24.05.1960
Neðri deild: 87. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2760 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

112. mál, útsvör

Frsm. 2. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Eins og fram kemur á nál. mínu í þskj. 509, hefur heilbr.- og félmn. Nd. þríklofnað í afstöðu sinni til frv. þess, sem nú er verið að ræða í hv. d., um bráðabirgðabreyt. á útsvarslögunum. Hef ég í nál. á þskj. 509 gert allýtarlega grein fyrir afstöðu minni til frv. og legg til, að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. En verði sú dagskrártill. felld, hef ég flutt nokkrar brtt. við frv„ sem liggja hér fyrir d. á sama þskj.

Það hefur lengi verið viðurkennt af flestum, er eitthvað þekkja til, að löggjöf um tekjuöflun sveitarfélaga sé orðin úrelt og það fyrir löngu. Sveitarfélögin hafa orðið að afla langstærsta hluta tekna sinna með beinum álögum á tekjur gjaldenda sinna. Eignarskattar til þeirra hafa verið hverfandi brot af heildartekjunum. Reynslan hefur sýnt, að tekjur gjaldenda og velta atvinnufyrirtækjanna hafa í mörgum sveitarfélögum hvergi nærri verið viðhlítandi gjaldstofn. Framkvæmdafé sveitarfélaganna hefur verið svo lítið, að kyrrstaða hefur verið í framkvæmdum hjá sumum þeirra, aðbúnaður íbúanna af hálfu sveitarfélagsins lélegur og sveitarútsvör langtum hærri á lágar tekjur og miðlungstekjur en í ýmsum þeim sveitarfélögum, sem yfir ríflegu framkvæmdafé hafa að ráða. Þetta ástand hefur svo smátt og smátt haft þau áhrif, að atvinnureksturinn hefur leitað burt til annarra sveitarfélaga, sem lögðu á minni gjöld og veittu betri aðbúnað, og fólkið hefur svo fylgt á eftir.

Ástandið í þjóðmálum Íslendinga síðustu árin og áratuginn hefur og ýtt undir þessa þróun. Strangar hömlur í fjárfestingu og skortur á lánsfé hefur orðið til þess, að allir, sem fást við atvinnurekstur, hafa að öðru jöfnu viljað staðsetja rekstur sinn í höfuðstöðvum fjárfestingaryfirvalda og bankastofnana, sem sagt hér í höfuðborginni. Ríkisstjórnaraðsetur, Alþingi og stjórnarráð og hvers kyns stjórnarskrifstofur í Reykjavík hafa sömuleiðis ýtt undir þessa þróun, auk þess sem fjölmennið hér í höfuðborginni hefur að sjálfsögðu haft sitt að segja. Hér eru því mörg samverkandi öfl að verki og við ramman reip að draga fyrir þá, sem á annað borð trúa því, að þjóðarheildinni sé fyrir beztu, að skynsamlegt jafnvægi sé í byggð landsins og að þeir staðir á landinu við sjó og í sveit, sem byggilegir eru, leggist ekki í auðn. Ég hef nokkuð lengi haft sannfæringu fyrir því, að ein af þeim leiðum, sem hjálpað gætu í þessu efni. væri sú að gerbreyta til um álagningu og reglur beinna skatta ríkisins og sveitarfélaganna, viðurkenna í verki, að þéttbýlið hér í höfuðborginni hefur óneitanlega eftir núgildandi skattareglum aðstöðu til þess að skattleggja landsmenn alla í sinn sérsjóð með útsvarsálögum á ríkiseinkasölur, stóra viðskiptaaðila og framleiðendur, og höfuðborgin léti eitthvað af þessu renna aftur til annarra bæjar- og sveitarfélaga, svo að þau komist ekki fjárhagslega á vonarvöl.

Um skipan hins nýja skattkerfis hef ég lagt fram þáltill. ásamt með 4 öðrum þm., og vísa ég til hennar um þetta atriði.

Löggjöf um útsvör er mikið verkefni, og á miklu veltur, að til alls undirbúnings sé vel vandað. Ég þekki ekki til neinnar þjóðar, sem hefur talið sér fært að setja löggjöf um slíkt stórmál án undangenginnar nákvæmrar rannsóknar sérfræðinga, sem oft hefur staðið svo árum skiptir. Hér á hins vegar að fara þveröfugt að, knýja áfram stórfellda breytingu á útsvarslöggjöfinni án viðhlítandi undirbúnings og rannsóknar og bíða síðan og sjá til, hvernig til tekst um framkvæmd þessarar löggjafar. Ég hélt, að við, sem lifum á 20. öldinni, hefðum fyrir löngu lagt á hilluna slíka happa- og glappaaðferð, en fram komið útsvarsfrv. virðist þó benda til annars. Þessi vinnubrögð eru þó þeim un fráleitari, þar sem ljóst er, að enginn nauður rekur stjórnarflokkana til þessara aðgerða einmitt nú. Útsvarslögin frá 1945 geta vissulega gegnt sínu hlutverki um 1–2 ára skeið enn þá, eða þar til fyrir lægju niðurstöður þeirra tveggja nefnda, sem nú rannsaka löggjöfina um tekjustofna sveitarfélaga og skattamál ríkisins. En eins og fram kemur í athugasemdum með þessu frv., vinna nefndir þessar saman að nokkru leyti. Á niðurstöðum nefndanna ætti síðan að byggja löggjöf um útsvör.

