30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2670 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

164. mál, efnahagsmál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Framkoma þessa frv. gæti gefið tilefni til þess að rifja upp, hvernig ástatt er nú þegar um efnahagsmálaáætlun ríkisstj. og framkvæmdir. En með því að nokkuð hefur verið rætt um það undanfarið í öðru sambandi og fyrir dyrum standa almennar umr. um þau efni m.a., þá mun ég ekki gera það nú við þessa 3, umr. málsins, enda þótt fullt tilefni væri til þess. Þess í stað mun ég snúa mér beint að því að tala um brtt. á þskj. 564, sem ég ásamt 2 öðrum hv. þm. hef leyft mér að bera fram.

Brtt. er í stuttu máli sagt um að fella útflutningsgjaldið sérstaka á sjávarafurðir alveg niður og að það verði til að hækka verðið á fiski og öðrum sjávarafurðum til framleiðendanna frá því, sem það er nú.

Ég skal færa fyrir þessu rök í örstuttu máli. Þegar efnahagsáætlunin var gefin út sem grg. við efnahagsmálafrv., var sagt berum orðum, að það væri óhætt að leggja á þetta 5% útflutningsgjald til að greiða hallann á útflutningssjóðnum, því að hagur sjávarútvegsins yrði þannig eftir breytinguna, að samt sem áður mundi verða hægt að greiða svo hátt verð fyrir sjávarafurðir íslenzkar, að hagur sjávarútvegsins yrði fullkomlega sambærilegur við það, sem hann var fyrir gengisbreyt. og áður en allar þessar nýju ráðstafanir voru gerðar.

Nú hefur komið í ljós, svo að ekki verður um deilt, að þetta stenzt ekki. Verð það, sem útveginum er ætlað fyrir afurðir, bæði fisk og það sem vitað er um síldarafurðir, er fyrir neðan það, sem það þarf að vera, til þess að útvegurinn búi við sömu kjör og áður. Það er þess vegna ekki hægt að taka þetta útflutningsgjald af sjávarútveginum á þann hátt, sem hæstv. ríkisstj. barði fram í vetur. Áætlanirnar hafa alls ekki staðizt að þessu leyti, og það liggur fyrir, að nú er ætlað að greiða útgerðinni talsvert lægra verð fyrir fiskinn frá s.l. vetrarvertíð en þarf að vera, til þess að hún standi jafnvel að vígi og áður. Hér hefur því allt brugðizt, sem átti að standa og útgerðin treysti á.

Þá liggur það einnig fyrir, að síldarafurðir hafa lækkað ákaflega mikið í verði — bræðslusíldarafurðir á erlendum markaði — og búið er að ákveða verð á bræðslusíld 110 kr., sem er langt neðan við það, sem var í fyrra, og er fullkomið vandræðamál fyrir útveginn. Í fyrra voru greiddar 120 kr. fyrir málið, og þar að auki voru greidd vátryggingariðgjöld fyrir skipin, sem gengu til síldveiðanna. Þannig er því stórkostleg lækkun á bræðslusíldarafurðum, á sama tíma sem útgerðarkostnaður hefur hækkað óbærilega, eins og kunnugt er.

Mér sýnist ekki koma til nokkurra mála, að það verði innheimt þetta gjald af sjávarútveginum sérstaklega, þegar svo er orðið ástatt sem nú liggur fyrir og allt er hrunið, sem yfirlýsingar voru gefnar um s.l. vetur. Þess vegna legg ég til og félagar mínir, tveir aðrir hv. þm., að þetta útflutningsgjald verði, eins og nú er komið, fellt niður og það notað til þess að þoka í hækkunarátt verðlaginu á sjávarafurðunum, og hrekkur það þó skammt varðandi síldarafurðirnar t.d. til að koma því verði í það horf, sem það þyrfti að vera. Samt sem áður er það þó spor í áttina að hætta við að leggja þessar sérstöku álögur á.

