04.04.1960
Neðri deild: 61. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2730 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

112. mál, útsvör

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri rangt, að hér væri verið að lögleiða veltuútsvör, því að þau hefðu verið lögð á. Það væri lengi hægt að ræða um þetta, og ég hef ekki tíma til þess í þessari stuttu athugasemd. Ég vil aðeins benda á, að í lögum hefur ekkert ákvæði verið til um veltuútsvör. Nú er verið að setja slík ákvæði. Það kalla ég að lögfesta veltuútsvörin, og því er nú verr, að það á að gera á þann hátt að lögfesta allt það fargan í þeirri verstu mynd, sem það hefur verið framkvæmt, og þó útvíkka stórkostlega frá því, sem áður hefur verið. Og munu menn hafa búizt við öðru, þegar þetta mál væri tekið fyrir sem löggjafaratriði, en að þannig yrði á því haldið.

Hæstv. ráðh. var nokkuð státinn yfir því, að það væri verið að nema úr gildi ranglæti um útsvarsálögur á samvinnufélög. En hæstv. ráðh., — og það má ræða það síðar við umr. um þetta mál, — á eftir að athuga það betur, að þessi ákvæði, sem nú á að lögleiða um útsvör samvinnufélaga, fá alls ekki staðizt stundinni lengur. Það er alveg sama, þó að þetta verði sett í lög núna, þetta stenzt ekki stundinni lengur. Þeir, sem settu samvinnulögin, sáu alveg rétt. Það er ekki hægt að leggja útsvör á félagsmannaviðskipti kaupfélaga eftir sömu reglum og önnur viðskipti, m.a. af þeirri einföldu ástæðu, að kaupfélögin eru yfirleitt samtök fólks úr mörgum byggðarlögum, og hvernig á að vera hægt að skattleggja slíkt í eitt byggðarlag? Það er alveg óhugsandi, að það geti staðizt til lengdar að lögleiða eins konar toll á þessi viðskipti manna, sem dreginn sé í eitt af mörgum byggðarlögum, sem standa saman um félag. Þetta stenzt ekki stundinni lengur. Þeir, sem standa að þessu, hafa bara látið heift sína í garð samvinnufélaganna algerlega hlaupa með sig í gönur. Þeir hafa ekkert athugað, hvað þeir voru raunverulega að gera. Það var bara eitt, sem vakti fyrir þeim, og það var, að samvinnufélögin ættu að borga meira.

En niðurstaðan af þessu verður auðvitað ekki sú, að samvinnufélögin sem slík borgi neitt meira. Það verður bara fólkið í samvinnufélögunum, sem fær lakari viðskiptakjör en það hefur fengið fram að þessu. Þetta eru bara nýjar álögur á almenning, ekki verið að leggja neitt á samvinnufélögin, heldur á það fólk, sem hefur samvinnufélögin til þess að útvega sér vörur og vinna úr afurðum sínum. Það er það, sem verið er að gera. En þetta virðast þeir ekki hafa skilið eða athugað, sem standa að þessari frumvarpssmið. Það verða að vera sérstakar reglur um þetta, vegna þess að hér er um almannasamtök að ræða, sem eru ekki lík neinum öðrum félagsskap um efnahagsmál í þjóðfélaginu. Þess vegna var samvinnuskatturinn lögleiddur.

En þá eru það svörin við spurningunum, sem ég vildi segja um aðeins örfá orð.

Ég spurði fyrst, hverjar væru þær reglur um frávik, sem talað er um í 3. gr., sem hæstv. ríkisstj. legði til að færa í lög. Og nú kemur það í ljós, að hæstv. ráðh, hefur ekkert yfirlit yfir þessi frávik, sem hann vill nú láta heimila í lögum. Hann segir, að það sé fjarstæða að ætlast til þess, að hann hafi yfirlit yfir þau, vegna þess að þau séu svo margbreytileg og mörg byggðarlög, sem eiga hlut að máli. En þá segi ég: Er hugsanlegt, að Alþ. lögfesti þessi frávik án þess að hafa hugmynd um, hver þau eru eða hvað það er að gera? Ég segi, að það sé óhugsandi. Ég segi, að einmitt þetta svar ráðh. sýni það, að þetta lagafrv. er óverjandi hrákasmíði og hefur verið rubbað upp á allt of stuttum tíma. Það, sem hér átti að gera, var að rannsaka þessi frávik, fá upplýsingar um þau víðs vegar að af landinu og setja síðan reglur um frávik í lögin.

