04.04.1960
Neðri deild: 61. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2732 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

112. mál, útsvör

Jón Pálmason:

Herra forseti. Mér þykir rétt við þessa 1. umr. að segja fáein orð um þetta vandamál, til athugunar fyrir þá hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, og sömuleiðis til athugunar og ákvarðana fyrir hæstv. ríkisstj. Ég geri þetta því fremur vegna þess, að ég hef engin áhrif haft á undirbúning þessa máls og ekkert komið þar nærri og ekki séð þetta frv. fyrr en s.l. föstudag, þegar það var lagt hér fram. En eins og kunnugt er, hefur það um langa tíð og kannske alltaf verið eitt af mestu vandamálum okkar lands, hvernig á að leggja útsvörin á, og það vandamál hefur farið sívaxandi eftir því, sem útsvörin hafa hækkað í öllum sveitarfélögum. Svo er komið á síðustu árum, að það er búið að hlaða svo miklum gjöldum á sveitarfélögin, bæði í sveitum og kaupstöðum, að þau rísa ekki undir þeim þunga. Þess vegna er þetta eitt af allra flóknustu vandamálum, sem um er að ræða, og nauðsynlegt að hugsa sem rækilegast um.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er, eins og tekið er fram í grg., samið af nefnd og lagt fram, að mér skilst, eins og það kom frá þeirri nefnd. Nú eru mörg þýðingarmikil atriði í þessu frv., sem ég tel ástæðu til að athuga nokkru nánar, og af því að ég þekki þá ágætu menn, sem eru í okkar hæstv. ríkisstj., þá efast ég mjög um, að þeir hafi hugsað þetta mál eða gefið sér nægilegan tíma til þess að hugsa það út í æsar. Það, sem ég á sérstaklega við í þessu sambandi, eru þau ákvæði þessa frv., sem snúa að veltuútsvarinu. Mér hefur alla tíð og mörgum öðrum verið illa við nokkrar heimildir til veltuútsvara, en þau hafa verið á lögð víðs vegar um land, og það má vel vera, að það sé rétt hjá þeim, sem um þetta mál hafa fjallað, að það sé ekki hægt að komast hjá því að leggja þau á framvegis. En eins og hæstv. fjmrh. tók fram, er það rétt, að í þessu frv. er slegið föstu takmörkun á því, hvað veltuútsvör megi vera há. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að þó að veltuútsvör séu heimiluð, verði að takmarka þau miklu meira en gert er samkv. þessu frv. og sérstaklega kemur fram í 6. gr. þess. Og það mál er í mínum augum óskylt þeim mikla ágreiningi, sem hefur verið og er um það, hvort það sé rétt, að útsvarsskylda sé sama á sams konar starfsemi hjá hlutafélögum, einstaklingum og samvinnufélögum, því að það er mjög mismunandi starfsemi samvinnufélaganna og sömuleiðis annarra þeirra fyrirtækja, sem fást við viðskipti.

Það, sem ég finn fyrst og fremst að þessum ákvæðum, sem hér eru, er það, að ég tel ekki réttmætt að heimila veltuútsvör á vinnslustöðvar og framleiðslufélög, því að sú starfsemi öll er gagnólík hinum almenna verzlunarrekstri og á þess vegna að vera að mínu áliti að mestu leyti útsvars- og skattfrjáls. Sú skoðun er ekki neitt ný frá minni hálfu, því að ég hef haft hana í 40 ár og hún er óbreytt enn. Ég skal taka tvö dæmi um mismuninn í þessari aðstöðu.

Við höfum hér í miðri höfuðborginni tvö samvinnufélög, sem eru gagnólík. Annars vegar er það Sláturfélag Suðurlands, sem er vinnslustöð fyrir alla bændur á Suðurlandi til þess að taka á móti sláturafurðum og selja þær aðallega í heildsölu. Hins vegar höfum við Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis, sem er almenn verzlun og hefur ekki með höndum, að því er ég bezt veit, neina framleiðslustarfsemi. Ef veltuútsvörin eru á annað borð heimiluð, þá tel ég ekkert óeðlilegt, að Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis verði að borga veltuútsvar af sinni starfsemi alveg á sama hátt og verzlanir hlutafélaga og einstaklinga. En þessu er allt öðruvísi háttað með Sláturfélag Suðurlands. Ég teldi það alveg ógerning, að það væri heimilað fyrir niðurjöfnunarnefndina hér í Reykjavík að leggja veltuútsvar á alla starfsemi eins og Sláturfélags Suðurlands. Og svo er þetta yfirleitt almennt um landið.

Ég skal nefna annað dæmi, sem er í mínu héraði, norður á Blönduósi. Þar höfum við tvö stór samvinnufélög, sem annast meginhlutann af allri verzlun í héraðinu. Annars vegar er Sláturfélag Austur-Húnvetninga. Það tekur á móti öllu sláturfé bændanna í innhéraðinu og gerir afurðirnar að söluhæfri vöru, að miklu leyti til útflutnings og að nokkru leyti til heildsölu hingað til Reykjavíkur og kannske eitthvað ofur lítið annað en aðallega hingað til Reykjavíkur. Í öðru lagi hefur Sláturfélag Austur-Húnvetninga með að gera mjólkurstöðina á Blönduósi, sem hefur það hlutverk að taka við allri mjólk, sem framleidd er í héraðinu og jafnvel líka í Vestur-Húnavatnssýslu, og koma henni í verð. Að leggja það til eða heimila það, að hreppsnefndin á Blönduósi hefði leyfi til þess að leggja veltuútsvar á alla starfsemi Sláturfélags Austur-Húnvetninga, það get ég ekki samþykkt. Við hliðina á Sláturfélaginu höfum við svo aðalverzlun héraðsins, sem er Kaupfélag Húnvetninga, sem hefur með að gera alla hina almennu verzlun, sem er ekki framleiðsla. Ég tel það alveg gagnólíkt, þó að veltuútsvar sé heimilað að leggja á það félag, og ef á annað borð er heimilað að leggja það á aðrar verzlanir, þá getur það gengið, þó að mér sé yfirleitt illa við öll þessi veltuútsvör.

