30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki ástæða til margra orða. Það er ósköp svipað það, sem hv. 1. þm. Austf. (EystJ) sagði hér áðan, og hv. 2. þm. Vestf. (HermJ) í Ed. Auðheyrt er á báðum þessum samherjum, að hugur fylgir ekki máli, þegar þeir eru að tala um þetta mál. Auðheyrt er, að í hjarta sínu finnst þeim þessi breyt. eðlileg og sanngjörn, sú breyt., sem frv. fer fram á. Og það er jafnvel auðheyrt, að í hjarta sínu telja þeir bankanum betur borgið með því að hafa þessa breyt., enda er það augljóst mál, að það hlýtur að styrkja bankann bæði í nútíð og framtíð að koma þannig sterkari og breiðari stoðum undir hann en nú eru. Og það er alveg eðlilegt, að bankinn hafi takmarkað traust, enda þótt bankastjórinn sé í alla staði ágætur og geri vel, þegar hann fær að ráða, — það er eðlilegt, að bankinn hafi takmarkað traust, þar sem Framsfl, ræður honum að öllu leyti, og það er ekki til þess að sameina menn til átaka og aðstoðar í fjármálum bankans, sumt af því, sem fram hefur komið í bankaráðinu. Það er ekki til fyrirmyndar, og er hægt að minna á það seinna, ef æskilegt þykir.

Hv. 1. þm. Austf. sagði hér áðan, að hann hefði ekki trú á því, að núv. stjórnarflokkar mundu leysa fjármál landbúnaðarins, mundu koma lánasjóðum landbúnaðarins í það horf, að þeir gætu sinnt því hlutverki, sem þeim er ætlað. Það er kannske eðlilegt, að þessi hv. þm. tali hér digurt um þetta. Stjórn Búnaðarbankans hefur sent frá sér skýrslu um hag þessara sjóða, og það kemur í ljós, að þeir voru í rauninni gjaldþrota við síðustu áramót, hreint og beint gjaldþrota. Það kemur í ljós, að það voru ýmsir óreiðuvíxlar tilheyrandi þessum sjóðum, sem núverandi stjórn verður að taka að sér að greiða. Og þegar hv. 1. þm. Austf. talar um takmarkað traust á öðrum flokkum til þess að leysa þessi mál, þá er hollt fyrir hann að minnast þess, hvernig hann og hans flokkur hefur skilið við þessi mál. Menn geta farið upp í ræðustól og haldið ræður og haldið ýmsum fjarstæðum fram, en þegar staðreyndirnar tala eins ljóslega og hér er um að ræða, verður að ætlast til, að jafngreindur maður og hv. 1. þm. Austf. kunni sér eitthvert hóf í málflutningi og fullyrðingum.

Það er, eins og ég sagði, ekki ástæða til margra orða. En það kom óbeint fram hjá hv. þm., sem talaði hér áðan, eins og hv. 2. þm. Vestf. í Ed., að þeir vilja alls ekki telja Búnaðarbankann með aðalbönkum landsins. Hv. 2. þm. Vestf. talaði alltaf um tvo aðalbanka landsins. Búnaðarbankinn var ekki aðalbanki, einhver aukabanki. Þess vegna var ekki lögum um Búnaðarbankann breytt 1957, en það var talið alveg nauðsynlegt að breyta lögum um tvo aðalbankana, Landsbankann og Útvegsbankann, og það kom hreinlega fram í ræðu hv. 2. þm. Vestf., að það hafi verið nauðsynlegt vegna þess, að áhrif Sjálfstfl. voru of mikil í þessum bönkum. Og þá var sú stefna upp tekin að lögfesta ranglætið, að koma í veg fyrir það, að Sjálfstfl. hefði þá hlutdeild í bankaráðum þessara banka, sem honum bar, miðað við styrkleika flokksins á Alþingi. En það þótti réttlæti að láta Búnaðarbankann vera og breyta ekki lögum um hann, vegna þess að Framsfl. hafði meiri hluta með því fyrirkomulagi, sem var.

Svo segja þessir ágætu menn, að það sé hliðstætt með Búnaðarbankann og Iðnaðarbankann og hinn væntanlega Verzlunarbanka. Það sjá nú allir sjálfir, að hér er ekki um neinar hliðstæður að ræða. Annars vegar er ríkisbanki, Búnaðarbankinn, stór stofnun, margfalt stærri og margþættari en Iðnaðarbankinn og Verzlunarbankinn væntanlegi. Þeir hafa hvorugur ríkisábyrgð, og Verzlunarbankinn mun starfa eins og hver annar einkabanki. Iðnaðarbankinn er hlutafélag, sem bankaráðið er kosið af eins og í hverju öðru hlutafélagi. Hér er þess vegna ekki um neina hliðstæðu að ræða. Ef um hliðstæður ætti að ræða, þá eru það Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn. Útvegsbankinn var stofnaður sérstaklega fyrir útveginn, eins og Búnaðarbankinn fyrir bændur. Samt finnst hv. 1. þm. Austf. eðlilegt að kjósa bankaráð Útvegsbankans af sameinuðu þingi. Það hefur aldrei sézt hér í hv. Alþ. till. um það, að sjútvn. beggja d. kysu í bankaráð Útvegsbankans.

