30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2631 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Austf. (EystJ) endaði ræðu sína með því að segja, að það væri í hæsta máta óviðeigandi af mér að vera að tala um slæman fjárhag fjárfestingarsjóða landbúnaðarins, og spyr, hvort ég sé að átelja það, að tekin hafi verið erlend lán á undanförnum árum og lánuð út með lágum vöxtum. Það hef ég ekki gert, en ég átel það, þegar einn maður eða einn flokkur fer fyrst að gera sér grein fyrir því, hvað hefði þurft að gera til þess að tryggja hag þessara sjóða, eftir að hann er kominn úr stjórn. Það er vitað mál, að með aðgerðunum 1958 er grafið undan þessum sjóðum. Þá er lagt á 55% yfirfærslugjald, og það er þess vegna, sem stjórn Búnaðarbankans segir við síðustu áramót í skýrslu, sem hún gefur frá sér, að sjóðirnir verði gjaldþrota með þessari stefnu, ef ekkert verði aðhafzt. Nú hefði mátt ætla, að þegar þeir menn fóru með völd, sem telja sig sérstaka málsvara bænda, hefðu þeir, um leið og þeir gerðu þessar ráðstafanir, reynt að tryggja, að sjóðirnir gætu starfað áfram og ekki yrði alveg undan þeim grafið.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði hér áðan, að aðgerðirnar í vetur gera náttúrlega ekki heldur neinar bætur í þessu efni, og það er þess vegna, sem ég segi það, að það er meiri þörf nú en nokkru sinni fyrr að fá breiðan grundvöll undir bankann og fá sameinaða krafta til þess að rétta hlut þessara sjóða. Það er það, sem þarf að gera, en hefur ekki verið gert, og þeir, sem gerðu fyrstu ráðstafanir til þess að grafa undan þessum sjóðum, gerðu engar ráðstafanir í leiðinni til þess að tryggja, að þessir sjóðir gætu starfað í framtíðinni. Það hefði verið léttara og það hefði verið hægara, ef það hefði t.d. verið tryggt á fjárl. 1958, að borga þann vaxtamismun og þann halla, sem sjóðirnir urðu fyrir, heldur en að koma á eftir, þegar þessi halli skiptir orðið milljónatugum, og gera þá kröfu til þeirrar stjórnar, sem tekur við. Ef hv. 1. þm. Austf. hefði ekki talað svo digurbarkalega hér áðan, eins og sá sem valdið hafði og sá eini, sem vel vildi gera fyrir íslenzkan landbúnað, hefði ég ekki minnzt á þessi mál í þessu tilfelli, enda þótt ástæða sé til þess að vekja athygli á því hverju sinni, m.a. vegna þess, að á næstu mánuðum þarf að leita úrræða til þess að rétta þetta við. Það er ekki aðeins halli sjóðanna vegna gengismismunar og yfirfærslugjalds 1958, sem gerir það að verkum, að hagur þeirra er slæmur í dag. Það eru einnig lán, sem hafa verið tekin í íslenzkum bönkum, bráðabirgðalán, sem vinstri stjórnin tók, en stóð ekki skil á og lætur eftir sig sem slæman arf til núverandi stjórnar til þess að ráða fram úr.

Það eru örfá orð fleiri, sem ég þarf að taka fram vegna fullyrðinga hv. 1. þm. Austf. Hann fór að tala um það, hvernig Framsfl. hefði búið að landbúnaðinum. Hann talaði um árin 1944 og 1946 og rakti í stuttu máli þróunarsögu landbúnaðarins frá þeim tíma.

Það væri nú rétt að minna á það, að Framsfl. fór óslitið með landbúnaðarmálin frá 1927 til 1942, eða réttara sagt 1944, og þegar litið er yfir útlán til landbúnaðarins á þessum tíma, t.d. ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs, er ekki um stórar upphæðir að ræða. Ég man, að eitt árið, — ég held það hafi verið 1942, — þá var lánað úr ræktunarsjóði, að mig minnir, 75 þús. kr. og úr byggingarsjóði eitthvað svipuð upphæð eða aðeins hærri. Ég skal ekki ábyrgjast þessar tölur alveg nákvæmlega, en það er mjög nærri þessu. En á árunum 1944–46 er samin sú löggjöf landbúnaðarins, sem byggt hefur verið á síðan, sú löggjöf, sem hefur gert það mögulegt, að þróun landbúnaðarins varð sú, sem raun ber vitni. Það er á þessum árum, þegar Framsfl. var ekki í stjórn, sem lög um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum eru sett, og þessi lög gerðu ráð fyrir því að verja úr ríkissjóði 50 millj. kr. til þess að byggja upp og rækta landið, og þetta voru miklir peningar á þeim tímum. Þetta var fyrsta stóra sporið, sem stigið var í uppbyggingu landbúnaðarins. Þessi lög tóku gildi, að mig minnir, 1947. Það var á því ári, sem ríkissjóður var skuldbundinn til þess að leggja fram fé samkvæmt þessum lögum. Þá voru framsóknarmenn komnir í stjórn og þökkuðu sér það, að hækkun til landbúnaðarins var gerð á fjárl. þessa árs vegna laga sjálfstæðismanna, sem þeir höfðu beitt sér fyrir á árinu 1945, á meðan þeir voru í stjórn.