Það væri hægt að fara víðar yfir, en þetta verður að nægja, ekki einasta varðandi samvinnufélög, heldur og líka hlutafélög og aðrar verzlanir, að það verður að greina þarna á milli, hvort það er verið að vinna úr afurðum eða það er verið með almennan verzlunarrekstur. T.d. ef við höfum fiskfrystihús og annað slíkt, þá er það gagnólíkt, hvort það er verið að vinna úr afurðunum og koma þeim í verð eða það er almennur verzlunarrekstur. Við skulum taka t.d. togaraútgerðina. Ég teldi það mjög óeðlilegt, að það væri heimilað að leggja veltuútsvar á fiskinn, sem togararnir veiða og flytja til útlanda til sölu, og sömuleiðis á þann fisk, sem unninn er í frystihúsum og vinnslustöðvum og fluttur út eða seldur í heildsölu. Þetta er ákaflega flókið og vandasamt mál, sem er í aðalatriðum hægt að marka í lögum, en ekki er hægt fullkomlega að ganga frá nema með nákvæmri reglugerð. Þó er það svo, að í þessu frv. er líka heimilað að leggja veltuútsvar á alla afurðasölu bændanna hjá einstaklingunum sjálfum. Þetta álít ég ekki heldur réttmætt, því að um leið og tekjuskattur er afnuminn að mestu leyti, sem nú er samkv. skattalagafrv., tekjuskattur er afnuminn á öllum almenningi, þá á að vera rýmra um fyrir hreppsnefndir og niðurjöfnunarnefndir með niðurjöfnun útsvara eftir hinni almennu reglu um álagningu á tekjur og eignir. En með þessu móti gæti það vel komið fyrir, að veltuútsvar væri marglagt á sömu vöru, þannig að það er fyrst lagt á á frumstigi framleiðslunnar hjá bændunum sjálfum, í öðru lagi hjá vinnslustöðinni, sláturfélaginu eða mjólkurbúinu, og í þriðja lagi í smásölunni. Ef á annað borð á að leggja veltuútsvar á framleiðsluvörur, sem mér er ákaflega ógeðfellt, þá finnst mér, að það megi ekki eiga sér stað nema í smásölunni, á hinu síðasta stigi, þegar varan er seld, því að þá er trygging fyrir því, að veltuútsvar sé þó ekki lagt nema einu sinni á sömu vöru. Þetta vildi ég taka hér fram nú þegar, en ég ítreka það, að þetta yrði að gilda alveg jafnt fyrir allan verzlunarrekstur. Ég nefni hér Sláturfélag Suðurlands. Ég álít, að það ætti að gilda alveg sama regla um það, þó að það væri frystihús eða sláturhús hjá Garðari Gíslasyni eða hann hefði um að fjalla; sem hann hefur nú, nokkra afurðasölu, þá verður það að skiljast frá og vera undir annarri reglu en hinn almenni verzlunarrekstur. Hér var rétt áðan að tala hv. 3. þm. Vesturl. (HS), sem þekkir, eins og við sennilega allir, ástandið í Borgarnesi. Ég tel það alveg tvennt ólíkt, hvort honum sem bæjarstjóra væri heimilað að leggja veltuútsvar á mjólkurbúið í Borgarnesi eða sláturhúsið ellegar hann ætti þá heimild til að leggja á Kaupfélag Borgfirðinga, hinn almenna verzlunarrekstur þar. Á þennan hátt vil ég þess vegna aðgreina, hvernig með þetta mál yrði farið.

Það er annað atriði í 3. gr. þessa frv„ sem ég tel nokkuð athugavert. Þar stendur, að það sé heimilt að vefengja skattaskýrslur framteljendanna. Þetta er nú eitt af mörgu, sem hefur það í för með sér, að það hafa oft að undanförnu verið árekstrar milli hinna einstöku skattayfirvalda, og víst hefur það verið gert af niðurjöfnunarnefndum og hreppsnefndum eitthvað að vefengja skattaskýrslurnar. Þessa vil ég ekki gefa þeim neina heimild til, enga. Þegar er búið að ganga frá skattaskýrslum, sem á að ganga gegnum undirskattanefnd, yfirskattanefnd og, ef kært er, ríkisskattanefnd, þá á það að gilda, og þegar það á að vera grundvöllur, vil ég ekki gefa hreppsnefndum eða niðurjöfnunarnefndum neina heimild til þess að grauta þar í, því að gegn því eru einstakir gjaldendur varnarlausir. Þetta vildi ég biðja hv. nefnd einnig að taka til athugunar, því að það þarf að vera á því önnur regla, þegar á að fara að binda útsvörin eingöngu við skattaframtöl, en afnema þá almennu reglu, sem verið hefur á undanförnum áratugum, að útsvörin skuli lögð á eftir efnum og ástæðum.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta mál. Ég geri ráð fyrir því, að það sé til þess ætlazt, að það gangi hér gegnum þingið. En það er okkur öllum þýðingarmikið mál, að það sé sem allra bezt athugað og sniðnir af þeir agnúar, sem eðlilegt er að séu ekki látnir vera í slíku stórmáli sem hér er um að ræða.