01.06.1960
Efri deild: 90. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2677 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

164. mál, efnahagsmál

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Afstaða mín í fjhn. í þessu máli var sú, sem hv. frsm. meiri hl., form. n., sagði frá hér áðan. Og af því að hún var á þá leið, sá ég ekki ástæðu til að skrifa neitt nál. Ég impraði á því í n., hvort nm. mundu vilja ljá máls á því að styðja brtt. við frv., og var ekki undir það tekið. Og nú hef ég leyft mér að leggja fram brtt. á þskj. 589, sem hér liggja fyrir. Þetta eru sams konar brtt. og fluttar voru af fjhn.-manni Nd., Skúla Guðmundssyni, og þess vegna er líklegt, að nm. fjhn. og einnig aðrir hv. þdm. séu þeim ekki alveg ókunnugir. Með tilliti til þess og einnig með tilliti til þess, að nú er orðinn svo naumur tími til fundarhalda, þar sem þinglok eru ákveðin á föstudag, vil ég hafa mál mitt sem stytzt hér og tel mig geta gert það.

Brtt, eru lagðar fram af mér hér í trausti þess, að hugsazt gæti, þar sem nú er farið að leiðrétta efnahagslöggjöfina með frv. því, sem fyrir liggur, að fleira geti komið til mála að fáanlegt sé að nú verði leiðrétt heldur en áður var. Það hefur komið í ljós, að ýmis ákvæði efnahagsmálafrv. mælast illa fyrir hjá þjóðinni og hafa áhrif, sem geta ekki talizt æskileg fyrir atvinnulíf þjóðarinnar.

1. till. er um það, að eftir 1. gr. frv. komi 4 nýjar greinar, í a-, b-, c- og d-liðum hér á þskj.

Fyrst kæmi 2. gr., sem yrði breyt. á 3. málsgr. 8. gr. laganna, þannig, að við hana bætist nýr liður: „Ríkisstj. getur ákveðið, að útflutningssjóður eða ríkissjóður greiði sérstakar bætur á smáfisk, á tilteknar fisktegundir og fisk veiddan á vissum tímum árs. Bætur þessar skal miða við ákveðna upphæð á hvert kg af fiski, sem vinnslustöð tekur á móti.“ Þetta, sem felst þarna á bak við, er nú nokkuð rætt mál hér á Alþingi í vetur. Þá var að vísu ekki léð máls á því að taka upp breytingar á efnahagslöggjöfinni í þessa átt, en hins vegar minnist ég þess, að um það var talað í hv. fjhn. þessarar d., að ríkisstj. mundi vilja athuga þetta efni, þó að það væri ekki afgreitt í sambandi við efnahagslöggjöfina þá. Nú er hér till. um, að ríkisstj. fái heimild til þess að greiða úr útflutningssjóði eða ríkissjóði, ef hún telur það heppilegra, bætur á þennan fisk, sem veiddur er meðfram ströndinni víðs vegar frá heimahöfnum, og hefur ákaflega mikla þýðingu fyrir þjóðina, að þau mið, sem hann veiðist á, séu hagnýtt, enda fiskurinn ágæt vara, þó að hann sé nokkuð dýr í vinnslu og vinnslustöðvar telji sig þess vegna ekki geta gefið fyrir hann sama verð og stórþorskinn, sem veiðist meira annars staðar, á sérstökum miðum. Ég vil vænta þess, að þessari till. verði ekki illa tekið, og það því frekar, sem hér í þessari hv. d. eiga sæti menn, margir hverjir, sem eru fulltrúar einmitt fyrir fólkið á ströndinni, sem lifir á því að afla þessa fisks.

Þá er b-liðurinn um það, að niður falli 31. gr. laganna, c-liðurinn um, að 32. gr. laganna falli niður, d-liðurinn um, að 33. gr. laganna breytist. Þessar greinar, sem eru eiginlega IV. kafli efnahagslöggjafarinnar allur, eru sá kafli, sem mikið hefur verið deilt um og er settur inn í þessa löggjöf til breyt. á annarri löggjöf.

Ég vil vænta þess, að síðan þessi ákvæði voru sett, hafi þingmenn orðið þess varir, að þessi lagasetning, sem felst í umræddum kafla, kemur mjög illa við þjóðina, mælist illa fyrir og getur orðið til þess að koma í veg fyrir það, að almenningur í landinu geti risið undir þeim erfiðleikum, sem honum eru skapaðir með slíkri lagasetningu og framkvæmd hennar. Þarna er um að ræða vextina og heimildina til að hækka þá, sem nú hefur verið notuð, og enn fremur er hér um að ræða, að heimild er til þess að breyta lánakjörum að fleira leyti, sem verður til þess að skapa kreppu. Þá eru hér ákvæði um það, að taka megi fé af innlánsdeildum kaupfélaga og binda það, enn fremur af Söfnunarsjóði Íslands. Hér er einnig vísað til ákvæða í lögum frá 1957, sem nú hafa verið tekin til framkvæmda, þ.e.a.s. að því er snertir það að taka hluta af aukningu sparifjár, sem kemur fram í sparisjóðum landsins. 5. gr. er miðuð við það, að fellt sé niður úr lögunum frá 1957 ákvæðið um, að heimilt sé að taka af innlánsfé sparisjóða og flytja það í ríkisbankann.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þetta hér á þessu stigi núna, vegna þess að málin hafa mikið verið rædd, svo mikið rædd, að það ættu að hafa orðið hughvörf hjá þeim, sem áður settu þessi ákvæði í efnahagsmálalöggjöfina.

Svo er 2. till. Hún er við 2. gr., sem verður þá 6. gr. þegar búið er að samþykkja hinar till. Við hana bætist: Um leið koma í gildi lög nr. 75/1952, um breyting á lögum nr. 73/1933, um bann við okri, dráttarvexti o.fl.“ Þegar búið er að fella burt IV. kaflann, sem sprengdi okurlögin, er sjálfsagt, að þau komi aftur í gildi, og við það miðast þessi till.

Ég vona, að hv. þd. fallist á að samþykkja þessar till. og leiðrétta þannig að mjög verulegu leyti efnahagsmálalöggjöfina nýju, sem, eins og ég sagði áðan, er byrjað að leiðrétta með því frv., sem stjórnin sjálf hefur flutt og hér liggur fyrir.