Þá kemur fleira til, sem rennir stoðum undir dagskrártill. mína, og það er sú staðreynd, að um lagasetningu þessa hefur ekki verið haft nægilegt samráð við ýmsa þá aðila í landinu, sem málið varðar miklu og eðlilegt er að samráð sé haft við. Fáar sveitarstjórnir hafa verið hér spurðar ráða. Fulltrúaráðsfundur Sambands íslenzkra sveitarfélaga, sem haldinn var hér í Reykjavík dagana 8. og 9. apríl s.l., lýsti yfir megnri óánægju með ýmis veigamikil atriði frv. M.a. fyrir þá gagnrýni stöðvaðist frv. um skeið í meðferð þessarar hv. d., og nú er ljóst, að nokkrar breytingar hafa fengizt fram á frv., þótt ekki geti ég talið þær stórfelldar.

Við samtök gjaldenda hefur alls ekki verið talað. Hvorki framleiðendur, atvinnurekendur né launþegar hafa fengið að koma hér orði að, enda þótt algengt sé, að til slíkra aðila sé leitað um ráð og ábendingar, þegar um meiri háttar tekjuöflunarfrv. ríkisins er að ræða, t.d. eins og söluskattinn nú nýverið. Afleiðingar þessa segja líka fljótt til sín, því að nú rignir mótmælum gegn ýmsum stórum þáttum frv. yfir Alþingi úr hinum ólíkustu áttum. Vinnuveitendasambandið, kaupmannasamtökin, samvinnusamtökin, öll þessi voldugu samtök og eflaust fleiri aðilar hafa mótmælt frv. að meira eða minna leyti. Hvernig halda svo hv. alþm., að frv., sem hlotið hefur svona undirbúning og viðtökur strax í byrjun, reynist í framkvæmd? Væri ekki viðurhlutaminna að fresta framgangi frv. um sinn og undirbúa málið betur?

Læt ég þessi orð nægja um málsmeðferðina. Um efni frv. mætti tala langt mál, en ég mun þó, m.a. með hliðsjón af því, að síðasti hv. ræðumaður (HV) kom inn á mjög mörg atriði í frv., reyna að stikla aðeins á stærstu atriðum þess.

Útsvarsstigana þrjá, sem nú á að lögbjóða, tel ég brjóta freklega þá meginreglu í skattamálum, bæði ríkis og sveitarfélaga, sem ég tel eina heiðarlega og réttláta, sem sagt þá, að gjaldendur, einstaklingar og félög, greiði sömu sveitarútsvör, hvar svo sem þau hafa búsetu. Þetta hefur að vísu verið þannig hér á landi á undanförnum árum, að útsvör hafa verið misjöfn, en slík regla er ekki samkvæmt lagaboði frá Alþingi. Hitt er að mínu viti óhæfa, að Alþingi leggi blessun sína yfir þetta ófremdarástand, eins og gert er með frv. Ég get fyllilega viðurkennt, að fjármálum sumra sveitarfélaga væri nokkuð þröngur stakkur skorinn, ef þeim væri fyrirskipað að nota t.d. Reykjavíkurstigann, og því freistast sveitarfélögin til þess að heimta hærri útsvarsstiga fyrir sig. Sú stefna er að mínu viti alröng, og um hana mætti segja, að skamma stund verði hönd höggi fegin, því að ég ætla, að hag þeirra sveitarstjórna væri ekki vel komið, sem drepið hefðu niður atvinnureksturinn hjá sér og flæmt í burtu með of miklum álögum. Þau sveitarfélög, sem þannig er ástatt um, eiga því að beina spjótum sínum að rótum meinsins, sem að mínu viti er fyrst og fremst, að í gildi er nú löggjöf um skattamál ríkisins og sveitarfélaganna, sem er óréttlát, úrelt og of dýr.

