24.05.1960
Neðri deild: 87. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2740 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

112. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 273, um bráðabirgðabreytingu á lögum nr. 66 frá 12. apríl 1945, um útsvör, var sent heilbr.- og félmn, til umsagnar að lokinni 1, umr. hér í þessari hv. deild. Heilbr.- og félmn. hefur rætt frv. allýtarlega á nokkrum fundum og fengið sér til ráðuneytis skrifstofustjóra félmrn., Hjálmar Vilhjálmsson, við athugun þess.

Nefndin hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins, og munu tveir nm., þeir Jón Skaftason, hv. 4. þm. Reykn., og Hannibal Valdimarsson, skila séráliti.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til, að frv., verði samþykkt með þeim breytingum, sem fram koma í nál. hans á þskj. 497. Eru þessar helztar efnislega séð:

Á a-lið 7. gr. frv. leggur meiri hluti n. til að gerð verði sú breyting, að þrjú neðstu þrep þess útsvarsstiga, sem þar er tilgreindur, verði felld burt. Eins og fram kemur af grg. frv., er umræddur útsvarsstigi, sem ætlaður er hinum minni sveitarfélögum, saminn að tilhlutan stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, sem kvaddi sér til aðstoðar í þessu sambandi fimm starfandi hreppsnefndaroddvita. Gerði útsvarsstigi þessi ráð fyrir, að byrjað væri að leggja á 3000 kr. tekjur. Telja kunnugir, að þetta hafi verið gert fram að þessu og nauðsynlegt er fyrir sum minnstu sveitarfélögin, sem lélegastan tekjustofn hafa, að fá að halda þessari heimild. En meiri hl. heilbr.- og félmn. telur, að ekki sé rétt að heimila nokkru sveitarfélagi að leggja útsvar á svo lágar tekjur, þrátt fyrir það að vitað er, að þetta getur valdið einstaka sveitarfélögum einhverjum örðugleikum og jafnvel orsakað, að fleiri þeirra lendi með aukaframlag úr jöfnunarsjóði en gert var ráð fyrir, er frv. var samið.

Þá leggur meiri hl. n. til, að tekin verði ný grein inn í frv. og komi hún eftir 7. gr. þess og sé þess efnis í fyrsta lagi, að sláturhús og mjólkurbú verði undanþegin veltuútavari, í öðru lagi, að útsvar af landbúnaðarafurðum framleiddum innanlands og seldum í umboðs- eða heildsölu verði að hámarki ekki meira en 21/2% af heildarveltu, og í þriðja lagi, að veltuútsvör, miðað við tegund gjaldstofns, verði hvergi hærri en þau voru árið 1959.

Um sláturhús og mjólkurbú er það að segja, að meiri hl. nefndarinnar telur að athuguðu máli, að vörur þær, sem hér um ræðir, séu hjá umræddum aðilum aðeins í vinnslu, svo að þær verði söluhæfar, og afhentar þaðan án álags.

Hvað mjólkinni viðvíkur sérstaklega, hlyti það að teljast í fullu ósamræmi, ef hún yrði gerð útsvarsskyld á vinnslustigi, þegar þess er gætt, að mjólkursamsalan, sem annast sölu mjólkur til neytenda, er með sérstökum lögum undanþegin útsvari.

Varðandi annan lið þeirrar greinar, sem lagt er til að tekin verði inn í frv., þ. e„ að útsvar af landbúnaðarafurðum, seldum í umboðs- eða heildsölu, skuli aðeins vera 21/2%, er það að segja, að mjög var um það spurt hér í hv. deild við 1. umr. frv., hvenær ætlazt væri til, að útsvarið væri lagt á söluverð þessara vara, og hvenær á þau umboðslaun, sem tekin væru fyrir dreifingu þeirra. Var sérstaklega um þetta spurt í sambandi við afurðir bænda, sem kaupfélögin tækju við og önnuðust fyrirgreiðslu á.

