30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál er, eins og hæstv. ráðh. tók fram, komið frá Ed. og var allýtarlega rætt í þeirri d., og þar var mótuð afstaða framsóknarmanna til málsins og rökstudd með margvíslegu móti. Þótt hv. þm. Nd. hafi að sjálfsögðu ekki fylgzt nákvæmlega með þeim umr., hafa þó nál. um málið komið fyrir augu hv. þm. og þeir vafalaust fylgzt talsvert með þeirri afstöðu, sem þar kom fram. Ég sé þess vegna miklu minni ástæðu til þess en ella væri að ræða þetta frv. í löngu máli, þar sem það er þannig komið frá Ed. og afstaða hefur komið fram, rökstudd á báða bóga. En ég vil þó láta falla fáein orð við þessa 1. umr.

Það er augljóst, að einn megintilgangur frv. er sá, að stjórnarflokkarnir nái strax tökum á Búnaðarbankanum. Það þykir ekki fært að bíða neitt. Og frv. er vitaskuld, hvað sem um þetta er sagt að öðru leyti, miðað við, að þannig verði frá þessu gengið. Ég vil lýsa því yfir, sem er raunar óþarfi, því að það er vel kunnugt, að ég hef ekkert traust á stefnu hæstv. ríkisstj. í lánamálum landbúnaðarins og tel það því síður en svo meðmæli með þessu máli, að það er við það miðað, að stjórnarflokkarnir nái tökum á bankanum strax til þess að starfa þar eftir sínu höfði. Sérstaklega er þetta óárennilegt þegar þess er gætt, að búnaðarbankastjórnin er ekki aðeins stjórn venjulegrar viðskiptadeildar bankans, heldur er þar einnig um að ræða stjórn fyrir fjárfestingarlánasjóði landbúnaðarins, þar sem eru bæði ræktunarsjóður og byggingarsjóður sveitanna. En þannig er háttað, að stjórn Búnaðarbankans er einnig stjórn þessara sjóða, því að þeir eru í raun og veru deildir í bankanum.

Nú vitum við, að núv. stjórnarflokkar hafa notað aðstöðu sína þennan stutta tíma, sem þeir eru búnir að ráða, til að gerbreyta með sérstakri löggjöf vöxtum og lánstíma í þessum sjóðum. Það er síður en svo ástæða til að álíta, að það muni vera til bóta, að þeir fái nú aðstöðu til þess að hafa stjórn þessara sjóða sjálfa með höndum eða þeirra menn, kjörnir af þeim. Ég vil ekki eiga þátt í neinu, sem verður til þess að flýta því, að svo verði.

Það gæti verið tilefni til þess við þetta tækifæri að ræða þessi atriði nánar, vaxtamálið og lánamál landbúnaðarins, eins og þeim er háttað nú, eins og stefnan hefur verið tekin í þeim. En ég mun ekki gera það, heldur bara benda á þetta, — ekki nema þá sérstakt tilefni gefist. En þetta eru rök á móti því, að inn á það sé gengið að breyta þessu nú strax og leggja það undir vald þessara flokka.

Þá er annað atriði, sem hefur verið bent á og ég vil leyfa mér að undirstrika, og það er þetta: Það gildir ekki hið sama um Búnaðarbankann og aðra ríkisbanka, vegna þess að Búnaðarbankinn er stéttarbanki, banki, sem er settur upp fyrir landbúnaðinn sérstaklega. Megintilgangurinn með bankanum er sá að vinna fyrir landbúnaðinn, og hefur frá fyrstu tíð verið tekið tillit til þessa í því, hvernig stjórn bankans hefur verið fyrir komið. T.d. hefur landbn. Alþ. verið ætlað að velja fulltrúana í bankaráðið, en ekki Alþ. sjálfu. Það hefur verið gert til þess, að það væri fyrst og fremst landbúnaðarsjónarmið, sem réði vall þessara manna, og landbrh. síðan ætlað að ráða formanni bankaráðsins, en ekki þeim ráðh., sem fer með bankamál. Þetta hefur verið miðað við, að hér væri stofnun fyrir landbúnaðinn, eins og líka augljósast er, þegar þess er gætt, að stofnlánadeildir landbúnaðarins eru fléttaðar inn í bankann, ræktunarsjóður og byggingarsjóður sveitanna. Þetta sjónarmið hefur verið tekið til greina, að tengja bankann við landbúnaðinn sérstaklega gegnum stjórn og þá með því, að það væru landbn. þingsins, sem veldu mennina í bankaráðið, og landbrh., sem skipaði formanninn. Þetta er t.d. nokkuð í samræmi við það, sem iðnaðurinn býr við, að því leyti sem það getur verið sambærilegt. Iðnaðarbankinn var settur á fót með löggjöf hér á árunum, og á ríkissjóður talsvert af hlutafé í Iðnaðarbankanum. En þannig hefur verið á því máli haldið, að það er sá ráðh., sem fer með iðnaðarmál, sem hefur verið látinn ráða meðferð hlutabréfa ríkissjóðs í Iðnaðarbankanum og ráða því þar með, hvaða menn það væru af hálfu ríkisvaldsins, sem tækju sæti í stjórn Iðnaðarbankans. Þetta er nákvæmlega hliðstætt því, sem verið hefur um Búnaðarbankann og fyrirkomulagið á stjórn hans.

