01.04.1960
Neðri deild: 60. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2713 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

112. mál, útsvör

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt að víkja nokkrum orðum fyrst að meðferð þessa máls hér í þinginu. Meðferðin hefst með því, að það er kallaður saman í gærkvöld skyndifundur í Sþ., eins og það liggi lífið á, og dagskrá þess fundar eða tilgangur þess fundar er þó raunverulega ekki annar en sá að geta komið þessum málum á dagskrá næsta dag, og þær fregnir ganga, að það sé meiningin að reyna að hespa þessu máli ásamt frv. um breyt. á tekjuskattinum í gegnum þingið í næstu viku eða fyrir páska. Ég verð að segja, að mér finnst þessi áætlun vera algerlega fjarri réttu lagi. Þetta frv. og eins frv, um breyt. á tekjuskattslögunum fjalla um mjög mikilvæg málefni, og það nær engri átt að ætlast til þess, að á þingi, sem mun standa eina fimm eða sex mánuði, sé slíkum stórmálum eins og þessum hespað í gegn á einni eða einni og hálfri viku. Það sést fullkomlega á því, að málin fá ekki þá athugun sem skyldi á þinginu, ef slíkur hraði er hafður við meðferð þeirra þar, og þó sérstaklega þegar um jafnflókin og vandasöm mál er að ræða eins og þau, sem hér liggja fyrir. Þess vegna vil ég mótmæla þeim vinnuaðferðum, sem hér virðist eiga að hafa í frammi, að reyna að drífa slík mál eins og þessi gegnum þingið á jafnskömmum tíma, og vil skora á ríkisstj. að reyna að breyta áætlun sinni frá því, sem hún virðist vera nú um þetta efni, þannig að alþm. hafi nægan tíma til þess að íhuga þessi mál og gera þær brtt. við þau, sem þeir telja nauðsynlegar, í samráði við ýmsa aðila, sem eðlilegt er að séu spurðir ráða um þessi mál og fái að fjalla um þau, áður en þau eru endanlega afgreidd.

Mér finnst þá rétt að víkja að því, sem ég tel vera heildarstefnuna eða meginstefnuna í þessu frv. og í því tekjuskattsfrv., sem lagt var samtímis fyrir þingið, það atriði, sem setji meginsvipinn á bæði þessi mál. Og þetta atriði er að mínum dómi, að það er heildarstefnan í þessum tveimur frumvörpum, að það er stefnt að því að auka stéttamuninn í þjóðfélaginu. Það er stefnt að því að auka stórkostlega stéttamuninn í þjóðfélaginu. Það er stefnt að því að gera stórar stéttir manna fátækari en þær hafa áður verið, þegar, efnahagsráðstafanirnar svokölluðu eru teknar með í heild, annars vegar, en bæta aðstöðu þeirra efnameiri í þjóðfélaginu frá því, sem verið hefur.

Þetta sést mjög ljóslega, ef gerðar eru nokkrar athuganir á þessu, og skal ég aðeins nefna tvö dæmi þessu til sönnunar. Ef maður tekur skattgreiðanda, sem hefur 4 manna fjölskyldu, konu og tvö börn, og hefur um 60 þús. kr. árstekjur, þá mun láta nærri, að sú tekjuskattslækkun, sem hann fær, sé um 1200 kr. Samkv. frv. um útsvarslögin, ef tekið er tillit til þess frádráttar, sem felst í 3. gr., þá má gera ráð fyrir og reikna með því, að lækkun á útsvari hjá þessum skattgreiðanda verði einnig um 1200 kr., þannig að samanlagt hagnast skattgreiðandi, sem hefur 60 þús. kr. árslaun og hefur fyrir konu og tveimur börnum að sjá, um 2400 kr. á þessum tveimur lækkunarfrv., lækkuninni á tekjuskattinum og lækkuninni á útsvörunum, sem ráðgerð er í því frv., sem hér liggur fyrir, og ég skal taka fram, að ég miða þá við skattstigann í Reykjavík. Ef aftur á móti er athugað, hver lækkunin verður hjá skattgreiðanda, sem hefur fyrir sömu fjölskyldu að sjá, en hefur 160 þús. kr. hreinar tekjur, þá lítur dæmið þannig út, að tekjuskattur hans lækkar um 16500 kr. og útsvar hans lækkar einnig um 10 þús. kr., svo að samanlagt hagnast hann á þessum tveim frv., ef þau verða að lögum, um 26500 kr. M.ö.o.: maðurinn, sem hefur ekki nema 60 þús. kr. í árslaun, hagnast um 2400 kr., maðurinn, sem hefur 160 þús. kr. í árslaun, hagnast um 26500 kr. eða rösklega tíu sinnum meira, og það sjá allir, hver niðurstaðan af þessu verður. Sú lækkun, sem maðurinn með 60 þús. kr. árstekjur fær, nægir að sjálfsögðu engan veginn til að mæta þeirri auknu dýrtíð, sem leiðir af hinum svokölluðu efnahagsráðstöfunum ríkisstj., og hlutur hans kemur þess vegna til með að verða miklu verri eftir en áður, þrátt fyrir þessar lækkanir. Aftur á móti eru miklar líkur til þess, að hátekjumaðurinn, sem hefur 160 þús. kr. árslaun og fær hér lækkun, sem nemur 26 þús. kr., fái sinn hlut nokkurn veginn bættan, og ef hann hefur enn þá hærri tekjur, þá verður lækkun á útsvarinu og skattinum, sem hann fær, enn þá meiri, og þá getur vel farið svo, að hann bókstaflega græði á þeim breytingum, sem hér er verið að gera.