Í þessu sambandi er rétt, að hv. þm. geri sér grein fyrir, að fram að þessu hefur það alveg verið á valdi hverrar niðurjöfnunarnefndar út af fyrir sig að meta, hvenær veltuútsvar væri lagt á andvirði vara og hvenær væri aðelns lagt útsvar á þá þóknun, sem greidd væri sem umboðslaun fyrir meðferð vörunnar. Hver niðurjöfnunarnefnd hefur svo orðið að mynda sér sína eigin reglu í þessu sambandi. Heildarreglur eða ákveðin skilgreining hefur ekki verið fyrir hendi.

Nefnd sú, sem undirbjó þetta frv., leitaði í þessu sambandi álits tveggja aðila, sem mjög hafa fengizt við skatta- og útsvarsmál og eru öllum aðstæðum kunnugir, en það voru skattstjórinn í Reykjavík og form. niðurjöfnunarnefndarinnar. Töldu þessir aðilar eðlilegast, að við þá bráðabirgðabreytingu, sem verið er að gera á útsvarslögunum, yrði heimild til álagningar veltuútsvara á þessar vörutegundir mjög lág, eins og lagt er til í þeirri brtt., sem hér liggur fyrir.

Það, sem hér veldur erfiðleikum, er, að umboðslaun eru mjög mismunandi há, eða frá 2–3% upp í allt að 20–25%, t.d. af bókum og tímaritum, sem í flestum tilfellum er selt í umboðssölu, eða mun hærra en leyfileg álagning á marga vöruflokka, sem veltuútsvar hefur árum saman verið lagt á.

Við heildarendurskoðun útsvarslaganna hljóta hins vegar að verða settar fastar reglur um, hvenær útsvar skuli lagt á umboðslaun og hvenær veltuútsvar skuli lagt á andvirði vara, sem seldar eru í umboðssölu. Þetta er atriði, sem þarf nákvæmrar athugunar við, og því eðlilegt, að það bíði heildarendurskoðunar laganna.

Í 3. mgr. þeirrar greinar, sem meiri hlutinn leggur til að tekin verði inn í frv., er tekið það ákvæði, sem áður var í 5. gr. þess varðandi veltuútsvarsálag í Reykjavík, að það mætti ekki vera hærra, miðað við tegund gjaldstofns, en það var árið 1959, en nú látið ná til sveitarfélaganna allra, þó með því fráviki, að þar sem veltuútsvör voru ekki á lögð s.l. ár eða voru lægri að hundraðshluta en í Reykjavík, megi þau í ár hækka til samræmis við það, sem þau voru á lögð það ár á þessum tilgreinda stað.

Breyting sú, sem meiri hl. n. leggur til að gerð sé við 8. gr. frv., þess efnis, að kaupstöðunum, sbr. 6. gr., og öðrum sveitarfélögum, sbr. 7. gr., sé heimilt að fella niður útsvar af tekjum, sem lægri eru en svo, að útsvar af þeim nemi 1000 kr., byggist á því, að mjög hefur verið eftir því sótt af þeim kaupstöðum, sem áður höfðu ekki lagt útsvör á lægri tekjur en 20 þús. kr., að fá heimild til þess að halda þeirri aðstöðu óbreyttri, og hefur meiri hl. n. fallizt á það sjónarmið með þessari brtt.

Breyting sú, sem lagt er til að gerð sé á 9. gr. frv., að heimila sveitarfélögunum að undanþiggja við útsvarsálagningu að öllu eða einhverju leyti bætur almannatrygginga, byggist á því, að fyrir liggur vitneskja um, að þetta hefur verið gert í mjög mörgum sveitarfélögum við álagningu útsvara undanfarin ár, þó að um það hafi engin föst regla verið, enda mjög misjafnt, að hve miklu leyti tekið hefur verið tillit til bóta almannatrygginga í hinum ýmsu sveitarfélögum við niðurjöfnun útsvara.

Sama er að segja um heimildina um að lækka útsvör gjaldenda, sem orðnir eru 65 ára.

Þetta eru þær efnisbreytingar, sem meiri hl. heilbr.- og félmn. leggur til að gerðar verði á frv. frá því, sem það var, þegar það var sent nefndinni eftir 1. umr. hér í þessari hv. deild.

Mér þykir hlýða við þetta tækifæri að fara nokkrum orðum um frv. almennt.