En víkjum aftur að útsvarsstigunum og vísdómi þeirra. Jón Jónsson í Reykjavík hafði í nettótekjur á s.l. ári 24999 kr. og borgar af þeim í Reykjavík ekkert útsvar. Búi hann hins vegar í Kópavogi, má taka af honum í útsvar þar af sömu tekjum 2145 kr. Búi hann vestur á Seltjarnarnesi, sem er næsta nágrenni við okkur, þá getur hann orðið að greiða 2625 kr. af þeim tekjum, sem eru útsvarsfrjálsar í Reykjavík. Hefði þessi maður haft 50 þús. kr. nettótekjur, sem er ekki óalgengt, þá mundi hann hafa borgað samkvæmt stigunum: í Reykjavík 6090 kr., í Kópavogi 8200 kr., á Seltjarnarnesi 6680 kr. Hvernig má nú þessi skipan vera réttlát? Er svona miklu ódýrara að búa í Kópavogi og Seltjarnarnesi en í Reykjavík? Ekki mun svo vera. En er þá þetta miklu betur að gjaldandanum búið af hálfu þessara tveggja síðastnefndu sveitarfélaga en gert er í Reykjavík? Síður en svo. Ég hef hér tölur úr tveim næstum samliggjandi bæjarfélögum, Reykjavík og Kópavogi, er sýna ljóslega mátt þessara tveggja bæjarfélaga til framkvæmda. Hef ég deilt heildarupphæð álagðra útsvara árin 1957–1960 með íbúafjöldanum á þessum stöðum, og þá kemur þetta út:

Árið 1957 voru álögð útsvör í Reykjavík á íbúa 2776 kr., en í Kópavogi 1473 kr.

Árið 1958 voru útsvör í Reykjavík 3034 kr. á íbúa, en í Kópavogi 1553 kr.

Árið 1959 voru álögð útsvör á íbúa í Reykjavík 3114 kr., en 1764 kr. í Kópavogi.

Árið 1960 voru álögð útsvör á íbúa í Reykjavík 3387 kr., en í Kópavogi 1878 kr.

Í fáum orðum sagt, Reykjavík hefur nálægt því helmingi meira fé af útsvörum á íbúa en Kópavogur og getur þar af leiðandi gert fast að því helmingi meira í hvers kyns verklegum framkvæmdum en við í Kópavogi getum gert.

Svipaða sögu er hægt að segja úr flestum öðrum sveitarfélögum á landinu. Það hlýtur því að verka sem kaldur gjóstur á íbúa þessara sveitarfélaga, þegar nú ýmsir af þeim þm., sem þeir hafa sent til þess að vinna að málum sínum hér inn á hið háa Alþingi, rétta upp hendurnar til þess að styðja þá stefnu, að þeim skuli lögskipað að greiða hærri útsvör en íbúum þess sveitarfélagsins, sem um flest getur búið miklu betur að sínu fólki en önnur sveitarfélög í landinu geta gert.

Þó kastar fyrst tólfunum um misrétti frv. og misrétti gjaldenda eftir því, hvar þeir hafa búsetu, þegar litið er til veltustiganna, sem nú á að lögbjóða. Það er ekkert vafamál, að flestar tegundir atvinnurekstrar hafa betri skilyrði hér í Reykjavík en annars staðar á landinu. Verzlun er betur staðsett í Reykjavík en annars staðar, iðnaðarfyrirtæki yfirleitt sömuleiðis og hvers kyns önnur framleiðslufyrirtæki önnur en þau sum hver, er vinna framleiðsluvörur úr sjávarafla og úr landbúnaðarvörum. Ég þarf ekki að rekja orsakir þær, er liggja að þessu, þær liggja í augum uppi. Ég vil þó sem dæmi benda á það skilningsleysi valdhafa á þörfum atvinnurekstrarins víða úti um land, að á öllum Suðurnesjum og alveg inn undir Reykjavík, sem er eitt hið stærsta framleiðslusvæði á öllu landinu, hefur þess ekki þótt þurfa með á undanförnum árum, að einhver þjóðbankanna setti þar upp útibú, enda þótt hér í Reykjavík við nánast eina og sömu götuna, sem þó heitir að vísu þremur ólíkum nöfnum, séu nú staðsettir svo að segja hlið við hlið 4 bankar með a.m.k. 4 útibúum. Útgerðarmenn í Sandgerði, í Grindavík og Keflavík verða vegna bankaviðskipta sinna að fara margar ferðir á mánuði hverjum hingað í bankaerindum til Reykjavíkur, meðan á hávertíð stendur, og er sú tímaeyðsla og fyrirhöfn alveg gífurleg. En sem sagt, ofan á þetta á að lögbjóða hér á Alþingi, að auka skuli enn þá aðstöðumun atvinnurekstrarins í Reykjavík og utan Reykjavíkur. Nú á að lögbjóða helmild til miklu hærri veltuútsvarsálagningar á atvinnureksturinn utan Reykjavíkur en annars staðar. Ég fæ ekki betur séð en það val, sem t.d. bæjarfélög utan Reykjavíkur eiga, að velja á milli Reykjavíkurstigans og stigans skv. 6. gr., eigi ekki að gilda um veltustigann. Ég skil 1. málsgr. 9. gr. frv. þannig, að bæjarfélögum utan Reykjavíkur sé bannað að nota veltustigann þar.