Þetta sýnir ljóslega, hver er meginstefnan hjá hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálunum. Meginstefnan er sú, bæði með þessum og öðrum hætti, að stefna að því að gera þá fátæku fátækari, en þá ríku ríkari, stefna að því að auka stórkostlega stéttamuninn í landinu hvað snertir tekju- og eignaskiptinguna, stefna að því að koma í veg fyrir það, að flestir einstaklingar í landinu geti orðið það sem kalla má sæmilega bjargálna, gera þá fátæka, en stuðla aftur á móti að því, að þeir, sem hafa nú hæstar tekjur og eru líklegir til þess að hafa þær áfram, hafi enn betri aðstöðu en þeir hafa nú og geti efnazt meira en þeir hafa gert að undanförnu.

Ég vil í þessu sambandi rifja upp atriði úr ræðu, sem hv. 6. landsk. þm. (BK) hélt nýlega á skemmtifundi hjá sjálfstæðismönnum hér í bænum. Hann ræddi þar um efnahagsráðstafanirnar, sem þá var í ráði að gera, og sagði eitthvað á þá leið, að þessar ráðstafanir væru líklegar til þess að farnast vel, ef valdhafarnir fylgdu ráði, sem séra Arnljótur Ólafsson hefði einu sinni gefið í Möðruvallaskóla, en þar hafði þá risið upp deila í matarfélagi skólapilta vegna þess, hve fæðið þótti lélegt, og séra Arnljótur gaf þá það ráð, sem farið var eftir og varð til þess að leysa deiluna, að einn af kennurunum skyldi jafnan borða með nemendum, og eftir það gekk þetta sæmilega til í Möðruvallaskóla. Hæstv. 6. landsk. þm. taldi, að valdhafarnir ættu að fara eftir þessu ráði, sem þýddi þá raunverulega það, að þeir ættu að setjast við sama borð og almenningur. En mér sýnist á því, sem ég hef hér rakið, að hæstv. ráðherrar fylgi illa þessu ráði hv. 6. landsk, þm., því að því fer fjarri, að þeir ætli í þessum efnum að setjast við sama borð og almenningur, því að meðan þeir telja það nægilegt fyrir mann, sem hefur 60 þús. kr. árstekjur, að fá tekjuskatts- og útsvarslækkun á móti þeirri óðaverðbólgu, sem þeir eru að stefna að, lækkun, sem nemur samtals um 2400 kr., þá ætla þeir sjálfum sér lækkun, sem er sennilega ekki undir 40 þús. kr. Ráðherrarnir ætla sér til uppbóta gegn dýrtiðinni um 40 þús. kr. eða meir, en almenningi eða mönnum, sem hafa t.d. sömu laun og Dagsbrúnarmenn og Iðjuverkamenn, ætla þeir ekki nema 2400 kr. Og þeir halda, að þetta geti orðið til þess að sætta almenning við þær ráðstafanir, sem þeir eru að gera á öðrum sviðum í efnahagsmálunum og eru nú að steypa óðaverðbólgu yfir þjóðina.