Þegar efni þess er rætt, verður að hafa það í huga, að hér er aðeins um bráðabirgðabreytingu á útsvarslögunum að ræða. Er ætlunin, að heildarendurskoðun þeirra fari fram þegar á þessu ári og verði frv. um nýja útsvarslöggjöf lagt fram, þegar hv. Alþingi kemur saman aftur til fundar.

Nefnd sú, sem hæstv. fjmrh. skipaði hinn 7. des. s.l. til þess að undirbúa þetta frv., lét fara fram margþætta athugun í sambandi við undirbúning málsins og þær breytingar, sem talið er nauðsynlegt að gerðar séu á útsvarslögunum.

Fljótlega eftir að nefndin tók til starfa, varð henni ljóst, að heildarendurskoðun útsvarslaganna yrði ekki framkvæmd innan þess tíma, sem henni var ætlað að skila till. sínum. Málið er umfangsmeira en svo og margþættara, að slíkt væri unnt, enda eðlilegt, að endurskoðun útsvarslaganna og breytingar á þeim, sem til frambúðar eiga að standa, færu fram samtímis heildarendurskoðun skattalaganna.

Af þeirri ástæðu lagði nefndin til, að þær bráðabirgðabreytingar, sem um er að ræða í þessu frv., sem hér liggur fyrir, væru lagðar fyrir þetta hv. Alþingi.

Í 4. gr. gildandi útsvarslaga er svo fyrir mælt, að útsvar skuli leggja á eftir efnum og ástæðum. Er þetta meginregla þeirra útsvarslaga, sem nú gilda. Niðurjöfnunarnefndir sveitarfélaganna, yfirskattanefndir og ríkisskattanefnd og löggjafarvaldið sjálft hafa hins vegar fyrir löngu gert þetta ákvæði óvirkt. Hver niðurjöfnunarnefnd fyrir sig hefur búið sér til sínar eigin reglur og leggur útsvar á eftir þeim í samræmi við skattaframtal hvers gjaldanda. Er þá byggt á þeim tekjum og eignum, sem fram koma á framtalinu, og mun það heyra til undantekninga, ef niðurjöfnunarnefnd vefengir framtöl, eftir að skattayfirvöld hafa yfirfarið þau og metið hag og aðstæður gjaldenda, heldur hafa nefndirnar lagt útsvar á eftir því. Má segja a.m.k. hvað kaupstaðina snertir, að niðurjöfnun útsvara sé að mestu leyti orðin bein skrifstofuvinna og útreikningar eftir vissum reglum, enda er það svo, að ef niðurjöfnunarnefnd vefengir framtal og metur gjaldanda og leggur útsvar á hann eftir efnum og ástæðum, eins og útsvarslögin gera ráð fyrir, krefjast þær n., sem yfir niðurjöfnunarnefndirnar eru settar, að niðurjöfnunarnefnd sanni beinlínis tölulega mat sitt á eignum og tekjum viðkomandi aðila. Takist n, þetta ekki, er útsvar viðkomandi aðila í langflestum tilfellum lækkað til samræmis við framtalið, hvort sem það hefur verið rétt eða rangt. Mat niðurjöfnunarnefnda á gjaldþoli gjaldenda og útsvarsálagning eftir efnum og ástæðum er því ekki lengur fyrir hendi, heldur verður heildarupphæð útsvara, sem sveitarstjórn hefur ákveðið, að skiptast niður á gjaldendur í samræmi við tekjur þeirra og eignir eftir ákveðnum reglum án tillits til annarra aðstæðna.

Með lögum eru svo niðurjöfnunarnefndirnar skyldaðar til að birta opinberlega þær reglur, sem notaðar hafa verið við niðurjöfnunina, þannig að gjaldandi geti sannprófað, hvort útsvar hafi verið lagt á samkvæmt framtali hans eða ekki. Um þetta er ekkert nema allt gott að segja. Það losar bæði niðurjöfnunarnefndir og framteljendur í mörgum tilfellum við óþarfa umstang við óraunhæfar útsvarskærur. En með þessu lagaákvæði er heimild niðurjöfnunarnefnda til þess að meta gjaldþol hvers einstaklings eftir efnum og ástæðum og leggja útsvar á eftir því endanlega gerð óvirk. Þegar þannig er komið, er ekki nema eðlilegt, að endurskoðun útsvarslaganna eigi sér stað, enda hafa komið fram ákveðin tilmæli um það frá sveitarstjórnunum sjálfum.

