á þskj. 23, þá sem er nr. 4. brtt. við 110. gr. Ég stend að vísu með stjskrn. að þeirri till. og vil þó aðeins með nokkrum orðum láta í ljós mína persónulegu skoðun á því máli, eins og ég hafði gert í nefndinni.

Það er almenn tilhneiging í öllum þingflokkunum að takmarka meira,en gert hefur verið þann rétt, sem kjósendur hafa til þess að geta breytt á listum. Og þetta verður nokkurt „prinsip“–atriði, þegar einmenningskjördæmin nú hverfa og þessi stóru hlutfallskjördæmi taka við. Í hlutfallskjördæmunum hefur það verið svo hingað til, að þar hefur réttur kjósandans verið mjög víðtækur. Kjósandinn hefur þar haft persónulega ákaflega mikinn rétt til þess að geta breytt til og það hefur ekki nema lítill hluti kjósenda þurft annaðhvort að taka sig saman um að gera slíkt eða vera á þeirri skoðun, án þess að nokkur samtök væru, að slíkt væri gert og ég skil vel og viðurkenni alveg réttmæti þeirrar tilheigingar að takmarka þetta nokkuð, vegna þess að þetta hefur verið ákaflega víðtækt og gefið jafnvel óheilbrigðum tilhneigingum undir fótinn. Hins vegar er gengið ákaflega langt með þeirri breyt., sem við í stjskrn. nú flytjum.

Hins vegar hefur það verið svo með einmenningskjördæmin, að þar hefur raunverulega réttur kjósandans verið hverfandi lítill í þessu efni, þegar uppstilling á annað borð hafði farið fram. Þar hefur það verið svo, að ef einn flokkur á annað borð er sterkastur í einu kjördæmi og á rétt á að koma manni að, þá fer maðurinn inn í einmenningskjördæmi, þó að öll atkv. á hann séu á landslistanum og enginn vilji kjósa hann persónulega, þannig að í þessum einmenningskjördæmum er þannig algert alræði flokksins.

Mér hefur virzt vera nokkur tilhneiging að gera þessi ráð flokkanna mjög mikil í þeim till. og hugmyndum, sem fram hafa komið í umr. um þessi mál. Að vísu eiga kjósendur þess kost, ef þeir eru óánægðir með t.d. 1., 2. eða 3. frambjóðanda eða einhvern þeirra, að bjóða fram annan lista, þó að þeir tilheyri sama flokki og ef sá listi yrði sterkari, þá er, t.d. ef um einn mann er að ræða, efsti maður af honum kosinn. Hins vegar er bannað, að einn maður sé í kjöri á fleiri en einum lista, líka þó að það sé sami flokkurinn, sem býður báða listana fram, þannig að ef baráttan stendur t.d. um einn mann, en aðra menn, eru menn kannske sammála um, þá er ekki hægt að bjóða fram lista með þeim mönnum, sem menn eru sammála um og án þess manns, sem menn eru ósammála um, þannig að vald kjósendanna er náttúrlega hvað þetta snertir ákaflega mikið takmarkað, erfitt fyrir þá t.d. þannig að ætla beinlínis að fara að kljúfa og bera fram aðra lista, enda náttúrlega finnst engum flokki æskilegt að ýta undir það. En þetta þýðir hins vegar, að breytingarmöguleikarnir eru hverfandi litlir. Fyrir flokk, sem kemur t.d. að þrem mönnum í fimm manna kjördæmi, er svo að segja ómögulegt að fella t.d. fyrsta mann frá kosningu. Ég hef ekki reiknað það nákvæmlega út, en ég býst við, að þó að yfir 75% strikuðu hann út, væri hann ekki fallinn. Og ef flokkur kemur fjórum að í fimm manna kjördæmi, þá held ég, að það sé „teoretiskt“ útilokað, að efsti maðurinn, þó að hver einasti maður striki hann út, falli og það er vert, að menn geri sér þetta ljóst.

Hingað til hefur verið auðvelt að breyta, ef hlutfallskosningar hafa verið og ómögulegt að breyta, ef einmenningskjördæmi hafa verið. Menn hafa getað látið sína skoðun í ljós með því að kjósa landslista. En þó að einn maður í einmenningskjördæmi fái ekki eitt einasta persónulegt atkv. og landslistinn öll og flokkurinn sé þar með nógu sterkur til þess að vinna, þá fer maðurinn jafnt inn fyrir það. Á þessu vildi ég aðeins vekja athygli manna.

Út af fyrir sig er það dálítið óeðlilegt, að einn maður geti farið inn, þó að meiri hluti kjósenda sé á móti honum og striki hann út. En þannig er það, eins og þessi okkar uppástunga er. Hins vegar verður náttúrlega að ganga út frá því, að það komi vart fyrir, að flokkar stilli þannig upp, svo að þetta eru máske þess vegna meira dæmi, sem eru fræðilegs eðlis, heldur en praktísk dæmi. Manni virðist raunverulega, að það hefði kannske verið hið rétta, ef um 50% kjósenda striki einn mann út, þá ætti hann að vera fallinn. Allt eru þetta nú atriði, sem betur má athuga, þegar öll þessi kosningalög verða betur endurskoðuð, það verður náttúrlega alltaf nokkur fljótaskrift á þessum hlutum nú og þess vegna flyt ég heldur engar brtt. við þetta og stend að þessari brtt., sem samkomulag hefur orðið um í stjórnarskrárnefnd.