Þessi löggjöf, sem hæstv. ríkisstj. er að setja, er nær eingöngu miðuð við þrengstu hagsmuni ráðherranna, miðuð við það, að þessar ráðstafanir verði ekki til þess að skerða þeirra hlut, verði jafnvel til að bæta þeirra aðstöðu, þó að þetta bitni með stórkostlegum þunga á öllum almenningi í landinu. Og það mega hæstv. ráðh. gera sér ljóst, að með því að breyta þannig alveg gagnstætt því ráði, sem séra Arnljótur gaf í Möðruvallaskóla, og með því ráði, sem hv. 6. landsk. þm. vildi láta þá fylgja, þá eru þeir sjálfir að brjóta niður þær ráðstafanir, sem þeir eru hér að gera, setja naglann í sína eigin líkkistu með því að fara þannig að, sína pólitísku líkkistu.

Ég mun þá víkja nokkrum orðum að tveimur eða þremur atriðum, sem felast í þessu frv.

Í fljótu bragði er það eitt atriði í þessu frv., sem virðist vera til bóta, og það er það, að hér í Reykjavík sé settur lögbundinn, fastur útsvarsstigi. Hv. 3. þm. Reykv. (EOI) minntist á það áðan, að það væri óheppileg stefna í þessu frv. að taka vald af bæjar- og sveitarfélögum að ákveða sjálf útsvarsálagninguna, og það má vel vera, að þetta sé rétt hvað önnur bæjar- og sveitarfélög en Reykjavík snertir. Hins vegar eru þessi mál komin í það efni hér í Reykjavík, að það er alveg óhjákvæmilegt að gera þessa breytingu. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hér í Reykjavík hefur seinustu árin þróazt slík pólitísk spilling í sambandi við niðurjöfnun útsvaranna, að það er alveg óhjákvæmilegt að grípa til þess úrræðis að fastbinda útsvarsstigann í lögum. Það hefur viðgengizt hér á undanförnum árum og var þó sérstaklega uppvíst á síðasta ári, að niðurjöfnunarnefndin í Reykjavík hefur notað aðstöðu sína eða þá heimild, sem hún hefur til þess að jafna niður útsvörum eftir efnum og ástæðum, til þess að láta vissa gæðinga stjórnarflokkanna njóta óeðlilegra útsvarshlunninda með fyrrv. borgarstjóra í fararbroddi. Ég sleppi því að nefna ákveðin dæmi um þetta nú, enda veit ég, að öllum þm. er kunnugt um þá spillingu, sem hér hefur þrifizt á undanförnum árum og gerir það alveg óhjákvæmilegt, a.m.k. hvað Reykjavík snertir, að þá sé breytt þannig um, að pólitískri og óvandaðri niðurjöfnunarnefnd sé ekki leyfilegt að leggja á útsvar eftir eigin geðþótta og undanþiggja sína pólitísku gæðinga stórfelldum álögum, heldur verður að breyta hér til í þessum efnum á þann hátt að lögbinda útsvarsstigann, og að því leyti stefnir þetta frv. í rétta átt, að útsvarsstiginn í Reykjavík er lögbundinn, eins og kemur fram í 5. gr. frv.

En sú réttarbót, því að það er rétt að orða það þannig, sem felst í 5. gr. um fastan útsvarsstiga í Reykjavík, er að verulegu leyti tekin aftur með a-liðnum í 3. gr. frv., þar sem á að gefa niðurjöfnunarnefndum heimild til þess að víkja frá skattaframtölum og leggja á útsvör eftir sínu pólitíska höfði. Ef sú réttarbót, sem felst í 5. gr., á að koma að fullum notum, er alveg óhjákvæmilegt að fella niður þetta ákvæði í 3. gr., sem felst í a-lið hennar. Ef það er gert, felst að þessu leyti talsverð réttarbót í frv. hvað Reykvíkinga snertir, og þeir eiga ekki að þurfa að eiga það yfir höfði sér eins og áður, að sú pólitíska spilling dafni í þessum málum, sem hefur átt sér stað á undanförnum árum og öllum þm. er kunnugt um.

Ef horfið verður að þessu ráði án þessa óeðlilega undanþáguákvæðis, sem felst í 3. gr., og útsvörum verður jafnað niður eftir lögboðnum reglum, virðist ekki vera lengur sérstök nauðsyn fyrir niðurjöfnunarnefndir á þeim stöðum, þar sem skattstjórar eru, og er þá mikil spurning, hvort á þeim stöðum eigi ekki að fela þessum aðilum að reikna út útsvarið, eins og þeir raunverulega gera nú að mestu leyti, og fella niðurjöfnunarnefndirnar niður. Í fljótu bragði sér maður ekki, að á þeim stöðum, þar sem skattstjórar og skattstofnanir eru, sé lengur þörf fyrir niðurjöfnunarnefndirnar, og mætti það verða til þess að draga nokkuð úr kostnaði og að fækka nefndum að hverfa að því ráði. Mér finnst rétt að skjóta til þeirrar n., sem fær þetta mál til athugunar, ef horfið verður undanbragðalaust að því að lögbinda útsvarsstigana, hvort nokkur þörf sé þá lengur fyrir niðurjöfnunarnefndir á þeim stöðum, þar sem skattstjórar og skattaskrifstofur eru.