Ég hef í þáltill., sem ég hef flutt ásamt 4 öðrum þm. Framsfl. um skipun milliþn. í skattamálum, sem ætlunin er að taki það að sér að rannsaka hin beinu skattamál ríkisins og sveitarfélaganna, bent á fjölmörg dæmi um þann aðstöðumun og þær misjöfnu álögur, sem atvinnurekstrinum er ætlað að búa við, eftir því, hvort hann er staðsettur hér í Reykjavík eða utan Reykjavíkur. Ég hirði ekki um að lesa þann lista upp aftur, en vil aðeins vísa til hans um upplýsingar fyrir hv. þm.

Þennan mismun á álögum virðist þó þingmeirihlutinn eða stjórnarsinnarnir á þingi ekki telja nægilegan. Atvinnurekstrinum í öðrum bæjarfélögum en Reykjavík á að banna að draga frá veltu sinni, áður en á hana er lagt, þessa frádráttarliði, sem leyfðir eru í Reykjavík: söluskatt, gjald til útflutningssjóðs, gjald af innlendum tollvörutegundum, skemmtanaskatt og gjald af kvikmyndasýningum. Ofan á það að búa við miklu hærri veltuprósentsálögur, þá er atvinnurekstrinum utan Reykjavíkur líka bannað að draga frá vissa frádráttarliði, sem á að leyfa hér í Reykjavík. Þetta er svo fráleitt og hlýtur að enda með þeim ósköpum, að ekki tekur nokkru tali.

Ég hygg, að flestir hv. alþm. finni það inn á sér, að með frv. því, sem nú er til 2. umr., sé verið að lögbjóða stefnu, sem er stórhættuleg og veldur röskun í þjóðlífinu. Það nægir ekki við setningu útsvarslaga að einblína eingöngu á tekjuþörf hinna einstöku sveitarfélaga og miða þá allar aðgerðir við það og hið úrelta skipulag, sem nú er í gildi um tekjustofna þeirra. Gjaldþol gjaldþegnanna er líka atriði, sem verður að gefa gaum. Við samningu þessa frv. hefur algerlega verið lítið fram hjá því. Veltuútsvörin á nú að löghelga. Fá opinber gjöld hafa verið gagnrýnd meir en þau, og sú gagnrýni er í langflestum tilfellum alveg réttmæt. Heimild til álagningar á brúttóveltu allt að 3% er hreinasta fásinna, hvernig sem á slíkt er litið. Tekjuútsvör og tekjuskattur geta að þessu frv. samþykktu numið 55% af hreinum tekjum félaga. Þá er eftir að telja margs kyns opinber gjöld önnur til ríkis og sveitarfélaganna. Opinber skattlagning er ærin fyrir, þótt veltuútsvörunum sé sleppt. Það er engin röksemd fyrir veltuútsvörunum, að svo og svo miklu sé stolið undan af tekjum og eignum og nauðsynlegt sé að hafa þau þess vegna. Ef menn aðhyllast þá skoðun, þá eru þeir um leið að gjalda jáyrði sitt við því, að þeim, sem telja rétt fram viðskipti sín, tekjur og eignir, skuli refsað sérstaklega fyrir það með háum greiðslum veltuútsvara, en hinum, sem undan dragi, skuli sleppt, sem sagt, þeir séu sérstaklega verðlaunaðir, skattsvikararnir, fyrir undandráttinn. Þessum bresti í þjóðlífinu, skattsvikunum, á að svara á annan og manndómslegri hátt, með því að setja sanngjörn skattalög, sem hvetja ekki um of til undandráttar tekna, koma á harðara skatteftirliti og þyngdum viðurlögum við skattsvikum. Þetta getum við vafalaust gert, eins og aðrar menningarþjóðir í Vestur-Evrópu. Ég hef þá trú, að slíkar breytingar á skattalögum og slík breyting á skattframkvæmd og skatteftirliti þyrfti ekki að leiða til tekjutaps, hvorki fyrir ríkissjóðinn né sveitarfélögin, því að ég teldi, að með þessu móti mundi vera talið miklu meira fram en nú er gert, sem sagt, þá fengjust réttari framtöl.