Eins er það nú, að verið er að setja löggjöf um Verzlunarbanka, þar sem samtökum kaupmanna og verzlunarsamtökum er ætlaður forréttur að því að eiga hlutafé þess banka, og þeir fara þá auðvitað með stjórn hans að öllu leyti, en það er að verulegu leyti hliðstæð stofnun. Þótt ekki sé það ríkisstofnun, er hún að verulegu leyti hliðstæð stofnun. En enn þá gleggra fordæmi og hliðstæða er þó vitaskuld Iðnaðarbankinn, vegna þess að þar er um félagseign ríkisins og einkaaðila að ræða. Þar hefur afskiptum ríkisins öllum verið stýrt í sömu stefnu og fram að þessu hefur verið ráðandi varðandi stjórn Búnaðarbankans. Mér finnst algerlega röng stefna að breyta þessu í það horf, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, sem sé það horf, að Alþ. kjósi bankaráðið hlutfallskosningu í einu lagi. Með því móti verða sáralítil áhrif landbúnaðarins sérstaklega á stjórn bankans. Þau verða tiltölulega mjög lítil og stórum mun minni en verið hefur. Það tel ég vera spor aftur á bak.

Það var reynt að bæta úr þessu í hv. Ed. með því að gera till. um, að Stéttarsamband bænda hefði rétt til að tilnefna einn mann af fimm í bankaráðið, en sú till. var felld. Hefði það þó verið í áttina að tengja bankann við bændastéttina þannig sérstaklega og bætt nokkuð úr, að tengslin við landbn. og landbrn. væru slitin. En ég býst við því, að þetta hafi kannske ekki þótt tiltækilegt að fallast á vegna þess, að það hefði komið í bága við fyrirætlanir núv. stjórnarflokka um að fá pólitískt yfirráð yfir bankanum einir handa sér. En það eru náttúrlega engin rök, því að það er engin nauðsyn, sem rekur til að afhenda endilega þessum tveimur stjórnarflokkum alveg yfirráð yfir bankanum.

Það hefði verið hægt að fara þessa millileið, sem þarna var stungið upp á, að kjósa fjóra á Alþingi til að tryggja, að fleiri sjónarmið kæmu til greina frá Alþ, en áður, en hafa síðan einn mann frá Stéttarsambandinu til að tengja bankann betur við bændastéttina. Það er slæmt til þess að vita, að á þetta skuli ekki hafa verið fallizt. Þá hefði líka því marki verið náð, að enginn einn flokkur hefði haft meiri hluta í bankanum.

Mér finnst, að það megi dálítið prófa hollustuna í þessu öllu saman einmitt á undirtektunum við svona till. Það hafði verið fundið því fyrirkomulagi, sem nú er, til foráttu, að þar gæti einn flokkur ráðið öllu, þótt þar væri um minnihlutaflokk að ræða. Ef það er raunverulega þetta, sem menn setja fyrir sig, en eru ekki með neina drauma um að fá óeðlileg völd sjálfir, þá ætti að vera hægt að fallast á þetta sem millileið í málinu, sem upp á var stungið af hálfu framsóknarmanna í Ed. Ég vil mjög beina því til þeirra, sem fyrir málinu ráða, að taka þetta til athugunar, þegar þar að kemur í þessari hv. d., hvort þeir geta ekki fallizt á þetta sjónarmið: fara þann meðalveg, sem brtt. frá hv. minni hl, fjhn. í Ed. gerði ráð fyrir.