Að sjálfsögðu má um það deila, hve víðtæk slík endurskoðun eigi að vera, og einnig, hvernig hún verði bezt undirbúin. Löggjöf sú, sem nú gildir um þetta efni, er að vísu ekki nema 15 ára gömul. En aðstæður allar hafa breytzt svo hin síðari ár, að eðlilegt verður að teljast og til hagræðis fyrir alla aðila, að heildarendurskoðun og verulegar breytingar verði gerðar á þessari löggjöf, þegar er nægjanlegt undirbúningsstarf hefur verið unnið.

Þessu er nú þannig háttað, að hvert sveitarfélag fyrir sig, en sveitarfélögin munu vera rúmlega 230 í öllu landinu, hefur búið sér til sínar eigin reglur við niðurjöfnun útsvara, og mun það vera undantekning, ef fleiri en eitt sveitarfélag nota nákvæmlega sömu regluna. Þykir e.t.v. sumum nokkuð stórt stökk að ætla í einum áfanga að fækka útsvarsstigunum í landinu úr rúmlega 200 niður í aðeins þrjá. En n. sú, sem undirbjó þetta frv., var sammála um, að þetta mundi framkvæmanlegt. Byggir hún þetta á þeirri athugun, sem hún lét fara fram í þessu sambandi á útsvarsstigum, gjaldstofni og heildarupphæð útsvara í hinum ýmsu sveitarfélögum og kaupstöðum.

Í fyrstu og reyndar lengi vel taldi n. sér fært að leggja til, að útsvarsstigarnir yrðu aðeins tveir, annar fyrir kaupstaðina, Reykjavík þar meðtalin, og hinn fyrir hin smærri sveitarfélög. En við nánari athugun kom í ljós, að einstaka kaupstaðir og þá helzt þeir, sem mjög lág veltuútsvör höfðu lagt á, mundu ekki ná út tilskilinni heildarfjárhæð útsvara. nema með nokkru hærri útsvarsstiga en n. fyrst hafði í hyggju að leggja til að tekinn yrði inn í frv. Af þessari ástæðu voru útsvarsstigarnir fyrir kaupstaðina hafðir tveir. Hins vegar er að sjálfsögðu að því stefnt við heildarendurskoðun útsvarslaganna að hafa stigana aðeins tvo, annan fyrir kaupstaðina alla og þau sveitarfélög, sem þann stiga geta notað, og hinn fyrir hin smærri sveitarfélög, sem hærri útsvarsstiga þurfa með til þess að ná inn tilskilinni heildarfjárhæð útsvara samkvæmt ákvörðun sveitarstjórna.

Um það má að sjálfsögðu einnig deila, hvernig bezt yrði unnið að undirbúningi fyrirhugaðrar endurskoðunar þessara laga. Umrædd n„ sem undirbjó það lagafrv„ sem hér liggur fyrir, var sammála um, að raunhæfasta og öruggasta leiðin í þessu sambandi væri að samþykkja þær bráðabirgðabreytingar, sem lagt er til í frv.

Skýrslusöfnun um niðurjöfnun útsvara undanfarinna ára og aðstæður í hverju einstöku sveitarfélagi er mikið verk, en gefur ekki rétta mynd, þar sem framlag jöfnunarsjóðs nú verkar mjög í þá átt, að hægt verði að finna grundvöll fyrir útsvarsstiga, sem öll hin smærri sveitarfélög gætu notað.

Ég held, að menn almennt geri sér ekki ljóst, að jöfnunarsjóðsframlagið verkar fyrst og fremst til lækkunar á útsvörum í hinum smærri sveitarfélögum. Athugun sú, sem n. lét fara fram í þessu sambandi, leiddi í ljós, að í mörgum sveitarfélögum kemur framlag þetta til með að nema allt að 33% , miðað við þau útsvör, sem álögð voru árið 1959, og allt að 50%, miðað við heildarálagningu útsvara eftir árið í ár, að óbreyttum öðrum aðstæðum.