Um veltuútsvörin, eðli þeirra og verkanir mætti tala langt mál. Ég hygg, að fullyrða megi, að allir sérfræðingar í skattamálum séu á einu máli um það, að þau séu óheilbrigður skattur, sem standi í vegi fyrir eðlilegum og nauðsynlegum vexti fyrirtækja. Vil ég í þessu sambandi minna á ummæli Vösthagens, sem er sérfræðingur í skattamálum og var kvaddur hingað til Íslands fyrir nokkrum mánuðum að tilhlutan Iðnaðarmálastofnunarinnar. Hann upplýsti, að veltuútsvörin í því formi, sem við þekkjum hér á Íslandi, væru alveg sérstakt fyrirbæri, sem hvergi þekktist annars staðar í menningarríkjum, og var mjög eindreginn andstæðingur þeirra.

Allir munu í raun og veru sammála um, að óeðlilegt sé að taka af fyrirtæki í opinber gjöld meira en hreinum tekjum þess nemur, og nauðsynlegt sé fyrir fyrirtækið að halda eftir nokkrum tekjum. Hver sá hundraðshluti eigi að vera, er nokkuð umdeilt. Í Bandaríkjunum mega opinber gjöld fyrirtækja ekki fara fram úr 52% af hreinum tekjum og í Noregi ekki fram úr 65% af hreinum tekjum. Ég flyt við frv. um bráðabirgðabreytingu á útsvarslögunum brtt., sem gerir ráð fyrir því, að opinber gjöld fyrirtækja megi ekki fara fram úr 65% af hreinum tekjum, eins og gert er í Noregi. Við setningu útsvarslaga eins og hvers kyns annarrar löggjafar verða alþm. að hafa það hugfast, að alla lagasetningu ber að miða við það takmark að auka þjóðarframleiðsluna, afla meira til skiptanna. Aukning þjóðarframleiðslunnar ræður lífskjörunum að langmestu leyti. Veltuútsvörin vinna á móti aukinni þjóðarframleiðslu. Framleiðslufyrirtæki og þjónustufyrirtæki keppast ekki eins um að framleiða sem mest og ódýrast eða veita sem bezta þjónustu og ódýrasta jafnframt, ef þau eiga það yfir höfði sér, að opinberar álögur hirði allan afrakstur. Veltuútsvörin ber því að afnema. En mér er ljóst, að ef slíkt á að gerast, þarf samtímis að breyta öllu skatta- og útsvarskerfinu frá grunni. Um það hef ég, sem fyrr segir, lagt fram þáltill. og bent á, hver atriði þurfi helzt athugunar við og hverjar breytingar helzt þurfi að gera. Sú þáltill. er til umr. á fundi í Sþ. í kvöld.

Samkv. útsvarsfrv. á nú að breyta álagningarreglum á samvinnufélög. Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt og ritað um skatta- og útsvarsmál samvinnufélaga og margir sleggjudómar kveðnir upp í því sambandi. Ég hef leyft mér að flytja svofellda brtt. við ákvæði frv. um veltuútsvör varðandi samvinnufélög, með leyfi hæstv. forseta:

„Samvinnufélög greiða eftir sömu reglum og aðrir veltuútsvar af þeim rekstri, sem ekki er aðgreindur í skipti við félagsmenn og utanfélagsmenn, en þegar um er að ræða þætti starfseminnar, þar sem slík sundurgreining á sér stað, greiðist veltuútsvarið aðeins af viðskiptaupphæð utanfélagsmanna“.

