11.08.1959
Neðri deild: 14. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

3. mál, kosningar til Alþingis

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að fara að taka þátt í þessum umr., enda þótt margt sé í þessu frv., sem athugunar þurfi við og orki tvímælis. Ástæðan til þess eru þær till., sem fram hafa komið um breyt. á yfirkjörstjórninni, sem ég vildi segja mína skoðun á.

Áður en ég vík að því, þykir mér rétt að rifja það upp, að þegar við komum hér til þings að þessu sinni, var gert sérstakt hróp að okkur framsóknarmönnum í blöðum þríflokkanna fyrir það, að við mundum sérstaklega ætla að tefja þetta þing, við mundum nú byrja aftur á sama málþófinu og fyrr, störfum þingsins væri hægt að ljúka á hálfum mánuði, ef framsóknarmenn væru ekki til tafar. Þetta hróp var gert í blöðunum, áður en menn voru farnir að taka þátt í umr. hér á Alþ. Nú hefur hæstv. Alþ. starfað í nærri fjórar vikur. Stjórnarskrárfrv. er til síðustu umr. í hv. Ed., en hér í hv. Nd. eru kosningalögin til 3. umr. Þau eiga eftir að fara gegnum síðari deild hér á hv. Alþingi. Það er búið að vinna sleitulaust í þeim, síðan þing kom hér saman, án þess að nokkuð hafi verið tafið. Samt er málið ekki lengra á veg komið, en raun ber vitni um.

Af hverju var þá byrjað á þessum hrópum, áður en þingið hóf störfin, fyrst það átti að leysa verkefni, sem var jafnmikið og þetta er? Það er tvennt, sem hér ber til. Í fyrsta lagi var gert ráð fyrir því, að við framsóknarmenn mundum sýna fram á það sem fyrr, hvert var stefnt með stjórnarskrárbreytingunni og mundum halda uppi eðlilegri málsvörn gegn þeirri breytingu, sem boðuð var. Það þótti að sumu leyti óþægilegt og þess vegna þurfti að gera hrópið, áður en málsvörnin var hafin. Hin ástæðan hlýtur að vera sú, að þeir, sem ráða hér málum, hafi ekki gert sér grein fyrir því, hvaða verkefni sú breyting, sem þeir gerðu á stjórnarskránni, kallaði á. Þeir virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því, hvað það tók mikinn tíma og hvað það var mikið vandaverk að semja kosningalög, sem væru í samræmi við þessa breytingu, enda hefur komið á daginn, að það var margt vanhugsað, bæði við stjórnarskrárbreytinguna og það, sem á eftir fór. Og það hefur sannazt, sem við framsóknarmenn héldum fram, að slík mál ætti að leysa að undangenginni athugun og í samstarfi allra flokka, en ekki í hefndarskyni, eins og hér hefur verið stefnt að.

Nei, það hefði verið betra fyrir forustumenn hér á hv. Alþingi að fara sér hægar um það, að við mundum tefja störf þingsins, en láta þá mál vera betur undirbúin, en raun hefur borið vitni um.

Það hefur þegar sýnt sig, að fyrsti árangurinn af þeirri kjördæmabreytingu, sem hér er verið að gera og hugsað er að nái samþykki Alþingis í dag, er að koma í ljós. Ýmislegt er það, sem hefur orðið mönnum hugstætt nú upp á síðkastið í sambandi við kosningalögin. Erum við framsóknarmenn ekki einir um þær áhyggjur.

Menn hafa mjög velt því fyrir sér, hvernig með ætti að fara tilfærslur og útstrikanir á listum. Öllum er ljóst, að það er mikið vandamál, og það er vandamál í vaxandi mæli eftir þá skipan, sem nú er verið að gera. Því mega menn samt ekki gleyma, að þegar var verið að tala hér fyrir hlutfallskosningum fyrir rúmum 50 árum, var bent á það sem sérstakt réttlæti, að kjósandinn gæti þar fært til að eigin geðþótta. Hannes Hafstein hélt því fram sem einum helztu rökum fyrir gildi hlutfallskosninga. Nú eru menn í dag, þegar þeir eru að reyna að koma þeim á, að reyna að skafa þennan agnúa af. Sterkustu rökin eru orðin hættulegur agnúi. Og svo fer um fleira í þessu máli, þótt síðar sannist.