Ég ætla þá að víkja nokkrum orðum að c-lið 3. gr., sem er eitt af veigameiri ákvæðunum í þessu frv., en þessi liður fjallar um það, að heimilt sé að draga útsvör s.l. árs frá hreinum tekjum og lækka þær og þar með útsvörin á þann hátt. Fljótt á litið kann þetta ekki að vera óeðlilegt, en hins vegar verður þetta í reyndinni á þann veg, að þetta kemur að mjög takmörkuðum notum fyrir láglaunafólk eða fólk með miðlungstekjur, en kemur hins vegar mjög til góða fyrir þá, sem hafa miklar tekjur og hafa greitt há útsvör áður, þeir fá miklu meiri frádrátt en hinir. Og eins og ég nefndi áðan, kemur þetta út á þann hátt, að maður, sem hefur fjögurra manna fjölskyldu á framfæri sínu eða konu og tvö börn og 60 þús. kr. árstekjur, hagnast ekki af þessu ákvæði nema um 1200 kr. Aftur á móti maður, sem hefur jafnstóra fjölskyldu, en 160 þús. kr. árslaun, hagnast á þessu um 10 þús. kr. Þess vegna held ég, að það væri miklu réttlátara, að framkvæma þá útsvarslækkun, sem hér er talað um, á þann hátt að lækka sjálfan útsvarsstigann, a.m.k. á lágum tekjum og miðlungstekjum, þó að hann stæði á hærri tekjunum, en sleppa þá þessum frádrætti. A.m.k. held ég, að öllum sanngjörnum mönnum muni þykja það eðlilegt, að ef útsvör á einstaklingum eigi að lækka nú, þegar hinu mikla dýrtíðarflóði er steypt yfir þjóðina, þá eigi sú lækkun fyrst og fremst að koma þeim að notum, sem hafa lágar tekjur eða miðlungstekjur, en síður eigi að hugsa um hina, sem hafi háar tekjur og geta þess vegna betur staðið þessa holskeflu dýrtíðarflóðsins af sér.

Það er ein meginstefnan í þessu frv. hvað varðar álagningu útsvaranna, eins og verið hefur, að útsvörin séu lögð fyrst og fremst á hreinar tekjur og hreinar eignir eða haldið sé við þá meginreglu, að menn standi undir útsvörunum eftir efnahag og ástæðum. Þó er gerð ein undantekning frá þessu, sem hefur ekki falizt í lögum áður, að það er gert ráð fyrir útsvörum, sem verði lögð á án alls tillits til afkomu og efnahags, og það eru veltuútsvörin, en þar er áreiðanlega stefnt í mjög ranga átt. Ég skal ekki hafa á móti því, að einkafyrirtæki eða samvinnufélög greiði nokkra skatta, og þó verður að gæta hófs í þeim efnum, því að ef skattar á fyrirtækjunum eru of háir, þá verður það til þess að lama þeirra starfsemi og til þess að lama nauðsynlega atvinnuuppbyggingu í landinu, sem á að fara fram á þeirra vegum, verður til þess að rýra atvinnuna og gengur þannig óbeint út yfir alla, þó að í fljótu bragði verki það þannig, að þetta sé fyrst og fremst sérmál fyrirtækjanna, og þess vegna þarf að gæta viss hófs í þessum efnum. En það á að vera sjálfsögð regla, að að svo miklu leyti sem slíkir skattar, hvort sem það eru tekjuskattar, útsvör eða annað, sem leggjast á fyrirtækin, þá á að sjálfsögðu að miða það við þeirra afkomu og efnahag, en ekki að leggja skattana á án alls tillits til þess, hvernig afkomu og efnahag fyrirtækjanna er varið. Þess vegna er hér gengið inn á mjög ranga braut í þessu frv., þar sem gert er ráð fyrir því að gera það, sem hefur ekki áður verið gert, að lögfesta veltuútsvar, sem er lagt á fyrirtækin án tillits til afkomu og efnahags, Og það má merkilegt vera, að það skuli vera haldið slíku dauðahaldi í þetta ákvæði, vegna þess að það er svo oft búið að sýna fram á það á undanförnum árum, hve ranglátt það er. Fyrir tveimur árum var fenginn hingað til landsins sérstakur sérfræðingur í skattamálum frá Svíþjóð til að segja sitt álit á skattamálum hér á landi, og niðurstaða hans var sú, að veltuútsvarið væri langsamlega ranglátasti skatturinn, sem lagður væri á hér á landi, í því formi, sem það var þá lagt á. Það hefði mátt vænta þess, að þetta yrði til þess, að hugsað væri um það að hverfa frá þessu fyrirkomulagi. En hér virðist síður en svo slíku vera að heilsa, því að í Reykjavík á að halda því óbreyttu og lögfesta það eins og það hefur verið, en úti um land er bersýnilega stefnt að því að auka það stórlega á ýmsum stöðum. Og það má satt að segja heita alveg undrunarvert, að Sjálfstfl., sem gefst aldrei upp við það að lýsa yfir því, hve hann vilji tryggja réttláta skattálagningu á fyrirtæki, skuli hafa forgöngu um það, að slíkt álag eins og þetta skuli vera lögfest, sem það hefur ekki áður verið, og ekki aðeins það, heldur skuli það vera stóraukið á ýmsum stöðum frá því, sem áður hefur verið.