Samkv. till. þessari er lagt til, að veltuútsvör á þau viðskipti samvinnufélaga, sem eru ekki sundurgreind í félagsmannaviðskipti og utanfélagsmannaviðskipti, fari eftir sömu reglum og um aðra eru viðhafðar. Þetta tel ég eðlilegt, enda er það þessi þáttur í samvinnustarfinu, sem hvað mest hefur orðið fyrir gagnrýni og bent á sem dæmi um skattfríðindi samvinnufélaga. Um félagsmannaviðskiptin gegnir hins vegar allt öðru máli. Það er ekki vottur af sanngirni í þeim reglum frv., að þau skuli sett við sama borð um greiðslu veltuútsvara og t.d. kaupmannaviðskiptin. Hér er gersamlega ólíku saman jafnað. Kaupmannaviðskiptin hafa að markmiði að safna verzlunarágóða fyrir kaupmanninn. Félagsmannaviðskipti samvinnufélaganna eiga að tryggja sem lægst vöruverð. Hagnaði af félagsmannaverzlun samvinnufélaganna er skilað aftur, annaðhvort sem endurgreiðslum til félagsmanna, miðað við viðskipti þeirra, stundum með innlögum í séreignasjóði þeirra eða þá hann rennur í óskiptanlega sameignarsjóði. Að leggja veltuútsvör á þessi viðskipti og endurgreiðslur væri sambærilegt við það að leggja veltuútsvör á sannanlegan afslátt, er kaupmaður veitti viðskiptamönnum sínum. Sú till. hefur þó aldrei komið fram, af því að allir viðurkenna hana fráleita. En nú á að framkvæma þessa kenningu á samvinnufélögunum. Er ekki vandi að sjá, að slík stefna styðst meira við glórulaust ofstæki þeirra, sem að þessu frv. standa, en hlutlægt mat. Skal því tæpast trúað að óreyndu, að allir stjórnarsinnar séu hér á einu máli, og leyfi ég mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp örfáar línur úr bók, er einn stjórnarstuðningsmanna hefur skrifað nú fyrir rúmu ári, en það er hv. 5. þm. Vesturl. Í þessari bók, sem hann hefur skrifað fyrir rúmu ári, segir hann um skattamál samvinnufélaga og þann áróður, sem uppi hefur verið hafður að undanförnu og hefur verið mjög sterkur, að þau búi við einhver sérstök skattfríðindi, — þar segir greinarhöfundur þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Andstæðingar samvinnufélaganna halda því mjög á lofti, að þau njóti stórkostlegra skattfríðinda og hafi þar af leiðandi miklu betri aðstöðu í samkeppni en einkafélög. Eins og sjá má af því, sem hér hefur verið sagt, er þetta fjarri sanni. Eini munurinn, sem er á skattgreiðslum samvinnufélaga og annarra félaga, er sjálfsögð viðurkenning á ólíkum viðskiptaháttum, sem fram koma í endurgreiðslu. Hver sá, sem vill skila viðskiptavinum sínum aftur gróða og tryggja þeim þannig sannvirði, getur fallið undir sömu reglur og samvinnufélögin. Ef menn telja hlut þeirra miklu betri en t.d. hlutafélaga, hví taka þeir þá ekki upp endurgreiðslu gróðans eða breyta félögum sínum í samvinnufélög, sem allir geta gert? Sú staðreynd, að andstæðingar samvinnufélaganna hafa ekki gripið til þessara ráða, talar skýru máli. Það er einnig auðvelt að afsanna þá fullyrðingu, að samvinnumenn hafi vegna skattamála betri samkeppnisaðstöðu en hlutafélag eða einkarekstur. Þau fyrirtæki samvinnumanna, sem hafa náð skjótustum og mestum árangri í samkeppni við einkarekstur á síðasta áratug, eru einmitt félög eins og Samvinnutryggingar, Olíufélagið, Dráttarvélar, sem öll greiða skatta eins og hlutafélög og geta því ekki haft neitt forskot á því sviði. Skattamál eru vissulega ekki gild skýring á því, hvers vegna samvinnumönnum hefur gengið vel í mörgum greinum samkeppninnar. Enn er þess að minnast, þegar rætt er um skattamál félaga, að hér á landi starfa í atvinnulífi mörg samtök, sem notið hafa árum saman fullkomins skatt- og útsvarsfrelsis. Þetta er staðreynd, sem ekki er sanngjarnt að ganga fram hjá, þegar rætt er um skattamál félaga, og væri vissulega meiri ástæða til að íhuga aðstöðu þessara skattfrjálsu aðila en gera ómaklegar árásir á samvinnufélögin. Skipadeild SÍS hefur greitt allmikla skatta og útsvör. Eimskipafélag Íslands var hins vegar skatt- og útsvarsfrjálst með öllu til ársins 1955, og var aðstaða samvinnumanna í samkeppni við það því ekki góð hvað skatta snerti. Innflutningsdeild Sambandsins hefur greitt skatta og útsvör, en innflytjendasamband heildsala, Impuni, hefur aldrei sézt á neinum skattskýrslum og greiðir enga skatta eða útsvör. Útflutningsdeild Sambandsins hefur greitt skatta og útsvör. Deildin flytur út fisk, að vísu ekki í samkeppni við Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda, en Sölusambandið er skatt- og útsvarsfrjálst. Þannig mætti nefna fleiri dæmi, en þess gerist ekki þörf. Þrátt fyrir þetta ástand í skattamálum stórfyrirtækja verða samvinnufélögin sí og æ fyrir árásum vegna skattamála. Það er gamla sagan, menn tala um flís í augum annarra, en sjá ekki bjálkann í eigin auga“.

Þetta sagði hæstv. forseti þessarar deildar eða sá, sem situr í sæti hans, fyrir rúmu ári. Og við skulum vona, að hann sé enn sama sinnís í þessu máli, en á það mun reyna hér á eftir.