Þá var það næst, að ég spurði um það, sem er eitt höfuðefni málsins, hvað sé velta og hvað vörusala. Hæstv. ráðh. virtist vera eitthvað óþolinmóður út af þessari spurningu og raunar fleiri spurningum. En ég verð nú að lita þannig á svar hæstv. ráðh., þótt ekki væri alveg ljóst, að skilningur hans sé sá, að velta sé í þessu sambandi aðeins vörusala, það verði að vera kaup og sala á vöru hjá gjaldanda, til þess að um veltu geti verið að ræða, enda er það náttúrlega sá eini skilningur, sem raunverulega stenzt, — og þá hjá þeim, sem hafa vöru til umboðsmeðferðar, þá eru það umboðslaunin eða sú þóknun ein, sem einstaklingur eða fyrirtæki fær, annaðhvort fyrir að sjá um vinnslu á vörunni eða annast um kaup og sölu á henni fyrir aðra, fyrir annarra reikning. En hæstv. ráðh. minntist á það í þessu sambandi, að hér gæti verið um ýmis álitamál að ræða, og taldi, að niðurjöfnunarnefndir yrðu að skera úr því. En hér er um svo stórkostlega þýðingarmikið mál að ræða, að ég álít, að það þurfi að setja um þetta nánari ákvæði í lögin, enda kom það fram hjá hæstv. ráðh., og mér þótti vænt um það, að það mundi sjálfsagt að athuga það, í nefnd þá væntanlega, hvort þetta gæti ekki orðið skýrara. En það er einmitt mjög þýðingarmikið, að þetta geti orðið sem skýrast.

Þá sagði hæstv. ráðh. og svaraði því alveg skýrt, að að sínu viti og þeirra, sem stæðu að frv., væri það fjarstæða að leggja mismunandi veltuútsvarsprósentu á viðskiptin eftir því, hver hefði þau með höndum. En þá hygg ég, að líka hefði verið vissara að setja þetta inn í lögin sjálf, vegna þess að Reykjavíkurreglan, sem fylgir með á fskj., gæti gefið tilefni til þess að halda, að þessi prósenta mætti vera mismunandi, og gæti valdið stórkostlegum misskilningi.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ég mætti ekki búast við því, að í þessari löggjöf væri hægt að setja ákvæði um það, hvort veltuútsvarið bæri að taka inn í verð varanna, eins og t.d. söluskattinn. Ég hefði nú álitið, að það hefði verið eðlilegast, að þetta hefði verið gert algerlega ljóst. Það þarf að koma fram, hvort hér á að vera um söluskatt að ræða eða skatt á tekjur og eignir gjaldendanna, sem hann er lagður á. En hæstv. ráðh. telur það ekki viðeigandi, og látum það vera, þó að því væri þá sleppt í þessari löggjöf, en þá þarf a.m.k. að liggja alveg ljóst fyrir, hvernig verðlagslögin verða framkvæmd að þessu leyti. Annars botna menn í raun og veru ekkert í því, hvað hér er verið að gera. Ef ekki væri verðlagseftirlit í landinu, mundi þetta veltuútsvar að sjálfsögðu leita inn í vöruverðið. Það kæmi nokkurn veginn af sjálfu sér, að það mundi leita inn í vöruverðið, bæði í iðnaði og verzlun og annars staðar. En nú er hér löggjöf um verðlagseftirlit, og þá kemur þessi spurning, sem er alveg nauðsynlegt að fá yfirlýsingu hæstv. ráðh. um eða hæstv. ríkisstj. við meðferð málsins: Hvernig á að framkvæma þetta stórkostlega atriði í verðlagningunni? Á að taka veltuútsvörin inn í verðið eða ekki? — Ég hef ekki tíma fyrir nema stutta aths. og skal ekki þreyta hæstv. forseta frekar en orðið er.