04.12.1959
Neðri deild: 12. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls tók ég hér til máls og beindi m.a. nokkrum spurningum til hæstv. fjmrh., sem þá var ekki viðstaddur, og ég hafði óskað eftir því, að honum bærust mínar spurningar og hann ætti þess kost að svara þeim. Nú er það að sjálfsögðu svo, að spurningarnar eru þess eðlis, að í rauninni var nokkur hluti af mínu máli til skýringar á því, hvers vegna ég spurði. Ég mun ekki endurtaka það hér, en vil óska þess sérstaklega, af því að ég sé, að nú er til þess tækifæri, að ráðh. gefi mér svör við þessum spurningum.

Fyrsta spurningin var af því til komin, að ég hafði getíð þess í ræðu minni, að einmitt á því tímabili, sem þingfrestun er fyrirhuguð, eiga samkv. venjum og samkv. nauðsyn undanfarandi ára, sem ég kem ekki auga á að neitt hafi breytzt, að fara fram samningaviðræður milli ríkisvaldsins annars vegar og framleiðslustéttanna hins vegar og þá fyrst og fremst sjávarútvegsins, sem fyrir hver áramót að undanförnu hefur krafizt þess að hafa á einhverju föstu að standa í samskiptum sínum við ríkið og ég sé ekki annað en hljóti að vænta þess enn og ekki síður fyrir það, að nú er óvissara um það, hvernig fjármálum þjóðarinnar verður hagað á næstunni, heldur en oft áður. Þess vegna bar ég fram spurningu, sem er á þessa leið: Telur hæstv. fjmrh. ekki þörf neinnar lagasetningar til þess að tryggja framleiðsluna á því tveggja mánaða eða um það bil tveggja mánaða tímabili, sem stjórnin hyggst losa sig við Alþingi?

Í öðru lagi vék ég að því í þessari nefndu ræðu minni, að hér hafa komið fram ýmsir þeir hlutir í sambandi við ríkissjóð, sem ég tel vert að fá nokkrar skýringar á. Það hefur hér sem sagt verið lagt fram fjárlagafrv. með tilheyrandi grg. Þetta mun vera það fjárlagafrv., sem hæstv. núv. fjmrh. fann í fjmrn., þegar hann kom þangað og þar skildi við garðana sá hæstv. fyrrv. fjmrh., núverandi og raunar þáverandi einnig utanrrh. Ég rifja hér ekki upp þann þátt, sem það ætti máske skilið, hverja virðingu þessir virðulegu samráðh. bera hvor fyrir öðrum, með því að hæstv. núverandi fjmrh. hefur lýst því yfir, að það sé ekkert gagn í því plaggi, sem hæstv. fyrrv. fjmrh. skildi eftir. Það er saga út af fyrir sig. Ég vék einnig að því, og er vert, að hæstv. fjmrh. fái að heyra það með eigin eyrum, að ég tel frammistöðu hans í þessu máli vera eina mestu óvirðingu, sem Alþingi hefur verið sýnd, þ.e.a.s. nokkurn veginn samtímis og sá virðulegi fjmrh., sem nú situr, leggur fram fjárlagafrv. hér í Alþingi, þá lýsir hann því einnig yfir, að það sé ekkert að marka þetta plagg, þetta ætli hann að taka aftur og ræða það ekki, en leggja fyrir þingið nýtt og að því er manni skilst betra fjárlagafrumvarp. Ég álit, að þegar menn finna ónýt plögg í stjórnarráðinu, eigi að láta þau í öskutunnu stofnunarinnar, en ekki dreifa þeim út á Alþingi og nota Alþingi þannig í staðinn fyrir þetta ílát, sem annars er til þess gert að láta þar ónýt plögg.

En spurning mín var til komin af því, að hæstv. forsrh. hefur fullyrt á fundi í einu stjórnmálafélagi hér í bænum, að það muni vanta um 250 millj. kr. a.m.k. til þess, að tekjur ríkisins á næstkomandi ári geti mætt útgjöldunum að óbreyttu. Á hinn bóginn stendur skrifað í því fjárlagafrv., sem okkur alþm. hefur verið fengið í hendur, að afkoma ríkissjóðs á þessu ári sé slík, að þar muni ekki verða um neinn greiðsluhalla að ræða. Í tilefni af þessum lítt skiljanlegu fullyrðingum á tvo vegu bar ég fram spurningu, sem er á þessa leið: Er það skoðun hæstv. fjmrh. þrátt fyrir þá fullyrðingu í grg. fjárlagafrv., að enginn greiðsluhalli verði hjá ríkissjóði í ár, að vanta muni um 250 millj, kr. til að mæta útgjöldum ríkisins á næsta ári, eins og hæstv. forsrh. hefur haldið fram á fundi stjórnmálafélags hér í bænum?

Tilefni þriðju spurningarinnar og þeirrar seinustu, sem ég bar fram til þessa hæstv. ráðherra, er það, að hann fullyrti hér úr ræðustól, að fyrir dyrum stæði að taka hér upp nýtt efnahagskerfl. Með því að þetta voru nýjar upplýsingar, bæði fyrir mig og sjálfsagt fyrir fleiri, sem á hlýddu, og með sérstöku tilliti til þess, að við vorum hér nýlega búnir að fá að heyra upp lesinn stjórnarsamning þeirra tveggja flokka, sem standa að hæstv. ríkisstj., þar sem ekkert var getíð um þetta, — nú má það auðvitað vel vera, að stjórnarsamningurinn hafi ekki allur verið lesinn og hann sé eitthvað lengri en það, sem alþm. fengu að heyra, — þess vegna langaði mig alveg sérstaklega að spyrja hæstv. fjmrh.: Styðst sú fullyrðing hæstv. fjmrh., að skipta eigi um efnahagskerfi, við ákvæði í stjórnarsamningnum, eða stendur ráðh. einn og persónulega á bak við þessa fullyrðingu?

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. svari þessum spurningum mínum.