Hins vegar kann það að vera þannig í sumum tilfellum, að eins og skattstofnum bæjarog sveitarfélaga nú er háttað, þá sé nauðsynlegt að grípa til einhverrar álagningar eins og þessarar, ef bæjar- og sveitarfélögin fá ekki nægar tekjur samkvæmt öðrum skattstofnum, sem þeim eru nú ætlaðir. En þá á að sjálfsögðu að reyna að bæta úr því með því að útvega þeim aðra réttlátari skattstofna en þennan, veltuútsvarið. Það á að stefna að því að leggja það niður, og það sjá allir, hvílíkt ranglæti það er, ef á að framkvæma veltuútsvarið áfram í því formi, sem hefur verið gert, að fyrirtækin verða í mörgum tilfellum að greiða það af eignum sínum. Slíkt nær ekki nokkurri átt, og þess vegna hlýtur það að vera algert lágmark, ef stjórnarflokkarnir vilja setja þetta ákvæði í lög, að þá væri það þó bundið þeim takmörkunum, að fyrirtæki þurfi ekki að greiða veltuútsvar umfram það, sem nemur nettótekjum þeirra, því að þá er um hreina eignatöku að ræða, ef veltuútsvarið gengur út yfir það.

Ég skal svo ekki gera öllu fleiri atriði frv. að umtalsefni að þessu sinni. Ég vil aðeins árétta það, sem ég sagði í upphafi, að ég tel óhjákvæmilegt, ef sæmileg og þingleg vinnubrögð eiga að vera á þessu máli, að þá verði því ekki hraðað í gegnum þingið með neinum ofsakrafti, þannig að það verði t.d. ekki höfð þau vinnubrögð að afgr. þetta mál á einni eða einni og hálfri viku gegnum báðar d. þingsins, því að það hefur það óneitanlega í för með sér, að málin fá ekki slíka athugun sem þeim ber. Og það er alger óvirðing við Alþingi og raunverulega algert brot á réttum þingræðisreglum að ætlast til þess, að jafnmargþættum og mikilvægum málum og útsvarsmálinu og t.d. tekjuskattsmálinu sé hraðað í gegnum þingið, án þess að þm. og öðrum viðkomandi aðilum gefist nægilegt tækifæri til þess að athuga það og hafa áhrif á það, sem verið er að gera, og koma fram með nauðsynlegar brtt. við það.

Að síðustu vil ég aðeins endurtaka andmæli mín gegn þeirri meginstefnu, sem felst í þessu frv. og tekjuskattsfrv., sem beinist að því, eins og ég áður sagði, að auka stórlega stéttamuninn í landinu, stuðla að því að gera þá fátæku fátækari, en ríku ríkari. Og ég vil aðeins að lokum segja það og taka undir það með hv. 6. landsk. þm., að það eru ekki aðeins röng vinnubrögð hjá ríkisstj. og ráðherrunum, það eru líka heimskuleg vinnubrögð hjá þessum aðilum að afla sjálfum sér stórfelldra hlunninda með tekjuskatts- og útsvarslækkunum, á meðan almenningur allur fær sama og ekkert, engar bætur í þeim efnum. Slík sérdrægni hlýtur að hefna sín.