Það liggur því alveg í augum uppi, að lögin um jöfnunarsjóð sveitarfélaga verka mjög í þá átt, að hægt verði við heildarendurskoðun útsvarslaganna að hafa aðeins einn útsvarsstiga fyrir hin smærri sveitarfélög, eins og full ástæða er til að ætla að takast muni hvað kaupstaðina snertir.

Um útsvarsstiga þá, sem tilgreindir eru í frv., varðandi tekjur og eignir, þarf ég ekki að vera margorður. Útsvarsstigi sá, sem tilgreindur er í 5. gr. frv., er útsvarsstigi Reykjavíkur frá 1959 óbreyttur. Útsvarsstigi 6. gr. er ætlaður kaupstöðunum, en samkvæmt 8. gr. er kaupstöðunum þó heimilt að nota útsvarsstiga 5. gr., enda hafi þeir tekjustofna til þess að ná inn heildarfjárhæð áætlaðra útsvara samkvæmt þeim útsvarsstiga. Útsvarsstiginn tilgreindur í 7. gr. er, eins og áður er sagt, ætlaður hinum smærri sveitarfélögum og samkvæmt tillögum stjórnar Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Undirbúningsnefnd frv. tók stigann óbreyttan inn í frv., þar sem hún taldi þá aðila, sem að honum stóðu, dómbærasta á, hvað eðlilegt væri í þessu sambandi. Meiri hl. heilbr.- og félmn. vill hins vegar ekki mæla með, að byrjað verði að leggja á lægri tekjur en 7 þús. kr. samkvæmt þessum stiga, og telur það reyndar algert lágmark.

Um frávik þau, sem tilgreind eru í 3. gr. frv. um frádrátt frá tekjum, áður en útsvar er lagt á, er það helzt nýmæli, að útsvar liðins árs, sé það greitt að fullu fyrir áramót, er nú gert frádráttarbært. Eins og nú er háttað innheimtu útsvara, verður þetta að teljast eðlilegt og sjálfsagt. Mikill hluti útsvarsgreiðenda, eða allir, sem greiða útsvör sín reglulega af launum mánaðarlega, hafa raunverulega engan ráðstöfunarrétt á þessum hluta tekna sinna og sjá hann yfirleitt aldrei. Verður vart annað talið en að eðlilegt sé, að gjöld þessi séu frádráttarbær. Ég hef heyrt á það bent, að þetta atriði mundi verka til óhagræðis fyrir þá, sem e.t.v. erfiðastar aðstæðurnar hafa, að þeir mundu sízt ná til að greiða útsvör sín að fullu fyrir áramót og þess vegna ekki fá þau dregin frá. Ég vil í þessu sambandi geta þess, að reynslan sýnir, að þar sem þetta ákvæði hefur verið í gildi, hefur allt annað komið í ljós en að svo væri. Útsvör verkamanna og launamanna, sem a.m.k. í kaupstöðum eru fjölmennasti hópur útsvarsgreiðenda, eru undantekningarlítið innheimt hjá vinnuveitendum við útborgun launa. Þessir aðilar eru því í langflestum tilfellum búnir að greiða útsvör sín að fullu um áramót eða á tilskildum gjalddögum og eru því sízt í hættu með, að þetta ákvæði verði þeim til óhagræðis. Það eru þeir, sem sveitarsjóðirnir hafa engan óbeinan aðgang að, miklu færri útsvarsgreiðendur, sem hafa það upp við sig að gera, hvort þeir greiða útsvar sitt fyrir áramót og gera það þar með frádráttarbært eða ekki.

Ég er sannfærður um, að það á eftir að sýna sig, að þetta er einfaldasta leiðin til að tryggja innheimtu útsvara hjá þeim aðilum, sem sveitarsjóðirnir eiga annars engan óbeinan aðgang að. En reynslan verður að sjálfsögðu að skera úr um það, hvort stefnt er í rétta átt með þessu ákvæði eins og með öðrum nýmælum, sem í frv. eru.