Í frv. er það nýmæli, að draga skuli fyrra árs útsvar, ef það er greitt fyrir áramót, frá hreinum tekjum, áður en lagt er á þær útsvar. Ef tekið er tillit til þess, hvernig útsvarsstigarnir eru uppbyggðir, og þeirra stórkostlegu skattalækkana, sem hátekjumenn hafa hlotið nýverið umfram aðra með breyt. skattalaganna, mundi þetta ákvæði í framkvæmd þýða enn þá meiri útsvarslækkun fyrir hátekjumenn en aðra útsvarsgreiðendur. T.d. mundi einstaklingur í Reykjavík með 200 þús. kr. nettótekjur árið 1959, sem hefði goldið 50 þús. kr. útsvar vegna tekna ársins 1958, lækka í útsvari 1960 um 15 þús. kr. En einstaklingur í Reykjavík með 60 þús. kr. tekjur árið 1959, sem goldið hefði 8500 kr. útsvar vegna tekna ársins 1958, mundi lækka í útsvari 1960 um aðeins rúmar 2000 kr. Ég tel ekki rétt að taka þátt í því að lögleiða slíkt ákvæði, miðað við það, sem á undan er gengið, og mun því flytja brtt. við þessa grein frv. um að leyfa aðeins greidd eignarútsvör til frádráttar. Verði sú brtt. samþykkt, mun ég við 3. umr. leggja fram brtt. um lægri útsvarsstiga, sem þessum frádráttarlið svarar, og láta lækkun útsvarsstigans vera mesta á lægstu tekjubilunum.

Í 3. gr. frv. eru nokkur ákvæði um heimildir niðurjöfnunarnefnda til þess að víkja frá skattframtölum, eins og frá þeim er gengið af hálfu skattyfirvalda. Þessi ákvæði eru að mínu viti mjög vafasöm. Þau opna leiðir til mismununar og ívilnunar eftir því, hvernig afstöðu gjaldendur hafa til ráðandi bæjaryfirvalda á hverjum stað og hverjum tíma. Í sjálfu sér tel ég, að það sé fráleitt, að þegar ein skattanefnd eða skattstjóri hefur athugað skattaframtal gjaldenda og gert á þær aths., sem hann telur réttmætar, þá geti annað hliðstætt yfirvald í skattamálum, sem sagt hreppsnefnd eða niðurjöfnunarnefnd, tekið þetta plagg og farið með það sem eitthvert ómerkt skjal, breytt því á alla vegu og gert hvað eina annað við það. Það öryggi, sem gjaldendur eiga við að búa undir slíku skipulagi, getur ekki verið mikið. Þá eru ákvæði í b-lið 3. gr. um, að víkja megi frá ákvæðum skattalaga um sérstakan frádrátt frá tekjum samkv. 4. gr. laga nr. 36 1958, um tapfrádrátt milli ára og um fyrningarfrádrátt og afskriftir eigna hjá atvinnufyrirtækjum og félögum, einnig að sama skapi mjög vafasöm og opnar leiðir til mismununar og ívilnunar. Hvaða vit er í því, að einni niðurjöfnunarnefnd eða einni hreppsnefnd sé heimilað með lagasetningu að strika út allar fyrningarafskriftir hjá einu fyrirtæki og taka ekkert tillit til þeirra? Það er að mínu viti hreint barbarí og mætti ekki undir neinum kringumstæðum lögfesta slík ákvæði. En þetta er hér í frv.

Þá er í frv. hvergi nærri að mínu viti skilgreint, hvað orðið velta merki. Þetta atriði hefur valdið skattyfirvöldum miklum heilabrotum á undanförnum árum, og mjög algengt hefur það verið, að leita hefur þurft til dómstólanna til þess að fá þetta atriði úrskurðað. Er slíkt að sjálfsögðu bæði tímafrekt og dýrt, auk þess sem það skapar óviðunandi öryggisleysi. Ég spurði um það í heilbr.- og félmn. t.d., hver væri velta sláturhúss og mjólkurbús, sem á að undanþiggja samkv. frv. Við því fékk ég ekki nokkur viðhlítandi svör, enda er ég ekki að segja frá þessu hér til þess að gera neitt litið úr þeim mönnum, sem með mér sitja þar, það eru ágætir menn. Þetta hefði vafizt fyrir fleirum. En svona er hægt að taka fjölda dæma, þar sem eru vafatilfelli um það, hvað telja skuli til veltu.