Þá koma hv. framsóknarmenn með tillögu um það, að Stéttarsamband bænda tilnefni einn mann í bankaráð Búnaðarbankans til þess, eins og þeir segja, að tengja bankann við bændastéttina. Ekki hefur sézt krafa um það frá útvegsmönnum, að Landssamband útvegsmanna tilnefni einn mann í bankaráð Útvegsbankans. En auðvitað væri það hliðstætt, og meira að segja hv. 1. þm. Austf., sem telur sig ekki síður fulltrúa útvegsmanna austur á fjörðum en bænda, hefur aldrei komið með till. um það. Ég held, að það sé ekki heldur ástæða til þess að samþykkja till. um það, að Stéttarsamband bænda tilnefni fulltrúa í bankaráð Búnaðarbankans, og það er ekki það, sem bændur spyrja um, hvernig bankaráðið sé kosið. Það er ekki það, sem þeir spyrja um. Þeir spyrja um það, hvernig bankanum er stjórnað og hvort hann hafi fjármagn til þess að lána. Það er það, sem þeir spyrja um. Og þegar hv. 1. þm. Austf. er að tala um, að bankinn sé tekinn úr tengslum við bændastéttina með því að hætta nú að kjósa bankaráðið af landbn., þá er það ekkert nema fjarstæða vegna þess, að þótt kosningin hafi farið fram með þessum hætti, að landbn. hafi að nafninu til kosið, voru það vitanlega þingflokkarnir, sem réðu því hverju sinni, hverjir voru kosnir í bankaráðið, en ekki aðeins þeir, sem sæti áttu í landbn. Og þannig verður það með hinni nýju skipan. Það verða þingflokkarnir, sem ákveða, hverjir verða kosnir í bankaráðið, og ég er ekki í nokkrum vafa um, að í bankaráði Búnaðarbankans munu eiga sæti eftirleiðis menn, sem eru tengdir landbúnaðinum, alveg eins og áður. En með því að bankaráðið sé kosið á þennan hátt, sem hér er lagt til, er sköpuð undirstaða og möguleiki til þess, að málum Búnaðarbankans verði sinnt á þann veg, að lánasjóðir landbúnaðarins hafi meiri möguleika eftirleiðis en áður til þess að uppfylla það starf, sem þeim er ætlað. Og það er sérstaklega þörf á því nú, að það verði vel tekið til hendinni hvað þetta snertir. Þegar það liggur fyrir, að lánasjóðirnir eru í rauninni gjaldþrota, þurfa þeir að fá mun meira fjármagn en nokkru sinni fyrr, og hin nýja stjórn Búnaðarbankans hefur þess vegna ærin verkefni að vinna og hún þarf að leita til Alþingis um aðstoð í þessu efni. Hún þarf að leita til Alþ., og ég fullyrði, að það eru meiri líkur til, að sú leit til Alþingis beri árangur, eftir að sú skipan er á komin, að bankaráðið verði kosið með lýðræðislegum hætti, að allir þingflokkar á Alþ. eiga fulltrúa í bankaráðinu og hafa þá um leið talsverðar skyldur við þessa stofnun.

En um leið og við viðurkennum það, að bankinn var upphaflega stofnaður sem bændabanki og er það, þá er það ýmislegt fleira, sem er í starfsemi hans, heldur en það að þjóna bændastéttinni. Búnaðarbankinn hefur nú stóra sparifjárdeild og útlán í víxlum og öðrum lánsformum ekki aðeins til bænda, og víst er um það, og ég vil segja, að því miður munu bændur eiga ósköp lítinn hluta af því fé, sem er í sparisjóðsdeild Búnaðaróankans. Ég hygg, að það sé allt annað fólk. Og um leið og bankastjórn Búnaðarbankans stjórnar lánasjóðum landbúnaðarins, stjórnar hún líka þessari sparisjóðsdeild og útlánadeild þaðan, og það er þess vegna m.a., sem eðlilegt er og sjálfsagt, að þessi banki sé rekinn á lýðræðislegum grundvelli eins og hinir ríkisbankarnir og að settar verði þær stoðir undir starfsemi hans, sem tiltækilegar eru, því að eftir viðskilnað hv. 1. þm. Austf. við þessa stofnun er brýn þörf á, að svo megi verða.