31.05.1960
Efri deild: 88. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2676 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

164. mál, efnahagsmál

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þegar ríkisstj. undirbjó frumvörp sín um efnahagsmál á s.l. hausti eða um áramótin raunar, þótti ekki verða hjá því komizt að leggja skatt á útfluttar afurðir landsmanna til þess með þeim skatti að geriða þær skuldir, sem sýnt var að mundu hvíla á útflutningssjóði, þegar hann hætti starfsemi sinni. Það var í öndverðu nokkur ágreiningur um, hvort hafa skyldi skattinn hærri eða lægri og stæði hann þá að sama skapi skemur eða lengur. Endirinn varð sá, að rétt þótti að hafa þennan toll 5% og skyldi hann þá standa þar til lokið væri greiðslum þeirra skulda, sem hvíldu á útflutningssjóði. En útgerðarmönnum var þegar í stað heitið, að þegar þeim greiðslum væri lokið, yrði skatturinn afnuminn. Nú kom það í ljós, eins og menn vita, áður en útgerðarmenn gengu frá samningum sínum við frystihús og aðra fiskkaupendur, að menn óskuðu eftir því, að þessi skattur yrði lækkaður niður í helming, en látinn standa að sama skapi lengur. Ríkisstj. var ljúft að verða við þeim óskum og hét að bera fram frv. um það á hv. Alþ., og það er það frv., sem hér er til umr. Það hefur verið samþ. í hv. Nd. og ég vænti, að það sæti ekki neinni mótspyrnu hér heldur, þó að ég geri ráð fyrir, að vel megi svo fara, að fram komi einhverjar brtt. við það. Ég hygg, að efni málsins sé öllum svo kunnugt, að ég þurfi ekki að orðlengja um það, og leyfi mér, herra forseti, að mælast til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.