Eitt af því, sem hér er til umr., er það hvernig kjósa á yfirkjörstjórn í hinum einstöku kjördæmum. Sú regla hefur verið gildandi þar, að yfirstjórn í kjördæmunum hefur kosið þessa kjörstjórn. Sýslumaðurinn hefur verið þar oddamaður vegna síns embættis og sýslunefnd hefur svo kosið hina. Nú kom fram í frv. því, sem ríkisstj. lagði fram, sú till., að embættismenn í þessum kjördæmum skyldu vera einir í kjörstjórn. Það mátti segja, að þar væri fylgt því, að sýslumennirnir voru þar áður vegna síns embættis, en þá voru kosnir með þeim sérstakir fulltrúar og það var mikils virði. Ég verð að segja það, að frá upphafi hef ég talið þetta atriði hæpið. Þó er svo ástatt í þeim héruðum, sem ég þekki bezt til og kem til með að heyja kosningabaráttu, ef ég tek þátt í henni framvegis, að þar eru embættismenn, sem ég fullkomlega treysti í þessum efnum. En það hefur verið nógu mikið að því gert í sambandi við þetta mál að hugsa það út frá líðandi stund og þessir menn eru eins og aðrir menn dauðlegir og geta fært sig um set og út frá því, að þeir séu til staðar, get ég ekki hugsað málið.

Þess vegna finnst mér, að önnur skipan þyrfti að koma til og sú eina skipan, sem mér finnst þar eðlileg og er í samræmi við það að vera ekki að taka valdið af héruðunum og við getum þess vegna sameinazt um, bæði flm., ég, hv. 10. landsk. og hv. 4. þm. Reykv., sem tala um að halda valdinu heima hjá héruðunum, það er því aðeins hægt, að við látum yfirstjórnir héraðanna, sýslunefndirnar og bæjarstjórnirnar, kjósa í kjörstjórnirnar. Því aðeins er það hægt.

Ég verð að segja það, að ég skil ekki þau rök hjá hv. 4. þm. Reykv., að það sé hæpið að láta þessa aðila kjósa í kjörstjórnir, vegna þess að þeir séu pólitískir, sýslunefndir og bæjarstjórnir séu pólitískir aðilar og hætta sé fólgin í því að láta þær kjósa. En Alþingi, er það nú orðin ópólitísk stofnun? Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt og verð ég að segja, að hér eru meiri tíðindi á ferð, en ég hef til þessa heyrt.

Nei, við getum ekki komizt hjá því, að pólitískir aðilar kjósi eða skipi þessar stöður. Þessir menn, hvort sem það eru sýslumenn eða aðrir, sem með þessi mál fara, verða pólitískir og það er eðlilegast, að við setjum það saman á þann veg, að fleiri sjónarmið komi til og þau munu koma til, ef sýslunefndir og bæjarstjórnir eiga að kjósa yfirkjörstjórnir. Það er því enginn hlutur eðlilegri eða engin lausn betri á þessum vanda, heldur en sú leið. En þetta sýnir okkur aðeins eitt lítið dæmi af þeim mörgu vandamálum, sem kjördæmabreytingin kemur til með að skapa. Og ég vil sem sagt undirstrika það, að ef við viljum halda valdinu hjá fólkinu úti um landsbyggðina, eigum við að fylgja þeirri tillögu fram.

Í sambandi við það, sem hv. 4. þm. Reykv. ræddi hér um að merkja bíla á kjördegi, þá held ég, að það muni vera nokkuð almenn skoðun í þessu landi, að þau lög, sem sett voru hér haustið 1957, hafi orðið til bóta í sambandi við framkvæmd kosninga. Bæði það að hafa takmörk á því, hve kjörstaðir mættu vera lengi opnir og ýmislegt annað í sambandi við framkvæmd kosninganna hefur skapað meiri menningarsnið á kosningar, en áður var. Og ég held, að við séum nú komnir of langt í því að nota bifreiðar til smölunar á kjördegi og sé nóg að gert, þó að við höfum ekki merkt þær. Mér er það fullkomlega ljóst á þeim stað, þar sem ég þekki bezt til, að þá er svo háttað, að það mundu allir kjósendur í því kjördæmi, þar sem ég var í framboði við tvennar síðustu kosningar, hafa kosið, þó að flokkarnir hefðu ekki séð þeim fyrir bíl. Það er orðið það mikið af bílum almennt í héraðinu, að það yrði vandræðalaust. Það má vel vera, að flokkar finni til ábyrgðar og gangi ekki lengra í þessu, en góðu hófi gegnir. En ég hygg þó, að það muni henda suma, að þeir verði að reka sig alvarlega á, áður en það er gert, ekki sízt þegar svo miklu er nú farið að kosta til, að jafnvel flugvélar eru sendar með atkv., sem utan á er skrifað, að þau séu ógild.