Um veltuútsvör þau, sem tilgreind eru í 6. gr. frv., er það helzt að segja, að nokkurs ótta hefur gætt hjá ýmsum aðilum um, að niðurjöfnunarnefndir mundu skilja þetta ákvæði svo, að ætlazt væri til, að þær færu með veltuútsvörin í það hámark, sem tilgreint er í útsvarsstiganum. Ég tel rétt, að hv. þm. geri sér ljóst, að hér er síður en svo um nokkurt valdboð um álagningu veltuútsvara að ræða. Hér er aðeins verið að lögbjóða hámark veltuútsvara, sem áður hafa ekki verið nein takmörk sett. Það mun öllum í þessari hv. d. vera ljóst, að sveitarfélögin hafa nú aðstöðu til að leggja á veltuútsvör að heita má eftir eigin geðþótta. Þessi réttur sveitarfélaganna hefur verið staðfestur bæði af ríkisskattanefnd og æðsta dómstól landsins. Það er því með þessu ákvæði frv. verið að skerða rétt sveitarfélaganna í þessu sambandi, en ekki verið að ganga á rétt gjaldenda. Engri niðurjöfnunarnefnd er fyrirlagt með frv. að nota heimildina um álagningu veltuútsvara. Hér er aðeins um heimildarákvæði að ræða, sem hverri nefnd er sett í sjálfsvald, hvort hún notar eða notar ekki.

Nýmæli 5. og 6. gr. frv. er það, að nú er niðurjöfnunarnefndum heimilað að leggja veltuútsvar á samvinnufélög eftir sömu reglum og aðra, sem hliðstæðan rekstur hafa.

Að sjálfsögðu má um það deila, hvort rétt sé að veita sveitarfélögum heimild til álagningar veltuútsvara. En sé slík heimild veitt, getur það varla verið nokkurt áhorfsmál, að eðlilegt sé, að hún nái til allra rekstrarforma, jafnt samvinnufélaga sem annarra. Og þegar rætt er um samvinnufélögin í þessu sambandi, er rétt að rifja upp upphaf 41. gr. laga nr. 46 frá 1937, um samvinnufélög, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þangað til fram hefur farið gagnger endurskoðun á löggjöfinni um tekjur sveitar- og bæjarsjóða, greiða samvinnufélögin gjöld til þeirra sem hér segir.“ Er svo í 2. og 3. tölul. umræddrar greinar þessara laga tiltekið, með hvaða hætti og eftir hvaða reglum samvinnufélögin skuli greiða útsvar og samvinnuskatt til sveitar- og bæjarsjóða. Er það, eins og kunnugt er, eftir allt öðrum reglum og mun lægra en aðrir aðilar í þjóðfélaginu með hliðstæðan rekstur hafa orðið að leggja sínu sveitarfélagi til. Verður ekki annað séð af upphafi þessarar gr. samvinnulaganna en að þeir aðilar, sem að þessari lagasetningu stóðu, hafi beinlínis ætlazt til þess, að hér væri um bráðabirgðaákvæði að ræða, sem aðeins stæði þar til gagnger endurskoðun á löggjöfinni um tekjur sveitarsjóða færi fram. Þetta ákvæði þessara laga hefur staðið óhaggað um áratugabil. Nú liggur hins vegar fyrir, að sú endurskoðun, sem vitnað er til í umræddri grein samvinnulaganna, hefur sumpart farið fram með lögunum um jöfnunarsjóð sveitarfélaga og liggur sumpart fyrir í því frv., sem hér er verið að ræða, og einnig er fyrirhuguð heildarendurskoðun útsvarslöggjafarinnar nú á þessu ári. Það er því ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að einmitt þetta ákvæði samvinnulaganna sé nú við afgreiðslu þessa máls, sem fyrir liggur, tekið til endurskoðunar og aðstaða samvinnufélaganna færð til samræmis við aðra aðila, er hliðstæðan rekstur hafa.