Satt að segja var það alltaf nokkuð einkennileg uppáfinning að ætla sér að leggja sérstakar álögur á sjávarútveginn til að greiða sjálfum sér uppbætur, eins og gert var með þessari till, um 5% sérstakt útflutningsgjald. Þar var gert ráð fyrir því, að sjávarútvegurinn borgaði sérstaklega þann halla eða þær uppbætur, sem var ekki búið að afla fjár til að greiða. Þetta var alltaf nokkuð einkennileg áætlun. En vegna þess að það var alveg fullyrt, þegar efnahagslöggjöfin var á ferðinni, að allt væri svo ríflega mælt, að þó að þetta væri gert, mundi útvegurinn geta fengið algerlega sambærileg kjör við það, sem áður var, lagði ég ekki til þá, að þetta ákvæði yrði fellt niður úr efnahagsmálafrv. En eins og nú er komið málum, hlýtur það að teljast sanngjarnt að fella þetta niður.

Þá kemur spurningin: Hvernig á þá að fara með hallann á útflutningssjóðnum, ef þetta gjald verður fellt niður? Ég vil benda á í því sambandi, að þegar 5% gjaldið var lögleitt í vetur, sögðu forráðamenn efnahagsmálsins, að hallinn á útflutningssjóðnum væri a.m.k. 120 millj. kr. Nú hefur verið lagt fram í hv. fjhn. þessarar d. skjal, sem sýnir, að þessi halli verður aðeins 65 millj. kr. eða helmingi minni en gert var ráð fyrir í vetur.

Þegar hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir því að leggja fyrir þetta frv. um að leggja niður hálft útflutningssjóðsgjaldið, 21/2% , þá var því lýst yfir, að stj. sýndist það vera nægilegt að greiða halla útflutningssjóðs á 2 árum. Og vandamálið, sem við er að fást, er þá ekki orðið stærra en það að greiða 65 millj. kr. niður á 2 árum. Býst ég við því, að það hafi þá verið búið að semja við bankana um að greiða þannig fyrir, að það væri mögulegt.

Það er skoðun mín og þeirra, sem flytja þessa till., að það sé fullkomlega óhætt, að ríkissjóður taki að sér að greiða þennan halla á 2 árum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hvílíkum óhemju álögum hefur verið mokað á landsmenn undanfarið til ríkissjóðs, þannig að það nemur a.m.k. 450 millj, yfir heilt ár, miðað við mjög lága innflutningsáætlun. Og allar þær áætlanir, sem þessu hafa fylgt, hafa verið miðaðar við svo lágan innflutning, að þó að ríkisstj. tækist að þrengja kosti manna mjög, þá eru ekki líkur til, að henni takist að þrengja kosti manna svo mjög til lengdar, að þær innflutningsáætlanir fái staðizt. Það hlýtur því að flæða mjög fé inn í ríkiskerfið, ef ekki verður allt drepið í enn stórfelldari dróma en nokkurn órar enn fyrir, og er þó ætlunin að þrengja mikið að. Það er því alveg óhætt að gera ráð fyrir því, að þessi halli verði greiddur af ríkinu á tveimur árum af þeim tekjum, sem búið er að afla.

Ég vil í þessu sambandi aðeins benda á eitt einasta atriði, sem upplýst var mjög rækilega í sambandi við fjárlagameðferðina, og það er, að 4 tekjuliðir á fjárlögunum eru áætlaðir núna um 250 millj. kr. lægri en þeir hefðu orðið, miðað við innflutninginn 1958, fyrir utan aðra liði, sem áætlaðir eru í sömu stefnu. Og eins og ég segi, þó að ætlunin sé að kreppa hér að öllu mjög og búa til kreppu, sem kunnugt er og er margyfirlýst, þá mun það samt vera þannig, að þetta er mjög varlega áætlað og þarna verða fjárráð til þess að greiða þennan halla.

Í samræmi við þetta fluttu framsóknarmenn í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna till. um að ráðstafa um 90 millj. til ýmissa nýtilegra framkvæmda umfram það, sem stjórnarliðið vildi samþykkja. Og það var einmitt byggt á þessari hugsun, að þingíð ráðstafaði meira af því fé, sem samþykkt var að innheimta, en gert var með fjárlögunum. Þessar till. voru sem sagt allar felldar, og sýnast allar líkur benda til þess, að það sé óhætt að treysta því, að ríkissjóði verði sízt um megn að sjá um þennan halla á útflutningssjóði á tveimur árum. Og því er óhætt að gera það til stuðnings sjávarútveginum, sem þessi tillaga ráðgerir.