01.06.1960
Efri deild: 90. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2677 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

164. mál, efnahagsmál

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og nál. meiri hl. fjhn. á þskj. 582 ber með sér, hefur afgreiðsla málsins í n. orðið sú, að við þrír, sem að nál. stöndum, mælum með því, að það verði samþ. óbreytt. Minni hl. n., þeir hv. 1. og 5. þm. Norðurl. e., hafa hins vegar tjáð sig þessu frv. ekki andvíga út af fyrir sig, en hafa óbundnar hendur að öðru leyti með flutning frekari brtt.

Efni frv. er í stuttu máli það, að útflutningsgjald það, sem ákveðið var með l. um efnahagsmál, lækki um helming, eða úr 5% niður í 21/2% . Tilgangurinn með því að leggja þennan útflutningsskatt á var sá að afla á þennan hátt fjár til þess að greiða hluta af skuldbindingum útflutningssjóðs frá fyrri árum. Gert er þá ráð fyrir því, að ef þessi lækkun á útflutningsskattinum verði framkvæmd, þá muni útflutningsskatturinn koma til að standa þeim mun lengur, svo að sú regla, sem gert var ráð fyrir í lögunum, að fjár til að greiða umræddar skuldbindingar yrði aflað á þennan hátt, stendur óbreytt. Það mun hafa verið eindregin ósk útvegsmanna, að þessi breyt. yrði á gerð, og hefur hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar talið eðlilegt, að við þeim tilmælum yrði orðið, þar sem það skv. áður sögðu breytir ekki öðru en því, að útflutningsskatturinn lækkar að vísu, en kemur til með að standa þeim mun lengri tíma.