Er ekki sama að segja um lög um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir? Er það ekki staðfest í frv., sem liggur fyrir Alþ. nú og reyndar hefur fengið afgreiðslu, að með þeim lögum var gert mögulegt að hefja ræktun í stórum stíl? Með þeim lögum var gert mögulegt að kaupa skurðgröfur og aðrar stórar jarðræktarvélar til landsins. Og það er á árinu 1947, sem þessi lög koma til framkvæmda. Það er vegna þessara laga, sem sett voru í stjórnartíð sjálfstæðismanna, að taka varð tillit til þeirra á fjárl. árið 1947 og framlög til landbúnaðar hækkuðu þess vegna.

Er ekki sama máli að gegna um raforkulögin? Voru þau ekki sett á árinu 1946 og framlag á fjárlögum þeirra vegna fyrst á árinu 1947? Ég hef oft hlustað á framsóknarmenn tala um, að á því ári hafi verið veitt mikið fé til landbúnaðarins og æ síðan, en það er sjálfsagt að gera sér grein fyrir því, hvers vegna þetta var. Það var vegna þess, að þá var komin löggjöf, sem tryggði, að það varð að veita fé til þessara framkvæmda, og síðan hefur verið byggt á þessum lögum í framkvæmdum og í uppbyggingu landbúnaðarins.

Ég veit, að hv. 1. þm. Austf, veit þetta allt saman, enda þótt hann talaði hér áðan eins og hann gerði. Ég veit, að hann veit þetta; maður, sem hefur verið hér á Alþ. ætíð síðan, og það er vegna þessarar löggjafar, að hún var til, að unnt var að taka þau spor, sem stigin hafa verið til uppbyggingar í ræktun og byggingum í sveitum.

Svo er það aðeins fátt, sem ástæða er til að segja í sambandi við frv. um breyt. á lögum um Búnaðarbankann. Hv. þm. talaði um, að sjálfstæðismenn stjórnuðu Iðnaðarbankanum og þeir mundu sennilega stjórna Verzlunarbankanum. Þetta eru hlutafélög, þetta eru einkabankar, og ef sjálfstæðismenn hafa þar meiri hluta, þá stjórna þeir, annars ekki. En Búnaðarbankinn er ríkisbanki, og þá er það óeðlilegt, að framsóknarmenn, sem eru í miklum minni hluta hér á Alþ. og með þjóðinni, hafi meiri hluta þar. Og það þýðir ekki fyrir þennan hv. þm. að vera að skjóta hér inn í sýndartill. um Stéttarsambandið og segja, að menn geti sýnt hug sinn til bændanna með því, hvort þeir vilji styðja þá till. eða ekki. Við vitum alveg, hvers vegna þessi till. er flutt. Við vitum það, að framsóknarmenn óska þess, að Stéttarsambandið fái þarna mann, vegna þess, að ef Stéttarsambandið ætti að kjósa í dag, mundu framsóknarmenn sennilega geta ráðið því. Af því að það vill svo til, að þeir hafa meiri hluta í stjórninni í dag, mundu þeir sennilega geta ráðið því, hver yrði kosinn, og þannig yrði framsóknarmönnum tryggt, að þeir hefðu tvo menn í bankaráðinu: Það er þetta, sem vakir fyrir framsóknarmönnum, þegar þeir eru að tala um, að Stéttarsambandið tilnefni þarna mann, en ekki sérstaklega umhyggja fyrir bændum, vegna þess að það er engin ástæða til þess að ætla, að þótt Alþ. kjósi bankaráð Búnaðarbankans, velji það ekki menn í bankaráðið, sem mundu vilja styðja hag bænda.

Ég hygg, að þegar menn skyggnast inn í þessi mál, geri þeir sér ljóst, einmitt vegna þess, hvernig komið er fyrir lánasjóðum landbúnaðarins, að það er meiri nauðsyn á því en nokkru sinni áður, að stjórn Búnaðarbankans verði þannig skipuð, að sem flestir aðilar komi til, þegar um það verður rætt að laga fjármál þessara sjóða, því að það verður að gera. Það er vitað mál, að verðlag á byggingarefni og ræktunarkostnaður hefur hækkað ákaflega mikið. Fjárþörf sjóðanna fer þess vegna vaxandi frá því, sem verið hefur, auk þess sem þarf að greiða þau töp, sem þeir hafa orðið fyrir, með einhverjum hætti, og það er þetta, sem spurt verður um: Hvernig tekst að veita bændum þá aðstoð með lánum á næstu árum? Hvernig tekst það? Það er það, sem bændur spyrja um, en ekki hvort þeir fái að tilnefna einn mann af 5 í bankaráð bankans. — Ég held, að það sé ekki ástæða til að segja öllu fleira.