Ef litið er á útsvörin eins og raunverulega ber að líta á þau, sem greiðslu fyrir þá þjónustu, sem sveitarfélag lætur í té, er vandséð og ég held vandfundin nokkur frambærileg rök fyrir því, að samvinnufélögin leggi ekki sínu sveitarfélagi til eftir sömu reglum og aðrir. Mér er ekki kunnugt um annað en að samvinnufélögunum sé veitt nákvæmlega sama þjónusta af hendi sveitarfélaganna og öðrum aðilum, sem þar eru staðsettir. A.m.k. veit ég ekki dæmi þess, að þau sitji þar við annað eða lakara borð, enda mundu þau af eðlilegum ástæðum ekki una því. Og fyrst svo er, hvaða rök eru þá gegn því, að þau greiði þá þjónustu, sem þeim er látin í té, eins og aðrir aðilar og eftir sömu reglum?

Og það er eitt, sem ekki má gleyma í þessu sambandi, en það er, að allar ívilnanír frá hendi niðurjöfnunarnefnda, hvort sem þær eru tll einstaklinga, samvinnufélaga eða til hvers sem er, hvort heldur þær eru gerðar af frjálsum vilja eða niðurjöfnunarnefndir eru lögum samkvæmt neyddar til slíkra ívilnana, að þá mæða þær beint á öðrum gjaldendum í byggðarlaginu í hærri útsvarsálögum.

Ég sé ekki nokkurt réttlæti í því, að haldið sé áfram að láta verkamenn, launamenn og aðra greiða í hærri útsvörum þá þjónustu, sem sveitarfélögin láta samvinnufélögunum í té. En það er einmitt þetta, sem gert hefur verið að undanförnu. Aðrir aðilar í sveitarfélaginu hafa orðið að taka á sig hærri útsvarsálögur vegna útsvarsfríðinda samvinnufélaganna. Ég tel slíkt fullkomið óréttlæti.

Nú kann vel svo að fara, að niðurjöfnunarnefndir einhverra sveitarfélaga noti ekki heimildina til að leggja veltuútsvar á samvinnufélag, sem þar er staðsett. Við því er að sjálfsögðu ekkert að segja. Þá er það vilji fólksins sjálfs, sem þar býr, sem ræður, og fólkið sjálft, sem af frjálsum vilja tekur á sig hærri álögur og ræður sjálft, hvort það með því eykur sjóði samvinnufélaganna eða lætur féð renna í sveitarsjóðinn. Á þessu er aðeins sá munur einn, að sveitarsjóðurinn er sameiginlegur sjóður allra, sem í sveitarfélaginu búa, en sjóðir samvinnufélagsins eru aðeins eign þeirra, sem þar eru aðilar. En þetta er atriði, sem fólkið sjálft í hverju sveitarfélagi verður að gera upp við sig.

Ég vil svo að lokum leggja sérstaka áherzlu á þrjú atriði í sambandi við þetta frv.

Í fyrsta lagi munu vera til í landinu um eða yfir 200 mismunandi útsvarsstigar. Frv. er ætlað að koma á samræmingu í þessu sambandi, þannig að í ár verði notaðir aðeins 3 útsvarsstigar.

Í öðru lagi, að aðeins er um heimildarákvæði að ræða varðandi veltuútsvörin. Hverri sveitarstjórn er því í sjálfsvald sett, hvort hún notfærir sér þetta ákvæði eða ekki, en þó aldrei nema að því marki, sem tilgreint er í frv.

Og í þriðja lagi, að ákvæði frv. eru aðeins bráðabirgðaákvæði, sem ætlazt er til að notuð verði við niðurjöfnun útsvaranna nú í ár, til þess að sem traustastur grundvöllur fáist til að byggja á við þá heildarendurskoðun útsvarslaganna, sem fyrir liggur. Mjög margar ábendingar hafa komið fram til einstakra nm. um margs konar breyt. á útsvarslögunum umfram það, sem er í því frv., sem hér liggur fyrir. Að sjálfsögðu verða allar þessar ábendingar teknar til athugunar við heildarendurskoðun útsvarslaganna, þó að ekki hafi þótt fært að taka tillit til þeirra við þá bráðabirgðabreytingu, sem verið er að gera með því frv., sem hér liggur fyrir.