Ein spurning er mjög ofarlega í hugum allra, sem líta í þetta frv., og hún er sú: Hver er velta umboðssölufyrirtækis? Hæstv. forseti hefur í sinni ágætu bók, sem ég vitnaði í hér áðan, farið um þetta atriði nokkrum orðum, og vil ég, með leyfi hans, leyfa mér að lesa það upp, — hann segir:

„Þá er rétt að benda á erfiðleika þess að ákveða, hvað telja beri veltu til útsvara. Þegar Sambandið eða eitthvert annað fyrirtæki selur vörur frá vörugeymslu í Reykjavík, leggur á hana heildsöluálagningu, blandast engum hugur um, að það er velta, sem fellur undir slíkan veltuskatt. En panti SÍS vörur fyrir aðila úti á landi og sé varan send þangað beint án viðkomu í Reykjavík, hefur ekkert gerzt í höfuðstaðnum, nema hvað 2–3 bréf voru skrifuð. Er rétt að leggja útsvar á slíka veltu?“

Ég tel, að frv., að því er þetta atriði snertir, sé engan veginn nærri nógu vel úr garði gert, og þótt ekki væri margt fleira annað, sem rennur undir þá aðaltill. mína, dagskrártill., að frv. verði visað frá að sinni með rökst. dagskrá, þá tel ég þetta atriði eitt út af fyrir sig nægja til þess, að fresta ætti meðferð frv. og taka þetta til nánari íhugunar.

Ég hef nú rætt frv. þetta nokkuð og reynt að sýna fram á stærstu galla þess og nauðsyn þess, að málið fái meiri og betri undirbúning. Þess vegna hef ég leyft mér að leggja til, að málinu verði vísað frá með svo hljóðandi till. til rökst. dagskrár:

„Eins og fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga benti á og rökstuddi með dæmum í yfirlýsingu á fundi sínum 8.–9. f. m., þarf frv. þetta nánari athugunar við, áður en það er lögfest. Þeirri athugun verður ekki komið við á þessu þingi, sem nú er nærri lokið, enda er eðlilegast vegna sjálfstæðis sveitarfélaga innan þjóðfélagsins, að Alþ. hafi þau vinnubrögð í málinu að leita álits og till. sveitarstjórna um frv., áður en það er gert að lögum. Ákveður því Nd. að fela ríkisstj. að senda frv. nú þegar öllum bæjarstjórnum, hreppsnefndum og sýslunefndum í landinu og biðja um álit þeirra og tillögur fyrir næsta haust og jafnframt sé frv. sent til umsagnar heildarsamtökum framleiðenda, atvinnurekenda og launþega — og með tilliti til þess tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá“.

Ef þessi dagskrártill. verður felld, hef ég leyft mér að flytja nokkrar, átta held ég, brtt. við frv., og liggja þær frammi á þskj. 509. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að rekja efni þeirra ýtarlega. Flestar eru þess eðlis, að þær skýra sig sjálfar. Þó vil ég aðeins geta um 1. brtt. mína, við 3. gr., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stað orðanna „um fyrningarfrádrátt og afskriftir eigna hjá atvinnufyrirtækjum og félögum“ í b-lið komi: um hækkun fyrningarfrádráttar, sem felst í lögum um sérstakar fyrningarafskriftir.“

Tilgangurinn með flutningi þessarar brtt. er sá að koma í veg fyrir, að niðurjöfnunarnefndir og hreppsnefndir geti algerlega strikað út allar fyrningarafskriftir hjá fyrirtækjum og lagt á full útsvör. Ég legg til, að þeim sé aðeins heimilað að strika út þær sérstöku fyrningarafskriftir, sem eru allverulega hærri en hinar venjulegu afskriftir og hafa verið samþykktar nú ár eftir ár samkv. sérstökum lögum.

Þá hef ég flutt þá brtt. að undanþiggja veltuútsvari áburð, fóðurvöru, salt og veiðarfæri. Það er vitað, að verzlun með þessar vörur er síður en svo nokkurt gróðafyrirtæki og óeðlilegt að leggja á þessar vörutegundir, sem eru allar bráðnauðsynlegar höfuð- eða undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, há veltugjöld, eins og verðlagningu þeirra er nú háttað.

Þá sé ég aðeins ástæðu til þess að nefna seinustu brtt. mína. Hún er um það, að samanlögð upphæð veltuútsvara megi ekki í neinu sveitarfélagi vera hærri en sem nemur 15% af heildarupphæð álagðra útsvara þar og ekki megi leggja hærra veltuútsvar á gjaldanda en svo, að samanlögð upphæð tekjuútsvars og veltuútsvars nemi 65% af hreinum tekjum hans. Ég tel, að þessi ákvæði séu hvor tveggja bráðnauðsynleg og sjálfsögð, enda eru dæmi eða hliðstæður til þeirra í öllum menningarríkjum í Vestur-Evrópu, sem ég þekki eitthvað til um skattamál hjá.

Ég mun svo ekki tefja þingfundinn lengur að þessu sinni. Ég vil aðeins endurtaka það, að mér finnst af efni frv. um breyt. á útsvarsl. og af þeim rökum, sem við höfum hér flutt, tveir síðustu ræðumennirnir, að þá sé það ekki óeðlileg málsmeðferð að fresta nú umr. um frv. og vísa því frá með þeirri dagskrártill., sem ég hef leyft mér að flytja hér og ég var að lýsa áðan.